Hugleiðing á 17. júní 2017 - Íslenskir Einstæðir foreldrar í útlöndum

17. júní 2017

Í dag er þjóðhátíð og ættu allir að vera í hátíðarskapi. Ég óska öllum íslendingum til hamingju með daginn og vona að fólk verði ekki drepið á almannafæri. Mér líst ekki á vopnavæðingu lögreglu sem er undirmönnuð og í fjársvelti. Það er ekkert grín að menn geti verið í byssuleik og misjafn sauður er jú innan stéttarinnar.

Sem betur fer hafði ég vit á að flýja landi og koma mér vel fyrir í útlöndum fyrir löngu síðan. Það eru ekki allir svo gæfusamir. Sumir geta ekki yfirgefið fósturjörðina og þjást af heimþrá alla útlegðina.

Ég er svo ósvífin að þykja hálfgerð skömm að því að vera íslendingur. Ég get ekki verið stolt af því að tilheyra þjóð sem lætur sér fátt um finnast þó minnstu bræður samfélagsins líði skort, ekki bara annað slagið, heldur alla daga.

Nú flytur unga kynslóðin í stríðum straumum með börnin sín til Norðurlanda þar sem einstæðar mæður og fátækt fólk getur komið sér fyrir og haft mat á borðum alla daga. Ég gleðst með þeim sem hafa hugrekki og dug til þess að taka svona stórar ákvarðanir og bylta lífi sínu.

Eftir því sem ég kynni mér málefni öryrkja betur rek ég mig á eitt og annað sem ég skil ekki.

Eitt af því sem brennur á mér er hvernig farið er með einstæða foreldra sem sjá ekki annað ráð til þess að búa börnum sínum betra líf, en að flytja búferlum og yfirgefa Ísland.

Þessi hópur verður fyrir því að aðstæður þeirra gætu breyst það mikið að hætt sé við að flytja.

Hvernig getur staðið á því að Tryggingastofnun ríkisins hættir að innheimta meðlag frá greiðanda við það eitt að foreldri flytur úr landi?

Hvernig stendur á því að mál sem hefur ekki verið til trafala fyrir stofnunina, það er innheimta hjá greiðanda, snýst í heilan hring og ábyrgð stofnunarinnar verður núll?

Er ekkert talað um þetta? Er þetta eins og svo margt annað látið liggja í þagnarhefðinni? Einu sinni var öflugt félag einstæðra foreldra starfandi á landinu. Er það enn virkt? Hefur félagið mómælt þessum gjörningi ráðuneytisins?

Ég er ekki að ráðast á Tryggingastofnun ríkisins. Hún vinnur eftir reglum sem ráðamenn þjóðarinnar setja. Og í framhjáhlaupi get ég sagt frá því að í gær hringdi ég til stofnunarinnar út af öðrum málum. Ég talaði við þjónustufulltrúa fyrir þá sem búa erlendis og hún var vægast sagt frábær. Hún svaraði því sem ég spurði um og það sem hún ekki vissi benti hún mér á hvar þær upplýsingar væri að fá. Ég kvarta og kveina þegar mér er illa tekið en ég þakka ekki síður fyrir það sem vel er gert.

Eins og þeir vita sem vita vilja, þá getur verið erfitt fyrir foreldri sem hefur forsjá með barni að semja við hitt foreldrið um greiðslur á lögbundnu meðlagi. Tryggingastofnun tekur að sér að innheimta hjá greiðanda, ef barnið býr á Íslandi, en hættir því ef barnið flytur til útlanda. Þetta er svo óskiljanleg ráðstöfun og svo ómanneskjuleg að mig skortir orð, og er þá mikið sagt þegar ég verð orðlaus.

Hefur einhver tekið þetta mál upp við ráðherra?

Hefur einhver áhuga á því að gera eitthvað í málinu?

Eða er þetta kannski eins og með yfirstrikun eldri borgara þegar þeir flytja til útlanda svo hægt sé að hafa mat á borðum á 17. júní í stað þess að lepja dauðann úr skel á Íslandi hinna ríku prinsa? Það er aldrei talað um þær skerðingar. Líklega er þetta sams konar mál, það er mál einstæðra foreldra. Ekki tala um það sem er óþægilegt og alls ekki að gera neitt til þess að breyta vitleysunni.

Félag einstæðra foreldra hefur samkvæmt því sem ég gúgglaði, lögfræðing a sínum snærum og fleira starfsfólk. Mig langar til þess að vita hvort félagið hafi rætt við ráðamenn um þessa ráðstöfun Tryggingastofnunar, að hætta að innheimta meðlag þegar flutt er með barnið úr landinu?

Eftir helgi ætla ég að hringja í félagið og ræða við þau. Svör hlýtur að vera hægt að fá.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband