Bölvun sem hvílir á Portúgal -

18.júní 2017

Í gærmorgun var fallegur dagur og ég vissi að uppþvottavélin mín kæmi úr viðgerð svo ég ákvað að fara ekki á ströndina. Þetta yrði heitur dagur en ekkert annað en láta sig hafa það. Þannig hugsaði ég um morguninn og fram eftir degi.

Uppþvottavélin kom heim og 2 Portúgalar héldu á henni upp stigann og tengdu. Allt var í góðu lagi. Ég borgaði og við ræddum eitt og annað eins og gengur og gerist hér í landinu mínu. Þetta var um klukkan 4.

Stuttu seinna kváðu við sírenuhljóð og sólin tók að hverfa í skugga reyks. Brunalyktin varð sterkari. Það var yfir 40 stiga hiti og búið að kveikja í skógum. Þetta fór ekki á milli mála.

Eftir því sem leið á kvöldið dimmdi meira og lyktin varð sterkari.

Hefði ég ekki verið að bíða eftir uppþvottavélinni minni úr viðgerð væri ég á ströndinni og svalur vindur léki um mig. Í stað þess sat ég heima og var bullsveitt og leið eins og fiski í suðupotti. Ég hlakkaði til að fara til Pedrógao Grande á morgun. Það er yndisleg strönd rétt hjá Viera da Leiria en í þetta skiptið ætlaði ég að fara til Pedrógao og heimsækja í leiðinni Pedrógao Grande.

Ég kveikti á sjónvarpinu og ákvað að líta á fréttir til þess að sjá hvernig umhorfs væri á ströndinni minni fallegu og litla bænum, bænum sem er svo dæmigerður fyrir strandbæi hérna í landinu mínu.

Það logaði allt í Pedrógao Grande. Fallegu skógarnir sem voru um allt stóðu í ljósum logum. Húsin sem Portúgalarnir bjuggu í stóðu í ljósum logum. Brunnir bílar voru meðfram vegum. Fólk flýði undan eldinum, Portúgalar voru að missa heimili sín í enn einum sumar eldinum, eldum sem kvikna hér og þar um landið á hverju einasta sumri og fram eftir hausti.

Klukkan hálf sex í morgun kom nágranni minn heim. Hann er læknir. Bíllinn sem hann var á er með vatnsdælu og slökkvitæki til taks. Stór trukkur. Nágranni minn fleygði sér í sturtu og lagði sig. Hann er farin út aftur. Fór klukkan hálf níu. Konan hans er líka farin út. Það þarf að hlúa að fólkinu, ekki síst slökkviliðs fólkinu sem leggur líf sitt í hættu og oft lætur það lífið við það eitt að reyna að bjarga öðrum.

Ég hef ekki heilsu til þess að fara með þeim en ég get lagt fram fé til Bombeiros og hjálpað þannig. Hver og einn gerir það sem hann getur, ef maður er sannur Portúgali.

Í fréttum núna klukkan hálf átta eru tölur þannig:

43 látnir

59 slasaðir þar af 7 mjög alvarlega

4 bombeiros hafa týnt lífinu

1 barn er látið

19 manns létust í bílum sínum. Þeir voru að reyna að flýja eldinn en brunnu inni.18 manns hafa verið fluttir á spítala í Lisboa, Coimbra og Porto

Búist er við að tala látinna og slasaðra hækki.

Eldar loga enn og erfitt að ná tökum á ástandinu.

Versta slys í meira en 50 ár.

Allar eiga þessar tölur eftir að hækka eftir því sem líður á daginn.

Seint í gærkvöld öskruðu himnarnir og þrumur og eldingar skullu á eins og hríðskotabyssur. Engin rigning fylgdi. Allt er enn þurrt.

Á meðan ég skrifa þetta sveima flugvélar yfir bænum mínum og líta eftir. Himininn er grár. Sólin er að reyna að brjótast í gegn en tekst ekki. Reykurinn er of þykkur.

Bölvuninni verður að létta. Hvað á að gera? Ég veit það ekki. Forsetinn kom í nótt og faðmaði þá sem horfðu á heimili sín brenna til kaldra kola í Pedrógao Grande.

Í gær var laugardagur og sumarfrí að hefjast hjá sumum. Margir útlendingar sækja strandirnar á þessum tíma og þegar hitinn verður óbærilegur flýja þeir sem búa inn til landsins út að sjónum. Til þess að komast að ströndunum þarf að aka í gegnum gríðarlega stórt skógarbelti og þar loguðu eldarnir glatt í gær.

Í dag er sorgardagur í landinu mínu. Hjarta mitt er kramið.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var að komast á lappir,7-8 klt á eftir ykkur hér á vesturströnd BNA.
Varð strax hugsað til þín og létti við að sjá bloggið með stöðu mála.

Hulda slapp, húrra fyrir því,
hún er því ekki ekki fyrir bí,
Forsjónarinnar fyrir náð
frúin ei varð eldi að bráð. 

Valdimar Jónsson (IP-tala skráð) 18.6.2017 kl. 16:02

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég þakka GUÐI fyrir að þú ert heil á húfi.  Var mikið hugsað til þín þegar fyrstu fréttir af þessum náttúruhamförum bárust.

Bestu kveðjur.

Jóhann Elíasson, 18.6.2017 kl. 16:28

3 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Elsku Valdimar, Takk fyrir vísuna. Sendi knús til þín yfir hafið. Hulda

Hulda Björnsdóttir, 18.6.2017 kl. 18:11

4 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Kæri Jóhann.

Ég er nokkuð örugg í bili og veit hvað ég á ekki að gera.

Bestu kveðjur og takk fyrir umhyggjuna.

Hulda

Hulda Björnsdóttir, 18.6.2017 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband