Jólakvíði - er hann algengur?

 

Þá eru jólin að koma rétt eina ferðina enn og ekkert lát á flóði auglýsinga!

Þessi hátíð sem var einhvern tíman til þess að fagna komu frelsarans er fyrir löngu orðin að hátíð kaupmanna og sölumennsku.

Engin jól án þess að eignast nýja tölvu, nýjan bíl, nýtt sjónvarp og guð má vita hvað. 

Óskirnar eru endalausar en þær rætast í samræmi við efni og ástæður hvers og eins.

Ekki vandamál hjá þeim sem hafa góð laun,og má þar t.d. nefna þingmenn og bankastjóra og ráðherra og forstjóra og formenn verkalýðsfélaga og alþýðusambands Íslands og svo mætti lengi telja.

Hvar er þá vandamálið?

Jú, fátækar fjölskyldur, öryrkjar, eftirlaunaþegar sem ekki hafa safnað í sjóði utan lífeyriskerfisins, láglaunafólk og þeir sem hafa af einhverjum ástæðum orðið undir í þjóðfélaginu.

Þetta er fólkið sem hlustar á allar hinar dásamlegu auglýsingar og óskar þess heitt og innilega að hægt verði að kaupa góðan mat til að borða á hátíðinni og ef til vill eitthvað örlítið til þess að gleðja börnin og gamalmennin eða bara góðan vin.

Jólakvíði er hræðilegur.

Jól koma alltaf einu sinni á ári, það bregst ekki.

Nú á dögum hefur auglýsinga herferðin færst fram og er ekki lengur í desember, nei hún byrjar í október eða jafnvel fyrr.

Jólakvíðinn færist líka fram. Hann fylgir hinu endalausa flóði gylliboða sem dynja eins og stórstreymt flóð með ógurlegum drunum.

Eftir jól er síðan rætt um dásemd hátíðarinnar og margir alsælir en aðrir dauðfegnir og geta nú andað léttar. Hátíð frelsarans er liðin og hægt að taka til við daglegt líf án þess að hlusta á endalausar sögur um mat og drykk og gjafir og bakstur eða ekki bakstur.

Kannski hvarflar að einhverjum að óska þess að það væru aldrei jól!

Auðvitað á ekkert að vera að tala um jólakvíða. Hann á að vera eins og óhreinu börnin hennar Evu, falinn á bak við hurð.

Þeir sem þjást af þessum kvíða bera hann ekki á borð. Þeir þjást innra með sér og leika hið fullkomna leikrit. Leikrit hins alsæla jólabarns.

Fólk í kringum þá sem þekkja jólakvíðann hefur ekki hugmynd um þjáninguna. Þetta er leyndamál sem er varðveitt eins og gull á ormi. Það má jú ekki skemma fyrir þeim sem njóta gleðinnar með því að segja frá eigin líðan. Allt verður að vera svo gott og glæsilegt á ytra borðinu og skiptir ekki máli hvað er fyrir innan.

Ísland í dag er land þar sem peningar fljóta eins og rjómi ofan á mjólkurbrúsa. Fyrir hverja er svo rjóminn? Hverjir njóta hans? Er það almúginn í landinu? Eru það ferðamennirnir sem koma að heimsækja fallega landið og fá vægt áfall þegar þeir uppgötva hið ótrúlega verð sem boðið er upp á? Eru það erlendu brúðhjónin sem spöruðu fyrir Íslands ferðinni og fara heim slypp og snauð án minjagripa til að gleðja þá sem þeim eru kærir?

Ég get ekki svarað þessari spurningu, en kannski getur einhver sagt mér fyrir hverja landið fallega er.

Það sem ég þó veit er að landið er ekki fyrir alla. Það er ekki fyrir þá sem eru komnir yfir 65 ára aldur. Það er ekki fyrir einstæðar mæður og feður. Það er ekki fyrir öryrkja eða þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki séð fyrir sér.

Í fjölmiðlum heimsins er dregin upp hin fegursta mynd af landinu fagra, þar sem allir hafa það svo gott og ekki þrífst spilling. Nei, spilling er bara í útlöndum, ekki á Íslandi. Þeir sem græddu á hruninu voru settir í fangelsi, segir í fréttum í hinu nýja heimalandi mínu. Önnur lönd ættu að taka Ísland sér til fyrirmyndar, heyri ég oft.

Er það? Ættu önnur lönd að taka Ísland sér til fyrirmyndar? Svari nú hver fyrir sig!

Jólakvíðinn líður hjá og kemur ekki aftur fyrr en að nokkrum mánuðum linum.

Spillingin líður kannski hjá og hverfur alveg. Eða hvað?

Væri hægt að búa svo um hnútana að öllum gæti liðið vel sem búa í hinu fagra landi þar sem norðurljósin dansa jafnt fyrir fátæka sem ofur ríka?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband