Ekki silikon!! öskraði ég og fórnaði höndum.

30.apríl 2017

Þegar verið var að kynna framkvæmda áætlun vegna viðgerða á húsinu sem ég bý í var allt útlistað vel og vandlega.Kostnaðurinn var rúmar 800 evrur og rétt slefaði yfir 1000 evrur með skatti. Þetta gerir um það bil 300 evrur fyrir mig og vitleysinginn fyrir neðan, þennan sem ég ætla að borga fyrir. Ekki neitt til þess að ergja sig á.

Grafa átti skurð í garðinum meðfram veggnum til þess að einangra og varna því að vatnið gæti smogið inn í bílakjallarann. Ekkert var talað um að tréð yrði fjarlægt. Þetta viðbjóðslega tré sem ég hata út af lífinu. Það lemst í svalirnar hjá mér og heldur fyrir mér vöku og garðurinn fyrir neðan er bara pínulítill. Þetta ógeðslega fyrirbæri sem ég hef reynt að fá fjarlægt með öllum mögulegum ráðum er nú farið að skríða inn í veggina, það er ræturnar, og búa til göt hér og þar.

Þegar ég kveinaði í gær á fundinum yfir því að viðbjóðinn átti ekki að fjarlægja var mér sagt að fyrst yrði grafið meðfram veggnum til þess að einangra hann og þá kæmi í ljós hvort ræturnar væru komnar inn fyrir. Hálfvitar ! Ég sagði salla róleg að ég mundi drepa bévaðans tréð og allir horfðu á mig stórum augum og sögðu að ég skyldi bara gera það.

Þau vita ekki að ég reyndi það í fyrra. Eitraði með lútsterku eitri og hálfvitinn lifði af. Er bara aðeins títlulegra neðst en toppurinn lifir góðu lífi. Nú vill svo dásamlega til að kærasti vinkonu minnar er skógarhöggsmaður og hann veit allt um svona drápsaðferðir. Hann fær heimboð ásamt kærustunni og þau koma með eitur og við sprautum, eða hann sprautar, á fyrirbærið og það drepst vonandi.

Þegar verið var að útskýra fyrir mér hvernig ætti að loka sprungunum á húsinu ofanverðu svo ég komist úr stígvélunum í stofunni minni þá var talað um silicon.

Ég ærðist, stökk upp úr stólnum og hálf drap á mér öxlina sem þolir ekki snöggar hreyfingar í bili. Ég fórnaði höndum og hrópaði  SILICON

Ég get svarið það að helsta lausn allra vandamála hér í landi er silicon. Því er troðið í allt, alls staðar, hvað sem amar að þá er komið með silicon og það hefur svo sannarlega verið reynt í bílakjallaranum okkar. Jedúdda mía, það var allt fullt af siliconi þar fyrir 2 árum þegar átti að redda málunum og sjá til þess að vatnið, sem er auðvitað mun gáfaðra en hálfvitarnir sem búa með mér, finndi sér ekki leið í gegnum vegginn.

Það var sem sagt talað um silicon í verkáætlun sem var verið að kynna fyrir fundinum inni í stofunni minni þar sem blautur veggurinn blasti við mér. Meo deus, nao silicon, nao silicon, sagði ég og reyndi að garga ekki mjög hátt.

Fundarmenn, nágrannar mínir, horfðu á mig og kompaní fólkið líka, og hlógu.

Þau sátu þarna og hlógu að útlendings bjálfanum sem var að missa vitið fyrir framan þau.

Calma, calma sögðu þau.

Nao silicon. Nao nao, nao silicon,

og svo tóku þau til við að útskýra fyrir mér að þetta væri öðruvísi silicon. Ekki svona venjulegt silicon.

Það eitt að heyra nefnt silicon gerir mig einfaldlega tjúllaða, ég er með rennblautt loft í holinu hjá mér af því að hálfvitinn, tannlæknirinn, sem býr fyrir ofan mig, og fjölskylda hans fara í sturtu fimmtíu sinnum á dag. Óskaplega hlýtur þetta fólk að vera óhreint alla tíð. Einn daginn var ég að syngja inni í gestaherberginu mínu, píanóið er þar, og leit upp í loftið og við mér blasti vatn. Það var vatn í loftinu mínu. Ég fór fram í hol og þar var líka vatn í loftinu. Mikið vatn. Svo fór ég inn á bað og enn var vatn í loftinu þar. Ég var að missa vitið. Það var flóð fyrir ofan og seytlaði niður til mín. Andskotans sturtuferðirnar alltaf.

Ég talaði við tannsa og hann sagði mér að þetta væri allt út af eldri dóttur hans sem væri komin í háskólann og þyrfti svo oft að baða sig. Hah. Hún er bara heima um helgar. Jæja, kallinn hafði tekið eftir því að siliconið, takið eftir siliconið, hafði losnað meðfram sturtunni og hann bætti bara við og sagði að nú væri allt í lagi. Ekkert vatn hjá honum lengur fyrir utan sturtuna.

Mario og Carlos komu og Tryggingafélagið kom og það voru boruð göt á gólfið hingað og þangað hjá tannsa. Allt fljótandi í vatni undir. Ég varð óð. Núna, 2 árum síðar er loftið í holinu hjá mér enn blautt. Það tekur langan tíma að ná svona raka í burtu. Hann situr eins og gömul kelling og gefur sig ekki. Auðvitað hjálpar ekki að baðferðum hefur ekki fækkað á efri hæðinni. Meira hvað þetta ofur kaþólska pakk getur verið skítugt alla daga. Ég efast ekki um að nógu af siliconi hefur verið dælt í götin til þess að halda gólfum í lagi hjá fyrirfólkinu.

Stundum gæti ég alveg ælt.

Jæja, Núnó hefur komið 2svar til þess að athuga hvort hægt sé að mála hjá mér og það er ekki komið að því. Núnó er sko málarinn sem ég treysti og hann er frændi Toni sem er nágranni minn á sömu hæð, þessi sem fór með ruslið fyrir mig á meðan ég gat ekki gengið niður stigann af því ekkert handrið var hægra megin og ég var brotin vinstra megin. Skiljiði.

Nú verður sett upp handrið fljótlega, það var ákveðið í gær, því útlendingnum tókst að sannfæra fundarmenn um að hún væri alvarlega veik og þyrfti nauðsynlega að komast upp og niður stigann án þess að fá hjálp. He, he.

Allir eiga að vera búnir að borga sinn hluta í viðgerðinni fyrir 1. júní. Það er sko svoleiðis hér að fólki er ekki treyst til þess að greiða slíkar framkvæmdir eftirá. Ég skil það vel. Til þess að koma í veg fyrir að einhverjum takist að tefja framkvæmdina og láta mig áfram vera í stígvélum inni í stofu þegar rignir, sagðist ég mundi leggja út fyrir því sem á vantaði ef félagið sæi svo um að innheimta hjá skussunum. Þetta eru ekki nema 1000 evrur en miklu meira virði fyrir mig að framkvæmd geti hafist í júlí á þessu ári en ekki einhvern tíma í framtíðinni og kannski eftir önnur sex ár.

Ég er sko búin að búa hérna í rúm sex ár og komin vel inn í hvernig mál ganga fyrir sig í þessari blokk !

Fyrst það á ekki að fylla 20 metra langar sprungur utan húss með siliconi, það er venjulegu, þá lítur þetta bara nokkuð vel út og útlendings gellan nokkuð ánægð. Ég tala nú ekki um þegar andlátsfregn hins viðbjóðslega trés verður birt mér til mikillar ánægju og ég fæ svefnfrið jafnvel þó vindar blási.

Hulda Björnsdóttir


Fullnaðarsigur minn í baráttunni við nágranna !!!!

30.apríl 2017

Þegar ég kom til Portúgal fyrir sex árum og aðeins meira var ég svo heppin að eignast dásamlega nágranna sem allt vildu fyrir útlendinginn gera, eða þannig!

Þau voru fljót að uppgötva að þessi bévaðans útlendingur ætlaði sér að rugga bátnum sem hafði fengið að sigla í friði í nokkur ár.

Útlendingurinn vildi til dæmis hafa eldvarnir í lagi. Hrikalegt.

Svo vildi þessi hálfviti líka koma í veg fyrir að það rigndi inn í stofuna hjá henni yfir veturinn.

Auðvitað skildu nágrannarnir ekkert í þessum látum og sögðu óróaseggnum að hann gæti bara lagað vandamálið sjálfur þetta væri ekki svona í öðrum íbúðum. Rigningin kæmi bara inn í eina íbúð og sú væri í miðju hússins, engin rigning inn fyrir ofan, nei nei nei.

Frú apótekari fyrir ofan var verst í þessu.

Einn daginn þegar útlendingurinn kom heim var stofan full af fuglum. Þeir höfðu flogið niður um strompinn og komu í gegnum arininn. Voða hrifnir af nýju húsgögnunum hjá þeirri útlensku og ætluðu sér að setjast þar að.

Það fauk í vitleysinginn, útlendinginn, og hún keypti arinn inn í arininn, reyndar eftir að hafa spurt hvort hún mætti láta setja net fyrir strompinn svo fuglarnir kæmust ekki inn og apótekara daman og tannlæknirinn eiginmaður hennar sögðu NEI.

Nokkur þúsund evrur lokuðu fyrir fuglana og nú er allt fuglalaust en það rignir enn. Rigningin vellur inn og hefur gert í 6 ár.

Í landinu mínu nýja kann fólk ekki almennilega að búa í svona blokkum, það er vant að búa í húsum og þarf ekki að sitja uppi með kolbrjálaða útlendinga sem ætla allt vitlaust að gera vegna smá stígvélaveðurs í stofunni í nokkra mánuði á ári.

Ég kom því í gegn í fyrra eftir ævintýralegar tilraunir að ráðið var kompaní til þess að sjá um málefni blokkarinnar. Talaði við stjórnendur og sagði þeim frá ÖLLU því sem ég vildi láta koma í lag.

Kompaníið hefur nú verið við stjórn í eitt ár og fundur var í gær. Venjulega eru svona fundir haldnir í bílskúrum en útlendings frekjan heimtar að fundurinn sé í stofunni hennar og ber hún því við að heilsa hennar leyfi ekki bílskúrs kulda og tekk. Meikar sens og allir samþykktu þetta.

Til þess að hægt sé að taka ákvarðanir á svona fundum þurfa að vera 500 atkvæða einingar. Haldnir hafa verið 2 fundir og 517 einingar á þeim sem var í gær. Á fyrri fundinum var þetta eitthvað svipað. Útlendingurinn er hress með þessa mætingu og gefur kompaníinu kaffi og þakkar guði fyrir að aðal röflarinn mætir ekki. Í gær var hann að fara til Portó. Fundurinn er boðaður með ábyrgðarbréfi með tveggja vikna fyrirvara. Dásamlegt fyrirkomulag. Ég ræddi reyndar við tannsa, mætti honum fyrir 3 dögum þegar hann var á leið að sækja brauðið sem er hengt á útihurðina á morgnana, og ég sagði honum að það yrði að setja upp handrið hægra megin svo ég kæmist niður stigann næst þegar ég veiktist. Hann samþykkti þetta. Svo sagðist ég vilja losna við tréð sem er að grafa í sundur grunn hússins með rótunum. Kallinn samþykkti það en svo mætti gaurinn ekki á fundinn. Alveg dæmigert.

Jæja, semsagt, í gær var samþykkt að fara í framkvæmdir til þess að loka sprungunum sem rignir í gegnum svo ég þurfi ekki að nota blómastígvélin mín í bráð inni stofnunni. Kompaníið var búið að fá tilboð og útskýrt var hvað þyrfti að gera. Ég var alsæl, nú átti að gera það sem ég hef verið að segja að þyrfti að gera, í sex ár. Það skipti auðvitað öllu máli að útlendings bjálfinn var ekki að segja hvað þyrfti að gera og ég hélt mér alveg á mottunni og sagði ekki orð, ekki annað en að ég samþykkti málið og hef reyndar tekið að mér að punga út fyrir þann brjálaða á neðri hæðinni sem borgar ALDREI neitt en kemur annað slagið og öskrar og lætur öllum illum látum um miðjar nætur.

Konan er auðvitað löngu farin með börnin en hann er búinn að ná sér í aðra og farinn að öskra á hana og berja. Það er rafmagn í íbúðinni en ekki vatn. Ég skil ekki hvernig þau geta verið vatnslaus en það er auðvitað annað mál.

Þessi vitlausi, fyrir neðan mig, borgar aldrei neitt og ég er löngu búin að lýsa því yfir að þegar loksins verði farið í framkvæmdir til að loka fyrir vatnið í stofuna mína, í gegnum veggina, þá borgi ég hans part því það er ódýrara fyrir mig en að allir geti haldið að sér höndum bara af því hann borgar ekki og íbúðin mín verður smátt og smátt að sundlaug.

Nú er búið að tryggja húseignina, búið að samþykkja að kaupa eldvarnartæki og á að skipta um ljós í sameigninni til þess að spara rafmagn og síðast en ekki síst, og þar er fullnaðarsigurinn minn unninn, á að stoppa upp í vatnsrásirnar á veggjunum og grafa upp garðinn til þess að gæta þess að ekki flæði lengur inn í bílskúrana.

Ég lét setja 10 cm vörn fyrir minn skúr svo það fer ekkert vatn þangað lengur en lekur til hinna og mér nokk sama um það, en vörnin mín varð til þess að fólk sá alvöruna í því að ég ætlaði ekki að ausa vatni oftar úr bílskúr.

Ýmislegt fleira sem útlendings fíflið hefur verið að tuða um í 6 ár verður nú framkvæmt og það besta við þetta allt saman er allir halda að þetta sé þeirra uppástunga og ekki sé verið að láta að vilja þeirrar útlensku.

Ég elska svona uppákomur. Þetta gefur lífinu svo mikið gildi. Verst er þetta þó með blómastígvéin mín sem hafa verið inni í skáp í allan vetur og beðið þess að fá að vaða í kjallaranum. Þau fá ekki að vaða, eða það lítur út fyrir ekki en ég dytti ekki niður dauð af undrun ef vatnið fynndi sér leið inn í bílskúrana. Það er nefnilega ekki verið að leysa það mál alveg en ég ætla ekki að blanda mér í það meira í bili.

Staðreyndin er sú að vatnið í bílskúrana kemur frá næsta garði ! en ég losna við andskotans tréð úr okkar garði !. Ætla ég að segja nágrönunum frá þessu? Nei, ekki aldeilis. Ég ætla að skemmta mér yfir þessu þar til næstu rigningar flæða inn í alla skúra nema minn og þá gæti ég hugsanlega sagt: Ég sagði ykkur þetta fyrir 5 árum!

Hulda Björnsdóttir

 


Tvísköttun, hvað er það nú eiginlega ?

30.apríl 2017

Það er stundum rætt um tvísköttun og tvísköttunarsamninga og margir sérfræðingar í þeim málum skjóta upp kollinum, sérstaklega á Facebook.

Yndislegt er að sjá alla þessa ágætu sérfræðinga en mér þykir frekar þunnur þrettándi stundum þegar ég les upplýsingar þeirra.

Þegar ég flutti frá Íslandi vissi ég ekkert hvað tvísköttunarsamningar voru. Hafði aldrei heyrt á þá minnst eða alla vega ekki tekið eftir því ef einhver talaði um svoleiðis.

Það er jú rætt um svo margt og einn heili getur ekki melt allt sem er á ferðinni.

Ég hrökk hins vegar upp við vondan draum þegar ég hóf að taka eftirlaun frá Tryggingastofnun og var rukkuð um skatt frá Íslandi og stofnunin heimtaði af mér skattskýrslu frá Portúgal. Ég vissi ekkert um að nú væri ég orðin mikilvægari en margir aðrir og ætti að telja fram milljónirnar mínar í tveimur löndum. Hélt í fávisku minni að skattgreiðsla á Íslandi væri málið og þetta kæmi Portúgölum ekkert við, hvað þá að íslenska tryggingastofnunin gæti lesið í gegnum skattskýrslur gerðar í Portúgal sem þykja með afbrigðum flóknar og eru ekki einu sinni á íslensku.

Ég ræddi við apparatið á Íslandi og sendi e-mail og fékk alls konar heimskuleg svör sem ég nenni ekki að endurtaka hérna. Þau voru svo út um víðan völl að ég með öllu mínu frábæra hugmyndaflugi náði engan vegin í skottið á fyrirbærinu. Gafst upp á endanum og talaði við ríkiskattstjóra og lögfræðing þar sem auðvitað gat útskýrt fyrir mér málið. Engir hálfvitar hjá skattstjóra og þar er bara tekið á málunum og ekkert verið að djöflast eins og beljur sem hleypt er út að vori. Nei mér var sagt hvað ég ætti að gera vegna þess að í gildi væru samningar á milli Íslands og Portúgal til þess að koma í veg fyrir svona "tvisvar" álagningu. Sem sagt fyrirbærið tvísköttunarsamningar. Ég gat kært Ísland og fengið endurgreitt í ágúst og fékk það. Nokkur hundruð þúsund endurgreidd og eftir svolítið japl og jaml og fuður var upphæðin meira að segja lögð inn á reikning minn á Íslandi, en ég þurfti að biðja um það.

Stundum er kerfið sko þannig að það verður að fylgja því eftir. Ég hringdi auðvitað í skattmann í Hafnarfirði og Gullbringusýslu eða eitthvað svoleiðis og sagði þeim að ég vildi eiginlega bara fá peningana mína. Þau létu þetta eftir mér á endanum.

Viðtiði, stundum þykir mér sem allir haldi að maður sé að ljúga einhverju. Sönnunarbirgðin er svo mikil og ég hefði ekki orðið hissa þó heimtað hefði verið að ég kæmi í eigin persónu frá Portúgal til þess að standa fyrir framan fulltrúann og sanna að ég væri ég. Æ. þetta er nú hálf andstyggilegt en mér líður stundum svona og ekki síst þegar ég þarf á morgun að fá kirkjugarðana hér í þorpinu til þess að staðfesta að ég sé ekki ofan í moldinni og tikki enn þá alveg eins og í fyrra.

Ef einhver segir ykkur að ekki séu í gildi samningar á milli landsins sem þið hafið flutt til  og Íslands þá ráðlegg ég ykkur að tala við ríkisskattstjóra. Ekki eyða tíma í Tryggingastofnun. Skatturinn veit þetta upp á hár og þau gefa almennilegar upplýsingar.

Ekki taka orð mín eða annarra sem skrifa til dæmis á Facebook og þykjast vita allt um þetta trúanleg. Sumir sérfræðingarnir á Facebook hafa lesið hálfa tvísköttunarsamninga og sjá bara fjallað um fyrirtæki. Þetta fólk nennir ekki að lesa til enda. Ég get alveg skilið það. Tvísköttunarsamningar eru ekki eins og ástarsaga eða þriller. Þetta er grafalvarlegt mál og málið er frekar erfitt að skilja. Skiljiði?

Fjallað er um eftirlaun og hvernig þau eru meðhöndluð í þessum samningum aftarlega í hverjum samningi. Ég hef lesið nokkra og held að ég skilji þetta aðeins. Ég veit alla vega hvar ég á að leita eða hvert ég á að hringja.

Ég varð alveg urrandi þegar ég sá comment þar sem talið var eðlilegt að einhver sem bjó í útlöndum væri skráður á Íslandi þar sem ekki væri í gildi samningur á milli landanna. Þessi aðili rífur endalaust kjaft yfir kjörum fólks og virðist vera sérfræðingur í ÖLLU, ekki bara sumu og hann rífst og djöflast yfir því hvernig stjórnvöld svíki almenninga. Svo getur þessi sóðakjaftur leyft sér að segja að eðlilegt sé að svíkja út úr kerfinu þegar verið er að taka á móti bótum frá Íslandi.

Ég verð stundum alveg kjaftstopp og veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið.

Hulda Björnsdóttir


Hvað er skattkort?

30.apríl 2017

Hvað er skattkort? Hvers vegna þarf ég að hafa skattkort.

Spurningar sem þessar gætu hugsanlega farið í gegnum kollinn á einhverjum.

Ég man þá tíð þegar við borguðum skatta eftir á. Þeir voru reiknaðir út einu sinni á ári og svo kom reikningurinn og allt fór í klessu.

Núna bý ég í landi þar sem þetta fyrirkomulag er. Skattar eru greiddir eftirá. Hér skal borga alla upphæðina 1. september ár hvert. Borgi maður ekki á réttum tíma eru viðurlög og allt mögulegt svoleiðis sem ég þekki ekki því ég hef alltaf borgað það sem mér ber á réttum tíma. Ég er nefnilega heltekin af þeirri áráttu að skulda engum neitt.

Núna, árið 2017 veit ég ekkert hvað ég á að borga mikið í skatta en veit þó að það verður all veruleg upphæð vegna þess hve gengi krónunnar hefur verið ólíkt því sem það var í hitteðfyrra.

Ég er hins vegar svo sniðug að ég legg fyrir ákveðna prósentu í hverjum mánuði og þegar ég fæ bréfið í byrjun ágúst, frá skattmanninum hér í landinu mínu, legg ég allt inn aftur í bankann minn og borga svo bara í gegnum hraðbanka. Einfaldara getur lífið ekki verið. Það þarf hins vegar aðeins fyrirhyggju og getur stundum verið freistandi að fara í umslagið og gera eitthvað skemmtilegt fyrir peningana.

Mér finnst skattkort mjög rökrétt og nú er það komið á rafrænt form á Íslandi.

Hér áður fyrr skilaði maður kortinu inn, en það var gefið út af ríkisskattstjóra, kortinu var sem sagt skilað til launagreiðanda og hann sá um að allt væri rétt reiknað og skilaði svo skattinum um miðjan mánuð ásamt ýmsum öðrum gjöldum sem þeir greiða er hafa fólk í vinnu.

Svo kom uppgjör um mitt ár og allt var í fínu lagi. Mjög hentugt.

Nú veit ég ekki hvernig þetta nýja fyrirkomulag með rafrænt kort virkar en ég var aðeins að velta fyrir mér varðandi þau fyrirtæki sem eru pínulítil og kannski ekki með tölvu keyrð launaforrit. Hvernig ætli þetta virki hjá þeim?

Ég þarf eiginlega að fá þessar upplýsingar frá einhverju litlu fyrirtæki sem gerir allt samkvæmt bókinni og er ekki að svíkja eitt eða neitt út úr kerfinu.

Gamla kerfið virkaði þannig að þegar ég hætti að vinna hjá einu fyrirtæki fékk ég skattkortið afhent og var kvittað á það og alles. Síðan skilaði ég því til nýja vinnuveitandans ef ég hélt áfram að vinna en auðvitað ekki ef ég var að vinna svarta vinnu.

Er einhver að vinna svarta vinnu á Íslandi í dag?

Ég veit ekkert um það, en hef aldrei prófað þetta sjálf. Færi líklega á taugum ef ég reyndi að svíkja út úr kerfinu og svo dræpi samviskubitið mig efalaust mjög fljótlega.

Ég er nefnilega á því að maður eigi að borga til samfélagsins og þess vegna er ég bara glöð þegar rukkunin kemur til mín núna í ágúst byrjun.

Skattkort eða ekki skattkort. Það er ekki málið. Samfélagið skiptir öllu máli og vilji ég njóta hlunninda sem greidd eru af sameiginlegum sjóði þarf ég að taka þátt.

Einfalt og auðskilið en sumir þurfa að borga meira en aðrir og einstaka geta komist upp með að láta afskrifa milljarða af skuldum og halda svo áfram að stjórna því að láglaunafólk og lífeyris þegar lepji dauðann úr skel.

Það á auðvitað að taka skattkort af öllum sem sitja á alþingi núna. Ekkert vit að gefa þessu fólki afslátt. Líklega væri best að gefa út refsiskattkort til þeirra sem eru með yfir milljón á mánuði. Er þetta ekki bara kúl hugmynd? Ég held það.

Hulda Björnsdóttir

 


Kæri Þorsteinn Vilhjálmsson ráðherra velferðarmála !

 

30.apríl 2017

Ég las í gær, minnir mig, blogg Björgvins þar sem hann talar um viðbrögð hins þekkilega ráðherra Þorsteins Vilhjálmssonar við heimsókn formanns félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Ellert er fulltrúi fyrir þúsundir manna, ekki bara fyrir einhverja örfáa. Mér finnst með ólíkindum hvernig ráðherra kemur fram við fulltrúa eldri borgara. Ellert þarf að bíða í 2 vikur eftir viðtali. Hann þarf að bíða á biðstofu ráðherra þar til kallað er í hann og svo er ekki tekið í mál að ræða það sem Ellert kom til þess að ræða um. Kæri Þorsteinn ráðherra, mér finnst þetta alveg voðalega einkennilegt en kannski ertu bara svo ægilega upptekin við eitthvað að þú mátt ekkert vera að því að tala við gamalt fólk! Ég segi bara svona en auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá mér, eða er það?

Nú ætla ég að upplýsa hvernig ég bregst við svona framkomu.

Ég sendi bréf til ráðuneytisins til þess að athuga hvort hægt væri að fá viðtal hjá ráðherra. Þetta var fyrir eftirlaunaþega búsetta í öðru landi sem var á leið til Íslands í mánaðardvöl og hún hafði kannski áhuga á að hitta þig elsku Þorsteinn ráðherra.

E-mail númer eitt frá mér:

Góðan dag. Ég er að velta fyrir hvert hægt sé að panta viðtal hjá Ráðherra. Vonkona mín sem býr í Noregi er að fara til Íslandi í maí og verður á landinu þann mánuð. Hún hefur áhuga á því að tala við ráðherra verferðarmála. Konan er eftirlaunaþegi búsett í Noregi. Með vinsemd og virðingu Hulda Björnsdóttir kt..........

Ég fékk svar frá ritara ráðherra

Tilvísun í mál VEL...... Sæl Hulda, Hvað heitir konan og hvert er málefnið? Bestu kveðjur, (Nafn ritarans)

Ég meina, hvað kemur það málinu við hvað konan heitir? Ég var bara að athuga hvort hægt væri að panta viðtal hjá ráðherranum.

Jæja, það fauk dálítið í mig kæri Þorsteinn ráðherra og ég sendi svar til ráðuneytis þíns.

Re.Fyrirspurn

Sæl Elín Ágústa, fyrirgefðu hvað ég svara seint en hef verið upptekin og ekki opnað hotmailið mitt þessa vikuna. Konan er búin að senda ykkur fyrirspurn og hefur fengið svar. Henni var sagt að hringt yrði í hana.

Ég vildi gjarnan fá að vita hvort ekki sé hægt að fá samtal við ráðherrann sjálfan en ekki einhvern fulltrúa sem engin völd hefur. Ég sjálf hefði áhuga á því að ræða við Þorstein um málefni eldri borgara, sérstaklega þeirra sem búa erlendis. Ég hef ekki áhuga á því að tala við einhvern fulltrúa hans. Þar sem ég bý erlendis nota ég Skype þegar ég tala við fólk á Íslandi því mér hugnast að sjá framan í þann sem ég ræði við. Á 21. öldinni er þetta nú ekki flóknara en svo.

Um áramót var tekjuskerðing veruleg og hefur verið talað um að hún verði leiðrétt á 4 árum. 109 þúsund frítekjumark varð 25 þúsund krónur sem nú á að leiðrétta á 4 árum. Fáránlegt og vítaverð sviksemi.

Ráðuneytið hefur ekki gefið út reglugerð um upphæð orlofs og desember uppbótar fyrir árið 2017.

Þorsteinn hefur haldið því fram að leiðréttar hafi verið húsnæðisbætur. Vinur minn sem fékk 50 þúsund fyrir breytingu fór niður í 12 þúsund. Leiðrétt var og nú fær hann 15 þúsund. Mismunur er krónur 35 þúsund. Hvernig getur ráðherrann fengið það út að húsnæðisbætur hafi verið leiðréttar?

Eftirlaun sem nú heita í nýjum lögum ellilaun eru partur af því sem þeir fá sem búa einir og búa á Íslandi. Seinni helmingur sem er heimilisuppbót kr. 52.316 fyrir einstakling sem býr einn hjálpar eftirlaunum að verða 281.050 krónur fyrir skatt. Þetta þýðir að eftirlaun þess sem býr erlendis og býr einn eru krónur 228.734. Þetta þykir mér og fleirum harla ámátlegt og ekki alveg í samræmi við falleg orð ráðherrans og annarra í ríkisstjórn.

Ég get haldið áfram og talið upp fleira en líkleg afær ráðherra aldrei þetta bréf og því síður að hann gefi sér tíma til þess að svara einstaklingi sem ekki býr á landinu jafnvel þó þessi sami einstaklingur hafi greitt skatta og skyldur alla sína starfsævi til íslenska ríkisins og bygg  upp þjóðfélagið sem ráðherrann er nú að stjórna.

Virðingarfyllst

Hulda Björnsdóttir kt. ...... sími....... skype.......

Ekki veit ég hvort ritarinn svarar og mér er eiginlega alveg nákvæmlega sama. Ég er orðin svo þreytt á ruglinu sem þessi endemis hallærislega ríkisstjórn ber á borð fyrir mig.

Ríkisstjórn sem skarar að eigin köku og ættingja sinna ætti ekki að vera við völd árið 2017 á Íslandi en hún er það vegna þess að fólk trúði innantómum loforðum þeirra sem ætluðu sér hvað sem tautaði og raulaði að komast í vel launað starf á hinu háa alþingi Íslendinga.

Þorsteinn velferðarráðherra er flottur gæi, en ég er alveg að gefast upp á því að vera yfirmáta kurteis þegar ég tala um sporin hans í þessu stjórnar samstarfi.

Ég ætla þó að ljúka þessu núna en gæti hugsanlega byrst mig og orðið verulega reið í náinni framtíð því óréttlætið er svo yfirgengilegt.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 30. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband