Tvísköttun, hvað er það nú eiginlega ?

30.apríl 2017

Það er stundum rætt um tvísköttun og tvísköttunarsamninga og margir sérfræðingar í þeim málum skjóta upp kollinum, sérstaklega á Facebook.

Yndislegt er að sjá alla þessa ágætu sérfræðinga en mér þykir frekar þunnur þrettándi stundum þegar ég les upplýsingar þeirra.

Þegar ég flutti frá Íslandi vissi ég ekkert hvað tvísköttunarsamningar voru. Hafði aldrei heyrt á þá minnst eða alla vega ekki tekið eftir því ef einhver talaði um svoleiðis.

Það er jú rætt um svo margt og einn heili getur ekki melt allt sem er á ferðinni.

Ég hrökk hins vegar upp við vondan draum þegar ég hóf að taka eftirlaun frá Tryggingastofnun og var rukkuð um skatt frá Íslandi og stofnunin heimtaði af mér skattskýrslu frá Portúgal. Ég vissi ekkert um að nú væri ég orðin mikilvægari en margir aðrir og ætti að telja fram milljónirnar mínar í tveimur löndum. Hélt í fávisku minni að skattgreiðsla á Íslandi væri málið og þetta kæmi Portúgölum ekkert við, hvað þá að íslenska tryggingastofnunin gæti lesið í gegnum skattskýrslur gerðar í Portúgal sem þykja með afbrigðum flóknar og eru ekki einu sinni á íslensku.

Ég ræddi við apparatið á Íslandi og sendi e-mail og fékk alls konar heimskuleg svör sem ég nenni ekki að endurtaka hérna. Þau voru svo út um víðan völl að ég með öllu mínu frábæra hugmyndaflugi náði engan vegin í skottið á fyrirbærinu. Gafst upp á endanum og talaði við ríkiskattstjóra og lögfræðing þar sem auðvitað gat útskýrt fyrir mér málið. Engir hálfvitar hjá skattstjóra og þar er bara tekið á málunum og ekkert verið að djöflast eins og beljur sem hleypt er út að vori. Nei mér var sagt hvað ég ætti að gera vegna þess að í gildi væru samningar á milli Íslands og Portúgal til þess að koma í veg fyrir svona "tvisvar" álagningu. Sem sagt fyrirbærið tvísköttunarsamningar. Ég gat kært Ísland og fengið endurgreitt í ágúst og fékk það. Nokkur hundruð þúsund endurgreidd og eftir svolítið japl og jaml og fuður var upphæðin meira að segja lögð inn á reikning minn á Íslandi, en ég þurfti að biðja um það.

Stundum er kerfið sko þannig að það verður að fylgja því eftir. Ég hringdi auðvitað í skattmann í Hafnarfirði og Gullbringusýslu eða eitthvað svoleiðis og sagði þeim að ég vildi eiginlega bara fá peningana mína. Þau létu þetta eftir mér á endanum.

Viðtiði, stundum þykir mér sem allir haldi að maður sé að ljúga einhverju. Sönnunarbirgðin er svo mikil og ég hefði ekki orðið hissa þó heimtað hefði verið að ég kæmi í eigin persónu frá Portúgal til þess að standa fyrir framan fulltrúann og sanna að ég væri ég. Æ. þetta er nú hálf andstyggilegt en mér líður stundum svona og ekki síst þegar ég þarf á morgun að fá kirkjugarðana hér í þorpinu til þess að staðfesta að ég sé ekki ofan í moldinni og tikki enn þá alveg eins og í fyrra.

Ef einhver segir ykkur að ekki séu í gildi samningar á milli landsins sem þið hafið flutt til  og Íslands þá ráðlegg ég ykkur að tala við ríkisskattstjóra. Ekki eyða tíma í Tryggingastofnun. Skatturinn veit þetta upp á hár og þau gefa almennilegar upplýsingar.

Ekki taka orð mín eða annarra sem skrifa til dæmis á Facebook og þykjast vita allt um þetta trúanleg. Sumir sérfræðingarnir á Facebook hafa lesið hálfa tvísköttunarsamninga og sjá bara fjallað um fyrirtæki. Þetta fólk nennir ekki að lesa til enda. Ég get alveg skilið það. Tvísköttunarsamningar eru ekki eins og ástarsaga eða þriller. Þetta er grafalvarlegt mál og málið er frekar erfitt að skilja. Skiljiði?

Fjallað er um eftirlaun og hvernig þau eru meðhöndluð í þessum samningum aftarlega í hverjum samningi. Ég hef lesið nokkra og held að ég skilji þetta aðeins. Ég veit alla vega hvar ég á að leita eða hvert ég á að hringja.

Ég varð alveg urrandi þegar ég sá comment þar sem talið var eðlilegt að einhver sem bjó í útlöndum væri skráður á Íslandi þar sem ekki væri í gildi samningur á milli landanna. Þessi aðili rífur endalaust kjaft yfir kjörum fólks og virðist vera sérfræðingur í ÖLLU, ekki bara sumu og hann rífst og djöflast yfir því hvernig stjórnvöld svíki almenninga. Svo getur þessi sóðakjaftur leyft sér að segja að eðlilegt sé að svíkja út úr kerfinu þegar verið er að taka á móti bótum frá Íslandi.

Ég verð stundum alveg kjaftstopp og veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband