Ekki silikon!! öskraði ég og fórnaði höndum.

30.apríl 2017

Þegar verið var að kynna framkvæmda áætlun vegna viðgerða á húsinu sem ég bý í var allt útlistað vel og vandlega.Kostnaðurinn var rúmar 800 evrur og rétt slefaði yfir 1000 evrur með skatti. Þetta gerir um það bil 300 evrur fyrir mig og vitleysinginn fyrir neðan, þennan sem ég ætla að borga fyrir. Ekki neitt til þess að ergja sig á.

Grafa átti skurð í garðinum meðfram veggnum til þess að einangra og varna því að vatnið gæti smogið inn í bílakjallarann. Ekkert var talað um að tréð yrði fjarlægt. Þetta viðbjóðslega tré sem ég hata út af lífinu. Það lemst í svalirnar hjá mér og heldur fyrir mér vöku og garðurinn fyrir neðan er bara pínulítill. Þetta ógeðslega fyrirbæri sem ég hef reynt að fá fjarlægt með öllum mögulegum ráðum er nú farið að skríða inn í veggina, það er ræturnar, og búa til göt hér og þar.

Þegar ég kveinaði í gær á fundinum yfir því að viðbjóðinn átti ekki að fjarlægja var mér sagt að fyrst yrði grafið meðfram veggnum til þess að einangra hann og þá kæmi í ljós hvort ræturnar væru komnar inn fyrir. Hálfvitar ! Ég sagði salla róleg að ég mundi drepa bévaðans tréð og allir horfðu á mig stórum augum og sögðu að ég skyldi bara gera það.

Þau vita ekki að ég reyndi það í fyrra. Eitraði með lútsterku eitri og hálfvitinn lifði af. Er bara aðeins títlulegra neðst en toppurinn lifir góðu lífi. Nú vill svo dásamlega til að kærasti vinkonu minnar er skógarhöggsmaður og hann veit allt um svona drápsaðferðir. Hann fær heimboð ásamt kærustunni og þau koma með eitur og við sprautum, eða hann sprautar, á fyrirbærið og það drepst vonandi.

Þegar verið var að útskýra fyrir mér hvernig ætti að loka sprungunum á húsinu ofanverðu svo ég komist úr stígvélunum í stofunni minni þá var talað um silicon.

Ég ærðist, stökk upp úr stólnum og hálf drap á mér öxlina sem þolir ekki snöggar hreyfingar í bili. Ég fórnaði höndum og hrópaði  SILICON

Ég get svarið það að helsta lausn allra vandamála hér í landi er silicon. Því er troðið í allt, alls staðar, hvað sem amar að þá er komið með silicon og það hefur svo sannarlega verið reynt í bílakjallaranum okkar. Jedúdda mía, það var allt fullt af siliconi þar fyrir 2 árum þegar átti að redda málunum og sjá til þess að vatnið, sem er auðvitað mun gáfaðra en hálfvitarnir sem búa með mér, finndi sér ekki leið í gegnum vegginn.

Það var sem sagt talað um silicon í verkáætlun sem var verið að kynna fyrir fundinum inni í stofunni minni þar sem blautur veggurinn blasti við mér. Meo deus, nao silicon, nao silicon, sagði ég og reyndi að garga ekki mjög hátt.

Fundarmenn, nágrannar mínir, horfðu á mig og kompaní fólkið líka, og hlógu.

Þau sátu þarna og hlógu að útlendings bjálfanum sem var að missa vitið fyrir framan þau.

Calma, calma sögðu þau.

Nao silicon. Nao nao, nao silicon,

og svo tóku þau til við að útskýra fyrir mér að þetta væri öðruvísi silicon. Ekki svona venjulegt silicon.

Það eitt að heyra nefnt silicon gerir mig einfaldlega tjúllaða, ég er með rennblautt loft í holinu hjá mér af því að hálfvitinn, tannlæknirinn, sem býr fyrir ofan mig, og fjölskylda hans fara í sturtu fimmtíu sinnum á dag. Óskaplega hlýtur þetta fólk að vera óhreint alla tíð. Einn daginn var ég að syngja inni í gestaherberginu mínu, píanóið er þar, og leit upp í loftið og við mér blasti vatn. Það var vatn í loftinu mínu. Ég fór fram í hol og þar var líka vatn í loftinu. Mikið vatn. Svo fór ég inn á bað og enn var vatn í loftinu þar. Ég var að missa vitið. Það var flóð fyrir ofan og seytlaði niður til mín. Andskotans sturtuferðirnar alltaf.

Ég talaði við tannsa og hann sagði mér að þetta væri allt út af eldri dóttur hans sem væri komin í háskólann og þyrfti svo oft að baða sig. Hah. Hún er bara heima um helgar. Jæja, kallinn hafði tekið eftir því að siliconið, takið eftir siliconið, hafði losnað meðfram sturtunni og hann bætti bara við og sagði að nú væri allt í lagi. Ekkert vatn hjá honum lengur fyrir utan sturtuna.

Mario og Carlos komu og Tryggingafélagið kom og það voru boruð göt á gólfið hingað og þangað hjá tannsa. Allt fljótandi í vatni undir. Ég varð óð. Núna, 2 árum síðar er loftið í holinu hjá mér enn blautt. Það tekur langan tíma að ná svona raka í burtu. Hann situr eins og gömul kelling og gefur sig ekki. Auðvitað hjálpar ekki að baðferðum hefur ekki fækkað á efri hæðinni. Meira hvað þetta ofur kaþólska pakk getur verið skítugt alla daga. Ég efast ekki um að nógu af siliconi hefur verið dælt í götin til þess að halda gólfum í lagi hjá fyrirfólkinu.

Stundum gæti ég alveg ælt.

Jæja, Núnó hefur komið 2svar til þess að athuga hvort hægt sé að mála hjá mér og það er ekki komið að því. Núnó er sko málarinn sem ég treysti og hann er frændi Toni sem er nágranni minn á sömu hæð, þessi sem fór með ruslið fyrir mig á meðan ég gat ekki gengið niður stigann af því ekkert handrið var hægra megin og ég var brotin vinstra megin. Skiljiði.

Nú verður sett upp handrið fljótlega, það var ákveðið í gær, því útlendingnum tókst að sannfæra fundarmenn um að hún væri alvarlega veik og þyrfti nauðsynlega að komast upp og niður stigann án þess að fá hjálp. He, he.

Allir eiga að vera búnir að borga sinn hluta í viðgerðinni fyrir 1. júní. Það er sko svoleiðis hér að fólki er ekki treyst til þess að greiða slíkar framkvæmdir eftirá. Ég skil það vel. Til þess að koma í veg fyrir að einhverjum takist að tefja framkvæmdina og láta mig áfram vera í stígvélum inni í stofu þegar rignir, sagðist ég mundi leggja út fyrir því sem á vantaði ef félagið sæi svo um að innheimta hjá skussunum. Þetta eru ekki nema 1000 evrur en miklu meira virði fyrir mig að framkvæmd geti hafist í júlí á þessu ári en ekki einhvern tíma í framtíðinni og kannski eftir önnur sex ár.

Ég er sko búin að búa hérna í rúm sex ár og komin vel inn í hvernig mál ganga fyrir sig í þessari blokk !

Fyrst það á ekki að fylla 20 metra langar sprungur utan húss með siliconi, það er venjulegu, þá lítur þetta bara nokkuð vel út og útlendings gellan nokkuð ánægð. Ég tala nú ekki um þegar andlátsfregn hins viðbjóðslega trés verður birt mér til mikillar ánægju og ég fæ svefnfrið jafnvel þó vindar blási.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband