Stefnt skal að ..........

19.ágúst 2017

Ef þið sjáið ummæli frá ráðherra þar sem hann segir "stefnt skal að" þá er hann í raun að segja "ég ætla ekki að gera neitt"

Mér finnst alveg með ólíkindum að árið 2017 skuli fólk trúa svona staðhæfingum.

Ráðherra velferðamála er örlátur á "stefnt skal að" ummælum sínum þessa dagana og ekki að furða. Hann sér fram á að stóllinn góði sé að brotna undan honum og líklega þurfi hann og aðrir ráðherrar flokksins að finna sér nýtt starf.

Ráðherra er þó skynsamur maður og þekkir klæki pólitíkusa út og inn, kannski betur en margur annar sem nú situr á alþingi Íslendinga.

Hann veit hvernig slá skal ryki í augu almennings sem þarf að sitja uppi með gjörónýta ríkisstjórn bara af því þessi sami almenningur trúði "stefnt skal að" og kaus vegna þeirra loforða.

Seðlabanki sagði ekki fyrir löngu að gengi krónunnar yrði stöðugt að minnsta kosti þar til 2019.

Hann fullyrti þetta og notaði ekki einu sinni "stefnt skal að". Nú er komið í ljós að þetta var bara til þess að lægja einhverjar öldur sem voru farnar að gára í þjóðfélaginu.

Gengið hefur rokið upp. Bankinn hefur 2svar gripið inn í til þess að koma í veg fyrir spíralinn.

Verðbólguspár eru farnar fyrir bý.

Genginu er handstýrt fyrir fáa og almenningur situr uppi með hærra verð fyrir allar nauðsynjar.

Skilur fólk þetta ?

Nei það held ég ekki.

Ég hélt, þar sem ég á mörg ár í pokahorninu, eins og við segjum í landinu mínu, að gengisfellingar væru liðin tíð. Ég hélt að þær hefðu verið tæki sem Davíð Oddson og fleiri notuðu fyrir elítuna og ég trúði því í einfeldni minni að svona lagað kæmi ekki aftur.

Viti menn, nú er þetta enn ein afturgangan að rísa upp með klærnar útspenntar.

Handónýt ríkisstjórn þar sem forsætisráðherra verður rauður í framan af illsku ef einhver spyr óþægilegra spurninga eru verðlaun síðustu krossa á kosningaseðil landans.

Þjóðin fær það sem hún á skilið !

Hún kaus þetta lið yfir sig og er svo blind og auðtrúa að hún trúir enn þessum dásamlegu orðum "stefnt skal að" og heldur ekki vatni af þakklæti.

Sem betur fer eru einhverjir að átta sig á hvað er í gangi en líklega verður það sama uppi á teningnum, jafnvel þó kosið yrði nú á haustdögum.

Ég held stundum að íslendingum sé ekki sjálfrátt.

Hulda Björnsdóttir

 


Enn ein nefnd - Formaður FEB bregst félögum sínum hrapallega

18.ágúst 2017

Þegar Ellert var kosinn formaður FEB var ég bjartsýn. Hann var lögfræðingur. Hann var fyrirverandi alþingismaður. Hann var íþróttamaður og hann var maður sem barðist fyrir sigri.

Ég hélt uppi vörnum fyrir hann þegar einhver dansdama úr FEB var ekki par hrifin og kauða.

Nú hefur Ellert sýnt sitt rétta eðli.

Hann er grútmáttlaus og barátta hans er hjakk í gömlu fari sem er löngu orðið ófært en hann heldur að hægt sé að komast yfir ófæruna á sléttum dekkjum.

Þvílík einfeldni.

Hann segir á síðu FEB: Tilvitnun er feitletruð og ætla ég að gera athugasemdir innan um í bréfinu og eru þær ekki feitletraðar!

"Í frásögu færandi - frá Ellert B. Schram, formanni FEB

Það er frá því að segja að undirritaður skrifaði þrem ráðherrum (hvers vegna bara 3 ráðherrum? Hvers vegna ekki forsætisráðherra líka? Hann er jú sá sem öllu ræður í þessu stjórnarsamstarfi) í júnímánuði, tölvubréf, þar sem talin voru upp þau viðfangsefni sem snéru að eldri borgurum og óskað eftir samtali við stjórnvöld um viðbrögð og lausnir og meðferð þeirra vandamál sem við okkur blasa. Að minnsta kosti að okkar mati.

Frítekjumarkið, skerðingarnar, skattamál hinna lágt settu, hjúkrunarrými, heimaþjónustu, framkvæmdasjóð aldraðra, tannlækningar, samanburð við norræn kerfi o.s.frv. (Hér hefði ég viljað sjá bréfið í heild sinni en ekki bara og svo framvegis. Hvers vegna birtir Ellert ekki allt bréfið?)

Tíminn leið, sumarleyfi hófust og satt að segja var ég farinn að halda að þessar athugasemdir mínar og tillögur um samræður okkar í milli hefðu týnst í hinu bírókratíska kerfi. En svo gerðist það, sem ég átti satt að segja ekki von á, að ég var boðaður á fund þriggja ráðherra í síðustu viku (sjá meðfylgjandi mynd) og þar var að lokum samþykkt að skipa nefnd (að lokum samþykkt að skipa nefnd. Var það erfitt mál? Séð hef ég haft eftir talsmanni FEB að 3 úr þessari nefnd verði frá FEB. Virkilega. Þarf FEB að kynna sér þessi mál? Veit félagið ekki hvernig staða eftirlaunþega á Íslandi er?) , sex manns, sem skal fara yfir kvörtunarmálin (kvörtunarmálin! erum við bara kvartarar í augum formannsins? Veit hann ekki að þetta eru ekki kvörtunarmál, þetta er ástand sem ríkir í þjóðfélaginu?) og stöðuna og skila frá sér nefndaráliti, ekki seinna en fyrir næstu áramót (Skila nefndaráliti? Til hvers? Það er til nefndarálit nú þegar og úttekt hjá Velferðarráðuneytinu. Veit formaður FEB ekki um það? Ekki seinna en fyrir næstu áramót á álitið að liggja fyrir. Það liggur fyrir yfirlýsing frá Þorsteini velferðarráðherra að ekkert verði hægt að gera því búið sé að negla niður fjárhagsáætlun og svigrúm sé ekki til staðar fyrir bætt kjör þessa hóps. Veit formaður FEB ekki um þetta? Fylgist hann ekki með fréttum?).

Ég er þakklátur ráðherrunum. Ég bind vonir við starf slíkrar nefndar, þótt ekki sé til annars en að ræða og meta þau klögumál (Ræða og meta þau KLÖGUMÁL..... KLÖGUMÁL er það mat formannsins að ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í þessum málaflokki séu bara KLÖGUMÁL eins og hjá óþægum krakka?) , sem hafa verið efst á baugi af hálfu okkar, okkar, sem reynum að standa vörð um hagsmuni eldri borgara (Klögumálin sem hafa verið efst á baugi......ég gæti ælt, þetta er svo yfirgengilegur málflutningur af hálfu formanns FEB). Þetta er samtalið sem ég hef beðið um. Þetta eru vinnubrögðin sem kallað er eftir af okkar hálfu, þeirra sem hafa það hlutverk að gæta hagsmuna og stöðu eldri borgara. (Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki rétt á sér herra formaður FEB. Það sem þú ert að gera er að leyfa ráðherrum, sem eru með allt á hælunum og eygja ekki von um endurkjör í nýjum kosningum, að troða túttu upp í þig til þess að fá þig til þess að þegja. Það vita allir að mál sett í nefnd verður aldrei neitt annað en laun nefndarmanna og enn eitt ómerkilegt álit sem enginn tekur mark á. Hvað heldur þú að nefnd hafi verið að fúska í 10 ár? Nefnd sem bjó til hin nýju lög um Almannatryggingar? )

Þetta er spor í rétta átt. (Ellert Schram formaður FEB. Þetta er ekki spor í rétta átt. Þetta er spor 10 ár aftur í tímann. Þetta er spor sem þú ættir að skammast þín fyrir að hafa tekið. Þetta eru hrein svik við alla þá 11 þúsund eldri borgara sem þú ert í forsvari fyrir. Þetta spor er það sem þú átt að sjá sóma þinn í að segja skilið við. Þetta spor gerir þig óhæfan sem formann eldri borgara. Látum á þetta reyna. (Þú Formaður FEB hefur ekki rétt til þess að láta reyna á svona svik. Á meðan þú lepur faguryrði úr hendi 3ja ráðherra sem kannski ætla að STEFNA AÐ einhverju þegar þeir eru orðnir fullorðnir, sveltir stór hópur umbjóðenda þinna. Á meðan rjóminn lekur í vasa þeirra 3ja fulltrúa FEB sem koma til með að sitja í þessari handónýtu nefnd, á stór hluti umbjóðenda þinna ekki fyrir lækniskostnaði, þeir eiga ekki húsaskjól, þeir sjá þann kost einan að svipta sig lífi. Það er þeirra rjómi en þú skilur auðvitað ekki svona KLÖGUMÁL eldri borgara landsins) .  

Kv.

Ellert B.Schram

Formaður FEB 

Þannig lýkur hinu merka "Í frásögu færandi" frá nýjum formanni FEB

Ég er ekki par hrifin. Ég er sár og reið fyrir hönd þeirra sem berjast í bökkum og reyna að halda út mánuðinn jafnvel þó ekki sé til matur í húsinu.

Hulda Björnsdóttir


Ný framboð eru ekki leið til bættra kjara á Íslandi

15.ágúst 2017

Það er langt frá því að ég ætli að halda með einum stjórnmálaflokki á Íslandi fremur en öðrum. Þetta er ábyggilega allt ágætis fólk og fullt af eldmóði og skarar ekki að eigin köku.

Mér hnykkti hins vegar við að sjá ummæli sem gætu vel verið fyrirboði þess að enn eitt nýtt klofnings framboð sé í uppsiglingu, ofan á öll hin.

Ágreiningur inna flokka á ekki að vera fjölmiðla- eða Facebook matur. Hafi fólk raunverulegan áhuga og metnað til þess að bæta kjör þeirra sem eru undir á landinu þá gerir það upp ágreining innan þeirra flokka sem það starfar.

Ekki finnst mér trúlegt að klofnings framboð séu til góðs. Þau benda til valdagræðgi, það er mín skoðun.

Á íslandi eru til nógu margir flokkar. Það sem vantar á landinu er fólk sem skilur þjóðfélagið og er til í að berjast fyrir bættum kjörum fyrir alla.

Það vantar samstöðu og ein leið er að fækka þessum örframboðum sem ekki gera annað en dreifa atkvæðum sem detta svo niður dauð.

Man einhver eftir forsetaframbjóðanda sem bauð sig fram aftur og aftur, og fékk nokkur atkvæði?

Góðærið er liðið. Kreppan er framundan. Það er bara þannig og sama hvernig hamast er með að meðal laun séu yfir 700 þúsund á mánuði.

Börn fara í rúmið á kvöldin án þess að fá fylli sína af einföldum mat.

Fólk hefur ekki húsaskjól og nú er veturinn á næsta leyti.

Sjálfsmorðum fjölgar.

Heilsugæslan er í molum.

Geðheilsa manna hrynur í svona ástandi og eina leiðin út er að svipta sig lífi. Það má ekki tala um þetta. Ætli velferðaráðherrann geðþekki viti þetta?

Baráttuhópar eins og Grái herinn eru sótsvört af pólitík og samstaða er eitthvað einkennileg orð sem þau skilja ekki. Enn heldur sumt fólk í vonina og lætur sig dreyma um að herinn geri eitthvað. Ég er löngu búin að missa þá trú.

Verkalýðsfélögin bregðast, LEB bregst, FEB með yfir 11.000 félagsmenn gengur við staf og hugsar. FEB lifir líklega á fortíðardraumum og rígheldur í þá. Það er svo gott að horfa aftur á bak og sjá hvað allt var gott í fyrndinni og hvað það væri nú gaman að geta fært fortíðina fögru með öllum fyrirheitunum til nútímans.

Það er svo gott og notalegt, nú þegar skammdegið fer í hönd, að sitja í ruggustól og hugsa um hvernig hægt væri að fara í mál við andskotann og leiðrétta allt sem hefur misstigið sig hér áður fyrr.

Hugsjónir verkaklíðsforystu sem setti á laggirnar lögbundinn lífeyris sparnað voru svo krúttlegar og mikið væri nú gott að þær kæmu aftur inn í líf okkar.

Já, við skulum hugsa um, hugleiða, safna gögnum, skoða gögn, tala við foringja fyrri tíma, finna út hvar þetta fór allt út af sporinu.

Fínar hugmyndir verða jú ekki til af engu. Þær þarf að hugsa um og hugleiða þangað til allir sem komu að málum í denn eru farnir ofan í moldina og ekkert hægt að sækja til þeirra lengur nema kannski með aðstoð miðla.

Eftir hverju er verið að bíða?

Hvað stendur í vegi fyrir því að heimildasöfnun hefjist núna. Nákvæmlega NÚNA?

Hvar er baráttan?

Hvar er viljinn?

Hvar er sannleikurinn? Er hann kannski að þetta sé svo mikil vinna að fólk sem blaðrar og blaðrar endalaust um hvað það séu miklir hugsuðir, nenni ekki að setjast niður og vinna vinnuna?

Hugsanir tala ekki og þær vinna ekki, þær safna ekki gögnum. Þær eru gagnslausar með öllu og það fæst ekki matur í maga svangra barna fyrir þær, eða húsaskjól fyrir tjaldbúa.

Ný framboð leysa ekkert.

Ný framboð eru ekkert annað en afsökun og undansláttur svo ekki þurfi að vinna fyrir þá sem eru svangir eða búa á götunni.

VAKNIÐI NÚ AF ÞYRNIRÓSARSVEFNI YKKAR OG BRETTIÐ UPP ERMARNAR MEÐ SAMSTÖÐU EN EKKI SUNDRUNGU OG VALDFÝSN.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Nú fer ég fram á að LEB og FEB taki til hendinni og berjist fyrir bættum kjörum eldri borgara

14.ágúst 2017

Nú heimta ég að LEB og FEB bretti upp ermarnar. Taki til hendinni og sjái til þess að kjör eldri borgara séu leiðrétt ekki seinna en í dag.

Svo heimta ég líka að þessi félagsskapur hætti að láta flokks skírteini stjórna gjörðum sínum.

Einnig er ég að heimta að ekki seinna en í dag fari þessi samtök að sína í verki að þau séu ekki grútmáttlaus apparöt sem geta ekkert annað en talað og hugsað en séu alveg vita vonlaus þegar kemur að framkvæmdum.

Innan þessara samtaka og í stjórn eru handhafar hinnar íslensku fálkaorðu.

Fálkaorðan er ekki veitt þeim sem ekkert gera annað en tala. Eða er það?

Getur það kannski verið að einhverjir vinir og vandamenn geti bent orðunefnd á vænlega þiggjendur og nefndin nenni svo ekki að skoða málið niður í kjölinn?

Ég veit ekkert hvaða reglur gilda við svona veitingar og hreinlega nenni ekki að kynna mér það.

Ég heimta bara að þeir sem eiga svona orður í fórum sínum sinni málum sem þeim var veitt orðan fyrir og hætti að þykjast vera að gera eitthvað.

Ég heimta að farið verði á fund allra flokka, allra þingmanna, allra ráðherra, allra ráðuneytis stjóra og þeir kynntir fyrir fólki sem á ekki í sig og á.

Ég heimta að þetta sé gert ekki seinna en í dag.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Það er búið að skrifa nóg. Það er skrifað á hverjum einasta degi um að ríkisstjórnin hafi svikið þetta og hitt. Það er skrifað á hverjum degi um hvað ríkisstjórninni beri að gera strax. Leiðrétta kjör eldri borgara. Fara í mál við ríkið. Heimta til baka frá upphafi það sem ríkið hefur tekið af sparnaði í lífeyrissjóði.

Það er skrifað fjálglega um að þessi félög hyggi á málaferli. Telji að málaferli séu æskileg. Telji að rétt væri að fara í mál við ríkið og svo framvegis og framvegis.

Ég heimta að nú verði hætt að skrifa og skrifa en í staðinn komi framkvæmdir. Ég heimta að upp séu settir strigaskór og útigalli svo veður hamli ekki framkvæmdum. Ég heimta að forsvarsmenn hers og landgönguliða hætti að heimta og fari að sýna frumkvæði. Það geta allir hugsað en ekki eru allir í formannsstöðum fyrir félagsskap með þúsundir manna innanborðs.

Ég heimta ekki meira en það sem er sanngjarnt af þeim sem hafa verið kosnir til þess að koma fram fyrir hönd þúsunda eldri borgara. Ég heimta að þetta forystu fólk VAKNI og leggist ekki til hvílu fyrr en árangur hefur náðst.

Hulda Björnsdóttir

 


Ofgreiðsla Tryggingastofnunar !

12.ágúst 2017

Björgvin Guðmundsson skrifar um að margir hafi haft samband við hann vegna endurgreiðslu kröfu frá TR.

Ég hef séð eitt og annað frá þeim sem voru krafðir um endurgreiðslu. Sumir um háar fjárhæðir og aðrir um lægri upphæðir.

Það er í flestum tilfellum hægt að koma í veg fyrir svona kröfur.

Á vef TR er hægt að breyta tekjuáætlun hvenær sem er og leiðrétta sé hún of lág eða of há.

Ég fékk endurgreiðslu kröfu upp á rúmar 6 þúsund krónur. Ástæða þess er að tekjuáætlun VR var of lág. Það var mér að kenna og engum öðrum.

Auðvitað eru 6 þúsund krónur engin ósköp og ég borga þetta þegar krafa kemur.

Hins vegar gæti verið að margir geri sér ekki grein fyrir því hvernig kerfið virkar og þar gætu til dæmis Félög eldri borgara veitt ráðgjöf. Ég veit auðvitað ekkert til hvers þessi félög eru en finnst þetta einhvern vegin rökrétt, þ.e. að þau leiðbeindu félagsmönnum sínum um ranghala kerfisins, sem eru þó nokkrir.

Það þýðir lítið að öskra að nú skuli Tryggingastofnun hætta að krefja fólk um að skila ofgreiðslum. Stofnunin reiknar út samkvæmt reglum. Þessar reglur eru aðgengilegar fyrir alla.

Ég heimta að þetta og hitt sé leiðrétt og það strax en rökstuðningur er enginn. Er þetta nú gáfulegt og málstaðnum til framdráttar?

Auðvitað er það ekki gott að fá bakreikninga upp á háar upphæðir. Fólk er líklega búið að eyða peningunum og á ekki varasjóð. Þó finnst mér einhvern vegin að þeir sem eru með háar fjármagnstekjur hljóti að eiga eitthvað afgangs.

Félag eldri borgara í Reykjavík er með 11.000 félagsmenn. Getur það félag ekki veitt upplýsingar og ráðgjöf svo fólk sitji ekki í súpunni ári eftir að það hefur fengið greitt frá TR?

Hvað með Landssamband eldri borgara? Er því ekki stjórnað nú af hinni frábæru frú sem hefur svo gífurlega reynslu og þekkingu á málefnum sem snerta eldri borgara og kjör þeirra? Getur frúin ekki sett upp upplýsinga vef?

Andstyggilegt auðvitað af mér að láta svona en hafi maður gagnrýnt gengdarlaust einhvers stjórnanda eða formann og sest svo sjálfur í sætið þá hlýtur allt að breytast til batnaðar. Ekki satt?

Hulda Björnsdóttir


Hvað er að gerast með gengi krónunnar?

10.ágúst 2017

Gengið fellur eins og enginn sé morgundagurinn þessa dagana. Evran hefur ekki verið óhagstæðari síðan 14.október 2016.

Hvað er að gerast?

Veit það einhver?

Hverjum er verið að hjálpa núna?

Hvað sagði seðlabankastjóri fyrir örfáum mánuðum? Átti gengið ekki að vera stöðugt?

Vondar fréttir fyrir þá sem hafa flúið örbirgð og eru að koma sér fyrir í útlöndum, rétt til þess að eiga fyrir mat og hafa húsaskjól fyrir sig og  fjölskyldu sína.

Þorsteinn velferðaráðherra er ægilega hamingjusamur þessa dagana eins og kemur fram í skrifum hans á Facebook.

Auðvitað er hann ánægður. Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af morgundeginum, eða hvernig hann klæðir fjölskyldu sína í vetur svo hún deyi ekki úr kulda og vosbúð í tjaldi eða bílum.

Ríkisstjórnin hangir á örþunnum þræði en það skiptir ekki máli. Stjórnarherrarnir í Sjálfstæðisflokknum vita að fólk kýs þá aftur og er bara lukkulegt með hvernig loforða bullið er svikið aftur og aftur.

Bréfið góða frá forsætisráðherra sem hann sendi árið 2013 er enn í fullu gildi en það skiptir ekki máli þó öll loforðin sem hann skrifaði fjálglega um þá hafi fokið út um gluggann.

Mér þætti áhugavert að sjá hvað Rauði Krossinn er að gera fyrir íslendinga sem eru við dauðans dyr vegna húsnæðismála. Er hann að gera eitthvað? Veit það einhver?

Þeir skrifa fallega um "flóttafólkið" sem er að koma til landsins. Ungu drengina sem eru ofþroska með ótrúlegan skeggvöxt. Þeir eru mikilvægir, ég veit það, en hvar er kvenfólkið frá þessum stríðshrjáðu löndum sem þessir ungu herrar koma frá?

Nú er örtröð ferðamanna frá Evrópu til "stríðshrjáðu" landanna sem sumir þessara ungu manna komu frá. Þetta er fólk er að heimsækja ættingja og vini í stríðinu og svo snúa blessaðir ferðamennirnir aftur til Evrópu að loknu sumarfríi.

Gengur þetta dæmi upp?

Jú, líklega er "góða fólkið" greindara og með meira hugmyndaflug en ég.

Hulda Björnsdóttir


Fólk býr í tjaldi árið 2017

8.ágúst 2017

Er það ekki nöturlegt að fólk á Íslandi, íslendingar, skuli ekki eiga þak yfir höfuðið og þurfi að hýrast í tjaldi árið 2017?

Hvernig verður þetta þegar tekur að kólna með haustinu?

Deyr þetta fólk úr kulda?

Þegar ég les um þetta verður mér illt.

Það veður allt í peningum. Nú er verið að laga gengið fyrir ríkis bubbana og það orðið hærra en um mitt síðasta ár. Vesalingunum hefur tekist að tala gengið niður. Þeir geta verið hreyknir af sjálfum sér.

Sumir hamast við að skrifa endalaust um hvað þurfi að gera, hvað eigi að gera, en enginn sem ég hef séð, skrifar um HVERNIG eigi að gera það.

Bjarni sveik skriflegt loforð sem hann gaf eldri borgurum árið 2013.

Hann sveik það eins og að drekka vatn. Ekki mikið mál.

Þrátt fyrir þetta kýs yfir 30 prósent þjóðarinnar hann aftur og aftur og aftur.

Blessuð stjórnarandstaðan getur ekkert.

Bjartur og Viðreisn dansa bara með og eru ekkert nema hamingjan.

Er það rétt hjá mér að ekki heyrist mikið til ráðherra stjórnarinnar þessa dagana?

Ég bý auðvitað í útlöndum og fylgist ekki með daglegum fréttum á Íslandi en einhvern vegin finnst mér þetta vera svona.

Er ríkisstjórnar fólkið allt í endalausu fríi núna og stjórnarherrar í ráðuneytum að vinna?

Fólkið í tjöldunum, það sem býr þar alla daga, á rétt á því að tekið sé á húsnæðismálunum svo það frjósi ekki í hel í vetur.

Er annað hrun handan við hornið? Getur það verið að þjóðin láti bjóða sér upp á það?

Hvað á að gera, spyr einhver og ég svara að því miður viti ég það ekki.

Ég vildi svo gjarnan geta sagt hvernig hægt væri að koma þingheimi í skilning um fyrir hverja þeir eru að vinna en mér finnst það frekar vonlítið.

Það er mikið ritað núna um hvað forsetinn eigi að gera og hvað hann sé ómögulegur og hvað hann hafi ekki gert.

Væri orkunni beint að þeim sem GETA gert eitthvað, ÞINGMÖNNUM, finndist mér vert að lesa og fylgjast með þeim ummælum.

Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því hvert hlutverk og valdsvið forsetans er.

Mikið ofboðslega er ég þreytt á íslenskum stjórnmálum og sorgmædd yfir því hvernig farið er með fólkið sem telst til almúgans.

Hulda Björnsdóttir


Verslunarmannahelgi !

4.ágúst 2017

Verslunarmannahelgin er gengin í garð.

Mesta ferðahelgi landans og vonandi að allir rati heilir heim.

Friður og ró í höfuðborginni. Tækifæri til þess að skoða eitt og annað sem er útidyra.

Auðvitað veit ég ekkert hvernig þetta er nútildags. Hef ekki verið á landinu lengi og kannski er allt fullt af ferðamönnum, alltaf, og engin verslunarmannahelgar friðar dagur.

Sumarið er einhvern vegin svo ótrúlega órólegur tími þar sem allir þurfa að fara í frí og gera eitthvað merkilegt.

Ekki allir.

Sumir hafa engin tök á því að hreyfa sig eitt eða neitt.

Þetta fólk hefur ekki ráð á því að þeytast um allar jarðir og taka þátt í sumarbrjálæðinu.

Sumum er nokk sama og þykir kyrrðin góð.

Aðrir fyllast þunglyndi og depurð. Þeir sjá ekki fram á gleðidaga á næstunni og reyna að halda geðheilsunni innan einhverra marka.

Þetta eru öryrkjarnir og gamla fólkið, meðal annars.

Það væri ef til vill allt í lagi að nema aðeins staðar. Hugsa um þetta fólk og velta fyrir sér hvað það er gott að vera ekki í þeirra sporum.

Kannski væri í lagi að heimsækja gamla konu eða gamlan mann sem býr einn og enginn hirðir um.

Kannski væri í  lagi að bjóða öryrkjanum í bíltúr, rétt út fyrir bæinn, til þess að hann fengi aðeins tilbreytingu í fátæklegt líf sitt.

Kannski er bara best að vera ekkert að skipta sér af því sem gerist í kringum mann. Þá þarf ekkert að brjóta heilann um líðan annarra og hægt að njóta þess að vera í eigin heimi.

Ég vona að allir njóti helgarinnar, hvað sem þeir eru að stússa við.

Hulda Björnsdóttir

 


Hvers vegna er ráðist á Flokk fólksins ?

3.ágúst 2017

Ég ætla ekki að gerast talsmaður Flokks fólksins, ekki frekar en annarra stjórnmálaflokka á Íslandi.

Mér ofbíður hins vegar hinar ótrúlegu árásir á formanninn og er hugsi yfir því hvað býr að baki.

Það er eitt að fylgja ekki skoðunum stjórnmálamanns en að þurfa að bera á borð persónuníð er ekki gott.

Fyrir mörgum árum var eitthvað slíkt að gerast og skapaðist þá umræða í þjóðfélaginu um hið háa Alþingi og stjórnmálamenn yfirleitt.

Spurning sem þá brann á mönnum var hvort umræðan fældi frá hæft fólk sem vildi breyta og taka til í þjóðfélags ástandinu.

Það var talað um að hæft fólk vildi ekki fá á sig holskeflu árása vegna stjórnmálaskoðana sinna og færi frekar í störf hjá hinu opinbera eða hjá fyrirtækjum sem buðu góð laun. Hæft fólk fær alltaf vinnu. Það er eftirspurn eftir því og fyrirtæki tilbúin að greiða góð laun.

Til þess að reyna að lokka fólk, hæft fólk, í framboð og til starfa á Alþingi var ákveðið að hækka laun þingmanna, og gera þannig starfið eftirsóknarvert.

Á tímabili ákvað Alþingi sjálft launin og þótti nokkuð rausnarlegt. Olli þetta ólgu í þjóðfélaginu og var nú komið á fót Kjararáði, óháð öllu og átti að ákveða laun þingheims og fleiri, á hlutlausan máta.

Hinar gífurlegu hækkanir ráðsins til þingheims hafa ekki laðað til sín hæfara fólk. Hinar gífurlegu hækkanir ráðsins hafa sópað upp mikilli gremju á meðal almennings, sem tók til sinna ráða, aðeins, á Sumarþingi sem haldið var í Háskólabíói í síðasta mánuði.

Flokkur fólksins stóð fyrir þessu þingi. Einhver varð að gera það. Ekki sá Grái herinn ástæðu til aðgerða. Þar er allt svo dásamlega gott og í miklu jafnvægi.

Ég studdi Sumarþingið heilshugar og hvatti vini mína til þess að sækja það. Sumir fóru og aðrir ekki. Sumum þótti framtakið gott og gátu litið framhjá því að lítill stjórnmálaflokkur hristi upp í mönnum, hvar í flokki sem þeir annars stóðu. Sumum vinum mínum þótti framtakið ekki líklegt til árangurs og voru rökin þau að Flokkur fólksins gæti ekki komið einu eða neinu til betri vegar. Ég virði skoðanir þessara vina minna, alveg eins og ég virði skoðanir þeirra sem mættu á þingið. Allar skoðanir eru jafn réttháar.

Hins vegar er ekki hægt að líða persónu níð. Það eru ekki skoðanir. Það eru árásir og þá er ég komin að því hvar hundurinn liggur grafinn, samkvæmt mínu áliti.

Hæfa fólkið gefur sig ekki í pólitík. Það kýs annan vettvang þar sem ekki er ráðist á persónur þeirra og þeir níddir niður vegna einhverra skoðana sem ekki passa fyrir alla.

Stjórnmálamenn geta aldrei gert öllum til hæfis. Núna erum við með hálaunaða þingmenn. Háu launin hafa ekki laðað að hæfasta fólkið. Háu launin hafa meðal annars fært okkur upp í hendurnar hið ótrúlega Alþingi sem nú starfar.

Ríkisstjórn sem ber hag þjóðarinnar ekki fyrir brjósti er afkvæmi þessa ágæta þingheims.

Er þetta það sem við viljum í framtíðinni? Er þetta þjóðfélagið sem var byggt upp úr rústum torfkofanna og komið í þrot með græðgi fárra?

Væri ekki allt í lagi að "Góða fólkið" sem hefur meiri áhuga á að fylla landið af tilbúnum flóttamönnum, ungum körlum sem vex skegg innan við fermingaraldur, en íslensku almúgafólki sem býr við harðræði sem þekkist aðeins í vanþróuðum löndum, tæki sig nú til og skoðaði hvernig íslenskt láglaunafólk lifir af frá degi til dags.

Nú er ég líklega orðin rasisti og ekkert minna en það. "Góða fólkið" rís líklega upp og hengir mig en vitiði hvað. Það er ekki auðvelt að hengja mig upp þar sem ég flutti fyrir langa löngu og yfirgaf hið dásamlega Ísland á mestu góðæristímum sögunnar. Á tímum þar sem ættirnar frægur og fylgifiskar mökuðu krókinn og steyptu landinu í glötun og gerðu það gjaldþrota.

Eru allir þingmenn búnir að gleyma því hvernig árið 2008 var?

Æi, auðvitað, unglingarnir sem stjórna núna voru þá undir verndarvæng foreldranna og málið kom þeim ekki svo mikið við.

Hulda Björnsdóttir


Má ekki hækka eftirlaun vegna lágra launa á almennum markaði!

2.ágúst 2017

Ég las þessi rök einhvers staðar í gær.

Það má ekki hækka bætur almannatryggingakerfisins vegna þess að þá gætu þær farið upp fyrir lægstu laun í landinu.

Er ekki eitthvað einkennilegt við þetta?

ASÍ á að sjá um að lægstu laun í landinu sé mannsæmandi.

Það er ekkert samhengi á milli þess sem eftirlaunaþegi, sem hefur safnað í Lífeyrissjóð allt sitt líf, megi ekki hafa hærri tekjur þegar að síðasta æviskeiðinu kemur, en sá sem er með lægstu laun á almennum vinnumarkaði.

Þetta eru hins vegar rök sem færa ráðherra velferðarmála andmæli á gulldiski.

Það er fullt af fólki á hinum almenna vinnumarkaði sem fær greidd skammarlega lág laun fyrir vinnu sína .

Láglaunastefna vinnuveitenda er til háborinnar skammar og ekki bætir úr þegar ráðið er ódýrt vinnuafl frá löndum sem berjast í bökkum og geta engan vegin greitt þegnum sínum laun sem hægt er að lifa af.

Haldið þið til dæmis að Portúgalarnir vildu ekki frekar búa í heimalandi sínu og vinna þar? Mundu þeir ekki skipta ef þeir fengju laun sem hægt væri að lifa af í Portúgal? Ég er ansi hrædd um að hjá mörgum væri svarið JÁ.

Hvað með Kínverjana sem fara til Íslands í gjörólíka menningu og tungumál sem er ómögulegt að læra? Haldiði að þeir vildu ekki frekar vera í landinu sínu en að hýrast í ömurlegum aðstæðum á ísköldu Íslandi?

Ég þekki nokkra Kínverja sem vildu mikið gefa til þess að þurfa ekki að búa á Íslandi, jafnvel þó um skamma stund sé að ræða.

Vinnuveitendur ráða ekki útlendinga til starfa til þess að borga þeim almennileg laun.

Áður en allt verður vitlaust og ég hengd upp á löppunum í athugasemdum, þá tek ég fram að það eru örfáir vinnuveitendur á Íslandi sem borga útlendingunum sömu laun og íslendingum. Það er hins vegar undantekning.

Við megum ekki falla í þá gryfju að rökstyðja lágar bætur almannatryggingakerfisins með lágum launum á vinnumarkaðinum.

Það kemur málin ekkert við hver láglaunastefna ASÍ og Vinnuveitendasambandsins er.

ASÍ er grútmáttlaust og fyrir ofan skilning venjulegs fólk fyrir hverja það er að vinna. Ég er viss um að þó reynt væri að skýra tilganginn, á hvaða máli sem er, gæti enginn skilið stefnu ASÍ.

Það væri nær að berjast fyrir því að allir hefðu laun sem samsvöruðu framfærslu viðmiðum opinberra aðila. Það væri ekki slæm barátta og gætu ábyggilega margir sameinast um hana.

Allir, eða margir, verða gamlir og þurfa á eftirlaunum að halda.

Það er nefnilega svo einkennilegt að þó fólk sé komið yfir 67 ára aldurinn þarf það áfram að borða og hafa föt til þess að klæða sig í. Þetta fólk þarf líka að hafa húsaskjól, rétt eins og þeir sem yngri eru. Eftirlaunaþegar eru bara venjulegt fólk sem hefur nokkur ár í pokahorninu sem unga fólkið hefur ekki, en vonandi verður allt unga fólkið líka þeirra gæfu aðnjótandi að fá að lifa eftir 67 ára.

Öryrkjar eru líka bara venjulegt fólk. Þeir eru fólk á öllum aldri, það er að segja innan við 67 ára, og það eina sem skilur þá frá hinum er að þeir hafa veikst, orðið fyrir slysi, fæðst fatlaðir eða, og það er tengt hinni voðalegu láglaunastefnu landsins, að þeir hafa misst alla von og veikst vegna harðræðis aðstæðna.

Mannúð og samhugur voru einu sinni talin göfug hugtök. Hvað varð um  þessi hugtök? Gufuðu þau upp í græðginni og eigingirni?

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband