Hvað er skattkort?

30.apríl 2017

Hvað er skattkort? Hvers vegna þarf ég að hafa skattkort.

Spurningar sem þessar gætu hugsanlega farið í gegnum kollinn á einhverjum.

Ég man þá tíð þegar við borguðum skatta eftir á. Þeir voru reiknaðir út einu sinni á ári og svo kom reikningurinn og allt fór í klessu.

Núna bý ég í landi þar sem þetta fyrirkomulag er. Skattar eru greiddir eftirá. Hér skal borga alla upphæðina 1. september ár hvert. Borgi maður ekki á réttum tíma eru viðurlög og allt mögulegt svoleiðis sem ég þekki ekki því ég hef alltaf borgað það sem mér ber á réttum tíma. Ég er nefnilega heltekin af þeirri áráttu að skulda engum neitt.

Núna, árið 2017 veit ég ekkert hvað ég á að borga mikið í skatta en veit þó að það verður all veruleg upphæð vegna þess hve gengi krónunnar hefur verið ólíkt því sem það var í hitteðfyrra.

Ég er hins vegar svo sniðug að ég legg fyrir ákveðna prósentu í hverjum mánuði og þegar ég fæ bréfið í byrjun ágúst, frá skattmanninum hér í landinu mínu, legg ég allt inn aftur í bankann minn og borga svo bara í gegnum hraðbanka. Einfaldara getur lífið ekki verið. Það þarf hins vegar aðeins fyrirhyggju og getur stundum verið freistandi að fara í umslagið og gera eitthvað skemmtilegt fyrir peningana.

Mér finnst skattkort mjög rökrétt og nú er það komið á rafrænt form á Íslandi.

Hér áður fyrr skilaði maður kortinu inn, en það var gefið út af ríkisskattstjóra, kortinu var sem sagt skilað til launagreiðanda og hann sá um að allt væri rétt reiknað og skilaði svo skattinum um miðjan mánuð ásamt ýmsum öðrum gjöldum sem þeir greiða er hafa fólk í vinnu.

Svo kom uppgjör um mitt ár og allt var í fínu lagi. Mjög hentugt.

Nú veit ég ekki hvernig þetta nýja fyrirkomulag með rafrænt kort virkar en ég var aðeins að velta fyrir mér varðandi þau fyrirtæki sem eru pínulítil og kannski ekki með tölvu keyrð launaforrit. Hvernig ætli þetta virki hjá þeim?

Ég þarf eiginlega að fá þessar upplýsingar frá einhverju litlu fyrirtæki sem gerir allt samkvæmt bókinni og er ekki að svíkja eitt eða neitt út úr kerfinu.

Gamla kerfið virkaði þannig að þegar ég hætti að vinna hjá einu fyrirtæki fékk ég skattkortið afhent og var kvittað á það og alles. Síðan skilaði ég því til nýja vinnuveitandans ef ég hélt áfram að vinna en auðvitað ekki ef ég var að vinna svarta vinnu.

Er einhver að vinna svarta vinnu á Íslandi í dag?

Ég veit ekkert um það, en hef aldrei prófað þetta sjálf. Færi líklega á taugum ef ég reyndi að svíkja út úr kerfinu og svo dræpi samviskubitið mig efalaust mjög fljótlega.

Ég er nefnilega á því að maður eigi að borga til samfélagsins og þess vegna er ég bara glöð þegar rukkunin kemur til mín núna í ágúst byrjun.

Skattkort eða ekki skattkort. Það er ekki málið. Samfélagið skiptir öllu máli og vilji ég njóta hlunninda sem greidd eru af sameiginlegum sjóði þarf ég að taka þátt.

Einfalt og auðskilið en sumir þurfa að borga meira en aðrir og einstaka geta komist upp með að láta afskrifa milljarða af skuldum og halda svo áfram að stjórna því að láglaunafólk og lífeyris þegar lepji dauðann úr skel.

Það á auðvitað að taka skattkort af öllum sem sitja á alþingi núna. Ekkert vit að gefa þessu fólki afslátt. Líklega væri best að gefa út refsiskattkort til þeirra sem eru með yfir milljón á mánuði. Er þetta ekki bara kúl hugmynd? Ég held það.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband