Ný framboð eru ekki leið til bættra kjara á Íslandi

15.ágúst 2017

Það er langt frá því að ég ætli að halda með einum stjórnmálaflokki á Íslandi fremur en öðrum. Þetta er ábyggilega allt ágætis fólk og fullt af eldmóði og skarar ekki að eigin köku.

Mér hnykkti hins vegar við að sjá ummæli sem gætu vel verið fyrirboði þess að enn eitt nýtt klofnings framboð sé í uppsiglingu, ofan á öll hin.

Ágreiningur inna flokka á ekki að vera fjölmiðla- eða Facebook matur. Hafi fólk raunverulegan áhuga og metnað til þess að bæta kjör þeirra sem eru undir á landinu þá gerir það upp ágreining innan þeirra flokka sem það starfar.

Ekki finnst mér trúlegt að klofnings framboð séu til góðs. Þau benda til valdagræðgi, það er mín skoðun.

Á íslandi eru til nógu margir flokkar. Það sem vantar á landinu er fólk sem skilur þjóðfélagið og er til í að berjast fyrir bættum kjörum fyrir alla.

Það vantar samstöðu og ein leið er að fækka þessum örframboðum sem ekki gera annað en dreifa atkvæðum sem detta svo niður dauð.

Man einhver eftir forsetaframbjóðanda sem bauð sig fram aftur og aftur, og fékk nokkur atkvæði?

Góðærið er liðið. Kreppan er framundan. Það er bara þannig og sama hvernig hamast er með að meðal laun séu yfir 700 þúsund á mánuði.

Börn fara í rúmið á kvöldin án þess að fá fylli sína af einföldum mat.

Fólk hefur ekki húsaskjól og nú er veturinn á næsta leyti.

Sjálfsmorðum fjölgar.

Heilsugæslan er í molum.

Geðheilsa manna hrynur í svona ástandi og eina leiðin út er að svipta sig lífi. Það má ekki tala um þetta. Ætli velferðaráðherrann geðþekki viti þetta?

Baráttuhópar eins og Grái herinn eru sótsvört af pólitík og samstaða er eitthvað einkennileg orð sem þau skilja ekki. Enn heldur sumt fólk í vonina og lætur sig dreyma um að herinn geri eitthvað. Ég er löngu búin að missa þá trú.

Verkalýðsfélögin bregðast, LEB bregst, FEB með yfir 11.000 félagsmenn gengur við staf og hugsar. FEB lifir líklega á fortíðardraumum og rígheldur í þá. Það er svo gott að horfa aftur á bak og sjá hvað allt var gott í fyrndinni og hvað það væri nú gaman að geta fært fortíðina fögru með öllum fyrirheitunum til nútímans.

Það er svo gott og notalegt, nú þegar skammdegið fer í hönd, að sitja í ruggustól og hugsa um hvernig hægt væri að fara í mál við andskotann og leiðrétta allt sem hefur misstigið sig hér áður fyrr.

Hugsjónir verkaklíðsforystu sem setti á laggirnar lögbundinn lífeyris sparnað voru svo krúttlegar og mikið væri nú gott að þær kæmu aftur inn í líf okkar.

Já, við skulum hugsa um, hugleiða, safna gögnum, skoða gögn, tala við foringja fyrri tíma, finna út hvar þetta fór allt út af sporinu.

Fínar hugmyndir verða jú ekki til af engu. Þær þarf að hugsa um og hugleiða þangað til allir sem komu að málum í denn eru farnir ofan í moldina og ekkert hægt að sækja til þeirra lengur nema kannski með aðstoð miðla.

Eftir hverju er verið að bíða?

Hvað stendur í vegi fyrir því að heimildasöfnun hefjist núna. Nákvæmlega NÚNA?

Hvar er baráttan?

Hvar er viljinn?

Hvar er sannleikurinn? Er hann kannski að þetta sé svo mikil vinna að fólk sem blaðrar og blaðrar endalaust um hvað það séu miklir hugsuðir, nenni ekki að setjast niður og vinna vinnuna?

Hugsanir tala ekki og þær vinna ekki, þær safna ekki gögnum. Þær eru gagnslausar með öllu og það fæst ekki matur í maga svangra barna fyrir þær, eða húsaskjól fyrir tjaldbúa.

Ný framboð leysa ekkert.

Ný framboð eru ekkert annað en afsökun og undansláttur svo ekki þurfi að vinna fyrir þá sem eru svangir eða búa á götunni.

VAKNIÐI NÚ AF ÞYRNIRÓSARSVEFNI YKKAR OG BRETTIÐ UPP ERMARNAR MEÐ SAMSTÖÐU EN EKKI SUNDRUNGU OG VALDFÝSN.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bloggfærslur 15. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband