Nú fer ég fram á að LEB og FEB taki til hendinni og berjist fyrir bættum kjörum eldri borgara

14.ágúst 2017

Nú heimta ég að LEB og FEB bretti upp ermarnar. Taki til hendinni og sjái til þess að kjör eldri borgara séu leiðrétt ekki seinna en í dag.

Svo heimta ég líka að þessi félagsskapur hætti að láta flokks skírteini stjórna gjörðum sínum.

Einnig er ég að heimta að ekki seinna en í dag fari þessi samtök að sína í verki að þau séu ekki grútmáttlaus apparöt sem geta ekkert annað en talað og hugsað en séu alveg vita vonlaus þegar kemur að framkvæmdum.

Innan þessara samtaka og í stjórn eru handhafar hinnar íslensku fálkaorðu.

Fálkaorðan er ekki veitt þeim sem ekkert gera annað en tala. Eða er það?

Getur það kannski verið að einhverjir vinir og vandamenn geti bent orðunefnd á vænlega þiggjendur og nefndin nenni svo ekki að skoða málið niður í kjölinn?

Ég veit ekkert hvaða reglur gilda við svona veitingar og hreinlega nenni ekki að kynna mér það.

Ég heimta bara að þeir sem eiga svona orður í fórum sínum sinni málum sem þeim var veitt orðan fyrir og hætti að þykjast vera að gera eitthvað.

Ég heimta að farið verði á fund allra flokka, allra þingmanna, allra ráðherra, allra ráðuneytis stjóra og þeir kynntir fyrir fólki sem á ekki í sig og á.

Ég heimta að þetta sé gert ekki seinna en í dag.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Það er búið að skrifa nóg. Það er skrifað á hverjum einasta degi um að ríkisstjórnin hafi svikið þetta og hitt. Það er skrifað á hverjum degi um hvað ríkisstjórninni beri að gera strax. Leiðrétta kjör eldri borgara. Fara í mál við ríkið. Heimta til baka frá upphafi það sem ríkið hefur tekið af sparnaði í lífeyrissjóði.

Það er skrifað fjálglega um að þessi félög hyggi á málaferli. Telji að málaferli séu æskileg. Telji að rétt væri að fara í mál við ríkið og svo framvegis og framvegis.

Ég heimta að nú verði hætt að skrifa og skrifa en í staðinn komi framkvæmdir. Ég heimta að upp séu settir strigaskór og útigalli svo veður hamli ekki framkvæmdum. Ég heimta að forsvarsmenn hers og landgönguliða hætti að heimta og fari að sýna frumkvæði. Það geta allir hugsað en ekki eru allir í formannsstöðum fyrir félagsskap með þúsundir manna innanborðs.

Ég heimta ekki meira en það sem er sanngjarnt af þeim sem hafa verið kosnir til þess að koma fram fyrir hönd þúsunda eldri borgara. Ég heimta að þetta forystu fólk VAKNI og leggist ekki til hvílu fyrr en árangur hefur náðst.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband