Hvernig er litið á þá sem orðnir eru 67 ára og búa á Íslandi?

 

Það kom mér á óvart þegar ég las athugasemdir margra um hin nýju lög sem samþykkt voru á alþingi varðandi Almannatryggingar á landinu, hversu lítið fólk hafði fylgst með umræðunni.

Nú eru margir undrandi og reiðir yfir því að reka skuli út af vinnumarkaði þá sem eru 67 ára.

Rætt er um að gera eitthvað í málinu.

Rætt er um áhrif þess sem endir á atvinnuþátttöku gæti haft í för með sér.

Áhrif sem gætu leitt til þunglyndis og sjúkdóma, sem hefðu áhrif á heilsugæslu í landinu, þar sem fleiri leituðu til læknis.

Svo er spurt hvernig þessi ólög gátu flogið í gegnum þingið.

Það hefur mikið verið skrifað um þessi mál. Sumir báðu um að lögin yrðu ekki samþykkt óbreytt. Aðrir töluðu um að ekki mætti láta það viðgangast að fólk sem væri í fullri vinnu þyrfti að hætta henni bara vegna þess að eitt ár bættist í safnið.

Enn aðrir töluðu um að ekki væri bjóðandi þessum aldurshópi að vinna og fá til ráðstöfunar 20% af laununum.

Auðvitað er þetta til háborinnar skammar og ætti ekki að eiga sér stað í þjóðfélagi sem veður í peningum.

Gallinn er bara sá að peningarnir eru á fárra hendi og safnast endalaust til hinna sömu og vina þeirra og vandamanna.

Spillingin grasserar og þessi ágætu nýju lög sem fráfarandi ríkisstjórn lofar í bak og fyrir eru ágætt dæmi um hvernig ólög geta leitt til spillingar.

Getur það verið að þeir sem nú er verið að moka út af vinnumarkaði með ótrúlegum ólögum fari að vinna svart og hætti að greiða skatta?

Eru skattsvik það sem við viljum efla á landinu fagra?

Viljum við að fólk sem hefur verið við góða heilsu, hamingjusamt í vinnu sinni og lagt til þjóðfélagsins, fari nú, árið 2017 að leggja leið sína í auknum mæli til lækna og þar með að íþyngja heilsugæslunni?

Viljum við ef til vill frekar að öllum líði vel?

Nú er verið að mynda nýja ríkisstjórn og allir flokkar vildu fyrir kosningar bæta kjör eftirlaunaþega.

Hvað verður um fyrirheitin góðu?

Sér ný ríkisstjórn til þess að öllum geti liðið sæmilega árið 2017 eða heldur hún áfram að hygla vinum og vandamönnum og gera hina fáu ríku ríkari á kostnað almúgans í landinu fagra?

Í gær talaði ég við ungann mann hér í nýja heimalandinu mínu. Hann sagði mér frá því hvernig hann og skólafélagarnir hefðu rannsakað hið frábæra Ísland og hvernig landið hefði fallið og risið upp á ótrúlegum hraða. Hann sagði mér að á Íslandi væru menn sem hefðu brotið lög í undanfara hrunsins væru í fangelsum og þeir hefðu þurft að taka út þunga refsingu!

Þetta er myndin sem dregin er upp hér í landi og hef ég heyrt hana víða.

Ég vildi óska að þessi fallega mynd af landinu væri sönn.

Ég vildi óska að allir hefðu nóg að borða og hefðu skjól yfir höfuðið og gætu lifað hamingjusömu lífi alla ævi sína.

Ég vildi óska að fólk sem komið er á elliheimili ætti fallegt ævikvöld og þeir sem þurfa sjúkrahúsvist eigi hana vísa og þar sé vel búið að öllum.

Ég vildi óska að ný ríkisstjórn hefði manngæsku í fyrirrúmi og þeirra æðsta markmið verði að færa þjóðinni allri arð af auðlindum landsins.

Ég vildi óska að ný ríkisstjórn gleymdi ekki fallegu orðunum sem flutu svo dásamlega um loftin blá fyrir kosningar.

Ef þessar óskir mínar rætast verður aftur gott að búa á fallega landinu og ALLIR geta verið saddir og sælir.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband