Má ekki hækka eftirlaun vegna lágra launa á almennum markaði!

2.ágúst 2017

Ég las þessi rök einhvers staðar í gær.

Það má ekki hækka bætur almannatryggingakerfisins vegna þess að þá gætu þær farið upp fyrir lægstu laun í landinu.

Er ekki eitthvað einkennilegt við þetta?

ASÍ á að sjá um að lægstu laun í landinu sé mannsæmandi.

Það er ekkert samhengi á milli þess sem eftirlaunaþegi, sem hefur safnað í Lífeyrissjóð allt sitt líf, megi ekki hafa hærri tekjur þegar að síðasta æviskeiðinu kemur, en sá sem er með lægstu laun á almennum vinnumarkaði.

Þetta eru hins vegar rök sem færa ráðherra velferðarmála andmæli á gulldiski.

Það er fullt af fólki á hinum almenna vinnumarkaði sem fær greidd skammarlega lág laun fyrir vinnu sína .

Láglaunastefna vinnuveitenda er til háborinnar skammar og ekki bætir úr þegar ráðið er ódýrt vinnuafl frá löndum sem berjast í bökkum og geta engan vegin greitt þegnum sínum laun sem hægt er að lifa af.

Haldið þið til dæmis að Portúgalarnir vildu ekki frekar búa í heimalandi sínu og vinna þar? Mundu þeir ekki skipta ef þeir fengju laun sem hægt væri að lifa af í Portúgal? Ég er ansi hrædd um að hjá mörgum væri svarið JÁ.

Hvað með Kínverjana sem fara til Íslands í gjörólíka menningu og tungumál sem er ómögulegt að læra? Haldiði að þeir vildu ekki frekar vera í landinu sínu en að hýrast í ömurlegum aðstæðum á ísköldu Íslandi?

Ég þekki nokkra Kínverja sem vildu mikið gefa til þess að þurfa ekki að búa á Íslandi, jafnvel þó um skamma stund sé að ræða.

Vinnuveitendur ráða ekki útlendinga til starfa til þess að borga þeim almennileg laun.

Áður en allt verður vitlaust og ég hengd upp á löppunum í athugasemdum, þá tek ég fram að það eru örfáir vinnuveitendur á Íslandi sem borga útlendingunum sömu laun og íslendingum. Það er hins vegar undantekning.

Við megum ekki falla í þá gryfju að rökstyðja lágar bætur almannatryggingakerfisins með lágum launum á vinnumarkaðinum.

Það kemur málin ekkert við hver láglaunastefna ASÍ og Vinnuveitendasambandsins er.

ASÍ er grútmáttlaust og fyrir ofan skilning venjulegs fólk fyrir hverja það er að vinna. Ég er viss um að þó reynt væri að skýra tilganginn, á hvaða máli sem er, gæti enginn skilið stefnu ASÍ.

Það væri nær að berjast fyrir því að allir hefðu laun sem samsvöruðu framfærslu viðmiðum opinberra aðila. Það væri ekki slæm barátta og gætu ábyggilega margir sameinast um hana.

Allir, eða margir, verða gamlir og þurfa á eftirlaunum að halda.

Það er nefnilega svo einkennilegt að þó fólk sé komið yfir 67 ára aldurinn þarf það áfram að borða og hafa föt til þess að klæða sig í. Þetta fólk þarf líka að hafa húsaskjól, rétt eins og þeir sem yngri eru. Eftirlaunaþegar eru bara venjulegt fólk sem hefur nokkur ár í pokahorninu sem unga fólkið hefur ekki, en vonandi verður allt unga fólkið líka þeirra gæfu aðnjótandi að fá að lifa eftir 67 ára.

Öryrkjar eru líka bara venjulegt fólk. Þeir eru fólk á öllum aldri, það er að segja innan við 67 ára, og það eina sem skilur þá frá hinum er að þeir hafa veikst, orðið fyrir slysi, fæðst fatlaðir eða, og það er tengt hinni voðalegu láglaunastefnu landsins, að þeir hafa misst alla von og veikst vegna harðræðis aðstæðna.

Mannúð og samhugur voru einu sinni talin göfug hugtök. Hvað varð um  þessi hugtök? Gufuðu þau upp í græðginni og eigingirni?

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bloggfærslur 2. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband