Fullnaðarsigur minn í baráttunni við nágranna !!!!

30.apríl 2017

Þegar ég kom til Portúgal fyrir sex árum og aðeins meira var ég svo heppin að eignast dásamlega nágranna sem allt vildu fyrir útlendinginn gera, eða þannig!

Þau voru fljót að uppgötva að þessi bévaðans útlendingur ætlaði sér að rugga bátnum sem hafði fengið að sigla í friði í nokkur ár.

Útlendingurinn vildi til dæmis hafa eldvarnir í lagi. Hrikalegt.

Svo vildi þessi hálfviti líka koma í veg fyrir að það rigndi inn í stofuna hjá henni yfir veturinn.

Auðvitað skildu nágrannarnir ekkert í þessum látum og sögðu óróaseggnum að hann gæti bara lagað vandamálið sjálfur þetta væri ekki svona í öðrum íbúðum. Rigningin kæmi bara inn í eina íbúð og sú væri í miðju hússins, engin rigning inn fyrir ofan, nei nei nei.

Frú apótekari fyrir ofan var verst í þessu.

Einn daginn þegar útlendingurinn kom heim var stofan full af fuglum. Þeir höfðu flogið niður um strompinn og komu í gegnum arininn. Voða hrifnir af nýju húsgögnunum hjá þeirri útlensku og ætluðu sér að setjast þar að.

Það fauk í vitleysinginn, útlendinginn, og hún keypti arinn inn í arininn, reyndar eftir að hafa spurt hvort hún mætti láta setja net fyrir strompinn svo fuglarnir kæmust ekki inn og apótekara daman og tannlæknirinn eiginmaður hennar sögðu NEI.

Nokkur þúsund evrur lokuðu fyrir fuglana og nú er allt fuglalaust en það rignir enn. Rigningin vellur inn og hefur gert í 6 ár.

Í landinu mínu nýja kann fólk ekki almennilega að búa í svona blokkum, það er vant að búa í húsum og þarf ekki að sitja uppi með kolbrjálaða útlendinga sem ætla allt vitlaust að gera vegna smá stígvélaveðurs í stofunni í nokkra mánuði á ári.

Ég kom því í gegn í fyrra eftir ævintýralegar tilraunir að ráðið var kompaní til þess að sjá um málefni blokkarinnar. Talaði við stjórnendur og sagði þeim frá ÖLLU því sem ég vildi láta koma í lag.

Kompaníið hefur nú verið við stjórn í eitt ár og fundur var í gær. Venjulega eru svona fundir haldnir í bílskúrum en útlendings frekjan heimtar að fundurinn sé í stofunni hennar og ber hún því við að heilsa hennar leyfi ekki bílskúrs kulda og tekk. Meikar sens og allir samþykktu þetta.

Til þess að hægt sé að taka ákvarðanir á svona fundum þurfa að vera 500 atkvæða einingar. Haldnir hafa verið 2 fundir og 517 einingar á þeim sem var í gær. Á fyrri fundinum var þetta eitthvað svipað. Útlendingurinn er hress með þessa mætingu og gefur kompaníinu kaffi og þakkar guði fyrir að aðal röflarinn mætir ekki. Í gær var hann að fara til Portó. Fundurinn er boðaður með ábyrgðarbréfi með tveggja vikna fyrirvara. Dásamlegt fyrirkomulag. Ég ræddi reyndar við tannsa, mætti honum fyrir 3 dögum þegar hann var á leið að sækja brauðið sem er hengt á útihurðina á morgnana, og ég sagði honum að það yrði að setja upp handrið hægra megin svo ég kæmist niður stigann næst þegar ég veiktist. Hann samþykkti þetta. Svo sagðist ég vilja losna við tréð sem er að grafa í sundur grunn hússins með rótunum. Kallinn samþykkti það en svo mætti gaurinn ekki á fundinn. Alveg dæmigert.

Jæja, semsagt, í gær var samþykkt að fara í framkvæmdir til þess að loka sprungunum sem rignir í gegnum svo ég þurfi ekki að nota blómastígvélin mín í bráð inni stofnunni. Kompaníið var búið að fá tilboð og útskýrt var hvað þyrfti að gera. Ég var alsæl, nú átti að gera það sem ég hef verið að segja að þyrfti að gera, í sex ár. Það skipti auðvitað öllu máli að útlendings bjálfinn var ekki að segja hvað þyrfti að gera og ég hélt mér alveg á mottunni og sagði ekki orð, ekki annað en að ég samþykkti málið og hef reyndar tekið að mér að punga út fyrir þann brjálaða á neðri hæðinni sem borgar ALDREI neitt en kemur annað slagið og öskrar og lætur öllum illum látum um miðjar nætur.

Konan er auðvitað löngu farin með börnin en hann er búinn að ná sér í aðra og farinn að öskra á hana og berja. Það er rafmagn í íbúðinni en ekki vatn. Ég skil ekki hvernig þau geta verið vatnslaus en það er auðvitað annað mál.

Þessi vitlausi, fyrir neðan mig, borgar aldrei neitt og ég er löngu búin að lýsa því yfir að þegar loksins verði farið í framkvæmdir til að loka fyrir vatnið í stofuna mína, í gegnum veggina, þá borgi ég hans part því það er ódýrara fyrir mig en að allir geti haldið að sér höndum bara af því hann borgar ekki og íbúðin mín verður smátt og smátt að sundlaug.

Nú er búið að tryggja húseignina, búið að samþykkja að kaupa eldvarnartæki og á að skipta um ljós í sameigninni til þess að spara rafmagn og síðast en ekki síst, og þar er fullnaðarsigurinn minn unninn, á að stoppa upp í vatnsrásirnar á veggjunum og grafa upp garðinn til þess að gæta þess að ekki flæði lengur inn í bílskúrana.

Ég lét setja 10 cm vörn fyrir minn skúr svo það fer ekkert vatn þangað lengur en lekur til hinna og mér nokk sama um það, en vörnin mín varð til þess að fólk sá alvöruna í því að ég ætlaði ekki að ausa vatni oftar úr bílskúr.

Ýmislegt fleira sem útlendings fíflið hefur verið að tuða um í 6 ár verður nú framkvæmt og það besta við þetta allt saman er allir halda að þetta sé þeirra uppástunga og ekki sé verið að láta að vilja þeirrar útlensku.

Ég elska svona uppákomur. Þetta gefur lífinu svo mikið gildi. Verst er þetta þó með blómastígvéin mín sem hafa verið inni í skáp í allan vetur og beðið þess að fá að vaða í kjallaranum. Þau fá ekki að vaða, eða það lítur út fyrir ekki en ég dytti ekki niður dauð af undrun ef vatnið fynndi sér leið inn í bílskúrana. Það er nefnilega ekki verið að leysa það mál alveg en ég ætla ekki að blanda mér í það meira í bili.

Staðreyndin er sú að vatnið í bílskúrana kemur frá næsta garði ! en ég losna við andskotans tréð úr okkar garði !. Ætla ég að segja nágrönunum frá þessu? Nei, ekki aldeilis. Ég ætla að skemmta mér yfir þessu þar til næstu rigningar flæða inn í alla skúra nema minn og þá gæti ég hugsanlega sagt: Ég sagði ykkur þetta fyrir 5 árum!

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband