Bjarni bakar! og ég skemmti mér!

Í dag ætla ég ekki að skrifa neitt um stjórnmál, ekkert um eftirlaunamál, bara eitthvað skemmtilegt.

Ég get þó ekki varist því að nefna hvað mér fannst hann Bjarni ótrúlega krúttlegur með svuntuna og svo íbygginn við baksturinn. Nennti þó ekki að horfa á vídeóið. Það dugði mér að sjá forsíðuna, en mikið getur drengurinn nú verið niðursokkinn og einbeittur, eitthvað annað en frekjusvipurinn á fundinum í Háskólabíói.

Mér þykir ólíkt þekkilegra að sjá hann Bjarna við bakstur heima hjá sér en standandi í stiga með framsóknarmanni þar sem rýkur úr ofninum og einhverjir ósvífnir fréttamenn eru að toga út úr þeim svör sem þeir týndu á leiðinni niður stigann og allt að brenna í bakarofninum. Það verður að passa upp á baksturinn svo hann brenni ekki og ekkert, segi og meina ekkert, getur eða má trufla kökugerðina.

Nú er ég búin að læra eitt og annað um blogg gerð. Til dæmis lærði ég núna áðan að það er hægt að smella á takka sem heitir ABC og þá eru leiðréttar villur. Dásamlegt það. Ég er samt ekki alveg á því að þessi ABC geti breytt orði eins og hann gerði. Það eyðileggur fyrir mér. Takkinn tók upp á sitt eindæmi ákvörðun um að breyta bakarofninum í barkarofninum!

Finnst ykkur þetta ná nokkurri átt? Eins gott að ég fylgist með þessum tökkum sem halda að þeir geti bara tekið af mér ráðin.

Nú svo er ég líka búin að læra að það eru 2 takkar hlið við hlið neðst á síðunni, annar heitir Vista uppkast og hinn er svartur og heitir Vista og birta. Auðvitað getur verið að puttarnir mínir séu kaldir og finni ekki alveg réttann takka og smelli á þann svarta. Ef það gerist þarf maður að vita hvernig maður afturkallar svona mistök! Ég er ekki komin svo langt en ég get sagt ykkur að nú kann ég að setja þema inn í haus og hvað haldið þið? Fann ég ekki eldrauða tómata! Gat ekki verið betra, ég lifi á tómötum núna, ekki bara þeim, líka öðrum mat, en tómatar eru ásamt appelsínum hjálpartæki fyrir eitthvað meðala sull sem læknirinn vill að ég taki til þess að hann  þurfi ekki endalaust að finna einhvern sem getur gefið mér blóð!

Þessi læknir minn er svakalega flottur. Hann er á spítalanum mínum og hann talar við sjúklingana sína. Ég meina hann situr ekki bara og starir á tölvuskjáinn og hamast á lyklaborðinu. Hann talar mannamál, við höfum sameiginleg áhugamál, fullt af þeim. Sömu bækur, ferðalög, erlendur kúltúr, tungumál og fleira og fleira. Svo skilur hann líka að ég sé veik.

Sumir hér, t.d. heimilislæknirinn minn, sem er reyndar fífl og stækkar og stækkar í hvert skipti sem ég sé hann, sem er ekki oft, og ég held svei mér þá að höfuðið á honum sé að tútna út, halda að ég sé bara að gera af gamni mínu. Ég hef verulegar áhyggjur af honum DR. Cardosa, en hann segir mér að það sé ekkert að mér, ég sé bara gömul, og það þýðir auðvitað að við erum ekki vinir eða svoleiðis.

Hvernig er það annars segir maður gera af gamni sínu eða gera að gamni sínu? Ég er bara ekki viss enda búin að vera í útlegð alveg voðalega lengi!

Sko, ég er búin að læra að feitletra! Þetta er allt að koma hjá mér.

Einhver sagði að ég ætti að skrifa undir bloggið mitt. Ha? Af hverju? Ég er merkt í bak og fyrir en get svo sem alveg gert þetta þó mér sýnist flestir ekki skrifa nafnið sitt í lokin. Það gæti samt verið gott t.d. ef þeir sem eru að lesa gleyma því hvað þeir eru að lesa eða svoleiðis. Ég ætla að verða við óskum sem eru svona krúttaðar. Ekki málið.

Eins og þið sjáið þá hef ég vandamál, eiginlega bara stórt vandamlá. Ekki fyrir mig heldur þá sem eru að hlusta á mig.

Ég veð úr einu í annað, hratt, og held að fólk geti fylgt mér á sprettinum.

Sumum finns þetta óþægilegt en ég er svo heppin að vinir mínir hér í landi hafa vanist þessu. Þegar þeir eru hættir að fylgja mér kemur á þá svona grár svipur. Þið vitið, svipur sem kemur á fólk þegar það er voða þreytt eða áhyggjufullt og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Venjulega horfi ég á fólk sem ég er að tala við og þegar svipurinn grái birtist stoppa ég og byrja aftur, hægt og rólega og skipulega þar sem ég tala um eitt í einu og afgreiði það, þá verða vinir mínir glaðir og fallega brúnir aftur.

Þetta er aftur á móti erfiðara þegar ég er að vaða áfram í símtali. Hvað haldið þið? Ég er svo ljón heppin að besta vinkona mín á systur sem er alveg eins og ég, alveg nákvæmlega eins. Ég hef séð það þegar ég dvel hjá þeim um jólin. Dásamleg fjölskylda sem er ekki í vandræðum með mig. Hjónin, foreldrarnir, bjuggu í 20 ár í Frakklandi og maturinn sem þau búa til er ekki portúgalskt ógeð, þau búa til alvöru mat og drepa ekki grænmetið og fiskinn og allt dásamlega hráefnið sem hér fæst.

Ég ætlaði að reyna að kenna löndum mínum að elda ekki kartöflurnar í hel en gafst fljótt upp á því. Hér eru kartöflur flysjaðar, látnar liggja í vatni í langan tíma og svo soðnar í 50 míútur. Maður þarf ekki að tyggja þær ýkja mikið, bara hægt að renna þeim niður eins og, ja ég á ekki orð.

Það er hætt að rigna, vindurinn er að hugsa sig um hvort hann eigi að fella öll trén og skýin orðin grá, hætt að vera svört, svo ég held að mér sé óhætt að skreppa út og kaupa köngla svo ég geti kveikt upp í arninum.

Ætli ég verði ekki aftur farin að röfla um svangt fólk og nýja bakara, næst þegar ég sest niður og leyfi puttunum mínum að flögra eins og fiðrildi stjórnlaust um lyklaborðið. Þætti það ekki ólíklegt en þangað til: Njótið tilverunnar og munið að hlátur lengir lífið!

 

Með vinsemd og virðingu

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband