Samtakamáttur er það eina sem dugar

19.júní 2017

Man einhver eftir kvennafrídeginum?

Deginum þar sem konur á Íslandi lögðu niður vinnu í heilan dag og stóðu saman?

Ég man vel eftir þessum degi enda á ég nokkur ár í pokahorninu, eins og við segjum hér í landinu mínu.

Eu tenho muitos anos !

Kvennafrídagurinn sýndi og sannaði að fólk getur staðið saman, ekki bara konur, heldur líka karlar.

Þegar við erum að rífa okkur yfir kjörum eldri borgara og öryrkja sitjum við hvert í sínu horni og ekkert gerist. Það vantar alla samstöðu.

Ég veit að það er stór hópur eldri borgara sem hefur það fínt og  það er eini hópurinn sem Panamaprinsinn talar um. Hann skilur ekki kjör hinna og er kannski ekki hægt að lá honum það.

Mér dettur stundum í hug þegar mamma, sem var öryrki, reyndi að vinna sér inn nokkrar krónur svo við hefðum mat á borðum og hún tók að sér að þvo þvott fyrir ættmenni Panamaprinsins.

Við komum inn í stórt herbergi sem var þvottahúsið, og þar lágu föt í haugum. Þessi fjölskylda var ekki að hafa fyrir því að þvo, hún keypti bara nýtt þegar þurfti að skipta um föt, og fékk svo einhvern annað slagið til þess að taka til í haugnum og þvo og strauja.

Við vorum heilan dag í þvottahúsinu og mamma þvoði og straujaði á meðan barnið var sett upp á bekk til þess að það væri ekki að þvælast inn í önnur herbergi hússins. Lítið barn, rétt fimm ára hefur ekki vit til þess að fara ekki inn í forboðin húsakynni og best að geyma það uppi á borði. Þetta var ekki svo slæmt og ég fékk að hjálpa til og brjóta saman nærbuxur og litla hluti sem ég réð við.

Auðvitað veit ég ekkert um það hvort Panamaprinsinn og fjölskylda hans þvo og strauja. Mér finnst það frekar ólíklegt jafnvel þó hann skreyti óhollar kökur af hjartans lyst.

Mamma fór bara einu sinni í fína húsið með mig. Þetta varð henni ofviða og hún þurfti að hvíla sig þar til næsta starf bauðst, sem var venjulega ráðskonustaða úti í sveit. Það er ekkert grín að vera öryrki með fatlaðan handlegg og berklasjúklingur. Mamma var hetja og gerði það sem hún gat.

Ef við setjum okkur í spor prinsins og ættmenna hans sjáum við hvað baráttan er vonlaus. Eða er það?

Handónýt stjórnarandstaða gerir ekkert og skilur heldur ekki vandamálið.

Alþingismenn, bankastjórar, lögfræðingar, dómarar og fleiri stéttir hafa það svo gott eftir að þau komast á eftirlaun að þau geta ekki sett sig inn í spor þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar. Það er varla hægt að ætlast til þess, held ég.

Hins vegar er hópur eftirlaunaþega sem hefur ekki yfir hálfa milljón eða meira á mánuði. Sá hópur er nokkuð stór. Ég sá einhvers staðar töluna 14 þúsund af 60 þúsund manna hópi. Ég ét ekki hatt minn fyrir þessar tölur en þarf að hafa eitthvað til að ganga út frá. Ég veit ekki hvað Grái herinn og hans "baráttu fólk" í fararbroddi, hópurinn sem er á forsíðu hersins, hefur í eftirlaun. Ég gæti trúað að "frúin ágæta" væri með ágætis eftirlaun, en ætla ekkert að fullyrða um það að órannsökuðu máli.

!4 þúsund manns er nokkuð góður hópur. Ef þessi hópur gæti staðið saman og barist saman fyrir bættum kjörum eldri borgara gæti verið að einhver hlustaði.

Það er ekki nóg að heimta endalaust og skrifa endalaust um að loforð frá 2013 hafi verið svikin. Þetta verður eins og illa kveðin vísa sem allir hætta að heyra. Jú, loforðin voru svikin. Það er hárrétt. Jú, Landssamband eldri borgara er grút máttlaust, það er líka rétt og ég gæti trúað að það yrði ekki öflugra á næstu 4 árum. Það þarf jú bein í nefinu til þess að berjast fyrir þá sem hafa verið sviknir aftur og aftur. Vöðvar og sterk bein eru gott nesti, án þess þó að ég ætlist til þess að fólk fari að berja stjórnmálamenn og "fátæki" nefndarformenn.

Nei, það sem þarf er samstaða þeirra sem eru ekki með yfir hálfa milljón á mánuði i eftirlaun. Samstaðan getur orðið að veruleika, rétt eins og konur gengu út af vinnustöðum fyrir mörgum árum og bjuggu til kvennafrídag.

Hættum að bulla endalaust og tökum til óspilltra málanna. Framkvæmum í stað þess að fjasa um allt og ekkert. 14 þúsund atkvæði eru mörg. 60 þúsund atkvæði eru vonlaus og ekkert annað en tímasóun að bulla um þau. Þeir sem skreppa út í búð til þess að endurnýja nærbuxurnar í stað þess að þvo þær eru ekki gjaldgengir í baráttuhóp fólks sem á ekki fyrir mat næstu 10 daga.

Hvað er hægt að gera núna? Nú er komið að ykkur kæru vinir að sjóða saman hugmyndir og koma með tillögur. Eitt að lokum. Ekki halda að seta á alþingi íslendinga breyti einhverju. Það geisar bráðsmitandi sjúkdómur þar sem kallast gleymska og heltekur þá sem setjast inn í húsið þegar búið er að færa þeim atkvæði á silfurfati. Nei, það þarf fólk utan þings til þess að berjast fyrir bættum kjörum.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband