17.1.2017 | 08:37
Af hverju er fólk sett í kassa?
17. janúar 2017
Mér dettur stundum í hug hinir ótrúlegustu hlutir og það sem skaut upp kollinum núna var hvað það er einkennilegt að allir þurfi að vera í kössum. Ég meina fólk í kössum. Það er auðvitað eðlilegt að pakka inn dóti sem þarf til dæmis að senda til útlanda til þess að gleðja vini þar.
Það er þetta með kassafólkið sem ég skil ekki.
Er ekki miklu nær að hafa bara alla frjálsa og á sömu tröppunni þar sem nægt pláss er?
Hverjir eru svo kassarnir sem okkur er troðið í ?
Jú, það eru kassar fyrir alþingismenn, kassar fyrir ráðherra og kassar fyrir venjulegt fólk.
Venjulega fólkið er í nokkrum. Til dæmis eru launþegar í einum, forstjórar í öðrum, öryrkjar í þeim þriðja og ellilífeyrisþegar eða fólk sem er komið yfir 65 ára aldur í þeim fjórða.
Fimmti kassinn geymir bankastjóra og sá sjötti hæstaréttardómara og lögmenn.
Allt eru þetta hinir vænstu kassar en á milli þeirra ríkir styrjöld og til þess að heyja hernaðinn var komið á fót her á Íslandi.
Grái herinn var stofnaður.
Voða flottur her, stjórarnir eru formenn eldriborgara og framkvæmdastjórar og poppari. Mjög flottur kassi sem þetta fólk er í og ekki amalegt að hafa nú loksins her, já ég segi og skrifa aftur HER á Íslandi.
Dásamlegi gráhærði herinn berst af mikilli hörku fyrir bættum kjörum eins kassahópsins. Það er fólk sem er komið yfir 67 ára aldurinn og vill fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun óskertan þegar svona kassabúar eru í vinnu.
Er þetta ekki göfugur málstaður?
Mér finnst það.
En af því að þetta er nú ég og eins og allir vita ekkert nema vanþakklætið finnst mér þessi kassahópur ferlega lélegur baráttuhópur.
Það var jú haldinn fundur í bíóinu og allir voða fínir og þeim sem voru eitthvað að ybba sig var sagt að hafa sig hæga og sýna lygalaupurunum fulla kurteisi.
Lygalaupararnir töluðu voða fallega og Bjarni Ben varð svoldið reiður, ekki nema von þegar fólk er að mótmæla góðærinu sem hann og hans kassabúar hafa notið síðan fyrir hrun.
Mér finnst gráhærði herinn bara prump. Ég hef hlustað á Helga P og Þórunni H í útvarpi og lesið eitthvað af því sem komið hefur á Facebook síðuna hjá hernum.
Her sem er að berjast fyrir bættum kjörum líklega 40 þúsund manns þarf að hafa hershöfðingja sem skilja hvað þeir eru að tala um. Þeir þurfa að kunna á lögin og svo er líka ægilega sniðugt fyrir svona kassafólk að svara fyrirspurnum á mannamáli og vera svoldið næs, skiljiði.
Ég veit að ég er vanþakklát og ósvífin en ég verð bara svo ægilega sár og reið fyrir hönd kassafólksins sem býr við sára fátækt og á ekki fyrir mat hvað þá öðrum nauðsynjum og svo koma svona pótintátar og halda að íbúar kassanna séu fífl sem trúi fagurgalanum sem vellur út úr hershöfðingjunum.
Fyrst svona her skilur ekki aðstæður hinna svöngu hvernig er þá hægt að ætlast til að þingkassafólkið skilji að það þarf eitthvað mikið að breytast í íslensku þjóðfélagi til þess að ekki séu sveltandi kassabúar út um allar trissur?
Kannski er lausnin fundin:
Pakka fátæka kassafólkinu inn og senda það úr landi eða jafnvel að hætta að gefa mat í einn eða tvo daga á elliheimilum landsins og þá hverfur fólk sjálfkrafa niður í fallegu trékassana sem eru svo bara grafnir í kirkjugörðunum og ættingjar fylla af blómum og allir tala voða fallega um af því þessir kassabúar eru ekki að flækjast fyrir lengur.
Er þetta ekki besta lausnin? Ég bara spyr. Bankaræningjar geta fengið góð hótel til þess að búa á ef þeir eru settir í fangelsi og þeir þurfa ekki að láta neitt af dásamlegum lífskjörum sínum í verri kassa og geta haldið áfram að tölvast um allan heim og flakka með peninga þjóðarinnar.
Ég er bara hreint ekki frá því að ég hafi dottið niður á lausnina.
Senda kassaliðið sem kvartar í kössum út í buskan. Losa sig við þetta óþarfa nöldur og vanþakklæti.
Ég ætti eiginlega að fá Nóbelinn á Íslandi fyrir þessa frábæru hugmynd og svo væri hægt að gera mig að heiðurs hershöfðingja í her hinna gráu hára, það er að segja þegar ég er hætt að láta lita á mér hárið. Það má jú ekki eyðileggja myndina, þessa ofsafínu hvítu gráu mynd og svo þarf ég líka að safna dálitlu af kílóum, eiginlega bara mörgum, til þess að skera mig ekki of úr myndinni.
Í kassann með hana, MIG, og sjá til þess að hún hætti að röfla í eitt skipti fyrir öll. Hún er óþolandi og allir vita það en frekar fáir orða það. Nennir ekki að vinna og heldur að það sé bara hægt að heimta ellilífeyri frá ríkinu eins og brjóstsykur.. Svo skilur hún ekki heldur að það sem hún sparaði í lífeyrissjóð er fyrir toppana, ekki fyrir einhverja hallæris gamlingja sem eru bara vanþakklátt kassapakk.
Ég á eiginlega ekki til orð, nægilega öflug, til að lýsa svona hrikalegu vanþakklæti.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2017 | 09:46
Nokkrar staðreyndir um nýja landið mitt
16.janúar 2017
Ég hef stundum haldið því fram í skrifum mínum að Portúgal sé fátækt land og upp hafa risið mótmælaraddir, háværar mjög og heimtað tölur og sannanir.
Ég fer ekki út í viðræður hvorki hér eða á facebook þar sem menn eru oft á tíðum með ótrúlegar fullyrðingar og smátt og smátt hef ég lært að vera ekkert að gera athugasemdir eða hafa skoðanir á því sem verið er að ræða. Mér þykir þó auðvitað vænt um ef einhver sér sig knúinn til þess að hafa skoðun á því sem ég er að skrifa hér og svara ég ef mér finnst þörf á, annars leyfi ég þeim sem ritar að hafa sína skoðun í friði fyrir gáfulegum athugasemdum mínum.
Hér eru nokkrar athygliverðar staðreyndir um íbúa Portúgal sem ég rakst á fyrir tilviljun.
Það eru ríflega 10. milljónir manna sem búa í landinu, og af þeim geta 980.000 ekki labbað upp stiga, 27.659 eru blind og 26.860 þúsund eru heyrnardauf. 69 þúsund eiga við andlega erfiðleika að stríða samkvæmt nýrri skýrslu "The Statistics of Defieciencies or inabilities" 65% af þessu fólki eru konur yfir 65 ára og yfir 56% hafa að minnsta kosti eitt af þessum vandamálum.
Ég hef oft undrast þá hefð sem er hér í landi að labba sem allra minnst og leggja bílum helst uppi á tröppum.
Þar sem lyftur eru í boði ásamt stigum er næstum víst að lyftan verður fyrir valinu.
Ég hef verið dugleg að sækja líkamsræktarstöðvar síðan ég kom til landsins og hefur það vakið athygli bæði hjá vinum mínum í stöðvunum og ekki síður meðal heilbrigðisstéttarinnar. Þyki ég vera náttúruundur því íbúar landsins á mínum aldri gera ekki svoleiðis. Algengara er að minn aldursflokkur taki sér stöðu, eða réttara sagt setjist niður í sófa við sjónvarpið og eyði deginum þar sér til heilsubótar. Oft horfir þetta fólk á flotta þætti um líkamsrækt og alls konar holla lifnaðarhætti og stendur síðan upp og röltir fram í eldhús, ef sjónvarpið er ekki í eldhúsinu, sem það oft er vegna kuldans. Þegar í eldhúsið kemur er tekinn til dásamlegur matur, hráefni sem hægt er að hrópa húrra fyrir, grænmeti og fallegur fiskur til dæmis. Allt er nú sett í pott eða á pönnu og drepið með köldu blóði. Grænmetið er soðið í hel og fiskurinn syndir í fullri pönnu af feiti og drukknar endanlega þar. Öll bætiefni rokin út í veður og vind. Svo er dreypt á dásamlegum dýsætum bjór fullum af dýrindis kaloríum sem setjast framan á maga þeirra sem drekka og liðið allt virðist komið að minnsta kosti átta mánuði á leið.
Ég hef aldrei á ævinni séð eins marga ólétta karlmenn og hér í landi. Þeir leka beinlínis af stráunum.
Þegar ég spurði fólk hvort það tæki einhver bætiefni var horft á mig eins og naut á nývirki. Hvað var útlendingurinn nú að þvæla? skein út úr augum þeirra.
Auðvitað eru hér bændur á góðum aldri, svipuðum og ég er á, sem klifra upp í tré eins og ekkert sé en þeir hafa heldur ekki hina ógnvænlegu bumbu framan á sér og konurnar eru dásamlega hjólbeinóttar. Flest þetta fólk er hvorki læst né skrifandi en alveg dásamlegar manneskjur sem segja mér með tárin í augunum að þau vildu svo gjarnan geta lesið. Það kemur við hjartað og bræðir jafnvel hinar hörðustu sálir að sjá sorgina í augum þessa blessaða fólks, en svona var þetta ekki fyrir svo löngu síðan hér í landi þar sem gull lekur af greinum lítils hóps og þorri alþýðu lepur dauðann úr skel og rétt kemst af með lágmarkslaun fyrir vinnu sína.
Lágmarkslaun eru innan við 500 evrur á mánuði en það kostar 30 þúsund evrur á mánuði að halda við gróðri og blómum hjá forsetanum! Ekki á ári, á mánuði!
Skattsvik eru hér algeng og eru þau kölluð portúgalska leiðin.
Ég lét mér detta í hug að auka tekjur mínar aðeins fyrir nokkrum árum og fór á stúfana til þess að athuga hvernig það væri gert lagalega. Fljótlega var mér sagt að nota bara Portúgölsku leiðina og ég hætti við allt saman þar sem ég er í fyrsta laga ekki hlynnt mútum og skattsvikum, og í öðru lagi er mér kunnugt um að vel er fylgst með útlendingum og hvort þeir borgi ekki örugglega það sem keisarans er.
Minnir þetta ekki pínulítið á litlu eyjuna í norðri?
Hvað ætli það kosti til dæmis að halda við garðinum hjá ýmsum ráðherrum á eyjunni?
Og bílakostnaður hjá þeim sömu, hvað ætli hann sé mikill?
Svo þarf að hafa tvo aðstoðarmenn með yfir milljón á mánuði, minna má nú ekki vera á landi þar sem gullið lekur af frosnum trjánum í roki og snjókomu og flýgur til örfárra stjórnarherra á eyjunni fögru í norðrinu.
Á sama tíma er öryrkjum og ellilífeyrisþegum sagt að eta það sem úti frýs, sem er auðvitað ekki erfitt yfir háveturinn, og vera ekki að kvarta endalaust. Skilur þetta fólk ekki, sérstaklega ellilífeyrisþegar, að það hefur aldrei verið betra að búa á Íslandi en einmitt í dag?
Skilur þetta fólk ekki að það hefur verið að spara í lífeyrissjóði til þess að hjálpa forystumönnum þar að lifa af og skilur þetta fólk ekki að forystumenn lifa ekki af minna en tæpum 2 milljónum á mánuði? Auðvitað er þetta fólk, það er ellilífeyrisþegar, allt komið yfir 65 ára aldurinn og auðvitað farið að förlast sýn á hvernig venjulegur ráðherra og aðrir ráðamenn þurfa að punga út í veislur og alls kyns nauðsynjar svo hægt sé að stjórna þessum ágætu ráðuneytum sem sjá um að skammta lýðnum.
Svo heldur þetta dót, elliærir ellilífeyrisþegar yfir 65 ára, að það sé bara hægt að láta það sleppa við að borga skatta og skyldur og að það geti bara fengið bætur frá ríkinu eins og það lystir þó það sé að burðast við að vinna eitthvað aðeins eða hafi sparað í sjóði.
Jesus minn, það getur alveg ært óstöðugan að þurfa að stýra svona landi!
Lýðurinn kvartar og kvartar og kvartar.
Ekki kvarta stjórnmálamenn sem leggja nótt við dag til þess að þurfa ekki að leggja of mikið á sig og allavega að sjá til þess að sæmileg laun séu greidd fyrir vinnuna þeirra. Svo er lýðurinn að þvargast yfir því að kjararáð ákveði laun ráðamanna. Eitthvað mundi nú heyrast frá þessum lýð ef alþingi ákveddi launin.
Og ekki batnar það þegar lýður heimtar að þingmenn séu í vinnunni sinni. Hvað er eiginlega að þessum lýð? Ég bara spyr.
Svo vill fólk fá ódýrt húsnæði í ofanálag við mat til þess að borða.
Mér er svo misboðið yfir allri þessari ótrúlegu heimtufrekju lýðsins á Íslandi að ég held ég hætti bara að skrifa í bili. Þetta nær engri átt. Áttið ykkur nú einu sinni á því að þeir sem ráða eru mikilvægari og verðmætari en einhver ellilífeyrisþegi yfir 65 ára úti í bæ. Þetta liggur svo ljóst fyrir að allir hljóta að skilja þetta, eða hvað?
Svo eru öryrkjar líka að kvarta yfir brostnum loforðum. Ha! Geta þeir ekki bara allir farið út að vinna? Þurfa þeir eitthvað að fá bætur og alls konar? Geta þeir ekki bara komið sér út úr húsi og verið eins og annað fólk? Ég get alveg ímyndað mér að svona hugsi stjórnmálamenn stundum og dæsi yfir heimtufrekju lífeyrisþega.
Mér dettur reyndar stundum í hug að einn góðan veðurdag gætu einhverjir úr fjölskyldum þeirra sem ráða yfir landinu orðið fyrir því að verða öryrkjar eða veikjast og þurfa á spítala. Hvað gerðist þá? Mundi viðhorfið breytast? Ég bara veit það ekki en líklega er allavega ein ætt í landinu búin að safna svo miklu af auðæfum þjóðarinnar í sína skál að svoleiðis hefði engin áhrif.
Það sem mér finnst einkennilegast af þessu öllu er að fólk skuli aftur kjósa sama sullið og var fellt fyrir nokkrum mánuðum. Hvað er eiginlega að íslensku þjóðinni? Er þrælsóttinn ríkjandi eða hvað? Getur verið að það sé einhvers konar sjálfspíningar þörf sem setur kross við öflin sem steyptu landinu í glötun fyrir átta árum, svo þessi sömu öfl geti haldið áfram að safna fyrir sig og láta almenning borga?
Þetta er allt fyrir ofan minn skilning og er ég þó með óvenju háa greindarvísitölu. Líklega hefur greind ekkert með þetta að gera. Greindin stjórnar ekki græðginni!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2017 | 11:18
Nýtt ár, ný stjórn og ný ævintýri!
Í dag er 15 janúar 2017
Mér finnst eins og tíminn fljúgi hraðar en hljóðið þessa dagana. Það er kalt í Portúgal og vetur konungur hefur svo rækilega tekið völd að maður frýs á hverjum morgni þegar stigið er fram úr volgu rúminu.
Þegar ég leit út í morgun var allt hvítt sem gat orðið hvítt. Það hafði ekki snjóað, enda er ég í miðju landsins og við fáum sárasjaldan snjó, en frostið bítur gras og bíla miskunnarlaust. Framundan eru kaldir dagar og lítur út fyrir að svo verði fram í apríl samkvæmt langtíma spám.
Núna er klukkan hálf ellefu, sólin skín og henni hefur tekist að bræða eitthvað af hvítu hulunni en í skugga er allt óbreytt.
Margir halda að Portúgal sé heitt allan ársins hring en svo er ekki. Hér höfum við harða vetur og þessa dagana eru 3 dánartilkynningar á hverjum degi algeng sjón.
Fólkið kyndir ekki eins og útlendingurinn, þessi vitlausi, þið vitið, sem eyðir 400 evrum á mánuði til þess að halda hita inni í íbúðinni!
Ég þoli ekki lyktina sem kemur þegar allt verður ískalt og rakinn streymir um allt, inni í skápa og upp á skápa, um veggina og í gegnum merg og bein. Nei, þá vil ég heldur spara og nota peningana mína í kyndingu og láta mér líða vel.
Fólkið sem sér um gasið hér í þorpinu elskar mig. Ég bjarga fjárhag þeirra á hverjum vetri í nokkra mánuði og bæti upp 8 evru notkun mína yfir sumarið!
Doktor Daníel, einn af hinum frábæru læknum mínum á spítalanum í Coimbra sagði mér á föstudaginn frá því að hann og fleiri ungir menn héldu að Portúgal væri alltaf hlýtt. Hann hafði farið til Sintra með konunni sinni um síðustu helgi og var klæddur í haustföt, sem er allt í lagi yfir há daginn á meðan sólin skín en svo kemur kvöldið og kuldinn kreistir allan hita út úr öllu. Dr. Daniel sagðist líklega aldrei læra á þetta. Hann er rétt eins og útlendingarnir sem halda til heita landsins um hávetur úr kulda og trekki og koma í ísköld hús þar sem andardrátturinn rennur út eins og draugur sem svífur um loftið.
Það er ótrúlega skemmtilegt að vera ruglaður útlendingur eins og ég og heimsækja lækna á spítölum. Það skapast svo skemmtilegar umræður og jafnvel þegar verið er að draga 3 risa víra út úr handlegg er hægt að halda uppi skemmtilegum samræðum inn á milli öskra í sjúklingnum sem heldur að nú sé Dr.Joanna alveg búin að tapa sér. Doktora Joanna er dásamleg og dælir meiri deyfingu svo konan verði nú ekki alveg galin. Flottur læknir heldur handleggnum kyrrum og passar að útlendingurinn sé ekkert að mausa við að sleppa undan hnífnum.
Á föstudaginn eldsnemma um morguninn fór ég í viðtal hjá endurhæfingar lækninum. Við töluðum aðeins um endurhæfingu en klukkutími fór í að sýna mér og fræða mig um Alantejo og konungshallir þar og fallega bæi sem ég þarf að heimsækja í sumar. Auðvitað var sett upp áætlun um endurhæfingu og allt það og ég veit nákvæmlega hvert ég á að fara. Það var nefnilega þannig, eins og svo oft áður, að ég villtist um morguninn og fann ekki staðinn sem ég átti að fara á. Auðvitað hafði ég áður spurt hvar endurhæfingin væri og vissi það alveg.
Ég lagði bílnum, labbaði framhjá húsinu þar sem maður fer þegar á að hitta lækninn, yfir götuna og þar er öryggisvörður sem ég sýndi bréfið með öllum upplýsingunum og hann sagði mér hvert haldið skyldi.
Áfram gekk ég og inn um dyrnar þar sem ég hef svo oft farið áður þegar var verið að finna út hvað hjartað í mér vildi og af hverju það gat ekki unnið vinnuna sína almennilega. Ég var alveg viss um að nú væri ég á réttum stað og ætti að fara niður stigann, en til þess að vera alveg viss sýndi ég móttökudömunni pappírinn. Hún las vandlega og sagði mér að nú ætti ég að fara út og inn um næstu aðaldyr til hægri. Jamm,og ég sem hélt að þetta væri allt klárt í kollinum á mér.
Ekki málið að labba svoldið meira og inn og niður fór ég. Ég var greinilega komin á réttan stað, allt fullt af bekkjum og alls konar tækjum fyrir líkamsrækt. Það var bara einn hængur á.
Ekkert fólk.
Hvar var fólkið?
Ég labbaði inn í öll herbergin, og hvíslaði ofurlágt Bom Dia, sem þýðir á íslensku góðan dag og maður notar óspart hér í landi ásamt kossum og svoleiðis.
Eftir dágóða stund kom kona í bláu á móti mér og ég sýndi henni pappírinn minn góða. Hún brosti fallega til mín og tjáði mér að ég ætti að fara í húsið þar sem maður hittir læknana og heldur fundina. Hingað kemur þú bara þegar þú átt að fara í endurhæfinguna, sagði hún.
Ekki málið, ég þakkaði henni mörgum sinnum fyrir, maður gerir það hér, ekki bara einu sinni OBRIGADA heldur að minnsta kosti 5 sinnum og MOITO OBRIGADA er líka flott, eiginlega flottara.
Yfir götuna tróð ég á grænu ljósi og inn að afgreiðslunni þar sem ein dama sat og brosti sú breitt því ég er eiginlega orðin hérumbil daglegur gestur hjá henni þessa dagana. Kom í síðustu viku og nú aftur og kem aftur í næstu viku. Við verðum orðnar vinkonur þegar yfir lýkur, ekki nokkur vafi á því. Borgaði ég henni 7 evrur og hún skráði mig inn svo nú var bara að finna út hvar doktora endurhæfing var staðsett og gekk það frekar greitt eftir nokkur innlit í tómar skrifstofur. Þetta var jú eldsnemma á föstudags morgni og venjulega er fólk ekki mikið á ferðinni til lækna á þeim degi.
Ef þú ert í Portúgal og þarft að leita til læknis eru föstudagar bestir. Mánudagar eru alveg gaga því þá eru allir veikir eftir helgina.
Á milli lækna, morgunlæknis og eftirmiðdags læknis, fór ég til Lousa sem er í um það bil hálftíma akstur frá Coimbra.
Máli er nefnilega að ég er með heimilislækni sem er fífl og heilsugæslan í Penela er ekki alveg til þess að hrópa húrra fyrir. Doktora Joanna hafði sagt mér að ég gæti fært mig og maðurinn hennar, sem er heimilislæknir, alveg topp gæi, væri til í að taka mig undir sinn verndarvæng og hann vinnur í Lousa. Heilsugæslustöðin þar er með hæsta gæðastimpil, annað en öskur aparnir í Penela.
Semsagt, nú er ég búin að sækja um að fá nýja heimilislækni í nýrri heilsugæslustöð sem er hálftíma akstur frá mínum heimabæ. Á þriðjudaginn kemur hætti ég hjá Penela, húrra húrra fyrir því.
Þetta var ekki hægt fyrir 6 árum, en nú er búið breyta reglunum og maður getur valið á hvaða heilsugæslustöð maður er. Svo dásamlegt að ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa ánægju minni og þegar ég kom um eftirmiðdaginn til Dr Daniels á spítalanum sló ég um mig og ljómaði þegar ég sagði honum að nú væri Dr. Cardosa ekki lengur minn, ég væri búin að skipta og Dr Jorge maður dr Joönnu væri búin að taka mig að sér ljómaði Dr Daniel líka. Hann var himinlifandi. Sagði mér að ég væri komin í góðar hendur og þessi nýi maður væri ekki bara góður læknir, hann væri líka svo vitur og vissi svo ótal margt. Semsagt maður sem hægt verður að tala við. Allt fólkið sem ég hitti á nýju heilsugæslunni var brosandi og vingjarnlegt og til í að hjálpa mér, eitthvað annað en frostið sem mætir öllum í Sentre de Sauda í Penela.
Eftir þetta fór ég í Forum og fékk mér dásamlegan hádegisverð WOK AND WALK, sem er svona tælensk kínversk útfærsla, alveg hrikalega góð.
Á leiðinni út ákvað ég að líta inn í búð sem ég hef aldrei komið í fyrr. Það er allt logandi í útsölum þessa dagana og fínn afsláttur. Þar sem ný ríkisstjórn er komin til valda á Íslandi og gengið fallið eins og fallhlíf hafi hitt það, var eins gott að nota peningana á meðan ég átti þá og fjárfesta fyrir sumarið. Fór ég út með 3 kjóla, 2 síðbuxur, 2 blússur og leðurbelti sem var ekki á útsölu og kostaði formúu. Búin að versla fyrir sumarið og borgaði 288,17 evrur fyrir góssið. Ég bliknaði ekki einu sinni þegar ég stimplaði ok á debet kortið mitt! Með ríkisstjórn eins og þá sem er nú komin til þess að hygla sjálfri sér og sínum er ekkert annað að gera fyrir ellilífeyrisþega en blása til sigurs og fara að spara.
Sparnaðurinn er hafinn. Brauðbakstur og mjólkurgerð þegar ég hætti þessu bulli við tölvuna og nokkrir kaktusar skiptu um heimili í gær og fóru í stærri potta svo þeir geti blómstrað eins og hinir sem geta ekki hætt að brosa fallegu blómunum sínum til mín, jafnvel þó kuldi og frost nísti allt og alla.
Ég óska ykkur kæru lesendur öllum til hamingju með nýju dásamlegu ríkisstjórnina sem þið kannski kusuð. Það kemur dagur eftir þennan dag þar sem ég fæ tækifæri til þess að ybba mig um ýmis alvarleg mál sem nú herja á íslensku þjóðina en í dag er ég bara hamingjusöm og ánægð með lífið og tilveruna.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2017 | 12:40
Sunnudags hugleiðing
Hér sit ég á sunnudagsmorgni og dásama hvað ég er ótrúlega gæfusöm og hvað líf mitt er yndislegt.
Sólin skín á skrifstofu hliðina á íbúðinni minni og vermir glervegginn á svölunum. Allar hurðir opnar til þess að hleypa hlýjunni inn.
Við opnum dyr og glugga þegar sólin skín og byrgjum svo allt þegar hún siglir hægt og rólega fyrir hornið og tekur að verma framhliðina. Bílarnir eru enn með frost á rúðum þó klukkan sé orðin rúmlega ellefu að morgni og grasið er með fallega hvíta slikju yfir sér sem hverfur brátt undan hita sólar.
Svona er þetta á hverjum morgni þennan janúar og samkvæmt veðurspá fyrir næstu 20 daga lítur út fyrir að ekkert rigni sem er óvenjulegt og ég sem er búin að verða mér úti um þessar dásamlegu galossur til þess að vaða yfir í bílskúrinn minn.
Auðvitað kemur rigningin fyrr eða síðar en er á meðan er og ekkert annað að gera en dásama það.
Það hlakkar svolítið í mér, eiginlega mikið, þegar ég hugsa um rigninguna og vatnið sem seytlar inn í bílageymsluna en kemst ekki þetta árið inn í minn skúr. Ég er nefnilega búin að framkvæma hótunina frá því í fyrra! Renna úr áli lokar mínum og vatnið finnur sér leið inn í alla hina en lætur minn í friði.
Útlendingurinn hefur hætt að moka vatni út og er núna bara andstyggilegur og á meira að segja galossur með rósum og getur vaðið inn í sinn skúr og náð sér í við í arininn og alles.
Getur ekki verið dásamlegra fyrir déskotans útlendings píuna, hugsa kannski nágrannar hennar.
Nú kann ég að skrifa blogg og get setið hér í sólinni og bullað eins og ég vil án þess að nokkur komi vörnum við og meira að segja á máli sem fáir skilja. Hvers er hægt að óska sér dásamlegra?
Vinur minn hjálpaði mér í byrjun, eða hvatti mig, og ég er bara sæl með mig.
Kann reyndar ekki eitt og annað sem hægt er að gera með svona bloggi. Veit til dæmis ekki hvernig á að setja inn myndir og nenni ekki að grúska í því. Auðvitað kemur að því einn daginn að ég fatta þetta en það er framtíðin. Nútíðin eru bara orð og þau verða að nægja.
Á morgun verður ekkert blogg svo þeir sem lesa þetta í dag geta andað léttar.
Á morgun verð ég uppi á spítala og hjúkrunarfólk og læknar að stússa við mig. Ég fékk hringingu frá þeim á föstudaginn og dansaði um gólfið hjá vinkonu minni sem starði á mig og sagðist aldrei hafa séð neinn glaðan yfir því að fara á spítalann. Hún þekkir mig vel og veit að ég er pínu rugluð en hefur lúmskt gaman af.
Ritarinn sagði mér að borða ekkert frá klukkan 11 um morguninn, aðgerðin átti að fara fram klukkan hálf tvö!
Svo sagði hún mér hvert ég ætti að koma og gekk úr skugga um að ég færi ekki að hálfvitast til þess að koma akandi á eigin bíl. Doktora Joanna hefur líklega lagt línurnar og fundist líklegt að ég léti mér detta í hug að vera ekkert að ónáða einn eða neinn og ég mundi setjast upp í drossíuna mína og keyra sjálf!
Doktora Joanna er skynsöm kona!
Á laugardaginn hringdi svo Doktora Joanna sjálf til þess að ganga úr skugga um að ég hefði skilið ritarann alveg rétt.
Ekki borða neitt eða drekka eftir klukkan 7 15 um morguninn, sagði hún.
Eins gott að hún hringdi, hefði ég farið eftir ritaranum yrði ég send heim!
Útskýrði doktoran nú allt fyrir mér aftur og sagði mér meira að segja hvert ég ætti að koma. Það er eiginlega svoldið mikilvægt að vita hvert maður á að fara í svona tilfelli og ekki getur Garmína mín hjálpað mér.
Jæja, allt fór þetta á besta veg og nú get ég lagt land undir fót með Helenu í fyrramálið og við villumst ekki. Ég þarf að vakna klukkan 6 og borða morgunmat. Ekki get ég svelt allan daginn eða hvað?
Þegar búið verður að skera og ganga úr skugga um að ég geti staðið upp án þess að lyppast niður á gólfið kemur Helena aftur og vippar mér heim í rúmið mitt, einhvern tíma seint um kvöldið.
Bráðum get ég svo flutt yfir á vinstri hlið í rúminu mínu og farið að LESA bækur á kvöldin í stað þess að HLUSTA á bækur. Ég er búin að hlusta á sömu bókina í tæpa tvo mánuði núna og hef ekki hugmynd um hvernig hún er. Sá sem les svæfir mig alltaf! Þetta er allt öðru vísi þegar ég get lesið sjálf, skiljiði.
Ég er svooooo spennt og hlakka svooo mikið til næstu daga.
Á föstudaginn verð ég allan daginn í Coimbra, fyrst á fundi með endurhæfingar lækninum í Covonce, eldsnemma um morguninn, svo fer ég til fundar við Doktor Daniel á hinum spítalanum í borginni og þar verður annar fundur um annað mál eftir hádegi.
Það er sko þannig hér í landi að við fundum um alla hluti, og tölum leeeeeengi og ítarlega um hvert málefni svo þetta tekur allan daginn hjá mér á föstudag. Ég er búin að læra að vera voða þolinmóð og hlusta og svo hef ég líka lært að það er flott að spyrja aftur að minnsta kosti 3 svar til þess að vera alveg viss.
Semsagt á föstudag verður nánasta framtíð mín skipulögð og ég get farið og fengið mér dásamlegan alvöru kínverskan mat á milli funda á uppáhalds veitingastað mínum í Coimbra sem býr til ekta kínverskt, ekki bara eitthvað aðlagað jukk.
Í gær fékk ég mér mat í Dolce vita og þvílíkur viðbjóður. Ekta portúgalskt sull fljótandi í fitu og hálf kalt. Oj bara! Ég gat ekki þrælað ofan í mig ógeðinu og nennti ekki að fara að æsa mig upp svo ég yfirgaf diskinn og arkaði yfir að jógúrt ísbúðinni þar sem hægt er að fá blöndu sem líkist morgunmat með korni og fullt af ávöxtum og frosnu jógúrti. Ég var svöng og þetta bætti upp fljótandi kjúklinga ógeðið.
Ég skil eiginlega ekkert í mér að láta mér detta í hug að fá mér kjúklinginn, en hvað gerir maður ekki þegar hungrið sverfur að?
Eftir jógúrtið strollaði ég yfir í uppáhalds búðina mína þar sem allt er svo himin dýrt að mig dreymir ekki um að fjárfesta í neinu en samt flott að skoða. Þegar ég kom út rak ég augun í skóbúðina sem margir höfðu bent mér á þegar ég var að leita dauðaleit af gúmmí stígvélunum. Þessi búð heitir Eureka eða eitthvað svoleiðis og er stór, björt og falleg og þar inni eru himneskir skór sem mig mundi aldrei dreyma um að stíga í. 20 cm hælar og þykkir botnar en svoooooo kúl. OHHHHHHH
Ég rölti um og í áttina sigldi hár, mjög hár, og grannur ungur maður með þykkt og mikið skegg á hökunni. Ætli hann sé gyðingur hugsaði ég?
Ég gerði mitt ýtrasta til þess að losna við hann og sagðist bara vera að skoða, sem ég var. Ég var ekki að fara að kaupa skó. Á nægar birgðir til næstu ára, en hann gaf sig ekki og leiddi mig um og sýndi mér alls konar dásemdir og ég stundi af vellíðan. Fallegir skór geta alveg dáleitt mig og drengurinn var með svona líka þægilega þýða rödd og ég var varnarlaus.
Hann sýndi mér fullt og ég sagði honum frá fallegu skónum í Kína sem voru búnir til fyrir fætur sem voru 3 númerum minni en mínir og hlátri nemenda minna þegar ég og þær vorum að reyna að finna eitthvað sem gæti komist á öskubusku táslurnar mínar en fundum ekkert nema herraskó.
Ungi maðurinn hló ekki en hann brosti voða blítt. Líklega hefði skeggið hlaupið til ef hlátur slippi út, eða þannig, ég segi bara svona, veit að þetta er svoldið andstyggilegt.
Skórnir í búðinni eru allir framleiddir í norður Portúgal og reynsla mín af þeirri framleiðslu er ekki sérlega góð. Fjárfesti í einum fyrir 5 árum og þeir entust í eitt ár. Ungi maðurinn fullvissaði mig um að það hefði verið undantekningar tilfelli! Já, já. Það má auðvitað segja manni hvað sem er en hann var ljúfur og þegar ég kvaddi lofaði ég að koma seinna og kaupa þá kannski eitthvað. Það eru dásamlega flottir kuldaskór, háir upp að hnjám, sem ég gæti hugsað mér að máta þegar búið er að endurhæfa handlegginn og ég get farið að klæða mig í skó og föt án þess að allt halli út á hlið til vinstri, eða þannig.
Ég elska lífið.
Það gerist alltaf eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og ævintýrin leynast jafnvel í viðbjóðslegum kjúklingi fljótandi í feiti sem er skipt út fyrir unaðslegt ávaxta jógúrt.
Þetta er bara spurning um að velja rétt!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2017 | 12:40
Hitt og þetta á laugardagsmorgni!
Enn einn laugardagur runnin í hlað og sólin farin að skína, loksins!
Auðvitað er ég ekkert að kvarta, þetta er dásamlegur dagur, 6 stiga hiti úti núna og sólskin sem reynir eftir bestu getu að þýða frost af grasi og bílum, og gengur bara nokkuð greitt.
Það er hrikalega kalt á nóttunni en ég er svo ljónheppin að thermostatið bilaði og klukkan ruglaðist svo nú fer það í gang yfir nóttina í stað þess að kveikja á daginn. Þetta er hugmynd sem mér hefði aldrei dottið í hug en er alveg frábær.
Yfir nóttina fer hitinn niður undir frostmark og smýgur eins og draugur í gegnum holurnar á múrsteininum sem húsin eru byggð úr og hvert einasta herbergi er eins og frystikista á morgnana þar sem venjuleg thermostöt vinna yfir daginn. Mitt vinnur hins vegar yfir nóttina, eftir að það bilaði, og ég kann sem betur fer ekki að laga það því með þessu móti verður nóttin ekki eins hrikalega köld. Alveg súper lausn, bara fyrir tilviljun og fáfræði húsfrúarinnar. Getur ekki verið betra.
Frábær náttföt úr Primark hjálpa líka til að halda aumingja íbúanum á lífi og gæta þess að hún frjósi ekki í hel.
Ég kaupi ekkert, segi og skrifa ekkert, í þessari búð en gat ekki staðist freistinguna þegar söngkennarinn minn sagði mér frá dásemd Primark náttfata, og skellti mér á nokkur og lofaði sjálfri mér hátíðlega að kaupa aldrei neitt annað í þessari búð því verðið talar sínu máli. Þeir sem vinna á saumastofunum fá smánarlaun! og venjulega styrki ég ekki svoleiðis en hvað getur maður gert þegar frostið smýgur inn að innsta beini? Ekki gat ég sofið í fallegu fötunum sem Gerður hannaði. Það eru dagföt!
Því miður þarf aumingja ég að skríða upp úr heitu dásamlegu rúminu snemma á morgnana en mikil er freistingin sem þarf að standast hvern einasta dag yfir veturinn. Auðvitað flýti ég mér að búa um rúmið svo hitinn haldist þar til um kvöldið, eða þannig. Svo er lausn að setja kínverskan hitapoka, sem er hitaður með rafmagni, upp í á kvöldin og hann heldur góðum yl þar til næsta morgun. Ég er að tala um hitapoka með vatni innan í, skiljiði!
Í gær ræddum við málin, ég og ryksugan mín.
Ég á frábæra ryksugu, hljóðláta og hún sogar rykið eins og enginn sé morgundagurinn án þess að æra allt nágrennið. Munur eða sú á efri hæðinni sem ætlar að gera mann heyrnalausan. Semsagt, ég og vinkona mín, ryksugan, ræddum málin í gærmorgun. Ég hef gengið framhjá henni í nokkra daga og velt fyrir mér hvort ég gæti hugsanlega hreyft handlegginn nægilega til þess að stýra tækinu. Eftir nokkrar fortölur ákváðum við að leggja í hann og fara saman inn í stofu og soga upp rykið við arininn áður en glugginn fengi bað. Við fundum innstungu og allt gekk þetta nokkuð vel. Handleggurinn kvartaði sáran, en það er ekki endalaust hægt að hlusta á kvart og kvein. Phisiotherapia er málið og greyið varð að láta sig hafa það þrátt fyrir urgandi vír innan í sér sem rak sig í og vildi komast út við minnstu hreyfingu.
Vírinn fer út á mánudaginn svo handleggurinn getur hætt að kvarta og farið að taka sig á og hætta að láta einhverja verki stjórna lífi sínu og axlarinnar. Það er allt gróið og ekkert kvein liðið lengur. Ég skil ekki þetta endalausa kvart alltaf! Læknirinn sem setti vírinn ætlar að skera í sama farið, svo pjattrófan verði ekki öll í örum, og draga gaurinn út. Ég ætti kannski að fá að eiga hann til minningar um ævintýrið! Datt þetta bara svona í hug núna! Ég meina vírinn. Læknirinn er falleg ung kona. Bara til að forðast allan misskilning.
Glerið á arninum fékk bað eftir að við, ég og ryksugan, sugum upp allt ryk á einum fjórða af stofunni. Það er til fullt af efnum til þess að hreinsa svona gler og bakarofna og allt mögulegt en ég fæ svo ofboðslegan hósta ef ég anda þeim að mér og er löngu hætt að horfa á þessi óþverra kvikindi. Nú nota ég bara bökunarsóda og vatn, bý til svolítinn þykkan graut og smyr með pensli á það sem ég ætla að þrífa. Leyfi grautnum að standa svoldið, líklega 3 eða 4 klukkutíma, ef ég hef tíma, annars bara þar til grauturinn er orðinn hvítur á glerinu. Næst set ég vatn í fötu og svampurinn fær sér smá bað og leikur sér svo í dásamlega grautnum og öll óhreinindi hverfa af glerinu. Þetta er sára einfalt og ég hósta ekki neitt, svampurinn fær almennilegt bað eftir dansinn og hvílir sig þar til næst. Vatnið skvettist á ljótu trén fyrir neðan svalirnar hjá mér og allt er eins og nýtt. Er ekki lífið dásamlegt?
Nú þarf ég að halda áfram að gera eitthvað af viti, eins og til dæmis að fá mér göngutúr niður í þorp áður en allt sofnar helgarsvefninum og kannski dett ég upp í kastala. Það eru nefnilega ennþá jól hér í bæ, þau eru ekki búin fyrr en á mánudaginn og þá er allt fíneríið tekið niður og kastalinn verður aftur ljótur og nakin eins og berrassaður kall í sokkum!
Ég vona að allir sem lesa þennan póst eigi góða daga og njóti tilverunnar. Það er svo einfalt að hafa það skemmtilegt!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég skil vel að mikil reiði ólgi í þjóðfélaginu varðandi þessi nýju lög sem þingheimur sá sóma sinn í að samþykkja rétt fyrir jólin svo þeir kæmust í frí.
Ég skrifaði og bað um að þessi lög yrðu ekki samþykkt óbreytt og þau skoðuð betur. Ekki var hlustað á beiðni mína og var ekki við því að búast.
Hver er ég að skipta mér af störfum alþingis?
Nú eru lögin komin til framkvæmda að hluta og ofsareiði hefur gripið um sig í þjóðfélaginu.
Stór orð og stundum svo ljót að móðir mín heitin mundi snúa sér við í gröfinni ef hún væri ekki sest að á himnum.
Það er ekki málstaðnum til framdráttar að kalla menn og konur viðbjóðslegum nöfnum. Það er allt í lagi að vera reiður og gagnrýninn en blótsyrði og þaðan af verra á ekki að eiga sér stað meðal menntaðrar þjóðar eins og íslendingar eru.
Reynum að halda aftur af ljótu orðunum og halda okkur við rökstuðning og fyrir alla muni réttar tölur.
Það er ekki gott þegar þáttastjórnandi á fjölmiðli étur upp rangar tölur viðmælanda síns án þess að blikna. Ef til vill væri gott fyrir þá sem taka viðtöl um ákveðin málefni að kynna sér málið aðeins áður en haldið er af stað.
Mikilvægt er að fara rétt með tölur og staðreyndir hinna nýju laga, eða ólaga, um almannatryggingar.
Í umræðunni hefur verið efst á baugi að sé viðkomandi 67 ára og enn á vinnumarkaðinum tapi hann svo til öllum launum sínum og ekki borgi sig lengur að vinna og betra væri að setjast upp í sófa og horfa á sjónvarpið.
Þetta er viðhorf sem á fullan rétt á sér en það má líka líta á málið frá annarri hlið.
Segjum sem svo að ég sé 67 ára og í vinnu sem mér líkar og ég get haldið áfram ef ég vil. (Þetta er tilbúið dæmi til þess að skýra út hvað ég er að tala um)
Ég fæ 400.000 þúsund í tekjur á mánuði.
Skattkortið mitt er hjá vinnuveitanda mínum og nýtist mér þar 100 prósent.
Launin mín eru lögð inn á reikning hjá mér um hver mánaðamót og þar hefur verið dregin af staðgreiðsla skatta, lífeyrissjóður, félagsgjald og önnur lögboðin gjöld ef einhver eru.
Svona hefur þetta verið allt árið og ekkert breyst.
Nú hins vegar á ég afmæli og verð 67 ára.
Við þessi tímamót mín á ég rétt á því að sækja um ellilífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins og þá taka hin nýju lög að tikka.
Þar sem ég er vinnandi og hef tekjur skerðast ellilaun mín, mismundandi mikið eftir því hve há launin sem ég fæ fyrir vinnu mína eru.
Skattkortið mitt er hjá vinnuveitanda mínum og nýtist þar til fulls.
Ég fæ launin mín eins og venjulega en það sem gerist er að ellilaunin frá Tryggingastofnun hverfa að mestu vegna skerðingarákvæða í hinum nýju lögum.
Ég á val.
Ég get valið að halda áfram að vinna og sleppt því að sækja um lífeyrir hjá Tryggingastofnun jafnvel þó ég sé 67 ára.
Ég get haldið áfram að fá full laun, óskert, haldið heilsu og verið hamingjusöm og ánægð í starfi sem mér líkar og menntun mín eða reynsla koma að gagni bæði fyrir mig og þjóðfélagið.
Ég ÞARF ekki að sækja um lífeyri klukkan nákvæmlega 67 ára aldurinn!
Ég get frestað töku lífeyris eins lengi og mig lystir og þá er vinna mín jafn mikils virði og áður.
Staðreyndin er í mínum huga sú að laun skerðast ekki, það sem skerðist eru bætur almannatryggingakerfisins samkvæmt hinum nýju ólögum sem allir þingmenn eru sælir og hamingjusamir með, eða svo virðist vera. Ef þeir eru ekki ánægðir með lögin hefðu þeir ekki samþykkt þau, eða hvað?
Þrátt fyrir þessa röksemdafærslu mína er ég jafn hundfúl út í þingheim fyrir að samþykkja lögleysuna.
Ég er sár og reið yfir því að sitja ekki við sama borð og þeir sem búa á Íslandi þó ég hafi greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins alla mína æfi eingöngu vegna þess að ég kýs að eyða lokum æfi minnar í öðru landi, og spara með því landinu stóran kostnað í læknisþjónustu og ummönnun.
Heimilisuppbót var sett inn í lögin til þess að hægt væri að skerða almennan lífeyri meira og skýla sér á bak við nafnið. Hún var líka sett inn til þess að hægt væri að segja hvað stjórnvöld væru dásamleg og góð við þá sem byggju einir, með því að greiða þeim sérstaka uppbót sem heitir heimilisuppbót.
Auðvitað eiga ellilaun að vera ein tala. Það á ekki að vera partur af heildarlífeyri að fá heimilisuppbót ef þú býrð á Íslandi og býrð einn.
Ég er ekki að mótmæla því að þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð eigi að fá aðstoð við að framfleyta sér. Það eru mannréttindi.
Ég er hins vegar að mótmæla því enn og aftur að ekki sitji allir við sama borð, hvort sem þeir hafa sparað í Lífeyrissjóð eða eru að skapa verðmæti með atvinnu framlagi sínu, eða hafi aldrei sparað og séu ekki á vinnumarkaðinum.
Það má ekki láta þá sem hafa sýnt fyrirhyggju líða fyrir þá sem ekki hafa sýnt hana.
Þingmenn á Íslandi
Ég hef ekki mikla trú á því að þið skiljið hvað ég er að tala um.
Borgarar á Íslandi
Ég vona að þið hugleiðið það sem ég er að segja og gætið hófs í blótsyrðum og ljótum orðum og reynið að fara með réttar tölur máli ykkar til stuðnings.
Þar til um miðjan mánuð er ekki raunhæft að bera saman hvað greitt var fyrir breytingu og hvað greitt er eftir nýju lögunum. Það eru ekki öll kurl komin til grafar enn. Þegar ný tekjuáætlun og greiðsluáætlun birtist sést hve hin raunverulega breyting er.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2017 | 11:31
Geðveik þjóð kýs geðveiki á þing, eða hvað?
Ég hef velt því nokkuð fyrir mér hvernig þeir sem bjuggu til hið nýja frumvarp um lög um Almannatryggingar hugsuðu þegar þeir voru að finna út kostnaðinn.
Það átti að einfalda kerfið!
Með því að hafa bara eina tölu fyrir lífeyri var kerfið einfaldað.
Síðan var bætt inn heimilisuppbót og lífeyrir lækkaður sem henni nam.
Frítekjumark var lækkað.
Skerðingarreglur eru þessar:
Það skerðist lífeyrir og það skerðist líka heimilisuppbót, að vísu um mismunandi prósentur, en þarna var komin viðbót til þess að lækka lífeyrinn. Semsagt heimilisuppbótin.
Þegar upp er staðið hver borgar?
Er það ríkissjóður?
Eða eru það lífeyrisþegar sjálfir?
Það er rætt um að laun fólks sem er yfir 67 ára og er enn á vinnumarkaðinum verði að engu með þessum nýju lögum.
Það má líta á málið þannig að kjósi vel menntað hraust fólk á öllum aldri að vinna og skapa verðmæti í þjóðfélaginu hvort sem það eru andleg eða veraldleg verðmæti, þá missi það hluta af eftirlaunum sínum og jafnvel öll eftirlaunin frá Tryggingastofnun ríkisins.
Þetta fólk hefur greitt skatta og skyldur allt sitt líf til samfélagsins og lagt sitt af mörkum til þess að byggja upp nútíma þjóðfélag.
Nú er, með þessum nýju ólögum, verið að hvetja þetta fólk til þess að leita sér að svartri vinnu, fara af vinnumarkaðinum eða halda áfram að vinna og tapa áunnum réttindum.
Það gleymdist að hugsa um hve mikilvægt framlag þessa fólks til samfélagsins enn er, jafnvel þó það hafi verið svo gæfusamt að ná 67 ára aldri.
Það var heldur ekki hugað að því hve atvinnuþátttaka er mörgum mikilvæg og hvernig hún stuðlar að betri heilsu og meiri andlegum lífsgæðum.
Það var ekki skoðað hve lækniskostnaður og heilsugæsla gætu tekið stökk upp á við þegar fólk á besta aldri neyddist til þess að setjast í helgan stein í stað þess að halda áfram starfi sem því líkaði og gaf því lífsfyllingu.
Þó ég hafi hér á undan talað um vel menntað fólk og þekkingu er ekki síður mikilvægt framlag þeirra sem enga eða litla menntun hafa en hafa starfað til dæmis í ummönnunar þjónustunni. Þjóðfélag þarf á öllum þegnum að halda, ekki bara þeim sem eru langskólagengnir og allir ættu að vera jafn mikils metnir.
Þegar fólk veikist er ekki spurt um menntun eða starfsreynslu.
Ég veit ekki hvað það eru margir lífeyrisþegar sem búa erlendis en þeir missa allir rétt til heimilisuppbótar.
Mér finnst nokkuð skondið að ég skuli vera verðfelld við það eitt að spara þjóðfélaginu kostnað við heilsugæslu á mér og önnur hlunnindi sem ég nyti ef ég byggi á Íslandi. Við sem búum erlendis greiðum meira niður af lífeyri okkar frá TR en aðrir þegnar þjóðfélagsins.
Niðurstaða mín eftir þessa þanka sem skutu upp kollinum í gær þegar ég beið eftir lækni mínum á spítalanum hér í Portúgal, er að þeir sem settu saman lög um almannatryggingar sem samþykkt voru nú fyrir jólin hafi útspekúlerað hvernig hægt væri að láta lífeyrisþega greiða hækkun á lífeyri fyrir þá sem uppfylltu eftirfarandi þrenn skilyrði:
1. Höfðu greitt í lífeyrissjóð og sparað til efri ára
2. Voru með góða heilsu og vildu og gátu haldið áfram að starfa eftir 67 ára aldur
3. Höfðu flutt úr landi og bjuggu þar meira en 6 mánuði af ári.
Ég veit ekki hverjir eiga að berjast fyrir bættum kjörum þessa hóps í þjóðfélaginu. Það eru verkalýðs foringjar sem eru á himinháum launum miðað við sauðsvartan almúgann sem mér gætu dottið í hug en ég er ekki bjartsýn á að þeir skilji hvað málið er alvarlegt.
Verkalýðs foringjar þessir hafa samið um smánarlaun fyrir þá lægst launuðu á meðan þeir sjálfir mata krókinn greitt.
Það er grátlegt að heyra manneskju sem hefur verið í forystu fyrir verkafólk í áratugi segja að það hafi komið henni á óvart hve bágt ástandið sé hjá sumum.
Slík manneskja og fleiri sem sitja við samningaborð og bera svo upp ótrúlega samninga fyrir félagsmenn þyrftu að skoða sinn gang og eins og ég hef sagt áður, reyna að lifa af lægstu töxtum þó ekki væri nema í 3 mánuði eða svo. Hætt er við að eitthvað af hinum fögru bumbum mundu minnka við hin breyttu lífs skilyrði og fagrar undirhökur hverfa.
Ég vona að upp rísi hópur fólks með hugsjónir og skilning á því hvað lífið er í öllum regnbogans litum og sameinist til þess að bæta kjör þeirra sem eru komnir af léttasta skeiði.
Það er gott og blessað og alveg sjálfsagt að hjálpa þeim sem aldrei hafa borgað í lífeyrissjóð og eiga engan sparnað til efri áranna en það er ekki sjálfsagt og eðlilegt að þeir sem hafa sýnt fyrirhyggju og sparað eigi að greiða fyrir þann hóp.
Eitthvað alveg ótrúlegt er bogið við slíkan hugsanahátt og ekki síður að heil nefnd skuli árum saman geta sett saman lög sem festa slíkt óréttlæti í sessi.
Hvað voru alþingismenn sem samþykktu þessi ægilegu ólög að hugsa? Var jólasteikin, kalkúninn og ostrurnar og allar kræsingarnar að stríða þeim?
Fallegu loforðin sukku í sósunni sem beið handan við hornið og hinir LÁGLAUNUÐU NÝJU ÞINGMENN gátu glaðir unað við sitt!
Svona er þetta á landinu þar sem frægur stjórnmálamaður lýsir því yfir að þjóðin sé geðveik að sjá ekki hve allt sé dásamlegt á þessu fallega landi.
Geðveik þjóð hlýtur að kjósa geðveikina á þing, eða hvað?
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2017 | 12:33
Áramótaheit! Ég strengi ekki slík!
Þá er runnið upp nýtt ár með óvæntum uppákomum.
Margir strengja heit um þessi tímamót.
Hér í landi borðum við 12 gular rúsínur um miðnætti og ein ósk fylgir hverri.
Vinkona mín hringdi í mig í gær og hvatti mig til þess að gleyma nú ekki óskunum og lofaði ég að standa mig. Hún vildi líka að ég borðaði súkkulaði. Eitthvað þurfti ég til þess að lífga upp á tilveruna þennan síðasta dag ársins.
Er það ekki undursamlegt að eiga svona vini? Það eru ekki allir svo ríkir.
Þegar ég lít til baka yfir árið 2016 þá fyllist ég þakklæti. Árið hefur verið í mörgu ólíkt öllum öðrum árum eins og venjulega. Ég hef þrisvar verið á spítala um ævina og voru tvö skiptin á liðnu ári.
Í fyrsta sinn sem ég var svæfð á spítala var fyrir mörgum árum þegar ég var rétt dauð en frábærum læknum tókst að hressa mig við og lífið hélt áfram.
Næstu 2 skipti voru árið 2016, annað þar sem hjartað var lagað og hitt saumaskapur á öxl og handlegg þar sem brotin voru negld saman með vír.
Ég hef verið svo heppin að læknarnir sem hafa annast mig hér eru ungir og fullir af áhuga, það er að segja þeir sem hafa skorið mig. Heimilislæknirinn minn er orðin þreyttur og stækkar og stækkar í hvert skipti sem ég sé hann, sem er ekki oft.
Það breytir öllu þegar maður er veikur að hafa fitt, fallega, góðhjartaða lækna. Ég var í byrjun svolítið hrædd við hjartaskurðlækninn. Hann var að flýta sér heil ósköp og ég skildi ekki helminginn af því sem hann var að segja mér.Allt breyttist þetta þó þegar ég talaði við hann aftur og hann reyndist hinn allra besti fagmaður sem lagaði það sem hægt var að laga og nú tikkar hjartað eins og aldrei hafi neitt bjátað á.
Beinaskurðlæknirinn er ung og falleg kona sem veit nákvæmlega hvað hún er að gera. Hún útskýrði allt vel og vandlega og skurðurinn er svo dásamlega nettur og fallegur að hann þvælist ekkert fyrir fegurðar smekk mínum, eða kannski betur orðað fyrir smámunasemi minni!
Eftir áramótin, núna, á þessu nýja ári eru líklega enn tvær aðgerðir í pokahorninu og þá er búið að laga það sem laga þarf næstu 10 árin og eftir það verð ég líklega dauð.
Þetta er svona pínulítið eins og með bílana. Þegar þeir fara að eldast þurfa þeir meira viðhald en oft geta eldri bílar reynst ótrúlega seigir, bara ef eigandinn gætir þess að halda þeim vel við.
Viðhald fólksins er ekki flókið.
Heilsusamlegt líferni, hollur matur, hreyfing og bjartsýni eru töfrar sem hver og einn getur beitt.
Sumir strengja þess heit um áramót að fara í ræktina og losna við óþarfa kíló sem safnast hafa yfir hátíðirnar. Keypt eru kort, jafnvel áskrift í heilt ár, sem er ódýrasta leiðin og haldið af stað í nýjum bol og fallegum skóm.
Svona byrjar þetta oft, og tekið með trukki. Allt skal af á no time.
Eftir nokkrar vikur þar sem streð og sviti hafa ekki skilað væntanlegum skjótum árangri fer að slakna á áramótaheitinu og pínulítið vonleysi grípur um sig.
Þetta er tíminn þegar reynir á þolið og einbeitinguna! Ef hægt er að komast í gegnum fyrstu vonbrigðin og halda áfram er brautin rudd.
Holli maturinn brosir breitt framan í þig á morgnana og göngubrautin tekur þér opnum örmum, ef þú ferð í ræktina. Hafir þú ákveðið að ganga úti þá brosir öll náttúran breitt þegar þú birtist einbeitt/-ur á svip og með vatnsflöskuna í bakpokanum og arkar áfram eins og enginn sé morgundagurinn, þó hægt og rólega í fyrstu.
Ávextir og grænmeti verða bestu vinir þínir ásamt fiski og hollum horuðum mat. Grjón og fræ taka að birtast á diskinum þínum, alveg óvart, og skreyta allt með fallegu orkunni sinni. Orkunni sem verður ekki að fitu, nei þessi verður að krafti og þori til þess að takast á við lífið og tilveruna, hvað svo sem boðið er upp á.
Að dagsverki loknu tekur þú kannski upp á því að staldra við og hugleiða aðeins, bara rétt til þess að róa hugann og búa hann undir friðsæla nótt og djúpan svefn. Þú gætir hugsanlega farið í yoga tíma en fleiri leiðir eru á boðstólnum.
Ég fór í göngutúr í gær um þorpið mitt. Það var enginn á ferli. Ekki einn bíll hvað þá fólk. Mætti ég einum hundi sem ákvað að labba með mér smáspöl en gafst svo upp og settist á miðja götuna og naut þess að láta geisla sólarinnar baða sig. Þeir gera þetta stundum hérna í þorpinu, taka undir sig heilu göturnar og bílarnir stoppa á meðan kauðar færa sig aðeins til. Þetta er sældarlíf hjá hundspottunum en flestir þeirra eru reyndar ofvirkir og vilja helst éta þig ef þú vogar þér að ganga framhjá. Að þessu sinni voru allir ofvirku gaurarnir lokaðir inni og kannski búið að gefa þeim róandi fyrir kvöldið. Hvað veit ég svo sem um hundalíf í Portúgal?
Hugleiðsla á göngu er frábær. Í gær hugleiddi ég hvað er þakklát fyrir lífið. Þakklæti rann í gegnum mig eins og heitur straumur. Þakklæti til þeirra sem hafa reynst vinir í raun þegar ég þurfti á þeim að halda. Þakklæti til þeirra sem hafa stutt mig með ráðum og dáð í gegnum oft og tíðum stormasamt lífið og þakklæti til þeirra sem báru mig á örmum sér þegar ég gat ekki lyft mér upp sjálf.
Þakklæti til þeirra sem opnuðu augu mín fyrir því að líf hvers og eins er ábyrgð einstaklingsins en ekki einhvers annars.
Það er svo auðvelt að kenna öðrum um en það er líka svo auðvelt að taka ábyrgð á eigin vanlíðan og breyta henni í vellíðan með huganum einum.
Lífið er bara straumur. Straumur sem við fylgjum og við gerum alltaf okkar besta. Stundum er straumurinn eins og lygnar öldur en svo kemur ólgandi brim sem reynir að skella okkur um koll. Það er undir okkur sjálfum komið hvað við gerum. Tökum við ábyrgð eða ekki? Ef við tökum ábyrgð getum við horft bjartsýn fram á veginn en ef ekki þá verður brimrótið sterkara og skelfir okkur.
Öll lífsreynsla er til þess að læra af henni. Lexíurnar skjóta upp kollinum þar til við höfum staðist prófið og við tekur sú næsta. Þannig gengur þetta koll af kolli og augnablik örvæntingar og úrræðaleysis falla út með sjávarföllunum.
Versta lífsreynsla getur hæglega breyst í þá bestu þegar allt er skoðað í samhengi.
Ég dó ekki á skurðarborðinu fyrir mörgum árum. Mér var bjargað. Ég skildi á göngu minni um litla þorpið í gær hvað ég hef verið gæfusöm í gegnum allt lífið. Skúrirnar hafa gert mig sterkari, áföllin hafa hjálpað mér að skilja aðra betur og áramótaheit þarf ég ekki lengur að finna upp.
Sátt við lífið eins og það er fyrir mig er guðs gjöf sem ég þakka fyrir og ég er ekki ein. Ég get seint þakkað vinum mínum fyrir að bera mig yfir hindranirnar en ég vona að þeir viti hvað þeir eru mér mikils virði.
Vinkona mín sagði við mig í gær þegar ég var að tala um hvað ég væri óendanlega þakklát fyrir allt sem hún hefði gert fyrir mig, að það væri ekkert að þakka, þetta væri bara svona með vináttuna. Þegar einn þarf á hjálp að halda kemur í ljós hverjir eru vinir, og þegar vinirnir þurfa á hjálp að halda snýst dæmið við og þiggjandinn verður gefandi. Þetta sagði hin dásamlega vinkona mín og hún er vitur ung kona.
Ég óska öllum vinum mínum, og þeim sem kjósa að vera ekki vinir mínir, gleðilegs nýs árs og vona að allir finni sinn innri mann á þessu nýja ári og að það verði gjöfult og vísi þeim sem á þurfa að halda inn á beinni braut og góða heilsu.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2017 | 11:25
Ferð á ströndina 29 desember 2016,
29 desember
Ég ákvað ég að skella mér á ströndina. Það var kalt, ekki nema 6 stig þó sólin skini í heiði en ströndin var það sem skyldi blíva í dag.
Hlý föt, auðvitað á íslendingurinn fullt af hlýjum og góðum fötum fyrir veturinn. Skárra væri það nú og manneskjan þekkir dásamlegan íslenskan hönnuð sem hefur búið til flesta hennar heitustu og bestu vetrar klæðnaði. Sumt er orðið meira en 10 ára en gæðin eru slík að ekki sést betur en sé frá því í gær.
Svo er líka fínt að hafa sjal sem er úr tvíbandi, prjónað af frúnni sjálfri eftir aldagömlu munstri. Já íslenska ullin lætur ekki að sér hæða.
Hanskar úr kanínuskinni verma hendur og trefill búinn til í Kína og gefin kennaranum sem var alltaf blár úr kulda yfir veturinn í skólastofunni er líka með í för.
Sokkahlífar halda handlegg heitum og vesti úr gervi skinni vermir líka.
Nú er ég farin að hljóma eins Nora Roberts!
Það sem ég var að segja hér á undan er bara að klæða sig vel og þá er maður fær í hvaða veður sem er. Alltaf hægt að fækka klæðum, auðvitað innan velsæmis marka.
Ég tók með mér GPSið þó svo ég kynni leiðina utan að. Betra að fylgjast með hraðanum og vera ekki að eyða lífeyrinum frá Íslandi í sektir.
GPS var ekki alveg á því að vakna. Hefur fengið að sofa í marga mánuði og hélt líklega að komið væri vetrarfrí hjá þeirri útlensku. Á endanum tókst þetta þó, eiginlega þegar ég var búin að ákveða að fjárfesta í nýju og hefur Garmínu minni líklega þótt vænlegra að láta svefninn bíða þar til næsta dag.
Lögðum við nú af stað til Praia de Viera de Leiria. Þetta er uppáhalds ströndin mín og ég saknaði hennar. Saknaði dúndrandi niðar sjávarins og hafði ekki séð hvítfossandi löður sem himinháar öldurnar búa til rétt áður en þær ákveða að reyna að ná í táslur þeirra sem standa í flæðarmálinu. Einni þeirra tókst að hremma mig og ég tók til fótanna blaut í lappir og logandi hrædd. Aumingi eins og ég á ekki að hætta sér í námunda við svona náttúruöfl. Mér finnst hljóðið dásamlegt en vil helst standa í 100 metra fjarlægð og njóta þess. Krafturinn er engu líkur, það er eins og þær hvísli fyrst og svo reka þær upp öskur eins og lyftingamaður sem lyftir 100 kílóum í fyrsta sinn í bekkpressu. Ólýsanlegt og magnað.
Æi, nú er það að gerast enn einu sinni. Ég er að vaða úr einu í annað og rugla alla í ríminu.
Best að bakka og taka til þar sem ég var farin að nálgast Praia de Vieira De Leiria.
Ég ók í gegnum skóginn og ömurleg minnismerki mestu skógarelda í áratugi blöstu alls staðar við. Nakin trén og sviðin jörð báðum megin vegar. Mér varð illt og minntist þess þegar ég keyrði í gegnum logandi skóg ekki fyrir svo mörgum árum. Það var skelfileg reynsla sem ég vildi ekki þurfa að upplifa aftur.
Skógareldar eru árviss viðburður hér í Portúgal og flestir þeirra eru af mannavöldum. Ég veit ekki hvað mikið af landinu brann þetta sumarið en í fyrra brunnu 35% skóga og létust margir slökkviliðs menn þegar þeir börðust við ógurlega eldana t.d. í Caramulu fjallinu.
Þeir sem kveiktu í Caramulu náðust, annar í Portúgal og hinn í Lúx. Hvort þeim var sleppt veit ég ekki en í ár er talað um að setja CCTV tæki upp til þess að góma brennuvarga.
Einhvern vegin er það pínulítið ótrúlegt að CCTV verði sett upp í skógunum og held ég að fæstir portúgalar trúi svona sögum.
Brennuvargar eru látnir mæta fyrir dómara og svo er þeim sleppt og þeir geta byrjað upp á nýtt. Þetta er margsannað.
Það kemur við hjartað að sjá sviðna jörðina og svarta búka trjánna, lauflausa og dapra. Sums staðar keyrði ég í gegn þar sem búið var að fjarlægja brunann og pínulítil græn blöð byrjuð að ryðja sér braut upp aftur til þess að halda aftur af vindi og kulda og glæða líf okkar lit og fegurð.
Hvítu krækiberin mín virtust ekki hafa beðið tjón og lágreistu runnarnir á söndunum þegar ég nálgaðist ströndina voru bústnir og glaðir í sólskininu. Þeir höfðu sloppið þetta árið.
Ég ók eins og leið lá til Vieira og ætlaði í gegnum bæinn en þá var búið að setja upp stórmarkað Continente við hringtorgið og vegurinn út að strönd lokaður og verið að flikka upp á hann. Nú voru góð ráð dýr og ekkert annað en að snúa til baka og taka afleggjarann í öfuga átt svo hægt væri að komast til strandarinnar eftir nýja veginum frá því í hitteðfyrra.
Ég ók framhjá bláa fallega húsinu þar sem aldni fiðluleikarinn og tónskáldið býr. Við hittumst fyrir 3 árum og varð vel til vina. Hann býr heima hjá sér og hefur gæslukonu þar til dóttir hans kemur úr vinnu. Að þessu sinni virtist allt vera lokað í litla bláa húsinu og kannski hefur hann farið í heimsókn til Leiria. Það eru enn blóm og falleg jólaskreyting var utan á hliðinu. Ég vona að við eigum eftir að hittast einu sinni enn að minnsta kosti. Í hvert skipti sem ég fer á ströndina kem ég við í fallega bláa húsinu en einhvern tíma tekur allt enda og ekkert annað en að vera viðbúin því.
Þegar á ströndina kom var ekki vandamál að fá bílastæði. Engum venjulegum manni dettur í hug að aka hálfan annan klukkutíma bara til þess að hlusta á brimið.
Örfáar búðir voru opnar, þetta er jú þorp þar sem nokkrar hræður gista í hótelum yfir hátíðarnar og verið var að setja upp stórt tjald sem væntanlega á að hýsa skemmtiatriði nýársdags.
Ég labbaði upp að markaði og þar var allt hreint og fágað, enginn fiskur og engir bátar á ströndinni. Það er jú vetur og litlu bátarnir fara ekki á sjó í vetrarveðri. Þegar vorar skjóta þeir aftur upp kollinum og eru dregnir á flot og hífðir inn að lokinni veiðiferð. Flestir koma aftur með fullt af nýjum dásamlegum sardínum og fleiri tegundum sem ég kann ekki að nefna en eru nammi namm. Því miður tekur hafið toll á hverju ári og er fallegur steinn með nöfnum sumra þeirra sem hafa farist á aðalgötu strandarinnar.
Það er líf í tuskunum á sumrin og traktorar draga fleyin upp á land og síðan taka við ótal hendur við að sortera aflann. Sumt fer á markaðinn en alltaf eru menn frá veitingahúsunum sem fá sinn skammt beint upp úr bátnum. Það er ekki amalegt að fá grillaðan glænýjan fisk í hádegismat, en allt þetta er á sumrin og ekki í enda desember.
Ég fór inn á einn af fáum veitingastöðum sem var opinn og fékk kjúkling og hrísgrjón að borða. Það var eitt og annað mjög einkennilegt í boði, til dæmis einhvers konar krabbi eða eitthvað svoleiðis sem ég sé í súpermörkuðunum þar sem flykkin hlæja framan í mig og glotta ógeðslega því þeir vita að ég kaupi þá aldrei. Hef ekki hugmynd um hvernig á að elda þá og þykir þeir líkjast ófreskjum úr hryllings sögum.
Eftir matinn var svo ferðinni heitið niður í flæðarmálið og með poka að vopni ætlaði ég að ná mér í steina til þess að gróðursetja lauka í þegar heim kæmi.
Maður gæti ætlað að í fjörunni væri fullt af steinum og ekki tæki langan tíma að fylla einn lítinn poka af gimsteinum hafsins.
Nei, ekki aldeilis, það voru skeljar um allt. Ég vildi ekki skeljar, mig vantaði steina.
eEna leiðin til þess að ná í þá var að fara niður í flæðarmálið þar sem öldurnar léku sér en það var útfall hélt ég svo mér ætti að vera óhætt og ég kæmist heim aftur.
Þetta var eins og að leita að nál í heystakk en ég fann nokkra og var niðursokkin í að týna þegar einni bárunni datt í hug að flæða yfir tærnar á mér. Ég rak ekki upp óp en hjartað tók kipp og ég snaraði mér hlaupandi undan löðrinu upp eftir sandinum og tókst að kippa bakpokanum mínum með. Guð minn góður, hugsaði ég og skelfingin sem greip mig var ekta. Hugsa sér, ég hefði getað tapað vegabréfinu mínu og öllu pappírsflóðinu sem ég þarf að hafa með mér hvert sem ég fer af því það eru ekki gefin út skírteini fyrir útlendinga, verið að spara í landinu, og öldurnar hefðu geta leikið sér að öllu saman og borið út á haf. Hrikaleg tilhugsun svo ekki sé meira sagt. Og peningarnir mínir, já eftirlaunin mín voru í veskinu með pappírunum. Hroðaleg tilhugsun að tapa aleigunni á haf út!
Ég var búin að fá nóg, komin með nokkra steina, búin að bjarga mér og bakpokanum, orðin blaut í lappirnar og lafhrædd. Ég ætla heim, hugsaði ég og fann bílinn minn.
Lögðum við nú af stað ég og bíllinn, Garmína svaf í aftursætinu. Það er nefnilega svo ótrúlega skemmtilegt að villast og besta leiðin er að láta hana sofa og aka bara eitthvað. Það gerði ég þennan dag eftir að ég bjargaðist frá því að drukka í öldunum sem sleiktu út um og ætluðu sér að hremma útlendinginn!
Ég fann nýjan stað, undurfallegan stað þar sem allt var ólíkt öllu því sem ég hafði áður séð í þessu landi.
Ég hafði ekki glóru um hvar ég var stödd. Þurfti að finna einhvern sem gæti frætt mig.
Annað ævintýri bíður næsta dags.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2016 | 12:46
Af hverju eru allir þessir bílar að blikka mig?
30.desember 2016 er í dag.
Ég nenni ekki að eyða síðustu 2 dögum ársins í að hugsa um lélega alþingismenn og ætla bara að skrifa mér til ómældrar ánægju.
Ef einhver les það sem ég skrifa er það ágætt en mestu máli skiptir fyrir mig hvað ég fæ út úr því að hugsa á blaði.
Fyrir nokkrum dögum lagði ég upp í ferðalag til Pascuale en hann er blómasalinn minn og fjölskylda hans er vinafólk mitt. Ég hafði ekki séð þau síðan í ágúst.
Nú var ég laus úr prísundinni, þar sem ég hafði verið eins og fugl lokaður í búri síðan í október og ekki getað farið út fyrir þorpið nema í fylgd með fullorðnum sem voru á bíl.
Frelsið var dásamlegt. Ég gat sest upp í bílinn minn og ekið út í buskann.
Ég fór semsagt og hitti vini mína og urðu fagnaðarfundir og mikið um kossa og faðmlög þar sem allir gættu þess vandlega að snerta ekki vinstri hliðina á konunni. Það er nefnilega vír andskoti sem færði sig úr stað innan í handleggnum og er hann að skrapa fram og til baka. Ægilega sárt og má ekki snerta.
Philipe sýndi mér myndir af litlu dótturinni sem er ekki svo lítil lengur og afinn og amman vildu ólm að ég færi heim með nokkrar orkideur.
Ég kallaði orkideurnar "The ugly ones" þar til fyrir skömmu. Þær eru alls staðar og sjaldnast í blóma. Á svölum vítt og breitt um landið eru þessi grænu blöð sem standa upp úr pottunum eins og einmana sálir sem reyna að finna tilgang í lífinu sínu en ekkert gengur.
Í júlí fjárfesti ég í nokkrum, 6 minnir mig, og voru þær allar í blóma. Philip og ég lögðum á ráðin hvernig ég ætti að haga mér eftir blómgunina og ef til vill tækist mér ekki að drepa þær eins og allar hinar sem ég hafði reynt við. Ég keypti potta og mold og fór heim með nákvæmar leiðbeiningar um hvenær umpotta skyldi og hvernig.
Hlýddi ég öllum fyrirmælum og nú eru 3 þeirra komnar með knúppa og blómstra bráðum. Auðvitað tala ég við þær á hverjum morgni og stundum oftar á dag og þær eru ekki lengur "the ugly ones" nú eru þær bara fallegar grænar jurtir sem brosa framan í mig og halda mér i spennu og tilhlökkun um hvaða litur verður á blómunum sem eru á leiðinni.
Sem sagt, ég keypti ekki orkideur hjá vinum mínum í þetta sinn en datt í hug að ég gæti fært nágrönnum mínum sem hafa verið svo yndislega hjálpsöm og gert allt fyrir mig sem ég hef beðið um þessa mánuði sem ég hef verið veik, eina fallega blómstrandi orkideu. Ég ætla að gera það eftir áramótin.
Hélt ég nú af stað heim eftir aðra lotu af óskum um gleði og gæfu yfir jólin og fullt af kossum og knúsum.
Þetta er svona hér í landi: Ef þú ert kona færð þú kossa en ef þú ert kall er handaband það sem gildir. Landið mitt nýja er karlaland og ef mér er rétt hendi í kveðju skyni verð ég hrikalega montin. Þá er ég semsagt komin í jafningjafélagið og þangað ná ekki allir!
Þetta er svolítið öðruvísi ef fólkið er vinir þínir og þú kona. Þá færð þú koss og knús frá öllum, bæði köllum og konum.
Ég lærði þetta allt þegar ég var að byrja í ræktinni hérna um árið.
Þegar ég var að keyra heim komu á móti mér nokkrir bílar og allir blikkuðu mig eins og þeir ættu lífið að leysa.
Hvað er eiginlega að þessu liði, hugsaði ég, ég þekki ekkert þessa bíla? Er nú endanlega allt að verða galið hérna?
Ekkert lát var á blikkinu og ég gat ekkert gert í því. Var samt svolítið forvitin að vita hverjir þetta væru. Hélt að ég væri nokkuð viss um hvaða bíla ég þekkti.
Þegar að hringtorginu kom, því fyrsta á leiðinni áður en maður ekur inn á þjóðveginn frá blómasala götunni, varð enn einn bíll á vegi mínum og ökumennirnir ekkert að blikka. Þeir stóðu fyrir utan bílinn og annar úti á miðjum veginum og vinkuðu mér.
Sá sem var á miðjunni var nágranni minn!
Hann vinkaði mér út í kant!
Þetta var löggan að stoppa mig!
Nú skyldi ég öll blikkin sem ég hafði fengið áður á leiðinni að hringtorginu. Dásamlegir landar mínir aðvara ökumenn ef löggan er á næstu grösum. Er þetta ekki dásamlegt? Og fallega gert?
Jæja, löggan mín beið eftir því að ég opnaði rúðuna, en ég var ekki alveg á því. Ég vildi opna hurðina, varð eiginlega að gera það því ökuskírteinið var í bakpokanum mínum í aftursætinu.
Fyrst tók ég bílapappírana úr hanskahólfinu, ég veit nefnilega hvaða löggan vill sjá, hef verið stoppuð einu sinni áður, þegar verið var að gera skurk í fyllibyttu akstri!
Nú var ég komin með bílapappíra og þá var ekkert annað en opna bilhurðina og koma sér aftur í.
Maður gæti látið sér detta í hug að ekki sé neitt mál að opna eina bílhurð, en svo er nú ekki aldeilis.
Ég get sko hreyft handlegginn fram og aftur og beint út til hliðar en það er þessi fjárans ská hreyfing sem er alveg ófær ennþá og til þess að geta opnað blessaða hurðina þarf þessa ská hreyfingu. Ég er reyndar búin að finna lausn, rek öxlina ljúflega í greyið og færi svo hægri hönd yfir og opna. Þetta tekur svolítinn tíma og löggan mín var að byrja að verða aðeins óþolinmóður og hjálpaði mér að ná hurðinni upp eins og sönnum herramanni sæmir.
Skreið ég nú aftur í og náði í veskið mitt og vildi alveg ólm sýna honum vegabréfið mitt líka.
Nei hann vildi ekki vegabréfið bara ökuskírteinið.
Nú, ertu með portúgalskt ökuskírteini? sagði hann
Já, sagði ég og fannst ég eiginlega hafa vaxið aðeins í áliti hjá kauða.
Skoðaði hann nú alla pappírana og málæðið í mér tók við. Sagði ég honum í óspurðum að ég drykki bara vatn og grænt te.
Ha, ekki bjór eða viskí? spurði hann
Nei, bara vatn og grænt te.
Hann var svolítið hissa og ræddum við þetta fram og aftur dágóða stund þar til hinn vildi fara að losna við útlendinginn svo hægt væri að stoppa einhverja sem hægt var að græða á. Þessi útlendingur er alveg glataður, drekkur ekki einu sinni viskí, hvað þá bjór eða vín.
Ég gleymdi auðvitað að spyrja hvort ég hefði gert eitthvað af mér og settist sæl upp í bílinn spennti beltið og vinkaði Boa Tarde e Boas festas og löggurnar báðar brostu breytt.
Það er svo dásamlegt að hafa svona pólití í landinu. Margir þeirra eru vinir mínir úr ræktinni og svo eru nokkrir nágrannar.
Ég er hamingjusöm með að hafa verið stoppuð. Þeir stoppa alla og er það gott því margir aka eins og enginn sé morgundagurinn og gefa lítið fyrir samferðafólkið sem gæti verið fyrir þeim.
Í dag og á morgun hreyfi ég ekki bílinn. Ég er öruggari labbandi um þorpið en akandi um þjóðvegi í nýárs stressi og brjálæði sem grípur landann 3svar á ári.
Boa Ano Novo
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)