Tryggingastofnun ríkisins er mitt uppáhald.

Tryggingastofnun ríkisins gegnir mikilvægu hlutverki og ætla ég ekki að gera lítið úr þeim sem þar vinna.

Það er ábyggilega ekki tekið út með sældinni að fá yfir sig fólk sem veit nákvæmlega ekkert í sinn haus um þau réttindi sem viðkomandi á. Hvað þá skyldur sem hvíla á bótaþegum.

Undanfarið hefur aðeins borið á því að sumir eldriborgarar viti ekki hvaða réttindi þeir fá við að verða gamlir!!!!

Þá spyr ég:

Hver ætti að upplýsa þá?

Er það til dæmis hlutverk Félags eldri borgara?

Til hvers er Félag eldri borgara? Mér dettur í hug að það gæti hugsanlega verið að segja félögum sínum hver séu réttindi sem fylgja aldrinum. Auðvitað veit ég ekkert um þetta, hef aldrei verið í þessu félagi og veit minna en ekki neitt um starfsemi þess annað en að þau standa að her hinna gráhærðu og fara geyst í herþjónustunni.

Ég las einhvers staðar að hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins sé með þessa upplýsingaskyldu á herðunum samkvæmt lögum:

Í 4. mgr 52. gr. Almannatryggingalaga er að finna áréttingu á þeirri leiðbeiningarskyldu og upplýsingaskyldu sem hvílir á starfsfólki Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga:

Ákvæðið er svohljóðandi:

"Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar eða eftir atvikum starfsfólk Sjúkratryggingastofnunarinnar  skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjanda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar."

Ég sé ekki betur en þetta sé alveg skýrt en hafi þessu verið breytt þá er áreiðanlega einhver sem getur leiðrétt mig og tæki ég því með þökkum því ekki vil ég vera að fara með eitthvað bull hér á þessum vettvangi.

Ég hef heyrt marga kvarta yfir því hve erfitt sé að toga upplýsingar út úr stofnunni og sumir hafa velt því fyrir sér fyrir hverja sé verið að vinna.

Síðan ég fór að taka eftirlaun hef ég þurft að hafa nokkur samskipti við hina háu stofnun. Stundum hefur farið nokkuð vel á með okkur en stundum hefur allt farið úr böndunum og ekki að furða þar sem ég er gömul kelling og ósvífin með eindæmum í þokkabót, jafnvel þó ég reyni stundum að vera átakanlega kurteis og er auk þess í órafjarlægð og ekki bætir úr skák að ég er í allt öðru landi. Gerðist semsagt svo ósvífin að yfirgefa fósturjörðina.

Það er svo dásamleg tækni komin á Íslandi að ég þarf bara að opna skattskýrsluna mína í tölvunni minni og senda hana til baka rafrænt og allt klappað og klárt, ekkert meira að hugsa um þar.  Allar upplýsingar um tekjur og annað sem á að fara á svona skýrslu er sent rafrænt og skýrslan tilbúin. Þetta er aðvitað alveg unaðslegt og ég get ekki hætt að blessa hið frábæra kerfi.

Auðvitað borga ég mína skatta og er ekkert að röfla yfir því en nú brá svo við að í Júni þetta fyrsta ár mitt sem eftirlauna þegi fékk ég bréf frá Tryggingastofnun þar sem ég var krafin um skattskýrslu frá hinu nýja landi mínu!

Ég kom af fjöllum, hringdi í stofnunina og vildi fá að vita hvað var að gerast.

Við þurfum upplýsingar um tekjur þínar í búsetulandinu, var svarið sem ég fékk.

Ha? ég hef bara eftirlaun mín sem ég fæ frá Íslandi og ég er hætt að vinna og hef engar tekjur hér, vogaði ég mér að segja og var enn þá frekar mild og nokkuð kurteis. Svo er ég búin að skila skattskýrslu á Íslandi og borga skatta þar, hélt ég áfram.

Þú verður að skila skattskýrslu frá búsetulandinu. Nú var farið að þykkna í mér. Ég sendi bréf til stofnunarinnar og vildi fá skriflegar skýringar! Skýringarnar komu eftir dúk og disk og voru á óskiljanlegri mállýsku og ég skildi minna en ekki neitt og bréfið ekki undirskrifað svo ég gat ekki talað við þann sem gaf svarið en það var einhver deildarstjóri.

Nú voru góð ráð dýr. Ég fór til lögfræðingsins míns og hún talaði við skattinn hér í landi. Þeir lögðu til að ég fengi skriflega yfirlýsingu um að ég hefði engar tekjur hér. Fékk ég nú fallegt skjal frá yfirmanni stofnunarinnar stimplað og alles. Sendi það til Íslands og beið í nokkra daga. Hringdi svo og spurði hvort þetta dygði ekki. Var reyndar búin að senda 2 e-mail en var ekki svarað og þá hringir auðvitað gamalmennið.

Nei, þú verður að skila skattskýrslu, sögðu þau.

Já en ég er búin að skila íslenskri skattskýrslu, sagði ég.

Skiptir ekki máli, þú verður að skila skýrslu frá búsetulandinu, sögðu þau.

Nú var illt í efni, hér í landi þarf að vera búið að skila skýrslu fyrir lok maí, annars fær maður himinháar sektir. Ég fékk endurskoðanda til að gera gripinn og nú var bara að bíða og sjá hvað gerðist. Sendi reyndar útlendu skýrsluna til Íslands eins og þau heimtuðu, og gat ekki annað en skemmt mér vel við tilhugsunina um starfsfólk sem ég hafði ekki mikið álit á, vera að lesa skattskýrslu, mjög flókna, á portúgölsku.

Þetta var í júní og í byrjun ágúst fékk ég bréf frá skattinum hér í landi þar sem mér var gert að greiða himinháa skatta. Ég fékk áfall og brunaði til lögfræðingsins míns. Varð nú uppi fótur og fit í bænum. Eftir rannsókn kom í ljós að eina leið mín til að fá skattana hér fellda niður var að fara í mál við ríkið og var mér ráðlagt að gera það. Allir voru búnir að lesa lög um tvísköttunar samning sem er á milli landanna og voru allir sammála um að þar sem tekjur mínar voru ekki atvinnutekjur í Portúgal heldur eftirlaun sem kæmu frá Íslandi ætti ég ekki að borga skatta hér. Korteri fyrir ferð til réttarins datt mér í hug að hringja í Ríkisskattstjóra og talaði þar við lögfræðing. Hún útskýrði fyrir mér að þar sem eftirlaun mín kæmu ekki frá ríkinu ætti ég að borga skatta í búseturíki.

Var nú hætt við málaferli sem ég hefði tapað og kostnaðurinn bara til 2ja lögfræðinga, ekkert til að hafa orð á miðað við það sem hefði getað orðið! Ég borgaði skattinn minn hér og var ekki krafin um sektir, ekkert mál hér í landi. Hins vegar þurfti ég að sækja um frískattkort á Íslandi og þarf að gera á hverju ári rétt fyrir áramót. Kærði svo álagningu á Íslandi og fékk endurgreitt eftir nokkur símtöl og bréf og stapp og stuð og langan tíma.

Ég er ekki að segja að starfsfólk Tryggingastofnunar sé vont fólk. Nei aldeilis ekki. Ég er viss um að það er hið besta fólk sem hefur oft á tíðum ekki hugmynd um hvernig kerfið virkar og þjóstuviljinn hefur kannski orðið eftir heima um morguninn. Ekki hægt að búast við að allt komist með þegar snjór og kuldi eða sumar og rigning herja á starfsfólkið.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við svona stofnun þurfi að starfa fólk sem skilur kerfið og getur sinnt lagaskyldu sinni og upplýst gamalmenni eins og mig, sem tekur upp á því að vera ekki upp á sultu og seyru á Íslandi á eftirlaunum og flytur í burtu, um hvernig hún þarf að haga sér varðandi stofnunina til þess að halda áfram að fá þessar fáu krónur sem eru kallaðar eftirlaun á Íslandi.

Mér var aldrei sagt hvað fælist í því að ég byggi ekki á Íslandi.

Mér var aldrei sagt að ég nyti skertra réttinda búandi í öðru landi.

Ég fékk aldrei neinar upplýsingar um eitt eða neitt.

Ég fann þetta auðvitað út með því að skoða lögin og upplýsingar sem eru nokkuð aðgengilegar á vef stofnunarinnar.

Ekki má ég heldur gleyma því að ég hef talað við 2 manneskjur hjá Tryggingastofnun sem var hægt að tala við af viti, sérstaklega var það þó kona sem ég man ekki hvað heitir, en hún var deildarstjóri eða einhver stjóri, og komst ég í samband við hana því vesalings þjónustufulltrúinn gafst upp á gamalmenninu.

Það eru ekki allir á mínum aldri sem hafa aðgang að tölvum eða kunna að nota þær. Það eru alltaf einhverjir sem þurfa persónulega þjónustu hjá svona stofnun og lögin gera ráð fyrir því.

Kannski ættu starfsmenn stofnunarinnar að fara á námskeið, rétt svona eins og væntanlegir þingmenn. Segi bara svona.

Ég er komin á þá skoðun að til þess að geta átt samskipti við Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi þurfi maður að vera við hestaheilsu og klár í kollinum.

Ég horfi með hryllingi til þess þegar ég verð mjög gömul og get ekki stappað við þessa ágætu stofnun. Líklega hætti ég að fá eftirlaun frá stofnuninn og verð að lifa af því sem ég fæ frá Lífeyrissjóðinum mínu, ef það verður þá ekki búið að fella hann niður.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæl Hulda! en þú veist að TR er með 200 stöður sem BARA vinna í að skerða allar mögulegar greiðslur til okkar. Tvísköttunarbrotið er eitt af þeim.

Eyjólfur Jónsson, 12.10.2016 kl. 23:13

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Sæll Eyjólfur! Viltu útskýra fyrir mér hvað þú meinar með tvísköttunarbroti? Kv. Hulda

Hulda Björnsdóttir, 13.10.2016 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband