Lifðu núna - Grái herinn - Fyrir hverja eru þessar síður?

23.júní 2017

Það eru nokkrar síður á Facebook sem fjalla um málefni eldri borgara og stundum eru þar viðtöl.

Viðtal við frú Þórunni H. birtast á báðum þessum síðum um hæl.

Nú sá ég viðtal við enn einn popparann sem er kominn á eftirlaun.

Svo hafa verið viðtöl við ýmsa sem hafa breytt um lífstíl og minnkað við sig húsnæði og fleira.

Nú spyr ég:

Af hverju hef ég ekki séð eitt einasta viðtal hjá Grá hernum eða Lifðu núna þar sem fjallað er um og talað við þá sem eru að deyja úr hungri vegna þess hve lífeyrir þeirra er af skornum skammti?

Af hverju eru þetta að mestu glansviðtöl við þá sem hafa það glæsilegt á efri árum og njóta þeirra í botn?

Ég geri mér grein fyrir því að herinn og Lifðu núna eru tengd vinaböndum og má sjá sömu viðtölin hjá báðum oft og tíðum.

Herinn birtir skrif Björgvins H. eins og um súkkulaði af bestu gerð sé að ræða.

Skrif Björgvins eru ágæt en það eru ábyggilega fleiri sem taka þessi mál að sér en herinn lítur ekki við.

Nú legg ég til að Lifðu núna taki nokkur viðtöl, kannski svona 10, á næstu vikum við þá sem hafa það verulega skítt eftir 65 ára aldurinn.

Ég legg líka til að herinn birti þessi viðtöl á sínum síðum og sé jafn fljótur og þegar haft er drottningarviðtal við formann landssambandsins.

Æsifréttir Kjarnans um ofgreiðslur Tryggingastofnunar ættu líka að vera í fyrsta sæti hjá báðum þessum síðum og bullið leiðrétt.

Upplýsingar til þeirra sem nú velta fyrir sér hvernig í veröldinni TR kemst að raun um að þeir skuldi stofnuninni ættu að vera kappsmál þessara beggja.

Hvar eru tillögur til útbóta hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um fátæktina hjá hernum?

Hvar er umfjöllun um þá sem svíkja út úr lífeyriskerfinu með því að gefa upp röng heimilisföng? Hvenær fjallaði herinn um þau mál?

Lífið er ekki bara dans á rósum og sala á stórum húsum og flott make up og hárgreiðslur fyrir þá sem fara á eftirlaun. Nei það er nefnilega til fólk, og fullt af því, sem hefur ekki yfir 533 þúsund í lífeyrissjóði á mánuði, eða á stórar eignir til þess að selja og getur flutt til annarra landa og keypt sér flottar eignir þar. Lífið er ekki bara saltfiskur. Það er líka úldið kjöt.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Hvers vegna geysa eldar á hverju ári í Portúgal?

23.júní 2017

Í dag föstudag eru eldarnir að mestu "under control". Þeir verstu sem hafa geisað í landinu í 50 ár.

Að loknum svona harmleik þurfa allir að staldra við og skoða hvað veldur.

Hvað er það sem gerist á hverju ári sem kveikir elda í fallegu skógunum?

Hvers vegna er talað um að þetta séu verstu eldar í 50 ár?

Ýmsar raddir eru nú háværar innan lands og utan. Sérstaklega háværir eru Bretarnir sem vita allt betur en allir aðrir. Þeir kenna ölu og ölum um og auðvitað eru sökudólgarnir innfæddir!

Í gær morgun ók ég til Coimbra og heim aftur seinni partinn.

Á leið heim var breskur bíll á undan mér, eða alla vega á breskum númerum. Út úr bílnum flaug skyndilega sígaretta. Hún lenti á veginum en hefði hæglega getað flogið 2 metra í viðbót og kveikt í. Bretarnir skammast yfir því að heimamenn hendi sígarettum út um bílgluggann. Þeir sjá ekki flísina í eigin auga.

Ecalyptus er kennt um eldana núna.

Meðfram vegunum eru engin ecalyptus tré og samt kviknar í þar.

Það sem veldur því að við tölum um þessa bruna sem hina verstu í 50 ár er mannfallið. Það er ekki stærð eða fjöldi eldanna. Það eru öll lífin sem glötuðust. Heimilin sem brunnu eru heldur ekki fleiri en oft áður.

Vinkona mín er hótelstýra á litlu hóteli sem er fyrir norðan. Þau eru uppi í fjöllunum. Yndislega fallegur staður og þar er fullt af trjám. Eigandi hótelsins hefur séð um að þau hafa greiðan aðgang að vatni úr öllum áttum ef kviknar í. Hann sér líka um að allur grunn gróður er hreinsaður burt, það er það sem hreinsa ber og er ekki jurtir og grænmeti. Land hótelsins er hreint og allar nauðsynlegar ráðstafanir til taks komi til þess að eldar kvikni. Þar sem land hótelsins endar tekur við annað land og þar eru líka tré. Eigandi þess lands hirðir ekki um að hreinsa dauða gróðurinn. Þar er allt í órækt og eldmatur eins og hann gerist bestur. Hóteleigandinn talaði við kauða og bað hann að þrífa landið.

Nei, það kom ekki til mála. Eigandinn ætlaði sko ekki að fara að eyða peningum í að hreinsa dauðar greinar og undirgróður. Ekki aldeilis.

En það stafar hætta fyrir okkur af hirðuleysi þínu, sagði hóteleigandinn. Kemur mér ekki við, sagði hinn.

Til þess að bjarga sinni eign ætlar hóteleigandinn að hreinsa lóð nágrannans. Hann rekur fyrirtæki sem tekur á móti ferðamönnum og honum er í mun að tryggja öryggi þeirra. Nágranninn samþykkti að lóðin yrði hreinsuð en hann ætlar ekki að borga krónu.

Því miður er þetta oft og tíðum viðhorfið. Einn hreinsar og annar ekki. Þeir sem ekki hreinsa bera líka ábyrgð á árlegum harmleik, en þeim er alveg sama.

Trjám hefur líka verið plantað of nálægt þjóðvegum. Ég keyri í gegnum þéttan gróður í hvert sinn sem ég fer út fyrir þorpið mitt. Þeir sem mala hæst núna, Bretarnir, gera sér ekki grein fyrir því að þessi tré hafa verið þarna í áraraðir. Það er tekinn vökvi úr þessum trjám og hann nýttur. Þau eru grisjuð reglulega og ný ekki gróðursett. Ekki einu sinni ecalyptus. Lyptusinn er innar í skógunum.

Fyrir framan íbúðina mína er stórt tré, tré sem ég hef kvartað yfir í mörg ár og bent á eldhættu. Sex íbúðir eru í blokkinni. 2 halda fast í fjandans tréð. Enginn gerir neitt í málinu. Þeim kemur þetta ekki við.

Fyrir aftan blokkina er runni sem stendur mjög nálægt. Ég horfi beint niður á hann þegar ég stend á svölunum mínum. Ég hef marg beðið um að hann yrði fjarlægður. Nei, kemur ekki til mála.

Þegar ég flutti hingað var aldrei hugsað um að fjarlægja dauðan gróður. Hann var bara þarna og kom engum við. Ég tók mig til og fékk fólk til þess að slá garðinn. Þegar ég ætlaði að rukka fyrir fékk ég blákalt nei. Þetta var óþarfi sögðu nágrannar. En hvað með eldhættu? spurði ég. Enginn hætta hér, var svarið. Ég lét slá garðinn í 5 ár og greiddi fyrir. Þetta kostaði engar formúur en mér leið betur. Viðbjóðslega tréð fyrir framan reyndi ég að drepa í fyrra með eitri en gekk ekki. Nú ætla ég að vona að það verði höggvið þegar gert verður við vatnslekann því það þarf að grafa garðinn upp. Til þess að vera alveg örugg er ég á leið í byggingavöruverslun til þess að finna koparnagla eða skrúfur og ætla mér af sérstakri trévonsku minni að drepa viðbjóðinn með því að negla í það kopar.

Vandamálið sem ég hef við nefið á mér er út um allt land, bara í stærri stíl og þegar kviknar í verður urgandi bál sem eyrir engu.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þetta árið í eldvörnum landsins.

Pollíönnu leikur dugar ekki. Það er hægt að stinga hausnum í sandinn og vona það besta en því miður leysir það ekki málið.

Vakna stjórnvöld til lífsins og fara að reka slökkvistöðvar fyrir ríkisfé, eða sigla þau áfram að feigðarósi?

Ég veit það ekki en held þó í vonina um að það komi rigning.

Hulda Björnsdóttir

 


Bráðum fer ég í ferðalag

23.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn

Þar sem ég nokkra vini sem fylgja mér á blogginu mínu en eru ekki á Facebook ætla ég að setja inn nokkur orð um frúna, það er mig. Sumir eru með áhyggjur og er það voða notalegt en eiginlega óþarfi. Eins og allir vita er ég orðin stór stelpa og vel fær um að bjarga mér og taka því sem að höndum ber.

Hér koma semsagt fréttirnar af þeirri heilsulausu.

Í gær fór ég í viðtal hjá Dr. Sofíu sem er læknir yfir sjúkraþjálfaradeildinni á spítalanum mínum. Hún útskrifaði mig úr sjúkraþjálfun og útskýrði fyrir mér að líklega væri ég komin á endapunkt bata. Ég vona að það sé ekki alveg rétt og lofaði að senda henni kort þegar ég gæti synt skriðsund. Það er markmiðið. Knúsaði ég svo doktorinn og dansaði út úr herberginu og faðmaði vinkonu mína úr vatnsþjálfuninni sem var næst inn í viðtal. Auðvitað skilja Portúgalarnir ekki svona hegðun en þetta er jú greinilega útlendingur svo þau fyrirgefa og taka bara undir Boa tarde frá konunni og brosa. Í afgreiðslunni knúsaði ég fleiri og Até em Octobro, því þá er næsta mót með skurðlækninum. Það var ekki leiðinlegt að ganga út í sólskinið eftir svona dag.

Beinin mín eru eins og gler og í uppskurðinum þorðu læknarnir ekki að taka neitt á, voru hræddir um að skemma meira og hættan var að handleggurinn festist í stöðu þar ég héldi utan um mig, alltaf,  svo það sem þau gerðu var að setja víra til hjálpar sem hafa nú verið fjarlægðri fyrir þó nokkru. Ómögulegt að vera með eitthvað vírarusl hringlandi fram og til baka. Ég er með nettan skurð á upphandleggnum og pjattrófan ánægð með það.

Semsagt, ástandið eins gott og það getur orðið og ég held áfram að þjálfa og fer í ræktina í júlí. Eitthvað þarf ég að gera til þess að halda grindinni saman og ekki get ég hrunið niður eins og hrúga.

Ég er með stöðuga verki en á skala frá 1 upp í 10 er það svona um það bil einn og ekkert til þess að kvarta yfir. 

Á föstudaginn í næstu viku fer ég aftur upp á spítala og fæ þá úrskurð um yfir hverju ristillinn er að væla.

Eftir að æxlin voru fjarlægð líður mér miklu betur og er nú aftur farin að geta sungið stakkado án þess að emja af verkjum!

Núna er ég að æfa Laudate dominum (Mozart), Rossignol de mes amours (Francis Lopez), La Pastorella delle alpi (Rossini) og Batti Batti (Mozart)

Batti Batti er að verða tilbúið en hin verkin eru ný. Söngkennarinn minn hefur verið upptekin og við tókum frí þar til í ágúst en ég held áfram að æfa heima. Þetta er svo ótrúlega gaman og tæknin eykst smátt og smátt, alltaf eitthvað nýtt sem auðveldar sönginn. Ég er heppin að hafa frábæran kennara sem nennir að kenna mér þó ég verði auðvitað ekki fræg í þessu lífi en eins og allir vita er ég að undirbúa mig fyrir það næsta.

Elsku vinir, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég verð auðvitað ekki eins og ný en heilsan er á uppleið og á meðan ekki líður yfir mig þarf ég ekki að fara í aðra hjartaaðgerð.

Mikið ofboðslega verður gott þegar ég hætti að þurfa að segja frá einhverjum bévaðans veikindum og get farið að trissast út um allt og segja frá ferðaævintýrum. Þetta er hinum megin við hornið. Bluebudda garðurinn er á dagskrá eftir mánaðamótin og verður gaman að segja frá þeirri ferð.

Knús til ykkar allra og þúsund kossar

Hulda Björnsdóttir


Bótasvik eru glæpur - viðbjóðslegur glæpur og ekkert annað

 

23.júní 2017

Nú er komið uppgjör frá Tryggingastofnun ríkisins, hið árlega uppgjör þar sem við fáum að vita hvort við höfum fengið of mikið greitt eða of lítið. Þetta er yfirleitt á báða vegu.

Kjarninn sló upp æsifrétt og sagði að 3,4 milljarðar hefur verið ofgreiddir til þeirra sem fá bætur frá Almannatryggingakerfinu.

Staðreyndin er þessi:

"Samtals var endurreiknað fyrir 57 þúsund lífeyrisþega sem fengu greidda 86,5 milljarða króna í tekjutengdar greiðslur á síðasta ári. Þar af voru 36 þúsund ellilífeyrisþegar og 21 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Niðurstaða endurreiknings leiðir í ljós að 43% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inneign hjá TR upp á samtals 2 milljarða króna en 44% hafa fengið ofgreitt, samtals 3,4 milljarða króna. Meðalupphæð inneigna sem lífeyrisþegar eiga hjá TR eru 84 þúsund krónur en meðalskuld þeirra sem hafa fengið ofgreitt eru 135 þúsund krónur."

Mismunur á ofgreiddum bótum og vangreiddum er 1,4 milljarðar.

Fyrir snepilinn sem birti æsifréttina er betra að tala bara um annan hópinn. Ég hafði hugleitt að gerast áskrifandi að þessum áreiðanlega snepli en hætti snarlega þeim hugsunum eftir þessa dæmalausu æsifréttamennsku.

Ég fékk 6.903 krónur sem ég átti ekki að fá árið 2016 og nú greiði ég það til baka. Ég er nokkuð viss hvers vegna. Skýringin er að ég breytti tekjuáætlun um mitt ár og hélt að sú breyting tæki gildi næsta mánuð eftir. Hins vegar breytir stofnunin útreikning fyrir allt árið. Ég nennti ekki að gera neitt í málinu og sætti mig bara við að þurfa að endurgreiða innan við 7 þúsund.

Það gæti verið að fólk átti sig ekki á því hvernig tekjuáætlun verður til og væri ágætt að hafa samband við stofnunina. Þau aðstoða við málið og það kemur í veg fyrir of- eða vangreiðslur.  Þetta ár veit ég að á næsta ári mun ég fá endurgreiðslu því tekjuáætlun er of há hjá stofnuninni. Ég ákvað að láta hana standa þar sem gengi er hagstætt fyrir okkur sem búum erlendis. Hægt er að breyta áætluninni á mínum síðum hvenær sem er á árinu.

Ég verð alveg æf þegar ég frétti um bótasvik. Mér finnst það vera glæpur að svíkja út úr kerfinu. Það er ekkert annað þjófnaður. Ég hef skrifað um þetta áður en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Nú stærir fólk sig af því að búa erlendis og skreppa til Íslands í 3 mánuði yfir sumartímann og vera með lögheimili á Ísland, svo þau fái greitt allt sem við fáum ekki sem fylgjum lögunum. Þetta fólk fær allar hugsanlegar og óhugsanlegar bætur frá kerfi sem sveltir þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. Þetta fólk og gerðir þess eru partur af tregðu stjórnvalda til þess að hækka bætur öryrkja og eldri borgara.

Björgvin Guðmundsson, sem er ötull við að skrifa um hvað ríkisstjórn EIGI að gera varðandi bætur til eldri borgara minnist aldrei, já aldrei á þetta. Er það vegna þess að hann viti ekki um málið eða finnst honum ekki taka því að tala um það?

Grái herinn talar heldur ekki um þetta. Hvers vegna? Ætti hann ekki að hafa metnað til þess að uppræta glæpinn?

Þeir sem ekki tilkynna um einstaklinga sem svíkja út úr kerfinu eru ekki síður þátttakendur. Þeir hylma yfir og finnst þetta bara sniðugt og flott. Þeir sem þekkja "konkrete" dæmi eiga að tilkynna það. Það þýðir lítið fyrir okkur sem erum að reyna að koma stjórnvöldum í skilning um að hækka þurfi bætur almannatrygginga að berja hausnum við steininn þegar svika rökin koma í bakið á okkur.

Þið sem eruð að stela út úr kerfinu megið skammast ykkar.

Ég vona að þjóðskrá og Tryggingastofnun taki sig nú saman í andlitinu og gangi eftir því að fólk sé rétt skráð og geti ekki logið upp heimilisfangi.

Þið sem eruð að hæla ykkur af því að komast upp með svikin ættuð að hugsa til þeirra sem hafa ekki í sig og á. Það ætti að koma við samvisku ykkar en kannski eruð þið bara samviskulausir einstaklingar.

Þið sem ætlið nú að rísa upp og andskotast í mér ættuð að staldra við. Ef þið farið eftir lögunum gjörið þið svo vel og skammist eins og ykkur lystir.

Ef þið eruð í hópi svikaranna sem glotta út í bæði gætuð þið hugsað um fólkið sem hendir sér út af svölum háhýsa eða keyrir út í sjó því örvæntingin hefur náð þeim út á ystu nöf og steypt þeim út í glötunina.

Ég ber enga, nákvæmlega enga virðingu fyrir ykkur sem eruð að svindla á kerfinu. Þið eruð jafn ómerkileg í mínum augum og þeir sem mest er hamast í þessa dagana vegna svika og pretta sem komu þjóðinni á höfuðið árið 2008.

Þjóðskrá, Ríkisskattstjóri, Tryggingastofnun ríkisins og allir þeir sem hafa með þessi mál að gera, við ykkur segi ég: Brettið upp ermarnar og finnið þetta svikapakk. Það er hægt. Það þarf aðeins smá hugmyndaflug og lausnin er fyrir framan nefið á ykkur. Þið komið bara ekki auga á hana. Opniði augun í guðanna bænum.

Hulda Björnsdóttir

 


Er ég endalaust að tala um það sama?

21.júní 2017

Mér finnst stundum eins og ég sé alltaf rífa mig yfir því sama. Líklega er það rétt. Samt sem áður ætla ég enn eina ferðina að taka til og skammast yfir því yfirgengilega óréttlæti sem ríkir á Íslandi varðandi málefni eldri borgara og öryrkja.

Nú er komin á mínar síður hjá TR uppgjör fyrir árið 2016. Ég skoðaði mitt áðan. Ég nenni ekki að eyða tíma í að hringja í stofnunina og fá rökstuðning fyrir málinu, ekki núna. Það verða líklega margir sem sitja við símann og hella sér yfir starfsfólkið og kalla það öllum illum nöfnum.

Fólk er reitt og ég skil það.

Ég skil hins vegar ekki rökin fyrir því að það sé málinu til framdráttar að bölva og ragna fram og til baka.

Stundum dettur mér í hug hvað stjórnmálamenn og aðrir ráðamenn hugsi um þá sem geta ekki haldið sig innan sæmilegrar kurteisi í gagnrýni sinni.

Við verðum að hætta þessum dónaskap ef við ætlum að ná árangri.

Ég get séð "fátæki" formanninn og "grátkonuna" góðu hlæja sig máttlausa yfir þessum heimsku flónum sem kunna ekki mannasiði. "Betli" stofnanir eins og spítalar eru í hennar augum til óþurftar og það er hennar skoðun, sem mér finnst alveg forkastanleg og í raun sýna svo mikla fyrirlitningu á landinu sem hún hefur þó kosið að setjast að í. Hún er auðvitað stjórnmálamaður og það breytir oft fólki til hins verra.

Ef við ætlum að ná árangri í baráttu okkar verðum við að passa að vera sæmilega innan velsæmis ramma í umræðunni. Við getum reiðst og fundist allt vera að fara til fjandans en við bætum ekki ástandið með ókvæðisorðum. Gagnrýnum en höldum okkur innan sæmilegra velsæmis marka.

Grái herinn kom sá og sigraði. Hann safnaði 1000 manns á fund í pólitískum tilgangi, fólki sem var komið á eftirlaun að mestu.

Miklar vonir voru bundnar við herinn. Þær vonir hafa gjörsamlega brugðist. Ég veit að ég hef sagt þetta hundrað sinnum áður. Ég er að tala um þetta núna vegna þess að eitt gott kom út úr hernum.

FÓLK SÝNDI AÐ ÞAÐ GAT STAÐIÐ SAMAN.

Eitthvað í íslensku þjóðarsálinni er sem kemur í veg fyrir samstöðu. Þegar ég var ung keyptum við svínafóðurs kartöflur á sama tíma og nágranna þjóðir hættu að kaupa viðbjóðinn. Við töluðum um, yfir kaffibolla, að hætta að kaupa þessar handónýtu kartöflur, en héldum samt áfram að versla þær.

Við getum staðið saman. Hersöfnunin sýndi það.

Það er endalaust skrifað um kjör eldri borgara og öryrkja og svik ríkisstjórnarinnar og hvað Félag eldri borgara hafi áhuga á að gera. Endalaust sama tuggan. Endalaust. Félag eldri borgara hefur áhuga á að skoða hvort fara eigi í mál vegna tengingar eftirlauna við greiðslur í lífeyrissjóði. Það er ágætt að hafa áhuga en hann étum við ekki. Áhugi er allt annað en framkvæmd. Svo er sleginn varnaglinn góði að mikil vinna sé væntanlega nauðsynleg til þess að undirbúa málið. Einmitt. Þetta er ágætt að vita en enn betra að hefja vinnuna.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég sé að lesa gamlar greinar. Nei það getur ekki verið. Grái herinn birtir þetta endalaust og dáist að rithöfundinum og óbilandi baráttu hans. Og ekki lýgur herinn.

Hóflegar kröfur eru kannski vænlegri til árangurs en að hækka endalaust kröfutöluna.

Við megum heldur ekki gleyma láglaunafólkinu. Ef við ætlum að fá stuðning frá þjóðfélaginu til þess að sæmilega sé búið að fólki þegar það byrjar síðasta áfanga þessarar vistar, þá þarf að gæta þess að ota ekki saman stéttum.

Við mættum endurskoða baráttuaðferðir okkar og lausnir.

Er til dæmis ekki betra fyrir alla að skattar séu lægri á þeim sem hafa lægri laun og er ekki betra að verkafólkið hafi lágmarkslaun sem hægt er að lifa af? Er það ekki réttlátara þjóðfélag?

Það eru ekki bara eftirlaunaþegar og öryrkjar sem svelta í landinu. Það eru þeir sem eru á lágmarkslaunum og einstæðu foreldrarnir, sérstaklega konur. Það eru þeir sem eru veikir og þurfa að greiða háar upphæðir fyrir læknisþjónustu. Fólk verður kannski öryrkjar vegna þess að það hefur ekki efni á því að leita sér læknis eða fara til sálfræðings til þess að leysa úr málum sem þjaka einstaklingana.

Á meðan þeir ríku standa saman eins og klettar verðum við sem erum ekki í þeirra hópi að finna leið.

Það þarf ekki að vera 1000 manna hópur í byrjun. Hversu lítill sem hópurinn er skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að hefjast handa. Segjum að 100 manns eða bara 50 komi saman og ræði málið og komist að niðurstöðu með einhverjar lausnir sem hægt væri að byrja á. Þessi 50 manns koma svo með 1 til viðbótar í hópinn og hann verður 100 manns. Svona getur þetta undið upp á sig ef við viljum.

Ég held að lausnin sé ekki að troða gömlu fólki á þing. Við sjáum árangurinn af öllum fallegu orðunum sem frambjóðendur báru fram svo fjálglega á fundinum í Háskólabíó.

Við þurfum að byrja smátt og færa svo út kvíarnar. Það skilar árangri til lengri tíma litið. Við gætum líka látið af þeim vana að kenna stofnunum um allt sem aflaga fer. Stofnanir gera bara það sem þeim er sagt að gera. Ráðuneyti eru kannski þau allra valdamestu í íslensku þjóðfélagi. 

Hvernig væri til dæmis að tala við nýjan formann VR? Hann virðist vera með bein í nefinu og ekki láta vaða yfir sig á skítugum skónum.

Það eru þó nokkrir sem ég fylgist með á Facebook sem gætu verið í fararbroddi. Það er til fólk, við þurfum bara að hætta að "hafa áhuga á" eða "vera að velta fyrir okkur" og fara að framkvæma.

Koma með ákveðnar tillögur í frumvarpsformi til þingmanna er ein leið. Að sitja yfir kaffibolla og vínabrauðum og rabba skilar aldrei neinu.

Enn eina ferðina er ég líklega aftur að mala um það sama. Enn eina ferðina les einhver þetta og hugsar kannski : Mikið er hún þreytandi! Einn eina ferðina ætla ég að segja við yngri kynslóðina: þið eigið öll afa og ömmu eða foreldra og önnur skyldmenni og vini sem eru að verða eða eru orðin gömul, veik eða fátæk. Málið kemur öllum við, bæði ungum og gömlum. Við þurfum öll að sjá til þess að Íslenskt þjóðfélag hætti að vera fyrir þá sem henda skítugum nærbuxum og fara út í búð og kaupa nýjar af því þeir nenna ekki að þvo þær.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Til minningar um þá sem létu lífið í eldum í Portúgal um síðustu helgi

21.júní 2017

19274968_1061328397331520_7856853506051110927_nÞessi mynd er hér til þess að minnast þeirra sem létu lífið í ógurlegum eldum þessa síðustu daga, hér í Portúgal.

64 dauðsföll eru nú þegar staðfest. Fleiri gætu misst lífið því 6 eru enn í "critical condition".

Heilu fjölskyldurnar létu lífið. Ein fjölskylda var foreldrar og 2 börn. Önnur amma og afi ásamt börnum.

Slökkviliðsmennirnir okkar sem eru svo hugrakkir misstu nokkra úr sínum röðum.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessir hugdjörfu menn og konur skulu sjálf þurfa að kaupa búninga sína og tæki. Vonandi taka stjórnvöld nú við sér og koma "Bombeiros" á fjárlög.

Þakkir skulu færðar til nágranna okkar, Frakka, Spánverja og Ítala sem á hverju ári senda flugvélar og fótgönguliða til hjálpar þegar kallið kemur. Án þeirra væri ástandið enn verra.

Forsetinn okkar hefur sýnt þessa daga að hann er öðruvísi en fyrirrennarar hans. Hann hefur heimsótt hvert einasta þorp sem eldurinn hefur læst viðbjóðslegum tungum sínum í. Hann hefur grátið með fólkinu og huggað eins og hann best getur. Hann heimsótti litlu slökkvistöðina okkar hér í Penela. Örþreyttir björgunarmenn kunna að meta svona heimsókn og eflast við hana. Þó örþreyttir séu halda þeir áfram og þegar næsta hrina kemur hafa þeir faðmlag forsetans í hjartanu.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Ferskur vindur leikur um okkur í morgunsárið

21.júní 2017

Ég anda að mér fersku lofinu núna klukkan 7 og vona að ekki verði fleiri eldar kveiktir í dag. það var yndislegt að geta opnað alla glugga og hurðir og hleypt inn köldum gusti. Úti voru 17 stig en inni 29. Þegar nágrannarnir héldu til vinnu stóðu allir aðeins og önduð að sér áður en sest var inn í bílana. sólin skín og allt er kyrrt, núna.

Til þess að létta aðeins á andrúmsloftinu og segja skemmtilegar fréttir þá er þetta svona, eða var í gær.

Útlendings títlurnar fengu aldeilis eitthvað til þess að velta sér upp úr. Facebook logaði og commentum rigndi inn. Smjatt smjatt!

FLUGVÉL FRÁ CANADA AIR HAFÐI FARIST VIРBJÖRGUNARSTÖRF Í PORTÚGAL. þetta var fréttin. Hún var ekki bara í sjónvarpi hér, BBC át upp eins og súkkulaði.

Títlurnar héldu ekki vatni. Þær hömuðust. Og einn af þeim sem hafði farist var Breti. Þvílíkt og annað eins. Flugvél að hjálpa til að slökkva eldana og svo fórst hún með manni og mús.

Svona gekk þetta í smá tíma, líklega klukkutíma eða svo. Nánari upplýsingar fengust ekki af slysinu. Hvar, Hvernig, Hvað gerðist? Jú, einhver sagði að af því að vatnið væri svo lágt í ánum hefði vélin sturtast niður og nú væri farið að taka vatn úr sjónum. Jamm !

jæja, hvað gerðist í raun og veru?

Gaskútur sprakk !!!!!!!!!!

og hann varð að flugvél sem fórst með manni og mús, ekki einu sinni portúgölsk og bara með Portúgala innanborðs. Nei hún var frá Kanada og einn af áhöfninni var breskur !!!!!! Þvílíkt hneyksli !!!!!  Já svona hugsa títlurnar hérna í landinu stundum.

Annað ágætis dæmi um dæmalausan fréttaflutning var að 27 þorp í Góis hefðu verið  tæmd !

Ég hrökk nú dálítið við og hélt að farið væri að slá út í fyrir mér. Samkvæmt mínum kokkabókum eru 5 þorp í Góis. Hvernig gátu þá 27 þorp hafa verið tæmd? Auðvitað er ég með mörg ár í pokahorninu og hálf heilsulaus en hélt þó að hausinn á mér væri í sæmilegu lagi. Ég fór og athugaði málið. Nei Góis hafði ekki vaxið á einum degi. Það voru enn 5 þorp þar. Hvað hafði gerst í þessum einkennilega fréttaflutningi? spurði ég sjálfa mig, rétt svona til þess að rökstyðja að höfuðið á mér væri enn á sama stað.

Jú, eins og allir vita þá hef ég ótrúlega frjótt ímyndunarafl og það kemur sér stundum vel. Ég flutti hugann frá Góis og til Penela og frá Penela til Reykjavíkur. Í Reykjavík eru Efra breiðholt og neðra breiðholt, hagarnir og miðbærinn og mörg önnur hverfi. Vesturbærinn og austurbærinn og allt mögulegt. Í Penela er miðbærinn, sem er elsti hluti þorpsins, síðan er svæðið þar sem ég bý, sem er nýrra hverfi og þegar það var að byggjast upp voru engin götunöfn, bara eitt hús og því var gefið nafnið Bairro Sá Jörge. Nú eru 4 götur hérna og þegar ég labba upp mína götu, framhjá sundlauginni og fótboltavellinum (tekur 2 mínútur) er ég í Bairro Sá Jörge en um leið og ég fer yfir götuna og að bókasafninu er ég komin í gamla þorpið. Allt er þetta innan bæjarmarka Penela og tvö hverfi. Mér finnst þetta voða einfalt en auðvitað er miklu meira spennandi að flytja frétt af brottflutningi frá 27 þorpum en 5. Þetta geta auðvitað allir skilið. Gildi frétta er byggt á... ja ég veit eiginlega ekki hverju.

Semsagt, það fórst ekki flugvél í gær í Portúgal en það sprakk gaskútur og Góis hefur ekki færst til eða stækkað, allt er á sínum stað.

Ég er nú svoddan kvikindi að það hlakkaði í mér þegar títlurnar þurftu að éta ofan í sig æsifréttina.

Hulda Björnsdóttir


Enn loga eldar í Portúgal -forsetinn var í Penela í gær

20.júní 2017

Það er ekkert lát á eldunum hérna. Pedrógao Grande logar enn, að vísu er ekki eins hrikalegur eldur og var á laugardaginn en það hefur ekki tekist að ráða niðurlögum eldsins.

Það logar í Mirando do Corvo og Góis hefur verið rýmt og hættuástand þar.

Fleiri staðir eru logandi og færist eldurinn norður, hægt og ákveðið.

Það er mikil hjálp í flugvélum frá Spáni, Ítalíu og Frakklandi.

Þessi 3 lönd koma til hjálpar á hverju ári þegar við biðjum um aðstoð.

Nokkrir sjálfskipaðir sérfræðingar, sem vita allt um land og þjóð en hafa sumir hverjir aldrei stigið fæti á þetta land, halda nú langar tölur um hvernig ástandið er. Mér er svo sem alveg sama um þessa spekinga sem allt vita og læt þá ekki pirra mig. Hitt er þó mikilvægara. Að vinir mínir viti hinn raunverulega sannleika. Ef einhver spekingur vill færa heimili mitt til og planta mér niður í klukkutíma aksturs fjarlægð þá er það allt í lagi. Ég hef ekkert færst og það væri líklega erfitt að heimsækja mig á nýja staðnum. Segi bara svona. Einhverjir gaurar sem vilja óðir og uppvægir frá heimilisfang mitt og síma eru ekki sérlega vel gefnir og líklega í miklu kvenmanns hallæri. Þá er ég auðvitað að tala um stútungs kalla sem eiga ekki séns í eitt eða neitt. Ég er ekki að tala um alvöru vini mína, þeir fá heimilisfang mitt og símanúmer án þess að biðja um það. Stundum þurfa þeir kannski að minna mig aðeins á að senda skilaboðin, en þegar ég sendi e-mail fylgir allt sem fylgja þarf.  Bara svo þeir sem lesa þetta viti að ég er ekki að tala um þá sem fá mail frá mér reglulega !

Fólk áttar sig ekki á því hvernig landið er byggt upp og ætla ég aðeins að útskýra það. Ég bý nefnilega í landinu og er búin að vera hérna í rúm 6 ár og veit eitt og annað.

Það eru district sem skiptast niður í minni einingar sem skiptast svo enn niður í minni einingar.

Ég tilheyri Coimbra district og Coimbra  er höfuðborg míns svæðis. Coimbra er yndisleg borg, háskólabær þar sem háskólasjúkrahúsið og fleira merkilegt er til húsa.

Íbúar Coimbra districts eru 441.245.

Síðan skiptist Coimbra niður í 17 municipals Það eru líklega kirkjusóknir á íslensku.

Ég bý í Penela municipal sem skiptist niður í 6 lítil þorp. Heildar íbúafjöldi er 5.191 en í bænum mínum sem er Penela búa um 600 manns eða svo.

Góis er önnur kirkjusókn í Coimbra og þar búa 2.171 manns sem dreifast um 4 þorp. Þessi þorp hafa nú öll verið rýmd vegna eldanna sem loga í kringum þau öll.

Þar sem landrými er mjög takmarkað í landinu er byggt í fjallshlíðum og húsin standa oft á tíðum rétt á brúninni. Eitt hús sem ég ek stundum framhjá þegar ég fer frá Semide til Coimbra skekktist í rigningasumrinu mikla sem var fyrir 2 árum og verður mér stundum hugsað til þess að líklega hangi það bara af gömlum vana og í næstu rigningu muni það skríða fram af brúninni.

Margar mannhæðir eru oftar en ekki niður í dalina og fjallshlíðarnar skógi vaxnar. Fyrir 2 árum fóru 2 höfðingjar á mótorhjólum niður í botn dals sem er rétt hjá Serra do Caramulo og kveiktu í. Þeir flýðu svo til Luxemburgar en annar þeirra náðist. Í þessum bruna létust 6 bombeiros og fleiri slösuðust í þessum eina bruna. Þetta fjall er ekki langt frá Viseu og tilheyrir Tondela, 1071 metra hátt.

Ég hef á tilfinningunni, þó ég hafi það ekki fyrir víst, að fyrst byggist þorpið, t.d. Penela og svo þegar landrými þrýtur er byggt aðeins fyrir utan þorpið í hlíðunum og þar verður til nýr kjarni með nýju nafni, sem þó tilheyrir Municipalinu. Það fer alveg hrikalega í taugarnar á mér þegar útlendingarnir segjast búa í Penela en eiga heima til dæmis í Podentes sem er langt frá þorpinu en tilheyrir Municipal Penela. Arg.

Þetta er sama og þegar sumir Breta snobbararnir segjast búa í Coimbra en eiga í raun heima í Eufémia, sem er pínulítið þorp og tilheyrir Penela. Þetta lið er of fínt til þess að segja að það búi bara í litlu þorpi uppi í fjöllum í stóru húsi þar sem allir aðrir íbúar eru Portúgalar sem þykir ekki sérlega vænt um ríka eftirlaunafólkið frá Bretlandi sem heldur fyrir þeim vöku með partíum langt fram á nætur og spilar svo golf alla daga. Við Portúgalar höfum ekki efni á því að eyða frítíma okkar, hvað þá öllum deginum á golfvöllum, jafnvel í Algarve. Ja, munur að vera peningahít eða svoleiðis.

Eldarnir sem geysa núna eru ekki inni í þorpinu mínu. Þeir eru rétt utan við það og í bili eru þeir viðráðanlegir. Útgönguleiðir eru flestar opnar og við komumst í burtu ef þarf. Það eru fleiri en ein leið til bjargar. Ég þarf að fara til Covoes á fimmtudaginn og get ekki að því gert að ég kvíði aðeins fyrir. Ég mun líklega aka í gegnum sviðna jörð og það tekur á. Í morgun fór ég labbandi niður í þorpið mitt, ég varð að hitta vini mína og sjá að allt væri í lagi hjá þeim. Það var heitt en vindur blés og gerði þetta bærilegt.

Ég kann að haga mér í aðstæðum sem þessum og ekki nein ástæða til þess að hafa áhyggjur af mér. Það er hins vegar auðvitað voða notalegt !

Í gær sá ég forsetann heimsækja hin ýmsu þorp sem voru að kljást við eldinn. Það var fallegt að sjá hann tárast og þurrka tárin framan úr bombeiroinum sem hann faðmaði að sér. Það má segja eitt og annað um embættið og gengdarlausa eyðslu sem fylgir því en þessi forseti er ólíkur öllum öðrum. Hann er ekki hræddur við sýna tilfinningar sínar og hann virðist ekki vera fullur af snobbi. Annað en forsætisráðherrann. Ég spurði í morgun hvort hann hefði nokkur völd, hann hefur þau ekki en fólk trúir því að hlustað sé á hann og kannski getur hann breytt einhverju. Fólkið í landinu kann að meta mannlegu hliðina á honum. Það er óhrætt við að gráta í faðmi hans. Hvað er hægt að ímynda sér fallegra ? 

Hulda Björnsdóttir

 

 


Samtakamáttur er það eina sem dugar

19.júní 2017

Man einhver eftir kvennafrídeginum?

Deginum þar sem konur á Íslandi lögðu niður vinnu í heilan dag og stóðu saman?

Ég man vel eftir þessum degi enda á ég nokkur ár í pokahorninu, eins og við segjum hér í landinu mínu.

Eu tenho muitos anos !

Kvennafrídagurinn sýndi og sannaði að fólk getur staðið saman, ekki bara konur, heldur líka karlar.

Þegar við erum að rífa okkur yfir kjörum eldri borgara og öryrkja sitjum við hvert í sínu horni og ekkert gerist. Það vantar alla samstöðu.

Ég veit að það er stór hópur eldri borgara sem hefur það fínt og  það er eini hópurinn sem Panamaprinsinn talar um. Hann skilur ekki kjör hinna og er kannski ekki hægt að lá honum það.

Mér dettur stundum í hug þegar mamma, sem var öryrki, reyndi að vinna sér inn nokkrar krónur svo við hefðum mat á borðum og hún tók að sér að þvo þvott fyrir ættmenni Panamaprinsins.

Við komum inn í stórt herbergi sem var þvottahúsið, og þar lágu föt í haugum. Þessi fjölskylda var ekki að hafa fyrir því að þvo, hún keypti bara nýtt þegar þurfti að skipta um föt, og fékk svo einhvern annað slagið til þess að taka til í haugnum og þvo og strauja.

Við vorum heilan dag í þvottahúsinu og mamma þvoði og straujaði á meðan barnið var sett upp á bekk til þess að það væri ekki að þvælast inn í önnur herbergi hússins. Lítið barn, rétt fimm ára hefur ekki vit til þess að fara ekki inn í forboðin húsakynni og best að geyma það uppi á borði. Þetta var ekki svo slæmt og ég fékk að hjálpa til og brjóta saman nærbuxur og litla hluti sem ég réð við.

Auðvitað veit ég ekkert um það hvort Panamaprinsinn og fjölskylda hans þvo og strauja. Mér finnst það frekar ólíklegt jafnvel þó hann skreyti óhollar kökur af hjartans lyst.

Mamma fór bara einu sinni í fína húsið með mig. Þetta varð henni ofviða og hún þurfti að hvíla sig þar til næsta starf bauðst, sem var venjulega ráðskonustaða úti í sveit. Það er ekkert grín að vera öryrki með fatlaðan handlegg og berklasjúklingur. Mamma var hetja og gerði það sem hún gat.

Ef við setjum okkur í spor prinsins og ættmenna hans sjáum við hvað baráttan er vonlaus. Eða er það?

Handónýt stjórnarandstaða gerir ekkert og skilur heldur ekki vandamálið.

Alþingismenn, bankastjórar, lögfræðingar, dómarar og fleiri stéttir hafa það svo gott eftir að þau komast á eftirlaun að þau geta ekki sett sig inn í spor þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Það er varla hægt að ætlast til þess, held ég.

Hins vegar er hópur eftirlaunaþega sem hefur ekki yfir hálfa milljón eða meira á mánuði. Sá hópur er nokkuð stór. Ég sá einhvers staðar töluna 14 þúsund af 60 þúsund manna hópi. Ég ét ekki hatt minn fyrir þessar tölur en þarf að hafa eitthvað til að ganga út frá. Ég veit ekki hvað Grái herinn og hans "baráttu fólk" í fararbroddi, hópurinn sem er á forsíðu hersins, hefur í eftirlaun. Ég gæti trúað að "frúin ágæta" væri með ágætis eftirlaun, en ætla ekkert að fullyrða um það að órannsökuðu máli.

!4 þúsund manns er nokkuð góður hópur. Ef þessi hópur gæti staðið saman og barist saman fyrir bættum kjörum eldri borgara gæti verið að einhver hlustaði.

Það er ekki nóg að heimta endalaust og skrifa endalaust um að loforð frá 2013 hafi verið svikin. Þetta verður eins og illa kveðin vísa sem allir hætta að heyra. Jú, loforðin voru svikin. Það er hárrétt. Jú, Landssamband eldri borgara er grút máttlaust, það er líka rétt og ég gæti trúað að það yrði ekki öflugra á næstu 4 árum. Það þarf jú bein í nefinu til þess að berjast fyrir þá sem hafa verið sviknir aftur og aftur. Vöðvar og sterk bein eru gott nesti, án þess þó að ég ætlist til þess að fólk fari að berja stjórnmálamenn og "fátæki" nefndarformenn.

Nei, það sem þarf er samstaða þeirra sem eru ekki með yfir hálfa milljón á mánuði i eftirlaun. Samstaðan getur orðið að veruleika, rétt eins og konur gengu út af vinnustöðum fyrir mörgum árum og bjuggu til kvennafrídag.

Hættum að bulla endalaust og tökum til óspilltra málanna. Framkvæmum í stað þess að fjasa um allt og ekkert. 14 þúsund atkvæði eru mörg. 60 þúsund atkvæði eru vonlaus og ekkert annað en tímasóun að bulla um þau. Þeir sem skreppa út í búð til þess að endurnýja nærbuxurnar í stað þess að þvo þær eru ekki gjaldgengir í baráttuhóp fólks sem á ekki fyrir mat næstu 10 daga.

Hvað er hægt að gera núna? Nú er komið að ykkur kæru vinir að sjóða saman hugmyndir og koma með tillögur. Eitt að lokum. Ekki halda að seta á alþingi íslendinga breyti einhverju. Það geisar bráðsmitandi sjúkdómur þar sem kallast gleymska og heltekur þá sem setjast inn í húsið þegar búið er að færa þeim atkvæði á silfurfati. Nei, það þarf fólk utan þings til þess að berjast fyrir bættum kjörum.

Hulda Björnsdóttir


3ja daga þjóðarsorg í Portúgal

19.júní 2017

Nú er klukkan rétt rúmlega sjö að morgni. Sólin reynir að brjótast í gegnum þykkan reyk sem liggur yfir öllu.

Brunalykt er alls staðar bæði inni og úti.

19221736_854462394705589_1231456460888233826_oSvona leit þetta út í gærkvöldi þegar ég fór út á svalirnar heima hjá mér.

Eldarnir voru ótrúlega nálægt og tollurinn var dýralífið í Espinahl.

Ansiao og Avelar brunnu líka og þar varð manntjón. Þessir tveir bæir eru í 5 mínútna fjarlægð frá mér.

Þegar dimmt var orðið sá ég eldtungurnar rísa upp eins og skrímsli og þær öskruðu eins og ljón.

Nær á myndinni er iðagrænn trjálundur sem gæti orðið næsta fórnarlamb.

Ég náði í alla vini mína í gær og þeir sem búa fyrir norðan eru hólpnir, þar eru ekki eldar, en í Semide og Mirando do Corvo eru svört ský yfir og ekki að vita hvað gerist í dag.

Þeir sem búa á því svæði sem logaði í gær hafa sumir sloppið en aðrir ekki. Sumir hafa misst heimlin sín og enn aðrir látið lífið eða misst náinn ættingja.

Slökkviliðsmenn um allt landið eru örmagna. Hjálp barst frá Spáni og Frakklandi. Þau lönd hjálpa á hverju ári og senda flugvélar sem dæla vatni yfir eldana. Ef ekki nyti við flugvéla, bæði innlendra og erlendra yrði tjónið enn hrikalegra.

Það verða 62 jarðarfarir í dag og næstu daga. Hér er fólk jarðað eins fljótt og hægt er bæði vegna hitans og eins hefur almenningur ekki efni á að láta fólkið liggja á ís. Það er eingöngu fyrir hina ríku.

Í gær voru ráðamenn vissir um að elding hefði valdið íkveikjunni í Pedrógao Grande. það getur vel verið að svo hafi verið en mér heyrðist í morgun komnar einhverjar vöflur á þá sem eru í forsvari.

Hins vegar hefur enginn talað um hvernig eldar kviknuðu í Avelar og Penela og Ansiao og Espinahl ásamt fleiri stöðum. Voru brennuvargar þar að verki? Líklega. Því miður.

Á þessum hálftíma sem ég hef setið við tölvuna mína þykkist himininn og reykinn leggur hægt og hljótt yfir allt. Í dagsbirtunni sjáum við ekki eldtungurnar fyrr en þær eru komnar rétt við nefið á okkur en við sjáum reykskýin sigla og reka upp reiði öskur.

Sviðin jörð er nú um allt. Trjábolirnir standa eftir en botninn og laufin eru horfin. Í vetur þegar kuldinn sverfur að og við förum að kveikja upp í arninum brennum við þessa nöktu boli. Mikil vinna er framundan hjá skógarhöggs mönnum við að höggva trén og brytja þau niður. Það er ekki hægt að nota þau í annað en eldivið. Lyktin hverfur ekki og enginn byggir eitt eða neitt úr svörtum trjábolum.

Eftir nokkur ár rísa skógarnir upp á ný. Í haust má búast við að litlir angar skjóti upp kollinum og hægt verði að fylgjast með uppvextinum. Eftir brunann mikla hér í Penela fyrir fimm árum sáum við þetta gerast og var ótrúlegt hve hratt litlu spírurnar tóku við sér og eru nú hinir fallegustu lundir, tilbúnir fyrir næsta voðaverk. Það voðaverk var framið í gær og litli bærinn minn fylltist sorg enn eina ferðina.

Það voru ekki eldingar í Penela sem kveiktu í. Hver það var veit ég ekki en allir eru sammála um að mannfólkið hafi fengið útrás fyrir kvikindis skap sinn. Fólkið sem átti að sitja inni og taka út refsingu fékk frelsið eftir nokkra daga og skýringin sú að þetta væri veikt fólk.

Spurning er hvað margir þurfa að láta lífið og missa heimili sín áður en brennuvargar verða látnir afplána dóminn, lokaðir á bak við lás og slá?

Forsetinn tilkynnti í gær með fögrum orðum að 3ja daga þjóðarsorg skildi vera í landinu.

Falleg orð segja margir og eru reiðir. Við erum reið og skiljum ekki ótrúlega heimsku stjórnvalda að greiða 30.000 evrur fyrir garðvinnu hjá þessum sama forseta, á mánuði, en svelta Bombeiros og láta þá reka stöðvarnar að mestum hluta fyrir framlög almennings.

Það er hægt að mæta í flottum fötum með fríðu föruneyti og faðma þá sem hafa misst allt sitt. Það er líka hægt að sýnast einlægur en ekki verður komist hjá því að staðreyndin er að 30.000 evrur á mánuði eru notaðar til þess að skreyta í kringum embættið. Dýrar blómaskreytingar og flott garðvinna bjargar ekki mannslífum þegar eldarnir læsa klónum í allt sem fyrir verður.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband