Hefur íslenska þjóðin veikst af hinni skelfilegu veiki, Veiki gleymskunnar?

Fyrst ætla ég að benda á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins.

Þar eru áhugaverðar upplýsingar í fréttabréfi sem heitir Tölutíðindi.

Ég hvet alla sem eru að nota tölur í máli sínu um eftirlaunaþega og öryrkja að skoða þessar tölur. Það eru komin út 3 tölublöð fyrir árið 2016.

Það brennur oft við að tölur brenglast í meðförum þeirra sem eru t.d. að reyna að smala atkvæðum og þá er gott að geta sannreynt málið.

Eins má benda á að Tryggingastofnun er með námskeið fyrir þá sem eru orðnir 67 ára. Ekki veit ég hvort þessi námskeið eru á mannamáli og væri forvitnilegt að heyra í einhverjum sem hefur hlustað.

 

Semsagt, ef þú hefur tölvu og kannt að nota hana má finna ýmislegt gagnlegt á síðum stofnunarinnar. Sumt af því sem þar er má einnig skilja. Það er notað mannamál í sumum tilfellum, sem er auðvitað alveg dásamlegt og ekki síst fyrir þá sem hafa kannski búið erlendis lengi og eru farnir að ryðga í íslenskunni.

 

Það hefur komið fram í umræðunni að atkvæði eftirlaunaþega séu allt frá 40.000 og upp í 60.000. Þetta hef ég séð notað þegar verið er að hvetja til að kjósa nú rétt, eða þannig.

Séu þessar tölur réttar eru nokkuð margir sem ekki eru farnir að taka út eftirlaun sín. Auðvitað er það hið besta mál ef svo er en ég er svolítið vantrúuð á tölurnar.

 

Ég er gjörsamlega hætt að skilja hvað er að gerast með frumvarp til laga um almannatryggingar sem liggur fyrir þinginu. Er nú verið að gera vel við þá sem búa einir en skilja hina eftir? Getur það verið? Eru einhver rök fyrir því? Ég bara spyr en eins og alþjóð veit er ég auðvitað bara kelling sem tuðar yfir öllu mögulegu og ómögulegu og skil ekki íslensku nema að litlu leyti. Minnið farið að gefa sig eða þannig.

 

Getur það verið að pólitíska veikin sé að koma upp? Veikin sem heltekur þá sem setjast á þing og gleyma öllum fallegu loforðunum sem greitt var með atkvæði kjósandans og stundum með atkvæði margra kjósenda?

 

Það vellur upp úr pottunum grautur fullur af loforðum frá stórum og smáum framboðum og ég þakka mínum sæla fyrir að þurfa ekki að velja og ekki hefði ég trúað því að ég ætti eftir verða þakklát pótintátanum hjá Þjóðskrá sem setti mig út af sakramentinu eftir 6 mánuði og þegar ég spurði hvaðan hann hefði þær upplýsingar að ég byggi ekki á Íslandi svaraði hann: Ég les Morgunblaðið!

Er það ekki dásamleg mynd að sjá fyrir sér starfsmann, og það líklega yfirmann, liggja yfir Mogganum og öðrum blöðum til þess að ganga úr skugga um að enginn sé vitlaust skráður hjá stofnunni?

Já, það verður ekki logið á íslenskt apparat. Þar er allt eins og það á að vera, jafnvel þó einhverjir séu að höndla með fjöregg þjóðarinnar og gefa vinum og ættingju eins mikið og hægt er.

Þeir sem slíkt gera eru allra vinsælastir á landinu í dag!

Hvað er eiginlega að íslendingum? Eru þeir allir sýktir af veiru gleymskunnar sem ég hélt að væri bara grasserandi á alþingi?

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband