Er ég annars flokks Íslendingur?

Þegar ég sótti um eftirlaun frá TR var ég búsett erlendis og er enn og verð áfram.

Ég hafði borgað skatta og skyldur til ríkisins alla mína æfi, byrjaði að vinna 11 ára á sumrin í fiski. Man ekki hvort það var tekinn skattur af okkur svona ungum en skyldusparnaður var dregin af laununum. Sá sparnaður brann auðvitað upp en það er önnur saga.

Um leið og mér bar að borga skatta voru þeir dregnir af mér og ég hóf að greiða í Lífeyrissjóð sem var sparnaður til efri áranna og ekkert átti að geta hreyft við þeim peningum.

Þegar ég sæki um eftirlaunin frá TR, 67 ára, bregður svo við að ég á einungis rétt á grunnlífeyri ásamt tekjutryggingu sem skerðist vegna tekna úr Lífeyrissjóði.

Lífeyrisjóðs sparnaður minn er ekki tekjur, hann er sparifé mitt og kemur TR ekkert við.

Ég yggldi mig við stofnunina og ráðuneyti. Sagðist vera búin að greiða skatta og skyldur allt mitt líf. Var ekki par hrifinn af því að vera metin eitthvað minni bara vegna þess að ég flutti úr landi.

Ég fékk ágætt svar frá þeim sem ég talaði við hjá ráðuneytinu: Skattar eru ekki eyrnamerktir, þeir fara í sameiginlegan sjóð. Ég skildi það en var samt grautfúl, sem von er.

Ég bý ein og ætti því, finnst mér, að fá heimilisuppbót.

Athugið að ég er ekki tala um samkvæmt nýjum lögum, ég er að tala um það kerfi sem er í gildi í dag árið 2016 og hefur verið síðan ég vogaði mér að verða 67 ára, sem er auðvitað algjör glæpur. Enginn á að verða yfir 67 ára, þá á fólk bara að deyja svo ekki þurfi að vera að púkka upp á gamalmenni. Við erum jú íslendingar og okkur hugnast ekki þeir sem fara að lögum eða þeir sem eru ekki af ákveðnum ættum eða vinir þeirra sem eiga rétt á helst öllum tekjum sem verða til á landinu.

Ég lít svona á mitt dæmi: ég spara ríkinu stórfé með því að búa ekki á Íslandi.

Ég þarf ekki læknisþjónustu og ég þarf ekki að nota eina einustu þjónustu sem ríkið eða sveitarfélag kosta fyrir fólk á mínum aldri.

Væri ég á Íslandi þyrfti ég læknis aðstoð, heimilis aðstoð og alls konar aðstoð.

Ég hef farið í stóra aðgerð hér í hinu nýja landi mínu og það kostaði íslenska ríkið ekki krónu.

Ég er á leiðinni í aðra stóra aðgerð og enn kostar ekkert fyrir íslenska ríkið.

Það hefur tekið tíma og fyrirhöfn hér á sjúkrahúsum að halda í mér lífinu og koma mér þar sem ég er þó núna heilsufarslega. Ekki kostað íslenskt ríki fimmeyring!

Að vísu borga ég skatta hér í Portúgal vegna tvísköttunar samnings sem ríkir á milli landanna, en ég leyfi mér að halda því fram að á Íslandi vinni fleiri en einn Portúgali og greiði þeir skatta og skyldur til Íslands svo þetta jafnist nú upp. Ég er ekki 70 manna maki hvað þá meira í skattalegu tilliti.

Ég hef ekkert verið að æsa mig út af þessu, hingað til! Bara sætt mig við mitt hlutskipti, enga heimilisuppbót fyrir þig góða og vertu ekkert að ybba þig! Ef þú svindlar ekki á kerfinu þá er þetta svona.

Þegar ég hins vegar fór að fylgjast með umræðunni um eftirlaun komst ég að því að enginn talar um þá sem hafa flutt úr landi til þess að deyja ekki úr hungri eða þurfa að sofa á götunni, vegna hungurlúsar sem eftirlaun eru á Íslandi. Fólkið sem hefur flutt hefur nóg að borða, býr í góðu húsnæði og lifir sómasamlegu lífi. Ekki lúxus lífi en lífi sem sæmir þeim sem hafa borið uppi heilt þjóðfélag í genum æfi sína með sköttum til þjóðfélagsins og alls konar öðru framlagi sem ekki verður metið til fjár. 

Nú þætti mér fróðlegt að fá skýringu á því hvers vegna við útlagarnir fáum skertar bætur? Hvers vegna fáum við sem búum ein í útlandinu ekki heimilisuppbót? Ég er ekki að fara fram á neitt annað, bara þessa heimilisuppbót sem þeir sem búa á Íslandi fá.

Kannski er til of mikils mælt að þingmenn eða ráðherrar geti svarað þessu, en ef til vill er einhver annar sem veit þetta. Nýir þingmenn og þeir sem eru að biðla til kjósenda núna hafa áreiðanlega ekki græna glóru um ástæðuna.

Hver ákvað að ég yrði annars flokks ef ég flytti frá Íslandi?

 

Huld Björnsdóttir skrifaði framanritað þann 16.október 2016

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband