Aldrei of seint að hefja líkamsrækt?

 

Þar sem allar líkur eru á því að þeir sem komnir eru á eftirlaun, það er að segja meðal Jóninn, eigi ekki sjö dagana sæla framundan er ekki úr vegi að skoða hvað sé til ráða.

Auðvelt er að gagnrýna og hamast á þeim sem stjórna landinu og væna þá um að vilja losna við ákveðinn aldurshóp úr umræðunni, nema auðvitað rétt fyrir kosningar þegar atkvæðin eru verðmæt og auðtrúa almúginn hleypur til og krossar við í þeirri von að betri tíð og bjartari dagar séu handan við hornið.

Betri tíð verður venjulega að frosthörðum vetri og birtan sem beðið var eftir breytist í kolsvart skammdegis myrkur sem engan endi tekur.

Þó eru nokkrir sem njóta eftirlauna sem sómi er að. Það eru alþingismenn og ráðherrar. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að þessir menn séu að velta sér upp úr sauðsvörtum almenningi svona dags daglega.

Hvað er þessi líður (almúginn) að kvarta? Nýbúið að setja þessi dásamlegu lög sem einfalda allt og gera svo fallegt!

Aldrei hægt að gera þessu liði til geðs!

Veit almenningur ekki hvað því fylgir mikil ábyrgð að stjórna landi eins og Íslandi? Það þarf að hugsa um hænsnin og kindurnar, og fjármála spekingana og auðvaldið. Þetta er ofboðslega erfitt og að þurfa svo að hafa grenjandi almenning á bakinu er út í Hróa Hött.

Þessi almenningur kvartar og kveinar: ekki nóg heilsugæsla, ekki nóg að borða, ekki hægt að lifa af eftirlaunum!

Þar sem ég tilheyri þessum almenningi hef ég velt fyrir mér í fullri alvöru og af mikilli ábyrgðartilfinningu hvað hægt sé að gera til þess að létta stjórnarherrunum störf!

Í miðjum pælingunum, þegar ég var að borða hádegis matinn minn áðan og átti í hálfgerðu basli þar sem önnur höndin er óstarfshæf í bili og ekki hægt að halda bæði á hníf og gafli í annarri poppaði upp orðið "líkamsrækt"

"Líkamsrækt" er lausnarorðið fyrir sauðsvartan almúgann!

Já, en það er svo dýrt að fara í ræktina og við höfum úr svo litlu að spila, mótmælti rödd í höfðinu á mér.

Æi, láttu nú ekki svona, svaraði ég.

Það er hægt að fara út að ganga. Kostar ekki krónu og er almennt viðurkennt sem hin allra besta rækt sem völ er á, hélt ég áfram.

Já, en ég er orðin svo gömul eða gamall og hef aldrei stundað neina rækt, nema helst grænmetisrækt!

Gerir ekkert til, svara ég.

Aldrei of seint að byrja.

Bara fara út í góða veðrið, eða vonda veðrið og labba. Fyrst hægt og rólega og ekki of lengi og smá lengja ferðina þar til þrekið leyfir rösklega 20 mínútna göngu, eða meira. Ekki flóknar en það.

Mér finnst þetta frábær röksemdafærsla hjá mér. Með þessu sparast lækniskostnaður, sjúkrahúsvist, sálfræðiþjónusta, leiðindi og sjónvarpsgláp víkja og allt verður svo gott og frostið bítur ekki lengur.

Mér finnst að ég ætti að fá greitt fyrir svona frábærar hugmyndir!

Auðvitað er ég ekki að finna upp hjólið, bara að grafa upp eitt gamalt og koma því í gagnið.

Nú má ég ekki vera að því að segja ykkur meira frá hugmyndum mínum því ég þarf að leggja í hann. Göngutúr niður í þorpið tekur hálfa klukkustund og annað eins til baka. Þar sem ég er slösuð er ganga eina ræktir sem ég get stundað þessa dagana og nokkuð margar gönguvikur framundan.

Ég kvarta ekki, ég á skó og ef það rignir set ég á mig húfu.

Kannski ætti að bjóða þeim sem sitja yfir valdatafli þessa dagana að fá sér göngu með sauðsvörtum almúga! Það gæti losað um hnútana og landið fengi nýja ríkis stjórn!  Ekki amalegt það svona rétt fyrir jólin.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband