Síðustu fréttir af eldunum í landinu mínu

18. júní 2017

Það brennur allt í kringum okkur þó eldar logi ekki innan þorpsins enn þá. Himinninn er svartur og dimmt inni sem að kvöldi um hávetur.

Fyrr í dag voru þrumur en ég sá ekki eldingar og því miður engin rigning.

Það logar í hverju bæjarfélagi hérna í miðju Portúgal. Eldurinn hefur þó ekki náð að mynda hring en er ekki langt frá því og búið að setja upp hjálpar miðstöðvar alls staðar og óskað eftir framlögum.

Þó svo að ekki séu greiddar háar upphæðir á ári tekur fólk til hendinni þegar eldarnir loga og kemur færandi hendi með vatn, ávexti og  orkustangir. Þetta er það sem helst er óskað eftir og slökkviliðsmennirnir geta borið með sér. Þeir eru örmagna en halda þó áfram.

Fréttaflutningur í erlendum fjölmiðlum er ótrúlega ónákvæmur og sumar stöðvar vita ekki hvar í veröldinni, eða í Portúgal, Pedrógao Grande er. Þar hefur orðið mest manntjón og er tala látinna núna 62. Verið er að kemba hús og allt umhverfi.

Boðuð hefur verið 3ja daga þjóðarsorg vegna atburðanna.

Andstæðurnar eru ótrúlegar. Þegar ég lít út um framhlið blokkarinnar skín sólin í gegnum reykinn en á bakhliðinni er allt svart.

Það virðist sem eldar logi núna í Miranda do Corvo og Espinahl.

Þjóðvegir hafa verið lokaðir og á sumum stöðum á fólk í raun ekki undankomuleið. Sums staðar eru allir vegir til og frá þorpunum lokaðir.

Sjónvarpið hérna er það áreiðanlegasta og eru þeir með beinar útsendingar og viðtöl við ráðamenn en hins vegar sýna þeir myndir af látnu fólki og brunnum bílum og er það mjög andstyggilegt og Portúgalarnir hafa verið að mótmæla þessum fréttaflutningi en ekkert hrífur æsifréttamennskuna.

Spánn og Frakkland hafa aðstoðað með því að senda flugvélar sem dreifa vatni yfir skógana. Það eru í raun allir sem vettlingi geta valdið að hjálpa.

Margir hafa misst hús sín og það kremur hjartað þegar maður sér fólkið standa og horfa varnarlaust á eldinn læsa klónum í heimili þeirra og örvæntingin er ólýsanleg.

Í fyrra var talað um að refsa brennuvörgunum og ekki sleppa þeim út.

Núna er talað um að elding hafi kveikt í.

Ég veit ekki hvort ég trúi skýringu forsætisráðherrans með eldinguna, en hitt veit ég að það væri nær að leggja fé til slökkvistöðvanna svo þær gætu fengið almennileg tæki til þess að vinna með. Skattpeningum okkar væri betur varið í það en margt annað. Að hugsa sér að í landi sem býr við skógarelda á hverju einasta sumri skuli þurfa að reka slökkvistöðvar fyrir smá aðstoð frá hinu opinbera en að mestu fyrir frjáls framlög. Þetta er svo ótrúlegt og gæti líklega ekki gerst víðar en í Portúgal.

Forsetinn kom til Pedrógao og talaði við fólkið og faðmaði það að sér. Hann virðist einlægur í samúð sinni og páfinn sendi samúðarkveðjur.

Nú er ekkert hægt að gera annað en vona að nóttin taki ekki fleiri mannslíf.

Þó að ég sé búin að búa hérna í rúm 6 ár og þetta sé árlegur viðburður venst þetta ekki. Mér líður alltaf jafn illa og að vita af vinum sínum með lífið í lúkunum og vita að þeir geta misst heimili sín eins og hendi sé veifað, er hrikalegt.

Ég talaði við þau sem búa í norður landinu og þar eru ekki eldar, ekki enn þá.

Samkvæmt veðurspá virðist öll þessi vika verða heit og ekki fyrr en á laugardag spá um að kólni niður í rúm 20 stig.

Ég held mig inni í þorpinu þar til á fimmtudag en þá þarf ég að fara upp á spítala til skrafs og ráðagerða, en þangað til er ekki ástæða til þess að vera að þvælast fyrir.

Núna er klukkan 18.56 og þegar ég lít út um gluggann á skrifstofunni minni er himinninn sem var svartur fyrir hálftíma farinn að loga. Ný grá reykský breiðast út og líklega er hringurinn að lokast. Þar sem virtist hafa tekist að ráða niðurlögum eldsins geisar hann á ný og flugvélagnýr þekur allt og rauðar eldtungur teygja sig í áttina til vélanna. Það er dýralíf í fjöllunum sem ég er að horfa á og allt verður lagt í rúst.

Við þurfum ekki hryðjuverk í Portúgal. Þau eru árviss og við höldum áfram að gróðursetja júcalyptus sem er besta fæði sem hægt er að hugsa sér fyrir hryllilegar eldtungurnar.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Bölvun sem hvílir á Portúgal -

18.júní 2017

Í gærmorgun var fallegur dagur og ég vissi að uppþvottavélin mín kæmi úr viðgerð svo ég ákvað að fara ekki á ströndina. Þetta yrði heitur dagur en ekkert annað en láta sig hafa það. Þannig hugsaði ég um morguninn og fram eftir degi.

Uppþvottavélin kom heim og 2 Portúgalar héldu á henni upp stigann og tengdu. Allt var í góðu lagi. Ég borgaði og við ræddum eitt og annað eins og gengur og gerist hér í landinu mínu. Þetta var um klukkan 4.

Stuttu seinna kváðu við sírenuhljóð og sólin tók að hverfa í skugga reyks. Brunalyktin varð sterkari. Það var yfir 40 stiga hiti og búið að kveikja í skógum. Þetta fór ekki á milli mála.

Eftir því sem leið á kvöldið dimmdi meira og lyktin varð sterkari.

Hefði ég ekki verið að bíða eftir uppþvottavélinni minni úr viðgerð væri ég á ströndinni og svalur vindur léki um mig. Í stað þess sat ég heima og var bullsveitt og leið eins og fiski í suðupotti. Ég hlakkaði til að fara til Pedrógao Grande á morgun. Það er yndisleg strönd rétt hjá Viera da Leiria en í þetta skiptið ætlaði ég að fara til Pedrógao og heimsækja í leiðinni Pedrógao Grande.

Ég kveikti á sjónvarpinu og ákvað að líta á fréttir til þess að sjá hvernig umhorfs væri á ströndinni minni fallegu og litla bænum, bænum sem er svo dæmigerður fyrir strandbæi hérna í landinu mínu.

Það logaði allt í Pedrógao Grande. Fallegu skógarnir sem voru um allt stóðu í ljósum logum. Húsin sem Portúgalarnir bjuggu í stóðu í ljósum logum. Brunnir bílar voru meðfram vegum. Fólk flýði undan eldinum, Portúgalar voru að missa heimili sín í enn einum sumar eldinum, eldum sem kvikna hér og þar um landið á hverju einasta sumri og fram eftir hausti.

Klukkan hálf sex í morgun kom nágranni minn heim. Hann er læknir. Bíllinn sem hann var á er með vatnsdælu og slökkvitæki til taks. Stór trukkur. Nágranni minn fleygði sér í sturtu og lagði sig. Hann er farin út aftur. Fór klukkan hálf níu. Konan hans er líka farin út. Það þarf að hlúa að fólkinu, ekki síst slökkviliðs fólkinu sem leggur líf sitt í hættu og oft lætur það lífið við það eitt að reyna að bjarga öðrum.

Ég hef ekki heilsu til þess að fara með þeim en ég get lagt fram fé til Bombeiros og hjálpað þannig. Hver og einn gerir það sem hann getur, ef maður er sannur Portúgali.

Í fréttum núna klukkan hálf átta eru tölur þannig:

43 látnir

59 slasaðir þar af 7 mjög alvarlega

4 bombeiros hafa týnt lífinu

1 barn er látið

19 manns létust í bílum sínum. Þeir voru að reyna að flýja eldinn en brunnu inni.18 manns hafa verið fluttir á spítala í Lisboa, Coimbra og Porto

Búist er við að tala látinna og slasaðra hækki.

Eldar loga enn og erfitt að ná tökum á ástandinu.

Versta slys í meira en 50 ár.

Allar eiga þessar tölur eftir að hækka eftir því sem líður á daginn.

Seint í gærkvöld öskruðu himnarnir og þrumur og eldingar skullu á eins og hríðskotabyssur. Engin rigning fylgdi. Allt er enn þurrt.

Á meðan ég skrifa þetta sveima flugvélar yfir bænum mínum og líta eftir. Himininn er grár. Sólin er að reyna að brjótast í gegn en tekst ekki. Reykurinn er of þykkur.

Bölvuninni verður að létta. Hvað á að gera? Ég veit það ekki. Forsetinn kom í nótt og faðmaði þá sem horfðu á heimili sín brenna til kaldra kola í Pedrógao Grande.

Í gær var laugardagur og sumarfrí að hefjast hjá sumum. Margir útlendingar sækja strandirnar á þessum tíma og þegar hitinn verður óbærilegur flýja þeir sem búa inn til landsins út að sjónum. Til þess að komast að ströndunum þarf að aka í gegnum gríðarlega stórt skógarbelti og þar loguðu eldarnir glatt í gær.

Í dag er sorgardagur í landinu mínu. Hjarta mitt er kramið.

Hulda Björnsdóttir

 


Hugleiðing á 17. júní 2017 - Íslenskir Einstæðir foreldrar í útlöndum

17. júní 2017

Í dag er þjóðhátíð og ættu allir að vera í hátíðarskapi. Ég óska öllum íslendingum til hamingju með daginn og vona að fólk verði ekki drepið á almannafæri. Mér líst ekki á vopnavæðingu lögreglu sem er undirmönnuð og í fjársvelti. Það er ekkert grín að menn geti verið í byssuleik og misjafn sauður er jú innan stéttarinnar.

Sem betur fer hafði ég vit á að flýja landi og koma mér vel fyrir í útlöndum fyrir löngu síðan. Það eru ekki allir svo gæfusamir. Sumir geta ekki yfirgefið fósturjörðina og þjást af heimþrá alla útlegðina.

Ég er svo ósvífin að þykja hálfgerð skömm að því að vera íslendingur. Ég get ekki verið stolt af því að tilheyra þjóð sem lætur sér fátt um finnast þó minnstu bræður samfélagsins líði skort, ekki bara annað slagið, heldur alla daga.

Nú flytur unga kynslóðin í stríðum straumum með börnin sín til Norðurlanda þar sem einstæðar mæður og fátækt fólk getur komið sér fyrir og haft mat á borðum alla daga. Ég gleðst með þeim sem hafa hugrekki og dug til þess að taka svona stórar ákvarðanir og bylta lífi sínu.

Eftir því sem ég kynni mér málefni öryrkja betur rek ég mig á eitt og annað sem ég skil ekki.

Eitt af því sem brennur á mér er hvernig farið er með einstæða foreldra sem sjá ekki annað ráð til þess að búa börnum sínum betra líf, en að flytja búferlum og yfirgefa Ísland.

Þessi hópur verður fyrir því að aðstæður þeirra gætu breyst það mikið að hætt sé við að flytja.

Hvernig getur staðið á því að Tryggingastofnun ríkisins hættir að innheimta meðlag frá greiðanda við það eitt að foreldri flytur úr landi?

Hvernig stendur á því að mál sem hefur ekki verið til trafala fyrir stofnunina, það er innheimta hjá greiðanda, snýst í heilan hring og ábyrgð stofnunarinnar verður núll?

Er ekkert talað um þetta? Er þetta eins og svo margt annað látið liggja í þagnarhefðinni? Einu sinni var öflugt félag einstæðra foreldra starfandi á landinu. Er það enn virkt? Hefur félagið mómælt þessum gjörningi ráðuneytisins?

Ég er ekki að ráðast á Tryggingastofnun ríkisins. Hún vinnur eftir reglum sem ráðamenn þjóðarinnar setja. Og í framhjáhlaupi get ég sagt frá því að í gær hringdi ég til stofnunarinnar út af öðrum málum. Ég talaði við þjónustufulltrúa fyrir þá sem búa erlendis og hún var vægast sagt frábær. Hún svaraði því sem ég spurði um og það sem hún ekki vissi benti hún mér á hvar þær upplýsingar væri að fá. Ég kvarta og kveina þegar mér er illa tekið en ég þakka ekki síður fyrir það sem vel er gert.

Eins og þeir vita sem vita vilja, þá getur verið erfitt fyrir foreldri sem hefur forsjá með barni að semja við hitt foreldrið um greiðslur á lögbundnu meðlagi. Tryggingastofnun tekur að sér að innheimta hjá greiðanda, ef barnið býr á Íslandi, en hættir því ef barnið flytur til útlanda. Þetta er svo óskiljanleg ráðstöfun og svo ómanneskjuleg að mig skortir orð, og er þá mikið sagt þegar ég verð orðlaus.

Hefur einhver tekið þetta mál upp við ráðherra?

Hefur einhver áhuga á því að gera eitthvað í málinu?

Eða er þetta kannski eins og með yfirstrikun eldri borgara þegar þeir flytja til útlanda svo hægt sé að hafa mat á borðum á 17. júní í stað þess að lepja dauðann úr skel á Íslandi hinna ríku prinsa? Það er aldrei talað um þær skerðingar. Líklega er þetta sams konar mál, það er mál einstæðra foreldra. Ekki tala um það sem er óþægilegt og alls ekki að gera neitt til þess að breyta vitleysunni.

Félag einstæðra foreldra hefur samkvæmt því sem ég gúgglaði, lögfræðing a sínum snærum og fleira starfsfólk. Mig langar til þess að vita hvort félagið hafi rætt við ráðamenn um þessa ráðstöfun Tryggingastofnunar, að hætta að innheimta meðlag þegar flutt er með barnið úr landinu?

Eftir helgi ætla ég að hringja í félagið og ræða við þau. Svör hlýtur að vera hægt að fá.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Þegar fólk skilur ekki hvenær tími er til að hætta !

16.júní 2017

Nú hef ég verið svo ótrúlega spök í nokkurn tíma og líklega mál að linni.

Nýr formaður Landssambands elri borgara, Þórunn H. veit greinilega ekki hvenær æskilegt er að fara að njóta lífsins og hætta vonlausum barningi.

Ég held að hennar vitjunartími sé núna.

Þeir sem eru í stöðum sem taka yfir þúsundir manns og hafa ekki vit til þess að nota gagnrýni til uppbyggingar eru ekki á réttri hillu og ættu að fá sér aðra.

Ég las viðtal við frúna í Lifðu núna, og reiddist svo heiftarlega að talning upp að hundrað nokkrum sinnum dugði ekki og ég ákvað að þegja þar til reiðin væri að mestu runnin af mér og flogin út í buskann.

Nú held ég að rétti tíminn sé kominn fyrir mig að tjá mig um málið á málefnalegan hátt.

Frúin heldur því fram að þeir sem gagnrýna hana séu bitrir einstaklingar sem hafi orðið undir í lífinu og misst sitt í hruninu. Hún lýsir því yfir að það þurfi að sýna þessum aumingjum (hún segir ekki beint aumingjum, það eru mín orð) umburðarlyndi.

Ég verð að segja að mér leiðist hin móðurlegi tónn og finnst hann móðgandi, bæði fyrir mig og aðra. Það kemur gagnrýni á störf frúarinnar ekkert við hvort ég eða aðrir hafa misst eitt eða annað. Við erum fólk með skoðanir og þær eru ekkert minna virði en þær sem hin móðurlega frú setur fram.

Mikið vildi ég að hún hefði haft vit á því að taka sér hvíld frá störfum og hætti að grautast í málefnum eldri borgara. Hún hefur ekki komið svo ýkja miklu í verk eða verið til góðs fyrir stéttina. Það er ekki nægilegt að skreyta sig með orðu fjöðrum. Það þarf að vera fólk með bein í nefinu sem berst fyrir bættum kjörum þeirra sem lepja dauðann úr skel. Þetta bein hefur frúin ekki, að mínu áliti.

Það er hægt að tala og tala og tala og tala og tala endalaust um ekki neitt. Árangur er það eina sem mælist, ekki fagurgali.

Svangir eftirlaunaþegar borða ekki fagurgala. Hann er óætur því miður. Væri hann ætur þyrfti ekki frúna, það væri nóg að bíta og brenna frá vörum og fagurgala Panamaprinsins.

Ég vildi óska þess að þeir sem hafa sig í frammi og halda því fram að þeir séu að vinna fyrir eldri borgara hættu að beita fyrir sig fagurgala og færu að vinna fyrir fólkið, fyrir allt fólkið en ekki bara nokkra útvalda.

Það eru þó nokkrir eldri borgarar sem hafa það fínt. Sem betur fer og gleðst ég yfir því.

Líklega er það hópurinn sem kýs aftur og aftur Panamaprinsa og prinsessur.

Hinn hópurinn, sá sem  á helst  ekki að tala um, og alls ekki að berjast fyrir, lepur dauðann úr skel. Á ekki fyrir mat. Á ekki fyrir húsaskjóli og sér þann kost einana í stöðunni að stytta sér aldur og komast úr prísundinni fyrr en ella.

Hin orðu prýdda frú ætti að taka sér frí. Hún ætti að fara að sinna vinum sínum og þeim sem henni þykir vænt og hætta að þvælast fyrir okkur hinum bitru aumingjum sem misstum eitthvað í hruninu og komum ekki auga á geislabaug frúarinnar.

Það er allt mögulegt í boðið fyrir svona fínar frúr. Hún gæti til dæmis farið í Sumba eða leikfimi og komið sér í flott form. Það er aldrei of seint að byrja. Bara að hætta að þvælast fyrir.

Hulda Björnsdóttir 


Eldar loga í Portúgal

15.júní 2017

Í dag er frídagur hér í landi. Corpus Christi er einn af fjölmörgum trúarlegum hátíðum hér og annar er eftir nokkra daga í Porto. Feast of St John the Baptist heitir hann. Svo eru dýrlingadagur hér og dýrlingadagur þar allan ársins hring. Ég ruglast auðvitað í þessu, trúlaus manneskjan á kalþóska vísu.

Í dag er unaðslegt veður og 30 stiga hiti. Svona veðri og sumrinu öllu fylgir kvöl. Í hverjum bæ eru starfandi slökkvilið sem heita Voluntarios Bombeiros. Það eru nokkrir sem vinna allan ársins hring og eru í sjúkraflutningum með. Yfir sumartímann eru svo ráðnir menn og konur til viðbótar vegna aukins álags.

Það þykir sjálfsagt að eldar geysi öll sumur.

Fyrr í dag, fyrir 2 klukkutímum hljómaði söngur brunabílanna og þá vita allir að nú er búið að kveikja í. Það fer hrollur um mig í hvert skipti og þegar maður hefur ekið í gegnum skógarelda þá hverfur sú minning aldrei. Í dag var eldurinn ekki langt héðan en tókst að ráða niðurlögum hans fljótlega.

Hið sorglega við þetta allt saman er að hitinn er ekki sá sem kveikir í. Stundum eru það bændur og stundum brennuvargar sem njóta þess að sjá eldana í sjónvarpi og þeir upplifa frægðina, jafnvel þó þeir sjáist ekki.

Stundum nást glæpamennirnir og eru settir inn en sleppt fljótlega.

Oft látast ungu mennirnir við störf sín, landið er fjöllótt og skógi vaxið, svo tugir metra geta verið niður hlíðina sem logar.

Þetta er eitt af því sem útlendingum, ferðamönnum, finnst svo fallegt við landið. Þessir djúpu skógi vöxnu dalir. Auðvitað skilja útlendingar sem ferðast í nokkrar vikur ekki landið. Þeir hafa ekki hugmynd um eitt eða neitt. Koma bara og skoða gamlar byggingar og dásama rústir sem liggja út um allar trissur og klífa kastala sem eru allir eins. Þetta er ágætt fyrir ferðamennina sem fara sem betur fer heim aftur fljótlega og halda ekki vatni yfir fegurð Lisboa og Porto ásamt stöðunum sem þeim eru sýndir. Það er ekkert verið að fara með svona fólk á brunarústa staði þar sem trén gráta og jörðin er sviðin og allt líf tekið burtu í einni svipan.

Það versta við þetta allt saman er að liðið, ferðaliðið, ekur um á risa húsbílum og eyða ekki krónu í landinu, nema kannski bensíni. Ef þetta lið gæti nú verið á hótelum og skilað inn gjaldeyri væri málið svolítið annað.

Ég hef þurft að nýta mér þjónustu Bombeiros hérna í Penela nokkrum sinnum þegar þeir hafa flutt mig á spítala. Ég er aldrei rukkuð fyrir og ákvað að styrkja stofnunina því hún er rekin að mestum hluta fyrir gjafafé.

Gerði ég mér nú ferð og hitti vini mína hjá Bombeiros og spurði hvað væri venja að leggja fram.

10 evrur sögðu þau.

Ha, 10 evrur á mánuði? spurði ég

Nei, á ári, var svarið.

Ég missti andlitið niður á bringu

Þetta er Portúgal, sögðu þau mér.

Ég var með 80 evrur í veskinu og rétti þeim þær. Ég skil ekki hvernig fólk getur stært sig af því að styrkja fyrirtækið með 10 evrum á ári. Það er ekkert. Fólkið leggur líf og limi í hættu og er alltaf til taks ef við þurfum á sjúkrabíl að halda. Þau keyra þá sem eru í dagvistun og svona gæti ég haldið áfram.

Ég spurði hvernig þetta væri með útlendingana, hvort þeir legðu ekki meira af mörkum. Nei.

Andskotans nískupúkar þessir útlendingar í stóru húsunum. Þeir væla þegar kviknar í nálægt þeim. Þeir eyða fúlgum í vín og mat og svo tíma þeir ekki að láta af hendi rakna almennilegt framlag einu sinni á ári til okkar ástsælu Bombeiros sem eru alltaf á vaktinni. Nei þeir halda basara og alls konar samkomur til þess að styrkja hundasamfélag. Hundasamfélag, hah.

Ég ætla í næsta mánuði að fara aftur til Bombeiros og hafa með mér nokkrar evrur. Það fara í hönd hrikalegir mánuðir og eldarnir byrjuðu að loga hér í nágrenni í dag. Fólk heldur áfram að þurfa sjúkrabíla, bæði ég og aðrir. Ég get lagt þeim lið og þeir eiga það skilið.

Það er óttalega andstyggilegt ýmislegt sem ég verð vitni að og mikið er ég fegin að vera ekki í útlendinga samfélaginu hérna. Líklega er ég portúgalskari en margur Portúgalinn þegar á heildina er litið, eða þannig. Verst hvað ég er eitthvað litið kaþólsk.

Hulda Björnsdóttir

 


Hvernig þróunin hefur verið í Portúgal undanfarin 15 ár.

15.júní 2017

Fyrir nokkrum dögum sátum við, ég og portúgalskur vinur minn og pældum í breytingum sem hafa orðið í landinu undanfarin ár.

Ég hef ekki búið hérna nema rúm 6 ár en hef þó séð miklar breytingar á þessum stutta tíma.

Atvinnuleysi hefur aukist og þeir ríku orðið ríkari og þeir fátæku fátækari. Meðaltöl sýna há meðal laun og gefa kolranga mynd af hinu raunverulega ástandi.

Laun lækna hér eru 1.100 evrur á mánuði

Laun hjúkrunarfræðinga eru með alls konar aukavöktum í kringum 1.000 evrur.

Laun þeirra sem vinna í búðum, á hótelum, í veitingarekstri og fleiru slíku eru um það bil 600 evrur á mánuði.

Unga fólkið flytur í burtu og leitar eftir vinnu í öðrum löndum.

Gamlir feitir Bretar kaupa land og byggja risa hús með sundlaugum úti í skógi og hafa sem allra minnst samband við innfædda. Þeir halda hópinn og umræðan er matur, vín og skemmtanir. Hér í bænum mínum er ein fjölskylda sem hefur búið hérna yfir 20 ár. Hjónin tala ekki málið. Synirnir tala portúgölsku. Ég hitti þetta fólk um daginn og þau voru að kvarta yfir Brexit og því sem væri væntanlegt varðandi þeirra hag. Þau spurðu mig út í heilsugæslu mál mín og héldu að það væri flókið eins og hjá þeim. Ég hef reyndar aldrei skilið fyrirkomulagið og ekki sett mig inn í það en þó séð nokkrum sinnum á heilsugæslustöðinni pappírs tuðið sem Bretarnir eiga við að etja.

Ég kom ekki til Portúgal frá Íslandi og hafði fyrir löngu misst öll mín réttindi á Íslandi. Lögfræðingurinn minn sá um að koma mér inn í kerfið hérna og við fórum á heilsugæsluna og brostum. Allt gekk eins og í sögu og ég komin inn eins og hver annar Portúgali. Ég borga mína skatta hér og nýt allra þeirra réttinda sem í boði eru. Ég er semsagt bara portúgölsk en Breta greyin halda áfram að vera Bretar! Ekki vorkenni ég þeim og mér er nokk sama hvað Brexit gerir fyrir þau.

Vinur minn sagði mér frá því hvernig þetta var fyrir 15 árum í landinu. Þá fór fólk í vinnu til annarra landa, rétt eins og nú. Hins vegar kom fólkið aftur. Það byggði sér hús hérna og kom heim í sumarfríum og jólafríum og dvaldi í húsunum sínum. Margir eiga stórar eignir frá þessum tíma. Um sumarið hlúði fólkið að garðinum og naut þess að horfa á ræktunina og hlakkaði til þess að komast á eftirlaun og njóta þess sem þau voru að byggja upp.

Núna flytur unga fólkið úr landi í atvinnuleit og kemur ekki aftur. Þau setja upp heimili í nýja landinu og byggja hús þar. Þau koma sér ekki upp húsi í Portúgala. Þau koma í heimsókn í nokkra daga og fara svo aftur til nýja landsins.

Allt hefur þetta áhrif á viðskipti í Portúgal. Smá fyrirtæki sem blómstruðu yfir sumartímann og jól og áramót berjast nú í bökkum. Uppgripa tíminn er liðinn. Það eru ekki stór hús sem þarf að halda við eða stórir garðar sem líta þarf eftir. Húsin og garðarnir eru í nýja landinu. Tekjurnar skila sér ekki til gamla landsins. Eftir sitja svo þeir eldri og berjast áfram af veikum mætti.

Hvort Bretarnir halda áfram að byggja stóru húsin úti í skógi og kaupa lönd er hulið enn sem komið er. Veitingahúsin sem þeir sækja færu mörg á höfuðið ef át þeirra og drykkja hyrfi.

Hvað verður um Portúgal í framtíðinni veit enginn. Eitt er þó víst. Unga fólkið sem fer til náms eða í atvinnuleit til annarra Evrópu landa skilar sér ekki til baka. Eftir sitja hinir eldri og ríka fólkið sem kaupir nú upp lönd og jarðir fyrir lítinn pening og frægir popparar kaupa sumarhallir hingað og þangað.

Það kom blik í augu vinar míns þegar hann rifjaði upp hvernig þetta var. Þeir tímar voru uppgangstímar fyrir hann og fjölskylduna. Núna er niðursveifla og þau þakka guði fyrir hvern einasta útlending sem rekur inn nefið.  Þessi vinur minn er ekki gamall en hann er ekki á förum. Hann verður hér með fjölskyldunni og þau reyna að halda sér á floti jafnvel þó á móti blási.

Ég kom til þeirra í gær og þar voru nokkrir feitir Bretar að versla í hitanum og sólinni. Eldrauðir í framan og axlir brunnar. Ég sat á mér en mikið langaði mig til þess að segja þeim að það væri rauð aðvörun á hverjum degi vegna hættu á UV geislum. Mér kemur þetta auðvitað ekkert við og þau geta sleikt á sig rauðan lit endalaust og etið á sig skvap. Þau eru Bretar og reyndu að sökkva íslensku varðskipunum þegar ég var ung. Maður fyrirgefur nú ekki allt.

Hulda Björnsdóttir 

 


Forsetinn átti að skrifa undir !

9.júní 2017

Nú er hávær umræða og krafa um að forsetinn eigi ekki að skrifa undir ákveðin lög.

Fólk bregst ókvæða við og finnst hann hafa brugðist með því að skrifa undir ósómann.

Í öllum látunum gleymist að pappírinn fór í gengum alþingi Íslendinga og þingheimur samþykkti gjörninginn.

Það er ódýrt að hamast á forseta. Hann tók sér tíma til þess að skoða málið og byggði ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem hann fékk.

Þeir sem nú djöflast og skammast í forsetanum mættu kannski aðeins staldra við og hugsa málið til enda.

Við höfum alþingi og þar sitja 63 hálaunaðir þingmenn sem hafa valdið. Þessir 63 tóku ákvörðun og þeir verða að kyngja henni. Þingmenn geta ekki velt ábyrgð á eigin dugleysi yfir á forsetann. Neitunarvald forseta er neyðarúrræði sem á ekki að nota eins og brjóstsykurmola upp í óþægan krakka.

Þjóðin kaus þá þingmenn sem nú sitja á hinu háa alþingi.

Forsetinn brást ekki.

Þjóðin brást.

Þjóðin kaus sukkið þrátt fyrir hávær mótmæli. Þjóðin ber ábyrgð á því að koma þeim sem sitja á alþingi til valda. Þjóðin kýs aftur  og aftur spillingu og nýir flokkar rísa upp til þess að breyta öllu. Þessi nýju flokksbrot eru ekkert betri en sukkararnir sem fyrir eru. Þetta snýst allt um valdabrölt. Almenningur skiptir ekki máli. Fagurgali og orðahnippingar eru bara til að sýnast. Völd eru málið. Völd til þess að viðhalda spillingunni eru það eina sem skiptir máli. Undirgefinn almúginn grætur svo úti í horni og skammar forsetann fyrir að taka ekki fram fyrir hendurnar á handónýtu alþingi.

Ábyrgðin er alþingismanna og þeir sem ekki sjá það eru staurblindir og halda áfram að mata krók þeirra sem eru að sökkva íslensku þjóðfélagi endanlega í spillingu og viðbjóð.

Hulda Björnsdóttir 


Fatlaðir þurfa á okkur að halda

9.júní 2017

Fyrir nokkrum dögum fór ég í súpermarkaðinn eins og lög gera ráð fyrir. Ekkert óvenjulegt við það. Venjulega fer ég á sama stað. Það er hagkvæmt, ég veit hvar allt er og get skipulagt ferðina áður en ég legg af stað og kaupi ekki einhverja vitleysu. Hafi ég ekki gert lista áður en ferðin hefst ramba ég ef til vill í gegnum búðina og kem auga á eitt og annað sem væri gott að hafa til taks! Ekki sérlega hagkvæmt !

Það eru reyndar 3 markaðir sem ég heimsæki, einn fyrir fisk og kjöt osta, annar fyrir grænmeti og ávexti og sá þriðji fyrir allt annað.

Ég var í "allt annað" markaðinum fyrir nokkrum dögum með lista og alles. Þurfti auðvitað að spjalla við hina og þessa sem ég mætti en þegar ég kom að básnum þar sem eggin eru sá ég konu sem ég hélt ég þekkti. Hún stóð við básinn þar sem heiti maturinn er seldur, með stóra innkaupakerru og hún svo smá að ekki sást mikið meira en höfuðið fyrir ofan körfuna. Ég gekk til konunnar en þetta var ekki sú sem ég hélt. Þessi kona var hins vegar með hækjur og fötluð rétt eins kunningjakona mín.

Ég hélt áfram að versla og fatlaða konan líka. Ég sá hana nokkrum sinnum og jafnt og þétt varð innkaupakerran hennar þyngri.

Í fyrstu velti ég þessu ekki fyrir mér en eftir því sem á leið og erfiðara var að hemja kerruna vöknuðu upp ýmsar tilfinningar. Hefði þetta verið kunningjakona mín mundi ég hafa boðið henni aðstoð og við farið saman í gegnum búðina.

Þegar kom að kassanum og ég beið í röð til þess að borga sá ég fötluðu konuna bisa við að taka upp úr kerrunni og setja á færibandið. Það kreisti eitthvað hjarta mitt. Ég fann til. Hún var ekki á sama kassa og ég. Hvað átti ég að gera? Röðin var komin að mér að borga. Ég greiddi fyrir vörurnar mínar og enn var þessi hönd að kremja hjartað mitt. Þegar ég hafði lokið mínu var konan enn í röðinni.

Mig langaði til þess að skilja dótið mitt eftir og fara inn fyrir og hjálpa henni. Fólkið í kring um hana gerði ekki neitt.

Ég fór ekki inn fyrir. Ég veit ekki hvernig henni reið af en hjartað í mér finnur enn til.

Hvers vegna hjálpaði ég henni ekki?

Ég þekkti hana ekki og var hrædd um að hún tæki það óstinnt upp ef ókunnugur útlendingur færi að skipta sér af hennar málum.

Ég var hrædd um að henni finndist það niðurlæging að þurfa aðstoð.

Ég hefði getað farið til hennar og hvíslað að henni hvort hún vildi að ég aðstoðaði hana. Enginn í kringum okkur þyrfti að vita ef hún þægi ekki hjálpina.

Ég gerði ekkert þennan dag en næst þegar ég lendi í slíkum aðstæðum kem ég ekki heim með kramið hjarta. Ég get boðið fram aðstoð svo lítið beri á og það mun ég gera.

Niðurstaða mín er sú að kannski aðstoðum við ekki þá sem þurfa á okkur að halda vegna þess að við erum hrædd.

Það er ekkert að óttast. Nærgætni er það sem skiptir máli.

Mér er oft boðin hjálp og stundum þigg ég hana og stundum ekki. Ég er ekki fötluð en mér þykir vænt um ef fólk sýnir mér umhyggju. Ég er viss um að fötluðu fólki hlýnar um hjartræturnar ef við sýnum þeim hlýju og látum þau vita að við séum til staðar, jafnvel þó við þekkjum einstaklinginn ekkert.

Hulda Björnsdóttir


Hvítasunna í Portúgal

4.júní 2017

Í dag er Hvítasunnudagur og óska ég öllum íslendingum gleði og gæfu um þessa helgi.

Hér í mínu landi, landi kaþólskunnar, er ekki haldinn hátíðlegur annar í Hvítasunnu. Í dag er hins vegar þó nokkuð um að vera í mörgum bæjum, þó ekki öllum. Ég hef til dæmis ekki orðið vör við neitt hér í Penela enn. Þetta gæti þó breyst eftir hádegi.

Á morgungöngu minni var ekki hræða á ferð og aðeins einn hundur sá ástæðu til þess að gelta að mér. Hann er í bandi og innan girðingar svo ekki stafar hætta frá honum þó hann amaðist við því að vera ónáðaður eldsnemma morguns þegar allir eiga að vera í fasta svefni. Ekki langt frá mér eiga húsráðendur hænsnabú og er bara notalegt að heyra í hananum og sjá hvernig hænurnar dansa í kringum höfðingjann sem lætur sér fátt um finnast. Minnir mig alltaf svolítið á Bjarta Framtíð og Bjarna Ben. Svo sætt!

Núna um eitt leitið er logn að mestu og sól. Það er ekki mikill hiti en ætti að fara upp í 20 stig eftir klukkutíma eða svo. Þrátt fyrir lítinn hita er UV viðvörun. Þegar sólin skín og himininn er algjörlega heiður er sett upp viðvörun og fólk beðið að skýla höfði og augum. Ég reyni að fylgja þessum ráðum en ríf venjulega af mér höfuðfatið fljótlega þó ég haldi sólgleraugunum.

Ég þekki vel til undirbúnings Hvítasunnu í Mulalinus, sem er fyrir norðan, en þar hefur verið mikið að gera undanfarna daga. Kirkjan öll þrifin og blómum skreytt. Styttur teknar niður því þær fara með í gönguna í dag. Söngur og bænir í morgunsárið inni í kirkjunni og fólk safnast saman fyrir utan og bíður þess að taka þátt í skrúðgöngunni. Presturinn gengur í broddi fylkingar með krossinn og heimsækir alla í sókninni. Það er komið við á hverju heimili. Göngufólki er boðið upp á hressingu og aðeins staldrað við. Síðan er haldið af stað aftur í næsta hús og svo koll af kolli þar til allir hafa verið heimsóttir. Eftir skrúðgönguna, sem tekur nokkra klukkutíma, er haldið til baka og styttum skilað til síns heima, í kirkjuna. Á morgun tekur svo við annað annasamt tímabil hjá þeim sem sjá um kirkjuna. Það þarf að taka niður blómaskreytingar og koma styttum fyrir á sínum stað. Þeir sem hafa séð um undirbúninginn eru þreyttir og þurfa hvíld í nokkra daga. Flest hafa þau tekið part af sumarfríinu sínu í þetta og sjá ekki eftir því. Það er gert meira úr Hvítasunnunni hér en Páskunum.

Á morgun tekur við hversdagurinn og brauðstritið með öllu því sem fylgir.

Ferðamanna straumurinn er hafinn og húsbílar um allt. Vínviðurinn er orðinn iðagrænn og kræklurnar í felum þar til næsta haust. Brátt fara berin að líta dagsins ljós og alls ekki svo langt í uppskeru. Tíminn flýgur áfram og þegar ég keyrði fram hjá vínekrunum í gær fór ekki á milli mála að trén höfðu teygað rigninguna daginn áður.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar Hvítasunnu

Hulda Björnsdóttir

 


Eldri borgarar VERÐA að láta í sér heyra. Grátkonan á Alþingi hjálpar ekki

31.maí 2017

Það var haldinn fundur á Austurvelli og mótmælt sameiningu skóla.

Það var haldinn annar fundur á Austurvelli fáum dögum síðar og var verið að mótmæla kjörum eldri borgara og öryrkja.

Á seinni fundinn mættu örfáar hræður, enda rigndi glatt.

Var það bara rigningin sem kom í veg fyrir sama fjölmenni og á fyrri fundinum? Ég efast um það. Hið dæmalausa sinnuleysi sem ríkir hjá okkur, eldri borgurum, um hag okkar og framtíð er óskiljanleg.

Grátkonan er komin á alþingi og grætur þar fyrir framan alþjóð vegna þess hve illa er komið fram við hana. Grátkonan góða er með á aðra milljón í laun á mánuði, og samt grætur hún.

Hefði nú ekki verið vænlegar fyrir hana, þ.e. grátkonuna, að fá sér eitthvað annað starf þar sem allir eru góðir við hana?

Mér finnst það móðgun við mig og þjóð mína að standa í ræðustól alþingis íslendinga og grenja af sjálfsmeðaumkun.

Það er búið að marg auglýsa hve vondir íslendingar hafa verið við þessa grenjandi frábæru konu. Það vita allir að hún á bágt að þurfa að díla við "betli" fólk sem nennir ekki að vinna.

Hún og hennar flokkur hefur sýnt svo ekki verður um villst að betlarar eiga ekki að hafa heimili á Íslandi. Betlarar eiga að vera í útlöndum. Þeir eiga ekki að þvælast fyrir þeim sem komu frá Ameríku til þess að auðga íslenskt mannlíf og eru nú komnir með sæmileg laun, loksins, eftir margra ára baráttu og hugsið ykkur, að þurfa að skúra til þess að sjá fyrir sér! Er það furða þó grátkonunni þyki þjóðin vanþakklát. Svona líka flottur grátur sést ekki á hverjum degi.

Ef þið eruð að ybba ykkur bara af því þið eruð í hjólastól ættuð þið að skammast ykkar. Vitiði ekki að grátkonan sér í gegnum plottið? Hún veit vel að þið eruð bara að plata og þykjast vera veik svo þið getið "betlað" af henni peninga.

Ekki betlar grátkonan. Ó nei, það hefur hún aldrei gert og svo er líka svo dásamlegt að hún þarf ekki að hafa áhyggjur af því að verða gömul. Hún er nebbla fyrrverandi þingmaður, þegar hún verður gömul, og þingmanna eftirlaun eru nú ekkert slor.

Hvað er þá til ráða fyrir okkur eldri borgara þessa lands?

Eigum við að fara skælandi niður á Alþingi í haust þegar þau koma öll sveitt og sæl eftir langt og gott sumarfrí?

Eigum við bara að láta troða okkur niður í svaðið og láta gráta yfir því hvað við erum óendanlega vanþakklát og ósvífin?

Kannski fáum við fallegt bréf frá Þorsteini Víglundssyni þar sem hann útskýrir fyrir okkur að við skiptum ekki máli. Við séum baggi á þjóðinni og ættum helst að fara til himna sem allra fyrst svo það þurfi ekki að púkka upp á okkur.

Kannski fer ungliðahreyfing Pírata að hugsa um að hún eigi jú afa og ömmur sem hafi það ekki allt of gott og þeim gæti dottið í hug að tala um þetta úr ræðustól á Alþingi í haust. Ekki fer ungliðahreyfingin að grenja fyrir framan alþjóð. Nei þeir eru sko alvöru fólk.

Svo er það Gráhærða fína fólkið í hernum sem er þrælupptekið við að útvega húsnæði og viðurværi fyrir BBC fólkið sem kemur í sumar til þess að kynna sér aðstæður þeirra sem eru yfir 50 ára á Íslandi.

Er þetta ekki dásamlegt allt saman?

Bjart og fallegt framundan og ekki versnar það við að auglýsa í útlöndum hin dásamlegu kjör þeirra sem ætla sér að vinna fram í rauðann dauðann og nú er komin fram hávær hugmynd um að eldri borgarar þurfi á þing.

Hver kemur fyrst upp í hugann sem væntanleg grátkona? Jú, einmitt. Formaður Landssambands eldri borgara. Skyldi það verða raunin að hún sé nú að stefna inn á þingið til þess að eyða næstu árum í þykjustuleik fyrir eldri borgara?

Eldri borgarar verða að finna einhver ráð til þess að bæta kjör sín án þess að senda einhvern lepp inn á þing, lepp sem verður algjörlega gagnslaus.

Ég skora á eldri borgara sem tilheyra ekki 14% hópnum að láta heyra í sér. Það geta ekki allir hafa kosið BB eða afkvæmi Sjálfstæðisflokksins, það bara getur ekki verið.

Hulda Björnsdóttir

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband