Er gott að búa í Portúgal og vera 67 ára eða meira?

 

Ég bý í Portúgal og hef aðeins fleiri en 67 ár í pokahorninu.

Þegar ég flutti frá Íslandi var meiningin alls ekki að flytja til Portúgal en aðstæður höguðu því þannig að drauma endastöð mín í þessu lífi varð ekki sú sem ég vildi.

Ég þurfti að velja eitthvað land þar sem ég fengi varanlegt dvalarleyfi og athugaði eitt og annað á netinu. Portúgal fékk háa einkunn sem land fyrir eftirlauna aldurinn.

Vinir og vandamenn sem ég spurði voru á einu máli um að landið væri frábært. Reyndar höfðu þeir aldrei komið til hins raunverulega Portúgal. Þeir höfðu verið ferðamenn í Algarve sem í mínum huga og landa minna hér er bara ferðamannastaður þar sem sól og sumar ríkir stóran hluta ársins. Það er langt frá því að meiri hluti Portúgala hafi heimsótt Algarve.

Ég flutti semsagt til meginlandsins og valdi mitt landið einkum vegna loftslagsins. Borgin sem ég valdi var söguleg og þar var allt fullt af menningu og íbúar 6.500, samkvæmt því sem stóð á hinu ítarlega neti.

Flaug ég nú til Portúgal frá Kína og kom til Lissabon í frábæru veðri, sól og hita. Tveggja og hálfs tíma akstur var á áfangastað og fræddi leigubílstjórinn mig um það sem fyrir augu bar. Ekki þótti mér það ýkja merkilegt en batt þó vonir við að mín biði hin sögulega borg þar sem annað væri uppi á teningnum.

Ég uppgötvaði fljótlega að ekki var allt sem ég hafði lesið um hina sögulegu Penelu rétt. Íbúar þorpsins eru tæplega 600, eða réttara sagt voru það þegar ég kom hingað. Þeim hefur fækkað nokkuð og nú erum við rétt rúm 500.

Í héraðinu sjálfu, sem er partur af Coimbra district, búa hins vegar tæp 6000. Mikið af íbúunum eru útlendingar og þeir búa í húsum úti í skógi og blanda ekki geði við heimamenn. Flestir eru líklega Bretar en þjóðverjar og hollendingar leynast innan um og saman við og einn Dana hef ég hitt á þessum árum sem ég hef verið hér.

Ég kynntist aðeins útlendinga menningunni hér fyrir nokkrum árum þegar ég fékk þá ágætu hugmynd að kenna feitum Bretum dans. Þeir gáfust að vísu fljótt upp og vildu frekar drekka ódýr vín sem hér fljóta og borða mat fullan af salti og taka meðöl við háum blóðþrýstingi og ýmsum kvillum sem óhjákvæmilega fylgja.

Í þorpinu mínu er ég eini útlendingurinn sem hef bæst við síðastliðin 20 ár eða svo. Hjón sem hafa verið hér í rúm 20 ár eru hinir útlendingarnir og eiga þau 2 uppkomna syni sem eru fluttir.

Allir vinir mínir hér í landi eru Portúgalskir og hafa þeir reynst mér vel.

Ég bý ekki í húsi. Nennti ekki að fara að hafa áhyggjur af garði og svoleiðis í ellinni og keypti íbúð í 6 íbúða blokk (er það kallað blokk á Íslandi, er ekki alveg viss). Nágrannar mínir eru svolítið spes, svo ekki sé meira sagt. Þó er ég svo heppin að þau sem búa á móti mér eru venjulegt dásamlegt fólk.

Ég get oft á tíðum ekki annað en vorkennt blessuðum nágrönnunum að hafa svona útlending búandi við nefið á þeim. Það hlýtur að vera mjög óþægilegt að vita ekki gjörla hvað snýr upp og hvað niður og auðvitað alveg hroðalegt að útlendingurinn ætlist til þess að ekki renni vatn inn í bílskúrinn hennar þegar rignir í Janúar. Svo vill þessi einkennilega manneskja að stofan hennar sé ekki rennandi blaut í sömu rigningum og ætlast hún til þess að allir taki þátt í að laga skemmdir sem eru á blokkinni að utan sem hleypa vatninu inn. Þetta er auðvitað skandall, en svona er það að búa með útlending í nágrenninu.

Sturtuferðir þeirra sem búa fyrir ofan útlendinginn eru ómældar og einn daginn tók vatn að renna niður loft í íbúðinni. Fauk nú heldur betur í konuna á neðri hæðinni og brunaði hún upp stigann og var þar fyrir ræstingafrúin. Sú var leidd niður og henni sýnd vexumerkin. Rennandi vatn í þremur herbergjum hjá þeirri útlendu! Ræstingafrúin fékk vægt sjokk og sagðist mundu hringja í húsfrúna. Leið og beið og ekkert gerðist svo sú útlenska ákvað að heimsækja tannlækninn á stofuna og sýna honum myndir af skemmdunum sem breiddust ótt um loft hennar. Hann ætlaði að gera eitthvað í málinu en sagði að dóttirin sem væri nú í háskólanum færi svo mikið í sturtu og siliconið hefði gefið sig og hann hefði bætt við siliconi og allt væri í góðu lagi hjá honum.

Einmitt, þetta var fyrir rétt tæpu ári. Boruð hafa verið göt hjá tannsa og í ljós kom að vatn var á milli þilja og rann hamingjusamt niður til þeirra útlensku. Var fátt annað að gera í stöðunni en halda bara áfram að þvo sig mörgum sinnum á dag, þ.e. íbúarnir á efri hæðinni leystu málið svona, og bíða svo bara eftir því að kraftaverkið gerðist og loft kerlu þornuðu. Ég skil ekki allan þennan skít sem endalaust þarf að sturta af efrihæðar íbúum. Þau eru voða vel kaþólsk og maður gæti haldið að það þyrfti ekki að fara í sturtu mörgum sinnum á sólarhring, en hvað veit ég svo sem, heiðinginn sem aldrei fer í kirkju í landi páfans.

Loftin eru enn blaut tæpu ári síðar, það tekur tíma að þurrka svona tjón, sagði einhver spekingur, langan tíma!

Ég er löngu hætt að reyna að selja íbúðina og læt mig ekki dreyma um að flytja til Spánar eða eitthvað annað. Íbúðin mín er falleg og hér verð ég það sem eftir er og kannski þornar allt klabbið bráðum.

Ég var að klebera á ástandinu fyrir nokkrum árum og var að dauða komin andlega en ákvað svo að sætta mig við það sem er og gera bara það besta úr því. Það er jú hægt að ferðast til annarra landa og búa þar í svolítinn tíma, svo framarlega að það sé ekki á rigningartíma, og koma svo aftur heim.

Ég á heimboð til Kína og verð þar 3 mánuði þegar ég hef náð heilsu aftur og svo flýg ég eitthvað út í buskann eftir því sem mér dettur í hug og hleð batteríin af andlegri næringu.

Hér í landi er ekki mikið um nútíma menningu. Það er nóg af pöbbum og matsölustöðum og vín er frekar ódýrt fyrir þá sem það vilja. Vilji maður hins vegar sækja tónleika eða aðra nútíma menningarviðburði vandast málið. Slík fyrirbæri eru ekki auglýst og getur reynst snúið að finna eitthvað fyrir andann.

Fyrir hádegi eru kaffistofur og pöbbar fyrir konur en eftir hádegi og á kvöldin eru það karla staðir. Það tók mig svolítinn tíma að átta mig á þessu og gengu sögur um þorpið um útlendinginn sem fór á kaffistofuna eftir klukkan 5!

Markaðir þar sem seldar eru kökur og saumaskapur ásamt osti og grænmeti eru í hverjum bæ oftast einu sinni í viku.

Kastalar eru út um allt land og kirkjur í tonnatali, nema í Algarve. Hér í bæ eru hvorki fleiri né færri en 4 kirkjur og í klukkutíma radíus (ökuradíus) hef ég talið 32 kirkjur. Semsagt kaþólskara en páfinn er þetta ágæta land.

Kastalinn hér í bæ er síðan 15 hundruð og mér finnst hann átakanlega ómerkilegur en auðvitað er ég bara útlendingur sem kann ekki gott að meta.

Mér hefur tekist að grafa upp nokkra tónleika á þessum 5 árum sem ég hef verið hérna. Þeir byrja ALDREI á auglýstum tíma.  Að minnsta kosti hálftíma seinkun ef ekki meira. Það er undantekningalaust að minnsta kosti 20 mínútna bla bla bla í upphafi áður en tónlistin hefst og annað eins í lokin.

Frábært tónlistarfólk er þó hægt að finna hérna og er ég svo heppin að ein af þeim kennir mér söng auk þess að vera dásamlegt vinkona mín.

Jólin hérna eru auðvitað öðruvísi. Ég hef dvalið hjá nokkrum fjölskyldum um jól. Ein jólin var maturinn þurrkaðir þorskhausar og þótti mér það frekar lítið jólalegt. Svo hef ég fengið alls konar mat en það sem mér hefur líkað best er hjá fjölskyldu sem bjó í 20 ár í Frakklandi og eldar almennilegan útlenskan mat.

Áramótin eru líka spes, sérstaklega er maturinn stundum ótrúlegur. Eitt er þó alltaf hægt að stóla á. Það eru endalausar sætar kökur, ofboðslega sætar, hlaðnar sykri svo maður fær eiginlega hálfgert sjokk bara af að horfa á þær.

Sætar kökur eru aðalsmerki þessa ágæta lands. Þær eru alls staðar. Sumar eru voða hollar, gerðar úr grænmeti EN stútfullar af sykri svo hollustan týnist á leiðinni, en þær eru dásamaðar sem SVO hollar og enginn skilur dyntina í mér að borða ekki hnossgætið.

Landið er fátækt. Við eigum nokkra mjög ríka, ofboðslega ríka einstaklinga sem hleypa upp meðal launum í landinu en staðreyndin er sú að 500 evrur eru taldar nokkuð góð laun hérna.

Þegar kemur að jólum verður fólk að sníða sér stakk eftir vexti. Ég heyrði undurfallega sögu ekki fyrir löngu. Vinir mínir sem ég hef stundum verið hjá um jólin eru hætt að gefa jólagjafir. Ástæðan er sú að ein af þeim sem alltaf kemur í jólaboðið er svo fátæk að hún hefur ekki efni á gefa neitt og ætlaði að sleppa því að koma í boðið. Héldu boðsgestir, sem eru þeir sömu ár eftir ár, fund og var samþykkt að hætta jólagjöfum svo allir gætu verið með. Er þetta ekki dásamlegt? Mér vöknaði um augun þegar ég heyrði þetta.

Þegar kemur að áramótum borðum við 12 gular rúsínur á miðnætti og er það til þess að árið verði gjöfult.

Margir sem hafa flutt og vinna í útlöndum koma heim um jól og áramót. Oft á þetta fólk hús sem það notar um jólin og í sumarfríum. Kirkjur landsins, í litlum þorpum, halda basar, sem er reyndar uppboð og þá gefa þessir sem fluttir eru oft mikla peninga. Svona uppboð eru ótrúlega skemmtileg og mikið fjör þegar verið er að bjóða í kökur og annað góðgæti. Eftir kaupin er svo haldin veisla með góssinu. Mér finnst þetta fallegur siður og gaman að fá að taka þátt í honum.

Þar sem vinir mínir eru allir Portúgalar kynnist ég landi og þjóð öðruvísi en þeir sem búa í fínu húsunum úti í skógi og halda sig við útlendinga nýlendurnar.

Ég mundi ekki vilja skipta við þá.

Að lokum vil ég segja þetta við þá sem eru að velta fyrir sér að flytja frá Íslandi til þess að nýta lífeyrinn betur. Spánn er ódýrt land og þar eru íslendinga nýlendur. Ef þið hafið ekki hug á að læra málið þá er gott að velja stað sem býður upp á Íslensku. Það getur reynst snúið að læra nýtt tungumál á efri árum en er nauðsynlegt til þess að komast almennilega inn í menningu þjóðarinnar. Enska er ekki algeng á ódýrari stöðum á Spáni eftir því sem ég hef heyrt. Hér í Portúgal talar aðeins lítill hluti þjóðarinnar ensku en franska og þýska eru aðeins algengari.

Meirihluti heillar kynslóðar hér er ólæs og landið er fátækt þrátt fyrir örfáa mjög ríka.

Þegar ég tala við elstu kynslóðina þá eru þau oft með tár í augunum þegar þau segja mér að æðsti draumur þeirra væri að geta lesið og skrifað. Við sem erum yngri og frá löndum þar sem menningin er þroskuð gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað við eigum gott.

Ég sakna þess að geta ekki farið á alla jólatónleikana í desember á Íslandi en menningarviðburðir ásamt nokkrum góðum vinum er í raun það eina sem ég sakna frá landinu græna.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Góð færsla, gott val hjá þér. - Held samt að Spánn hefði verið betri fyrir þig og einnig að kynna sér málin aðeins betur og spyrjast meira fyrir. - Leigja í nokkra mánuði á staðnum reynist oft vel. - 

Már Elíson, 13.12.2016 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband