Það er margt einkennilegt í kýrhausnum

 

Nú er kominn sá tími árs að sækja þarf um frískattkort búi maður ekki á Íslandi og nýja landið sé með tvísköttunar samkomulag við hið gamla.

Til þess að vera nú ekki að borga skatta í tveimur löndum sæki ég um svona kort á hverju ári og er ég ekkert sérstaklega að kveina yfir því. Kannski bara aðeins smá veiklulegt kvein!

Til þess að öruggt sé að ég gjaldi keisaranum það sem hans er og lifi ekki í vellystingum í nýja landinu þarf ég að sanna mig í bak og fyrir.

Með umsókninni skal fylgja:

1. Staðfesting skattyfirvalda í búfesturíki um skattskyldu og heimilisfesti (FRUMRIT)

2. Ráðningarsamningur ( ef við á)

3. Ef sótt er um endurnýjun: Erlent skattframtal eða tekjuvottorð skattyfirvalda vegna fyrra árs.

Þetta má ég svo senda annað hvort í tölvupósti eða með pósti.

Af hverju er ég að þenja mig núna?

Jú, ég skil ekki kerfið!

Ef ég sendi skattskýrslu frá búseturíkinu sannar það þá ekki að ég sé skattskyld þar?

Af hverju þarf ég líka að senda no. 1 ?

Eða ef ég sendi no 1 er það þá ekki nægilegt og óþarfi að senda skattskýrslu?

Mér er spurn:

1. Ef ég geri skattskýrslu í búseturíki sannar það þá ekki að ég borgi skatta þar? Væri kannski nær að biðja mig um kvittun fyrir því að ég hafi goldið keisaranum það sem keisarinn vill fá?

2. Rsk vill fá FRUMRIT af Certificate of fiscal residence!!!!

Einmitt! Í mínu landi eru ekki gefin út frumrit. Landið mitt nýja er tölvuvætt og sendir svona vottorð með tölvupósti og þar kemur fram staðfestingar kódi sem nota skal til þess að ganga úr skugga um réttmæti skjalsins.

Í fyrra bað ég yfirvöld hér um að láta mig hafa skjalið á pappír!  Fyrst horfðu þau á mig undrandi og skildu ekki hvað ég var að fara. Útskýrði ég málið og þá braust út allsherjar kátína á skrifstofunni.  Ég verð að viðurkenna að það er ekki í fyrsta skipti sem hlegið er að kröfum þeim sem íslenska ríkið gerir til þess að passa upp á að ég sé ekki að svindla á kerfinu og alveg öruggt sé að ég fái ekki of há eftirlaun!

Nei, íslenska ríkið passar nefnilega upp á sína.

Það gætir þess að smáaurar, þá á ég við hin rausnarlegu eftirlaun sem ég fæ og svo sparnaðinn minn, þessir smáaurar skulu ekki sleppa í gegnum nálaraugað!

Auðvitað væri þetta annað mál ef ég væri með milljónir í farteskinu, þá gæti ég flutt aurana í skattaskjól og ekkert vesen. Svo gæti ég hugsanlega verið forystumaður í pólitík og dómari og allt mögulegt fínt! Ekki sama hvort er Jón eða séra Jón.

Jæja, semsagt, nú ætla ég að sækja um, á netinu, staðfestingu á því að ég sé löglega skattskyld í mínu frábæra búsetulandi. Svo kemur bréfið eftir 2 daga eða svo. Að þessu sinni ætla ég að vera svo dýrðlega almennileg að þýða fyrir RSK það sem stendur með staðfestingarkódanum. Það er nefnilega á portúgölsku rétt eins og skattskýrslan mín en vefst fyrir stofnuninni að lesa úr kódanum.

Mér finnst ég gasalega almennileg að ætla að gera þetta og auðvitað sendi ég vottorð um að ég sé EKKI dauð og að bréfið komi ekki frá himnaríki heldur bara í gegnum tölvuna mína. Ég held að það séu kannski ekki tölvur í himnaríki! Veit það reyndar ekki en gæti trúað að það þyrfti að senda með pósti vottorð þaðan!

Svo er eitt vandamál sem ég veit ekki hvernig ég leysi. Þar sem ég er slösuð og get ekki notað vinstri höndina til þess að skrifa og er örvhent, þarf ég að rita nafn mitt með þeirri hægri þegar ég staðfesti að umsóknin sé fyllt út eftir bestu vitund. Þetta gæti vafist fyrir yfirvöldum, að ég tali nú ekki um ef undirskriftin er borin saman við vegabréfið mitt!

Já, margt er mannanna böl, en ég held ég brosi bara út í annað og sjái til. Enn eru nokkrir dagar til stefnu fram að áramótum.

Svo hringi ég í janúar í Tryggingastofnun, galin yfir því að þeir séu að rífa af mér skatt á Íslandi. Þeir gera það alltaf í janúar! Vandræðin skapast vegna fyrirframgreiðslu stofnunarinnar!!

Ekkert vandamál með lífeyrissjóðinn, þar er greitt eftirá. Það ætti að hætta þessari fyrirframgreiðslu hjá TR. Hún er bara til vandræða. Hver verður rukkaður um mánuðinn ef ég tæki nú upp á því að flytja til himna ca í miðjum mánuði, eða í enda mánaðar? Ég segi bara svona!!!!

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband