Enn ein nefnd - Formaður FEB bregst félögum sínum hrapallega

18.ágúst 2017

Þegar Ellert var kosinn formaður FEB var ég bjartsýn. Hann var lögfræðingur. Hann var fyrirverandi alþingismaður. Hann var íþróttamaður og hann var maður sem barðist fyrir sigri.

Ég hélt uppi vörnum fyrir hann þegar einhver dansdama úr FEB var ekki par hrifin og kauða.

Nú hefur Ellert sýnt sitt rétta eðli.

Hann er grútmáttlaus og barátta hans er hjakk í gömlu fari sem er löngu orðið ófært en hann heldur að hægt sé að komast yfir ófæruna á sléttum dekkjum.

Þvílík einfeldni.

Hann segir á síðu FEB: Tilvitnun er feitletruð og ætla ég að gera athugasemdir innan um í bréfinu og eru þær ekki feitletraðar!

"Í frásögu færandi - frá Ellert B. Schram, formanni FEB

Það er frá því að segja að undirritaður skrifaði þrem ráðherrum (hvers vegna bara 3 ráðherrum? Hvers vegna ekki forsætisráðherra líka? Hann er jú sá sem öllu ræður í þessu stjórnarsamstarfi) í júnímánuði, tölvubréf, þar sem talin voru upp þau viðfangsefni sem snéru að eldri borgurum og óskað eftir samtali við stjórnvöld um viðbrögð og lausnir og meðferð þeirra vandamál sem við okkur blasa. Að minnsta kosti að okkar mati.

Frítekjumarkið, skerðingarnar, skattamál hinna lágt settu, hjúkrunarrými, heimaþjónustu, framkvæmdasjóð aldraðra, tannlækningar, samanburð við norræn kerfi o.s.frv. (Hér hefði ég viljað sjá bréfið í heild sinni en ekki bara og svo framvegis. Hvers vegna birtir Ellert ekki allt bréfið?)

Tíminn leið, sumarleyfi hófust og satt að segja var ég farinn að halda að þessar athugasemdir mínar og tillögur um samræður okkar í milli hefðu týnst í hinu bírókratíska kerfi. En svo gerðist það, sem ég átti satt að segja ekki von á, að ég var boðaður á fund þriggja ráðherra í síðustu viku (sjá meðfylgjandi mynd) og þar var að lokum samþykkt að skipa nefnd (að lokum samþykkt að skipa nefnd. Var það erfitt mál? Séð hef ég haft eftir talsmanni FEB að 3 úr þessari nefnd verði frá FEB. Virkilega. Þarf FEB að kynna sér þessi mál? Veit félagið ekki hvernig staða eftirlaunþega á Íslandi er?) , sex manns, sem skal fara yfir kvörtunarmálin (kvörtunarmálin! erum við bara kvartarar í augum formannsins? Veit hann ekki að þetta eru ekki kvörtunarmál, þetta er ástand sem ríkir í þjóðfélaginu?) og stöðuna og skila frá sér nefndaráliti, ekki seinna en fyrir næstu áramót (Skila nefndaráliti? Til hvers? Það er til nefndarálit nú þegar og úttekt hjá Velferðarráðuneytinu. Veit formaður FEB ekki um það? Ekki seinna en fyrir næstu áramót á álitið að liggja fyrir. Það liggur fyrir yfirlýsing frá Þorsteini velferðarráðherra að ekkert verði hægt að gera því búið sé að negla niður fjárhagsáætlun og svigrúm sé ekki til staðar fyrir bætt kjör þessa hóps. Veit formaður FEB ekki um þetta? Fylgist hann ekki með fréttum?).

Ég er þakklátur ráðherrunum. Ég bind vonir við starf slíkrar nefndar, þótt ekki sé til annars en að ræða og meta þau klögumál (Ræða og meta þau KLÖGUMÁL..... KLÖGUMÁL er það mat formannsins að ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í þessum málaflokki séu bara KLÖGUMÁL eins og hjá óþægum krakka?) , sem hafa verið efst á baugi af hálfu okkar, okkar, sem reynum að standa vörð um hagsmuni eldri borgara (Klögumálin sem hafa verið efst á baugi......ég gæti ælt, þetta er svo yfirgengilegur málflutningur af hálfu formanns FEB). Þetta er samtalið sem ég hef beðið um. Þetta eru vinnubrögðin sem kallað er eftir af okkar hálfu, þeirra sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna og stöðu eldri borgara. (Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki rétt á sér herra formaður FEB. Það sem þú ert að gera er að leyfa ráðherrum, sem eru með allt á hælunum og eygja ekki von um endurkjör í nýjum kosningum, að troða túttu upp í þig til þess að fá þig til þess að þegja. Það vita allir að mál sett í nefnd verður aldrei neitt annað en laun nefndarmanna og enn eitt ómerkilegt álit sem enginn tekur mark á. Hvað heldur þú að nefnd hafi verið að fúska í 10 ár? Nefnd sem bjó til hin nýju lög um Almannatryggingar? )

Þetta er spor í rétta átt. (Ellert Schram formaður FEB. Þetta er ekki spor í rétta átt. Þetta er spor 10 ár aftur í tímann. Þetta er spor sem þú ættir að skammast þín fyrir að hafa tekið. Þetta eru hrein svik við alla þá 11 þúsund eldri borgara sem þú ert í forsvari fyrir. Þetta spor er það sem þú átt að sjá sóma þinn í að segja skilið við. Þetta spor gerir þig óhæfan sem formann eldri borgara. Látum á þetta reyna. (Þú Formaður FEB hefur ekki rétt til þess að láta reyna á svona svik. Á meðan þú lepur faguryrði úr hendi 3ja ráðherra sem kannski ætla að STEFNA AÐ einhverju þegar þeir eru orðnir fullorðnir, sveltir stór hópur umbjóðenda þinna. Á meðan rjóminn lekur í vasa þeirra 3ja fulltrúa FEB sem koma til með að sitja í þessari handónýtu nefnd, á stór hluti umbjóðenda þinna ekki fyrir lækniskostnaði, þeir eiga ekki húsaskjól, þeir sjá þann kost einan að svipta sig lífi. Það er þeirra rjómi en þú skilur auðvitað ekki svona KLÖGUMÁL eldri borgara landsins) .  

Kv.

Ellert B.Schram

Formaður FEB 

Þannig lýkur hinu merka "Í frásögu færandi" frá nýjum formanni FEB

Ég er ekki par hrifin. Ég er sár og reið fyrir hönd þeirra sem berjast í bökkum og reyna að halda út mánuðinn jafnvel þó ekki sé til matur í húsinu.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 18. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband