Laugardagur - hugleiðing dagsins - sami ellilífeyrir fyrir ALLA

30. september 2017

Mánuðurinn á enda og nýr á morgun.

Tíminn flýgur áfram rétt eins og enginn sé morgundagurinn.

Hvert fer tíminn?

Ég veit það ekki.

Allt logar nú í stjórnmálum um Ísland gjörvallt og ég nenni ekki að taka þátt í vitleysunni.

Eitt verð ég þó að segja.

Samstaða varðandi málefni eldri borgara virðist ekki vera yfirþyrmandi.

Fundur í Háskólabíói, Haustþing.

Fundur í Háskólabíói, Grái herinn

Fundur Harðar Torfa um hverja helgi.

Væri ekki hægt að sameina þetta eitthvað?

Tillaga mín til þeirra sem þykjast nú ætla að bæta kjör eldri borgara eftir kosningar er þessi:

Hættið að mismuna fólki eftir því hvort það er í sambúð eða hjónabandi, eða hvort það býr á Íslandi eða erlendis.

Komið á einum ellilífeyri sem er sama tala fyrir alla.

Hættið að skipta ellilífeyri niður í heimilisuppbót og lífeyri.

Þetta er mismunun sem á ekki að eiga sér stað en heimskir stjórnmálamenn hafa komið á.

Réttlætið er einn ellilífeyrir fyrir alla. Ekki mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu eða búsetu.

Auðvitað vonlaus tillaga, en þó, kannski eru einhverjir sem koma inn nýir með eitthvað vit í hausnum á sér.

Ein spurning að lokum:

HVAÐA STJÓRNMÁLAFLOKKI TILHEYRIR GRÁI HERINN?

Ég tal mikilvægt að þetta verði gert opinbert, og komi herinn til með að svara ENGUM þá trúi ég því ekki.

Hulda Björnsdóttir


Sunnudagshugleiðing og ekkert annað.

24.september 2017

Kæru lesendur

það er ekki hægt að hætta að setja eitthvað hér inn jafnvel þó ég taki ekki þátt í bullinu sem tröllríður þjóðinni þessa dagana með loforðum um gull og græna skóga.

Hætti ég að blogga missi ég fylgisveina sem ég þarf á að halda eftir október svo hér kemur bara flott hugleiðing í tilefni dagsins.

Það er miður dagur hérna í Penela og sólin skín eins og enginn sé morgundagurinn. Ótrúlega fallegur haustdagur.

Í gær fór ég til Taveiro og horfði á fegurð haustsins renna framhjá mér meðfram þjóðveginum. Litirnir eru ótrúlegir. Vínviðurinn er rauður í öllum hugsanlegum tilbrigðum. Innan um og saman við eru þó litlu runnarnir sem voru bara sprotar vafðir flösku fyrir nokkrum mánuðum. Nú teygja þeir sig út fyrir skjólið og eru sumir allt upp í meters langir. Ja, ungviðið lætur ekki að sér hæða. Ég hef ekki séð neinn sprauta eitri á þessa nýju meðlimi og þau eru ekki skreytt með rauðum lit. Allavega ekki í bili.

Það er hátíð í dag hjá nágrannabæ mínum. Vínviðar klipping. Svo er öllu hvolft í stórar tunnur og stiginn villtur dans ofan á dýrðinni. Berfættar yngismeyjar á öllum aldri og flottir strákar dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Stappa og stappa. Fyrir utan tunnurnar eru svo prúðbúnir hópar klæddir þjóðbúningum hvers bæjarfélags og alls konar félaga sem stíga örlítið þjóðlegri spor og allir þar í skóm enda hoppað á malbikaðri brautinni.

Ég nennti ekki að fara í geymið. Er búin að þrífa eins og vitfirringur í allan morgun og hringsnúa blómapottum og gljáfægja baðherbergið svo speglar eru óþarfir þar á næstunni. Vatn og edik þrifu gluggana sem eru ekkert smásmíði og síðan hellti ég úr garðkönnu yfir allt saman. Margar ferðir þar og óþarfi að fara í göngutúr þenna sunnudaginn. Nágrannarnir litu skelfingu lostnir upp til mín. Það er jú sunnudagur í kaþólsku landinu og maður þrífur ekki glugga að utan og djöflast í blómapottum. Það er allt í lagi að halda vöku fyrir útlendingnum þegar farið er í bað, ekki bara eitt heldur mörg, klukkan 2 um nóttina. Nei kaþólskan lætur ekki að sér hæða.

Líklega verða baðmotturnar mínar ekki orðnar þurrar þegar kvöldið skellur á svo þær verða að dúsa úti á snúru í nótt, en auðvitað innan við glervegg svo þær geta ekki verið að kvarta nein ósköp. Eins gott að ég falli ekki í yfirlið á steinflísarnar og brjóti eitthvað. Má ekki vera að því núna þar sem mánudagur er og ný vika að næsta leyti með öllu því sem svoleiðis fylgir.

Það eru hálfgerð vandræði hjá BRETAGREYJUNUM sem búa hérna í fínu húsunum sínum. Ríkisstjórnir okkar er nefnilega að láta sér detta í hug,í alvöru, að greyin gætu borgað skatta hjá okkur. Auðvitað algjör ósvífni en svona er þetta nú í Portúgalalandi.

Íslendings ræfillinn þarf að borga skatta, og er bara ánægð með það, en auðvitað er hún minna virði en hin háæruverðuga þjóð Bretar, sem eru nú reyndar að fara á hausinn held ég með brexitinu sínu þar sem að þjóðinni var logið til þess að hún kysi að fara burt.  Ég ætla ekkert að segja :Gott á ykkur! enda er ég svo ægilega kurteis eins og allir vita. 

Kellingin á neðri hæðinni í blokkinni minni kann ekki að loka útihurðinni. Hún er með 2 lása á innihurðinni sinni en skilur alltaf eftir opna útihurðina. Núna er farið að kólna og kuldinn læðist eins og draugur upp eftir veggnum og beint inn í stofu til mín. Svona kellingar eru gjörsamlega óþolandi.

Ég kyndi og kyndi og labba og labba niður stigann til þess að loka en allt kemur fyrir ekki. Næst þegar kellan fer út galopnar hún. Það er eitthvað einkennilegt við svona fólk, held ég.

Ekki er það ég sem er skrítin. Ó nei, ekki til að tala um.

Nú er ég byrjuð á afar áhugaverðum skrifum á WordPress. The outcast heitir hún og verður í mörgum köflum. Þar verður ekkert dregið undan. Allt upp á yfirborðið og margir gætu farið að skammast sín og skjálfa! Þetta er auðvitað skáldsaga en að baki hverjum skáldskap er alltaf einhver sannleikur. Og undrið er að sjálfsögðu á hinu ástkæra og ylhýra máli Ensku.

Með sunnudagskveðju til allra sem þetta lesa, hvort sem það eru vinir eða fó.

Hulda Björnsdóttir


Kosningar - enn einu sinni !!!!!!

22.september 2017

Enn einu sinni eru kosningar á Íslandi.

Kosningar sem farið er í miklum flýti.

All flestir þeir sem nú sitja á alþingi ætla að bjóða sig fram.

Spillingarliðið heldur velli.

Nú hamast hver sem betur getur að rakka niður allt og alla.

Ég nenni ekki að taka þátt í þessu leikriti.

Það breytist ekki mikið eftir þetta upphlaup.

Það er enginn tími til þess að gera upp mál eða búa til nýjar góðar stefnuskrár.

Ég sé ekki betur en hjakkið haldi áfram.

Þegar búið verður að kjósa og loforðin fara að koma upp á yfirborðið sem hrein svik ætla ég að blanda mér í umræðuna.

Eins og ég hef sagt svo oft áður þá veikist þingheimur heiftarlega við undirskrift drengskaparheits. Þá verða allir minnislausir og gleyma því af hverju þeir fengu atkvæði kjósenda, enda skipta kjósendur ekki máli lengur, þeir eru búnir að sinna sínu hlutverki: Þeir hafa tryggt launaumslag þingheims.

Fólk á efri árum, yfir 65 ára, hættir að skipta máli. Það hættir að vera mikilvægt að bæta kjör þessa hóps, eða þess parts af honum, sem hefur ekki yfir hálfa milljón á mánuði.

Öryrkjar fara líka út í hafsauga. Þeir greiddu atkvæði og það er nóg.

Láglaunafólk, já láglaunafólkið er svo stór hópur að það gæti sett gróðapungana út á gaddinn ef þeirra laun hækkuðu, það er láglaunafólksins.

Nei, gróðapungar eru þeir sem hugsað er um og hagsmuna gætt hjá þeim hópi. Þetta er ekki sérlega stór hópur en hann er voldugur og ríkur, ægilega ríkur.

Það skiptir litlu máli hvernig siðferðið er hjá hinum ríkustu.

Undanfarnar fréttir af uppáskriftum segja alla söguna um siðferðið.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Sjálfstæðisflokkurinn verður við stjórn eftir kosningar !

19 september 2017

Bara rétt til þess að sýna fram á frábæra spádómsgáfu mína þá rita ég þetta.

Sjálfstæðisflokkurinn mun verða í ríkisstjórn eftir kosningar árið 2017.

Annað veit ég ekkert um.

Ég veit ekkert hver leggst svo lágt að sænga með honum.

Yngri kynslóðin nennir ekki á kjörstað

Eldri borgarar kjósa flokkinn, eða að minnsta kosti 30% þeirra.

Mér þætti ekki ólíklegt að VG sængaði með þeim bláu, enda fer grænt og blátt svo vel saman og verður svona svoldið fjólublátt með rákum.

Þjóðarinnar vegna vona ég að hér með sé spádómsgáfa mín dauð.

Megi allar góðar vættir vaka yfir dauðadæmdri þjóð sem lætur hafa sig að fífli ár eftir ár eftir ár eftir ár og vitkast aldrei.

Ég verð líklega dauð eftir nokkur ár og mikið ofboðslega er ég þakklát fyrir að vera ekki 50 ára núna og eiga eftir marga áratugi.

Það er gott að sjá fram á að þurfa ekki að horfa upp á sauðsvartan almenning litlu grænu eyjunnar í norðri koma sjálfum sér fyrir kattarnef.

Því meira sem logið er að þjóðinni því hlýðnari og undirgefnari verður hún.

Hulda Björnsdóttir

 


Dómstóll götunnar

17. september 2017

Í gær skrifar Björn Ingi um dómstól götunnar.

Ég er ekki alveg viss um að hann sé að skrifa um það sem athugasemdirnar eftir færsluna snúast um. Veit það þó ekki fyrir víst. Mér gæti fundist líklegt að hann væri að gefa í skyn umræðu þá sem hefur orðið um vistaskipti hans sjálfs. Þar hefur borið á dómstóli götunnar og ætla ég ekki að blanda mér í þau mál.

Mér liggur á hjarta hin gífurlega, stóryrta, hatursfulla umræða sem hefur verið um kynferðislegt ofbeldi og afleiðingar þeirra dóma og eftirlátssemi sem þar hefur ríkt, þ.e. í dómum.

Heil ríkisstjórn fallin vegna uppáskriftar um "Uppreisn æru"

Það sem stingur mig er hatrið sem vellur út úr þeim sem hæst hafa.

Þeir sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn, eða jafnvel nauðgunum á fullorðins árum, bíða þess aldrei bætur. Líf þeirra verður aldrei eðlilegt eftir slíkar hörmungar. ALDREI.

Við getum hamast í hatursumræðunni og haldið að það breyti einhverju fyrir þolendur.

Það gerir það ekki.

Hafi einhver orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á barnsaldri litast allt líf viðkomandi af þeim hörmungum. Það er hins vegar hægt, og mörgum hefur tekist það, að lifa af án þess að þurfa að brynja sig með endalausu hatri og velta sér upp úr því sem gerðist dag eftir dag eftir dag alla daga ársins.

Það er mikla hjálp að fá í íslensku samfélagi og þolendur geta með hjálp sálfræðinga og annars sérmenntaðs fólks, lifað af.

Ég hef ekki viljað blanda mér inn í þessa viðbjóðslegu umræðu en þegar farið er að breiða út sögur um unglinga "glæpi" og það gerir fólk sem er hvað orðljótast á nútíma fjölmiðlum, get ég ekki orða bundist.

Þið sem nærist á hatri og rógburði gætuð hugsanlega numið staðar og hugsað málið út frá ykkar eigin lífi.

Hefur líf ykkar verið fullkomið? Hafið þið efni á því að andskotast með rógburði á öðru fólki? Ef ykkar nánustu ættu í hlut munduð þið vera jafn gírug í dómum ykkar?

Ég er ekki að halda hlífiskildi yfir nauðgurum. Þeir eru ámátlegir. Ég er hins vegar að benda á að líf þolenda breytist ekki eða batnar við hatursumræðu dómstóls götunnar.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Þorsteinn Víglundsson - er ekki allt í lagi að ég varpi þessum 2 spurningum til þín?

12. september 2017

Þorsteinn Víglundsson mætti á fund hjá FEB, kom of seint, glotti við tönn þegar hann gat ekki svarað því sem um var spurt. Fastur í exelskjölum og drattast ekki út úr þeim.

Eldri borgarar frekjur og fífl að hans mati.

 

2 spurningar:

Herra ráðherra, er ekki allt í lagi að skoða út fyrir exelskjölin, eða er það of mikil fyrirhöfn?

 

Hin spurningin er þessi:  Ef þú ættir móður sem þyrfti að lifa af tæpum 200 þúsund krónum á mánuði, hvernig mundir þú ráðleggja henni að komast af?

 

Vonandi svarar ráðherrann því ég er svo reið núna að fleiri orð gætu sært einhvern.

 

Hulda Björnsdóttir


Flóttamenn og "flóttamenn"

9.september 2017

Nú er hamast enn eina ferðina vegna flóttamanna á Íslandi og bent á hve vel tókst til með þá sem komu fyrir langa löngu til landsins frá stríðshrjáðum Evrópu löndum.

Ég man vel eftir því þegar flóttamennirnir komu frá Evrópu fyrir áratugum. Það var fólk á raunverulegum flótta. Þau voru fjölskyldur sem flúðu óargar stjórn og styrjöld.

Þetta fólk var frá Evrópu. Þau hafa komið sér vel fyrir á Íslandi og verið sér og landi sínu og hinum nýju heimkynnum til mikils sóma.

Þegar verið er að bera það fólk saman við þá sem nú streyma til landsins get ég ekki setið á mér. Ég verð bæði reið og sár.

Börnin, skeggjuðu börnin, sem nú vilja setjast að á Íslandi eiga ekkert, nákvæmlega ekkert sameiginlegt með þeim sem komu frá Evrópu þegar ég var ung kona.

Skeggjuðu börnin eru ofvaxnir ungir menn, sem vita líklega ekki hvenær þeir fæddust, og eru búnir að gleyma að þeir sumir hverjir hafi þá þegar fengið dvalarleyfi í öðru Evrópulandi.

Það er hægt að berja sér á brjóst og dásama og vorkenna og nota allan skala dásamlegra tilfinninga í garð þeirra sem eru nú að reyna að setjast að á Íslandi, landi velmegunar og alsnægta FYRIR ALLA !

Blessuð börnin, sögðu landar mínir hér í Portúgal þegar fyrstu flóttamennirnir komu. Flóttamenn sem komu EKKI frá löndum þar sem stríð geisaði. Flóttamenn sem fengu frítt húnsæði, frítt fæði, fría heimsendingarþjónustu og sight seeing ferðir fram og til baka. Flóttamenn sem var hampað fram og til baka af yfirvöldum bæjarfélaga. Flóttamenn sem voru myndaðir í sjónvarpi og blöðum við hlið VELGJÖRÐARMANNANNA.

Hvað varð svo um þessi BLESSUÐ BÖRN sem skeggrót, dökk skeggrót þekur andlit og hár á handleggjum og fótum? Jú, það komu 5 fjölskyldur til Penela. Þær búa í húsnæði, sér húsnæði fyrir hverja fjölskyldu búna húsgögnum og því sem til þarf. Nú rúmu ári eftir að þær komu eru 2 eftir. Hinar 3 eru farnar með BLESSUÐ BÖRNIN því lífið í Portúgal var ekki lúxuslífið sem þau sóttust eftir. Þegar árið fría var búið yfirgaf liðið velgjörðina.

Nokkrum fjölskyldum var komið fyrir í þorpi sem var í eyði. Þar var búið um fjölskyldurnar og þeim hjálpað við að koma á fót fyrirtæki sem átti að framleiða lífrænar vörur.  Einn góðan dag var svo farið til þess að skoða hvernig gengi. Gekk vel? Var gróska í starfinu? Hvernig leið FLÓTTAFÓLKINU í nýju heimkynnunum? Einbýlishúsunum sem höfðu verið búin upp fyrir nýju íbúana?

FLÓTTAFÓLKIÐ VAR HORFIÐ.

ÞAÐ HAFÐI YFIRGEFIÐ DÁSEMDINA OG ENGINN VEIT HVAR ÞAU ERU NÚ !

Enginn talar lengur um BLESSUÐ BÖRNIN hér í Penela. Flóttafólkið aðlagast ekki þorpinu. Þau halda sig sér og búa til fleiri börn. Þau ganga hér um götur eins og enginn sé bíllinn og við sem erum svo ósvífin að aka um göturnar megum þakka fyrir að drepa ekki allt liðið.

Ég veit ekkert hvernig þetta er á Íslandi í dag. Ég veit hins vegar að það eru vandræði í ÖÐRUM löndum Evrópu sem þessi nýi straumur fólks skapar.

En, eins og vanalega þá er Ísland best í heimi og fólk eins og ég má ekki opna munninn. Ég væri spennt að vita hve margir af þeim sem berjast fyrir því að fá fleiri og fleiri "flóttamenn" til landsins hafa tekið inn í sínar íbúðir, eða ætla að taka inn í sínar íbúðir, hluta af þessum skeggjuðu munaðarlausu börnum?

Það eru skammarleg rök að bera saman flóttamenn, sem komu til Íslands þegar ég var ung og hafa orðið sér og landi sínu og gamla landinu til sóma, við þá sem nú streyma í stríðum straumum um ALLA Evrópu.

 

Hulda Björnsdóttir

  


Frú formaður LEB komin í eina sæng með Þorsteini Víglundssyni

6.september 2017

Jæja, þá er frú Formaður LEB, fyrrverandi formaður FEB, komin í eina sæng með Þorsteini Víglundssyni og hittir þar góðan vin sinn.

Þau hafa jú bæði verið í því að sjá um þeir lægst launuðu væri ekki of sælir af sínu. Óþarfi að lýðurinn fitni. Nægilegt að þeir sem í efri lögunum búa bæti á sig þar til erfitt verður um gang.

Ég hlustaði á viðtal við Frú Formann í gær, í útvarpinu.

Mér leiðist alveg hrikalega að hlusta á hana en þar sem ég er nú endalaust að mala um bág kjör eftirlaunaþega og öryrkja verð ég að sinna skyldu minni og leggja að minnsta kosti eyrun við málæðinu.

Það var auðvitað frábært að frú formaður skyldi FÁ tíma hjá útvarpinu.

Hún sagði frá hamingju sinni með Þorstein Víglundsson og hvað hann hefði tekið henni og félögum óskaplega vel á fundi nýverið þar sem hann, að því er mér skildist, var ekkert annað en skilningurinn út í gegn og velviljinn að auki.

Frú Formaður talaði líka um að nú væri Grái herinn að fara af stað aftur. Þau hefðu að vísu misst Helga P úr landi, og hún skríkti aðeins.

Fyrirgefðu frú Formaður ég skil ekki hvernig þú getur verið í farabroddi fyrir her sem er baráttuhópur innan FEB og kom í stað kjaranefndar inna félagsins.

Er frú Formaður ekki í forsvari fyrir ALLA eldri borgara í landinu sem formaður LEB?

Er ég að miskilja þetta eitthvað?

Mér finndist eðlilegt að frú Formaður færi úr hernum og snéri sér að landsmálum einum en ekki starfi fyrir eitt félag innan þeirra samtaka sem hún er formaður í.

Er þetta eitthvað ósanngjarnt?

Það var sama bévaðans bullið í henni og venjulega í útvarpsviðtalinu og spyrjandi þurfti að leiða hana inn á brautina hvað eftir annað.

Hennar ær og kýr eru, þ.e. frú Formanns, að fólk eigi fyrir draumaferð til útlanda og gjöfum ef einhver giftir sig, og svo auðvitað að fá að vinna fram í rauðann dauðann.

Nú ætla ég að upplýsa frú Formann um nokkur atriði.

Það er ekki rétt að allir fái 280 þúsund krónur frá TR jafnvel þó þeir hafi ekki aðrar tekjur. Frúin getur lesið þetta á síðu Björgvins Guðmundssonar.

Svo er ágætt fyrir frúna að vita að það er bara dágóður hópur sem hefur ekki hinn minnsta áhuga á utanlandsferðum. Það er fólkið sem á ekki í sig og getur alls ekki farið til læknis.

Annar hópur, eða líklega sá sami sem ég tala um í næstu málsgrein á undan, hefur ekki áhyggjur af væntanlegum brúðkaupsgjöfum. Hópurinn hefur meiri áhuga á því að fá mat að borða.

Já, svo talaði frúin um stóra fundin í Háskólabíói fyrir síðustu kosningar og sagði að hann hefði skilað miklu til eldri borgara. Það hefur farið fram hjá mér þessar miklu hagsbætur fyrir hópinn. Ég veit hins vegar að BB sveik öll loforð sem hann gaf fyrir kosningar og með einu pennastriki svipti stóran hóp eldri borgara lífsviðurværi sínu.

Ekki minntist frúin einu orði á fund sem haldinn var í Háskólabíói í sumar. Nei það er sko þannig með þann fund að hann er ekki í réttu pólitísku litrófi fyrir frúna.

Já, við getum talað um samstöðu ! Hah!

Frú Formaður LEB.

Ég mælist til þess að þú kynnir þér aðstæður fólks sem á ekki í sig og á. Ég mælist til þess að þú talir við þá sem örvæntingin hefur gripið slíkum heljartökum að eina ráðið er að svipta sig lífi, til þess að losna úr viðjum örbirgðar, veikinda og vosbúðar.

Ég mælist til þess að þú frú Formaður stigir niður úr valdastóli þínum og hættir að tala fyrir fólk sem hefur ágætan lífeyri, rétt eins og frúin sjálf, og takir upp umræðu fyrir hópinn sem lifir við sult og seyru alla daga mánaðarins.

Frú Formaður LEB. Ég legg líka til að þú takir niður hina gráu mynd af þér með hernum. Þú hefur fengið þér annað starf og ættir að sinna því af heilindum.

Auðvitað veit ég að þessar bænir mínar og tillögur til frúarinnar eru vita gagnslausar. Hún er og hefur alltaf verið fyrir auðvaldið. Úlfur í sauðagæru sem nú hefur hafið upp raust sína til stuðnings Velferðarráðherra sem gefur skít í almúgann ætti að mínu mati að klæða sig í almennilega úlfagæru. Þar á hún heima og hvergi annars staðar.

Hulda Björnsdóttir

 


Meðaltöl eru hættuleg - þau segja enga sögu en eru vopn í höndum misvitra stjórnmálamanna

2.september 2017

Þorsteinn Víglundsson er yfir sig hrifinn af meðaltölum og það eru fleiri.

Meðaltöl eru svo undur fögur þegar þarf að troða upp í mótmælaseggi sem reyna að telja ráðherra trú um að það séu ekki allir sem lifi í alsnægtum á Íslandi.

Ráðherrann birtir súlurit og þegar gerð er athugasemd við röksemdafærslu hans segir hann að þetta séu tölur sem taka megi mark á.

Rúmlega 700 þúsund eða þar um bil eru samkvæmt ráðherra meðallaun á Íslandi. (Ef þessi tala er ekki rétt þá vinsamlega leiðréttið mig og ég breyti henni)

Nú ætla ég aðeins að færa mig úr stað og tala um meðaltöl í Portúgal.

Það birtist í merku blaði ekki fyrir mörgum dögum að eftirlaun í Portúgal væru 780 evrur á mánuði.

Ég hrökk við því ég þekki margar fjölskyldur sem eiga afa og ömmu eða foreldra sem eru komin á eftirlaun og þeirra upphæð er ekki nema tæpar 300 evrur á mánuði.

Ég fór á stúfana til þess að skoða málið og þá rakst ég auðvitað á þessi dásamlegu meðaltöl.

Ég hafði árið 2016 í tekjur rétt rúmlega 22 þúsund evrur vegna hins ótrúlega hagstæða gengis krónunnar. Þetta eru eftirlaun mín frá Íslandi.

Hér í landi, í Portúgal, eru nokkrir vellauðugir gaurar og kellur. Eitt dæmi um þann sem er inni í meðaltölum ellilífeyris fær 22 þúsund evrur Á MÁNUÐI í eftirlaun. Á MÁNUÐI, ekki á ári. Hann fær á mánuði jafn mikið og ég fékk á ári, í góðæris tíð gengis íslensku krónunnar.

Þessi ágæti maður var lögmaður og dómari. Það eru fleiri svona dæmi hérna.

Smá munur á því að vera með tæpar 300 evrur eða 22 þúsund evrur á mánuði, finnst ykkur ekki?

Svona eru allar meðaltals tölur, þær segja engan sannleika. Þær eru bara tæki fyrir stjórnmálamenn til þess að halda niðri kjörum þeirra sem minna hafa og hægt er að kaupa með gylliboðum fyrir kosningar. Gylliboðum sem eru svo svikin jafnvel á kjördag. Hvernig var þetta aftur með hækkun þingheims á Íslandi eftir síðustu kosningar? Komu þær ekki á kjördag?

Þorstein Víglundsson getur stært sig af fallegum meðaltölum og súluritum. Hann sefur líklega vel á nóttunni sæll og glaður með meðaltölin.

Getur það verið að almenningur láti blekkjast enn eina ferðina, næst þegar kosið verður og krossi við Viðhald Sjálfstæðisflokksins?

Virkilega?

Má ég minna á fagurt bréf formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar árið 2013 þar sem gylliboðin og helgislepjan lak úr hverju orði til handa eftirlaunaþegum.

Má ég minna á að íslendingar sitja uppi með handónýta ríkisstjórn eigin hagsmuna sem er hjartanlega sama um þá sem minna hafa.

Og má ég líka minna á að stjórnarandstaðan er svo dásamlega steinsofandi að ekkert, ég segi og meina EKKERT, virðist geta ýtt henni á flot.

Litli gulur er að rústa heilbrigðiskerfinu og andstaðan er núll og nix.

Afsökunin er þessi: Alþingi stjórnar engu. Þeir sem ráða eru í ráðuneytunum.

Það er löngu kominn tími til þess að breyta stjórnarháttum á litlu eyjunni í norðri.

Er það ekki undarlegt að yfir 60 manns sé haldið uppi á þingfararkaupi og ráðherralaunum og öllum bitlingunum í landi þar sem búa 330 þúsund manns?

Það ætti að taka smart símana af öllu liðinu þegar það stígur inn fyrir dyr þinghússins. Það fer fátt eins í taugarnar á mér og að horfa á Panamaprinsinn grúfa sig yfir snjallinn á meðan verið er að belgja sig úr ræðustól og spyrja hann alvarlegra spurninga.

Það fer líka í taugarnar á mér að sjá belginginn og illskuna úr hinum virðulega ræðustól.

Þegar ekki er einu sinni hægt að sýna kurteisi á hinu háa Alþingi er ekki hægt að ætlast til sanngirni og umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi.

Ég ætti líklega að hætta að láta framkomu þingmanna og ráðherra fara í taugarnar á mér. Þeim er ekki viðbjargandi en ég gæti hugsanlega komist hjá taugaáfalli af verstu gerð. Meðaltöl benda eindregið til þess.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband