Kæru alþingismenn! Égt sendi ykkur tón!

Þá er nýtt ár að ganga í garð og vil ég senda öllum alþingismönnum tóninn!

Ég er ekki par hrifin af gjörðum ykkar þessa síðustu mánuði, hvað þá síðasta ár.

Ég hef hlustað á ykkur telja kjósendum trú um að þið séuð að vinna fyrir þá.

Ég hef hlustað á ykkur dásama ykkar flokka og segja okkur að ykkar flokkur sé sá sem hugsar um almenna borgara landsins fagra.

Ég heyrt ykkur segja að þeir sem eru á sveit þurfi að herða sultarólina, en samt þurfi kannski að hjálpa þessu dóti aðeins.

Ég hef heyrt ykkur opinbera vanþekkingu ykkar og heimsku með því að tala um fólk verandi á sveit ef það er komið á ákveðinn aldur og fær lífeyri!

Ég hef heyrt og séð ykkur byrsta ykkur við kjósendur og segja að vera nú rólegir og hlusta á hvað góðærið sé mikið.

Ég hef hlustað og heyrt ykkur segja að þið séuð vel að launum ykkar komin.

Ég hef séð ykkur greiða atkvæði á alþingi um kjör eldri borgara og öryrkja.

Ég hef heyrt ykkur dásama veröld þeirra sem greiða 80 prósent af tekjum sínum í skatt og skerðingar þegar þeir eru komnir yfir 67 ára.

Ég hef séð nýja tekjuáætlun mína frá Tryggingastofnun þar sem ég fæ örlitla hækkun á sama tíma og þeir sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð njóta svo til sömu kjara.

Ég hef skilið, loksins, að löghlýðni er ekki neitt sem þið virðið.

Ég hef alla mína tíð greitt í hítina skatta og ég hef sparað til efri ára með því að greiða í lífeyrissjóð.

Ég gerði ráðstafanir löngu áður en ég varð 67 ára til þess að þurfa ekki að lepja dauðann úr skel á Íslandi. Ég er ein af hinum lánsömu!

Nú sé ég að auðvitað átti ég að svíkja undan skatti og alls ekki að borga í lífeyrissjóðinn.

Það er kæru alþingismenn ekkert vit í því að vera löghlýðinn borgari á meðan þið hafið ekki vit til að skoða ný lög til enda og sjá afleiðingarnar.

Það er ykkur kæru alþingismenn til ævarandi skammar að þiggja himinhá laun, á meðan eldri borgara svipta sig lífi vegna örbirgðar í vel auðugu þjóðfélagi.

Ég hef horft á ykkur undanfarið eftir kosningar leika leikrit sem hefur verið leikið á áratugi.

Ég hef hlustað á ykkur segja að nú sé stjórn að myndast og svo kennir hver öðrum um að ekki tókst að koma saman ráðherrastólunum!

Ef þið kæru alþingismenn haldið að ég trúi einu orði sem þið segið þá hugsið ykkur betur um.

Þið hafið logið að þjóðinni, skarað að eigin köku, látið bótaþega eta það sem úti frýs, gefið skít í spítala og heilsugæslu ásamt menntakerfi þjóðarinnar.

Kæru alþingismenn, nú þætti mér vænt um að hver og einn svaraði fyrir sig fyrir hverja þið haldið að þið séuð að vinna?

Líklega haldið þið að vinnan ykkar, ef þið mætið, sé fyrir ykkar eigin ego þó þið að sjálfsögðu segið það ekki upphátt.

Nú á að kjósa mann ársins á Íslandi og eru nokkrir pólitíkusar í topp 10 sætunum.

Hvað er að þjóð sem ætlar að kjósa svikara og eiginhagsmuna seggi sem bestu menn ársins?

Það er eitthvað mikið að í slíku landi og óvíst hvort annað hrun breyti nokkru um hugmyndir þjóðarinnar.

Líklega kýs blessuð íslenska þjóðin aftur sama liðið, liðið sem er á heljar brúninni og rétt að ná því að keyra landið í annað gjaldþrot með dugleysi sínu og aumingjahætti.

Ég óska landsmönnum þess að þeir opni augun á nýju ári og kjósi EKKERT af þessu ágæta fólki sem nú situr á þingi og leyfir ólögum að renna í gegn óskoðuðum bara til að komast í langt jólafrí og njóta nýju launanna sem hafa verið greidd inn á reikninga þeirra.

Guð hjálpi Íslandi þegar það rennur hratt og örugglega til glötunar!

Hulda Björnsdóttir

 


Hvað veldur því að ég er "verðfelld" við það eitt að flytja úr landi?

 

Nú er hin dásamlega Tryggingastofnun búin að setja inn á mínar síður greiðsluáætlun fyrir árið 2017 og þar sé ég svart á hvítu hve hár lífeyrir minn verður.

Árið 2016 fékk ég 120.172 krónur á mánuði

nú árið 2017 fæ ég 171.616 krónur á mánuði

Ég bý ekki á Íslandi og fæ því ekki heimilisuppbót sem ég fengi byggi ég á landinu ylhýra.

Við það eitt að flytja úr landi og með því spara ríki og sveitarfélagi stórfé í heilbrigðisþjónustu er ég sett niður, ég er verðfelld.

Þetta kom mér ekki á óvart, en eru samt vonbrigði.

Stór orð hafa fallið út úr munni Bjarna Ben og fleiri um að nú ætti að jafna kjör og allir ættu að geta lifað af lífeyri sínum.

Bjarni Ben varð ljótur í framan á stóra fundinum í Háskólabíói þegar hann var að réttlæti gerðir sínar og hann fussaði yfir frekju lífeyrisþega.

Hann verður kannski næsti forsætisráðherra á Íslandi.

Er ekki lífið dásamlegt?

Ef þið hugleiðið að flytja úr landi kæru lífeyrisþegar, til þess að geta haft í matinn ráðlegg ég ykkur að fara vel yfir hvað breytist í mati á ykkur sem einstaklingum.

Það er betra og ódýrara að búa erlendis í ódýru landi og láta hinar skammarlegu bætur endast út mánuðinn en óneitanlega sárnar mér þegar ég sé að enn einu sinni hef ég verið verðfelld.

Einhver spurði hvort tryggingastofnun væri vísvitandi að reikna vitlaust út og klekkja á fólki?

Ég er ekki vön að halda uppi vörnum fyrir stofnunina en ég er smátt og smátt að komast á þá skoðun að kerfið sem starfsmönnum er ætlað að vinna eftir sé svo flókið að það þurfi meira en meðal gáfur til þess að botna í því.

Mér var gert að endurgreiða nokkuð háa upphæð og bað um skýringar, nákvæmar skýringar á því hvernig þessi skuld væri til komin.

Ég fékk bréf eftir langan tíma með útskýringum sem hefðu hæft smákrakka. Það var ekki heil brú í skýringunum og þó ég legði mig alla fram ákvað ég að vera ekkert að ónáða meira og borga bara.

Það getur stundum verið til að æra óstöðugan að reyna að hafa samskipti við blessaða stofnunina en þó eru innan um einstaklingar sem vita hvernig á að vinna.

Getur það verið að laun starfsfólk TR séu svo lág að ekki fáist hæft fólk til þess að lesa úr flóknum flækjum sem hið háa alþingi setur og aumingjans alþingismennirnir skilja ekki sjálfir?

Ég á eftir að fá endanlega greiðsluáætlun fyrir árið 2017, hún kemur seinni hluta Janúar 2017.

Til yngri kynslóðarinnar sem nú er að safna í lífeyrissjóð samkvæmt gildandi lögum hef ég þetta ráð:

Hættið að greiða í lífeyrissjóð. Leggið fyrir á einkareikning eða safnið undir koddann.

Greiðsla í Lífeyrissjóð er tapað fé og ekkert annað. Þegar til á að taka eftir 67 ára aldur hefur sparnaðurinn brunnið upp og það litla sem verður eftir af honum hirðir ríkið í skerðingum og sköttum.

Það borgar sig að hafa aldrei greitt í Lífeyrissjóð!

Trúið þið þessu?

Þetta er svo lygilegt en því miður satt.

Ég hrópa húrra fyrir alþingismönnum sem hafa tryggt sig og sína og þurfa aldrei að velta fyrir sér einni krónu. Guð blessi þá alla og gefi þeim gleði og glaum á nýju ári.

Hulda Björnsdóttir

 


Ein sem getur ekki hagað sér eins og manneskja!

 

Margt er sér til gamans gert og sumt tekst vel og annað flækist eins og bandhnykill fyrir manni.

Í gær var mánudagur. Hér í landi er enginn annar í jólum. Það er bara venjulegur mánudagur.

Á jóladag fór ég labbandi niður í íþróttahöll til þess að hlusta á kór og hljómsveit bæjarins. Venjulega er þetta svooooo ótrúlega leiðinlegt en þar sem ég er alveg að verða portúgölsk átti ég ekki annars úrkosta en að láta sjá mig á samkomu ársins.

Hér í landi hefst ALDREI nokkur samkoma á auglýstum tíma. ALDREI!

Dýrðin átti að hefjast klukkan 4 og hófst stundvíslega klukkan hálf fimm!!!

Nágranafrú ein í minni blokk er með smábarn. Þessi frú er gift fyrrverandi nemanda sínum og eru 15 ár á milli þeirra. Hún hefur oft og mörgum sinnum séð ástæðu til þess að tjá mér að ég sé gömul og ekki falleg á sama tíma og hún sjálf segist vera undur fögur.

Kellan er 46 ára gömul, lítil og feit og ég hef aldrei séð hana smart klædda. Hún er dæmi um hallæri frá toppi til táar en auðvitað á ég ekkert að vera að segja svona. Ég er hrikalega stór, hún nær mér tæplega í öxl, stendur eiginlega undir handarkrika mínum. Svo klæðist ég einkennilegum fötum sem eru hönnuð af frægum hönnuðum bæði á Íslandi og annars staðar, og það fellur ekki að smekk þeirrar fallegu!

Jæja, hún er hrikalega ánægð með barnið og á tónleikunum gafst heldur en ekki gott tækifæri til þess að sýna bæjarbúum kraftaverkið. Gekk hún fram og til baka með barnið í fanginu, hægt og rólega, og 1 eða 2 stóðu upp til þess að dást að 3ja barni fjölskyldunnar.

Ég skil ekki vel hvernig það getur verið gott fyrir ungabarn að hríslast í kulda og ekki síst í gerræðislegum hávaða á fremsta bekk þar sem stór lúðrasveit þenur lúðrana eins og ég veit ekki hvað.

Auðvitað er ég bara afdala léleg móðir, hefur líklega ekki fæðst önnur eins herfa á þessu jarðlífi, samkvæmt áliti sumra, og ekki hægt að ætlast til þess að ég skilji tónlistar uppeldi fyrir ungabörn í hinu nýja landi, hvað þá hita og kulda mælikvarða.

Jæja, hófust nú tónleikarnir og viti menn, það var ekkert bla bla bla bla í byrjun. Bara sungið!

Ég er ekkert sérlega hrifin af þessum kór en þau gera sitt besta svo ég læt vera að kvarta.

Eftir tæplega klukkutíma bið, að loknum kórsöngnum hóf lúðrasveit bæjarins leik sinn.

Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á þessa sveit og hef síðan séð ósóma minn í því að yfirgefa svæðið áður en hún byrjar. Nenni ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í að hlusta á kattagarg. Get hlustað á mjálmandi og breimandi ketti fyrir utan blokkina og verið í þokkabót inni hjá mér í hlýjunni.

Þetta árið ákvað ég að láta mig hafa það. Var með dagskrá í hendinni og þar ætlaði BANDA DA SOCIEDADE FILARMÓNICA PENELENSE að leika 6 verk.

Jeminn eini, hugsaði ég, 6 verk taka eilífð.

Nei, þú getur ekki farið núna, orðin ísköld og skjálfandi. Sittu bara og hlustaðu, sagði ég tuðandi sjálfi mínu og við sátum áfram.

Hóf nú Banda da Sociedade leik sinn og andlitið datt af mér!

Ég sat með opinn munn og trommaði með alveg yfir mig undrandi.

Hvað hafði gerst?

Gerast kraftaverk nú á dögum?

Var þetta sama fólkið og ég hlustaði á í fyrra?

Að loknu fyrsta verki á dagskránni, Marcha de concerto de Carlos Marques, sat ég með opinn munn og sagði stundarhátt: VÁAAAA ! Hvað gerðist???????? Maðurinn sem sat næst mér horfði á mig undrandi! Nú hefur útlendingurinn endanlega tapað sér, gæti hafa verið að renna í gegnum huga hans en hann brosti bara.

Hljómsveitin var hljómsveit!

Annað verkið var WILLIAM TELL OVERTURE (Finale) og það var ekki síðra. Ég stóð upp og BRAVÓAÐI. Allir litu upp á útlendinginn, svona gerir maður ekki í Portúgal og mér var alveg sama. Ég var að sjá kraftaverk og þau náðu alveg inn að hjartarótum í mér. Hvaða máli skiptu nokkrar augngotur fólks sem skilur ekki alvöru list? Ég var í sjöunda himni.

Venjulega get ég ekki beðið eftir því að hljómsveitin hætti. Núna vildi ég meira. Þið verðið að spila meira! bað ég í huganum.

Ég reyndi að klappa upp í lokin og örfáir tóku undir, hljómsveitarstjóri ræddi við sína og var að leita að aukalagi þegar allir hættu að klappa og fóru út!

Dásamlegt, maður klappar ekki upp hér. Maður fer bara. Maður á heldur ekki að segja hátt og snjallt VÁ eða BRAVÓ. Bara þegja.

Já það verður ekki á listamenninguna logið hér í bæ. Hún er smart! 

Gekk ég nú í gegnum bæinn heim til mín í sæluvímu nötrandi af kulda og myrkrið var þykkt. Bílarnir brunuðu framhjá mér og ég þrýsti mér upp að vegg svo ég yrði nú ekki keyrð niður. Frúin með barnið keyrði á ofsahraða. Líklega krakkinn orðin kaldur og mál að koma honum í nágrenni við heitan arininn!

Þegar ég kom í götuna mína hélt ég að hudurinn efst í götunni mundi stökkva yfir hliðið og ráðast á mig, eða brjóta hliðið ef honum tækist ekki að stökkva yfir. Slík voru átökin. Þetta hundskvikindi reynir að drepa mig í hvert sinn sem ég geng niður eða upp götuna mína. Það eru fleiri slíkir búsettir í þessari götu en hann þessi er verstur. Auðvitað er fólk ekki á gangi á þessum tíma, það eru allir á bílum, við erum jú í landi þar sem ekki tíðkast að ganga meira en lífsnauðsynlegt er og helst aðeins minna.

Ég meikaði það heim, nötrandi köld, alsæl á sálinni eftir að hafa notið sannrar listar í 20 mínútur eða svo, í landi þar sem list er ekki auglýst en stundum er hægt að vera heppinn og finna hana, og skreið undir teppi með hitapoka til þess að ná í pínulítinn yl í kroppinn.

Hulda Björnsdóttir


Alþingismenn og jólamatur!

 

Þá eru jólin að koma. Þau koma annað kvöld.

Alþingismenn komnir í jólafrí og geta sest niður og gætt sér á dýrindis steikum og alls konar góðgæti.

Það er gott að blessaðir þingmennirnir geti hvílt sig yfir jólin og fram á næsta ár. Þeir eru áreiðanlega þreyttir eftir að leika hið mikla sjónarspil sem verið hefur síðan kosningar voru fyrir stuttu .

Komið hefur í ljós að hinir tryggu kjósendur spillingar og valdagræðgi eru af eldri kynslóðinni.

Þetta kemur á óvart, eða kannski ekki.

Eru bara örfáir aumingjar að kvarta yfir því að hafa ekki nægilegan lífeyri til þess að geta haft sæmilegan mat á jólahátíðinni?

Eru þeir sem skrifa um mannréttindabrot á eftirlaunaþegum og öryrkjum bara að bulla?

Það mætti halda það ef litið er á hverjir fara helst á kjörstað.

Á ég að trúa því að svona sé í pottinn búið eða er yngra fólkið einfaldlega upptekið af harðri lífsbaráttunni og sér ekki fram á að atkvæði þeirra breyti nokkrum sköpuðum hlut?

Hvað með einstæðu foreldrana? Eru þeir allir sælir með sitt?

Er kvíði fyrir því að eiga ekki fyrir jólagjöfum handa börnunum bara í sögunum?

Er kvíðakastið sem stóð í heilan mánuð vegna þess að ekki var hægt að hafa sæmilegan mat á borðum yfir hátíðarnar hjá barnafjölskyldum bara liðin tíð?

Hvað með heimilislausa fólkið sem fékk jólamatinn á herkastalanum? Er það fólk allt komið í hús og hefur eldhús og nægan mat til að elda þar?

Hvað með öryrkjana sem ekki áttu fyrir lyfjum eða lækniskostnaði? Eru þeir líka horfnir?

Er allt skyndilega orðið svo gott af því að búið er að keyra í gegn um alþingi lög og ólög sem hægt verður að dunda við að lappa upp á eftir áramótin þegar þingheimur hefur gætt sér á dýrindis steikum og fögrum vínum?

Hvert duttu fallegu loforðin fyrir kosningar? Hvar eru þau? Er ekki hægt að grafa þau upp?

Ó fyrirgefið. það er óþarfi að vera að grafa eitt eða neitt upp. Bara gleyma því sem var sagt fyrir kosningar og ekki vera að ybba sig neitt.

Allir hafa það svo gott.

Þið sem eruð alltaf endalaust að kvarta ættuð bara að fara í mat hjá einhverjum þingmanna. Þeir eiga næga peninga og enginn skortur á mat og þið eruð ábyggilega velkomin til þeirra um jólin.

Alþingismenn eru nefnilega allir hinir mestu heiðursmenn sem efna öll sín loforð.  Það er almenningur sem er ekki alveg í lagi. Þessi almenningur sem endalaust kvartar og kveinar og skilur ekki hina ógurlega miklu vinnu sem liggur að baki því að passa upp á vini og vandamenn þeirra sem sitja við kjötkatlana.

Hvað er eiginlega að ykkur öryrkjar og eftirlaunaþegar? Hættiði að kvarta. Það eru mannréttindabrot að vera endalaust að væna kjörna fulltrúa um gleymsku, hvað þá svik!

Ef þið, þetta gamla fólk haldið áfram að rífa ykkur eru hæg heimatökin og breyta nýju lögunum og sjá til þess að þið fáið ekki neitt eftir áramót.

Það er nefnilega þannig að þó brotin séu mannréttindi á þessum hópi fólks er ekki hægt að fá það staðfest. Enginn dómstóll mundi staðfesta það og Evrópu er alveg sama um nokkrar hræður við norður pólinn.

Best er að hætta að hrópa um mannréttindabrot. Það er hróp í eyðimörkinni sem enginn heyrir.

Best að vera bara sæll með það sem hent er í gamlingjana. Þeir eru hvort sem er rétt um það bil að fara yfirum. Ekki eftir nema kannski 20 eða 30 ár og auðvitað best að sjá til þess að þetta fólk sé ekki mikið að flækjast fyrir hinum yngri sem eiga jú að hafa það gott og erfa landið.

Ég er ekki einu sinni reið. Ég er lömuð af skelfingu. Ég á vini á Íslandi sem eiga ekki fyrir mat. Hvað verður um þessa vini mína? Hvernig verður þessi vika sem eftir er af árinu hjá þeim? Hvað verða margir þeirra enn á meðal okkar í febrúar?

Ég bara spyr en fæ auðvitað engin svör, þetta er eins og að hrópa í eyðimörkinni og biðja um vatn að drekka.

Alþingismenn, njótið stundanna sem þið eigið þar til næsta þing kemur saman og verið ekkert að hafa áhyggjur af eða hugsa um smælingjana. Þeir eru bara kross á kjörseðli og sumir fá kross á leiði þegar þeir hafa geispað golunni.

Lifi hræsnin og gleymdu loforðin um aldur og æfi!

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Ég er svo reið, eða er ég kannski bara sorgmædd?

 

Þá er alþingi að komast í sama gír og venjulega. Keyra mál í gegn og flýta sér svo allir þingmenn komist í jólafrí.

Já, passa upp á að fríið verði nægilega langt, launin er svo skammarlega lág og ekki hægt annað en vorkenna vesalings fólkinu sem vinnur fyrir þjóðina við að búa til lög, eða kannski ólög, á hinu háa alþingi.

Ég gæti gubbað bara af tilhugsuninni um hin ótrúlegu vinnubrögð sem tíðkast á alþingi íslendinga og haf tíðkast eins lengi og ég man eftir mér.

Það er ekkert einkennilegt við að ólög séu samþykkt hvað eftir annað. Hvernig á annað að vera hægt þegar mál eru lögð fyrir þingflokka korteri fyrir fund?

Hvernig eiga þingmenn að geta sett sig inní málin og tekið vitrænar ákvarðanir með svona vinnulagi?

Meðvirkni er vinsælt orð í þjóðfélaginu í dag og hef ég ekki tekið mér það í munn fyrr en nú. Alþingi logar af meðvirkni.

Einn þingmaður rís upp og skrifar opinberlega um hin fáránlegu vinnubrögð og tek ég hatt minn ofan fyrir honum. Ég veit ekkert um hvaða flokki þessi ungi maður er í og mér er hjartanlega sama. Hann talar opinberlega um fáránleikann. Hann þorir að láta skoðun sína í ljós. Ég vildi óska að við ættum fleiri svona hugaða einstaklinga á hinu háa alþingi, einstaklinga sem risu upp og mótmæltu vondum vinnubrögðum þar sem vond lög renna í gegn eins og heita lummur.

Það er líklega borin von að fleiri slíkir líti dagsins ljós það sem eftir er af þessu ári en kannski vakna fleiri til lífsins á nýju ári eftir át og drykkju jóla og áramóta. Hver veit?

Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að bjarga landinu frá gjaldþroti! Það þurfa að rísa upp stjórnmálamenn sem eru ekki bara lukkulegir með launaumslagið sitt og er skítsama um almenning.

Ég hef auðvitað ekkert vald til þess að gera eitt eða neitt, ég er  almenningur og ég hef ekki einu sinni kosningarétt á landinu. Ég fæ hins vegar eftirlaun mín greidd frá landinu og því kemur mér ástand þar við. Ég skammast mín fyrir að tilheyra landi sem vellur í spillingu og eiginhagsmuna poti, sem aldrei fyrr.

Skömm mín lætur þó aðeins undan þegar ég les grein eftir ungan alþingismann sem vill breyta vinnubrögðunum. Það vaknar aðeins von í brjósti um að ef til vill sé einhver sem vill ekki taka þátt í viðbjóðnum.

5 stjörnu hótel í byggingu fyrir innflytjendur á stað þar sem fátækir íslendingar nutu jólamatar!

Tónlistarmenntun í dauðateygjum og æðsta ósk stjórnarherra landsins að leggja slíkan óþarfa niður! Ég er svo yfir mig hneyksluð á fáfræði stjórnmálamanna. Vita þeir ekki að tónlist er eitt af bestu tækjum til þess að auðga andann? Vita þeir ekki að fólk sem er veikt og hlustar á tónlist nær fyrr bata? Vita þeir ekki að tónlist hvetur ungmenni í öðru námi? Líklega vita þeir ekkert um þetta, hafa engan áhuga og finnst bara fínt að geta hóað í söngvara og hljóðfæraleikara við hátíðleg tækifæri, svona rétt til þess að fylla upp í dagskrána.

Og sjúkrahúsin! Hafa hinir háu herrar hugleitt hvað gerist ef þeir veikjast? Ó, nei þeir þurfa auðvitað ekkert að pæla í slíkum smámunum, þeir hafa peninga og fara að sjálfsögðu á einkasjúkrahús! Ekkert vandamál þar og skítt með almenning.

Menntun: Já, það er þetta með hina almennu menntun á Íslandi. Líklega ekki mikið til þess að hafa áhyggjur af, flytja bara inn útlendinga. Kennarar eru óþörf stétt sem heldur að hún eigi að fá himinhá laun fyrir að troða lærdómi inn í höfuð ungra íslendinga. Hvaða frekja er það að ætlast til þess að fá laun fyrir svona störf. Er ekki hægt að kenna krökkunum að lesa heima og skrifa? Þarf að vera að halda úti heilli stétt til þess að sjá um svona auðvelda hluti? Bara óþarfi! Senda kennara út að skúra! Heyrðu annars; hvert ætla hinir háu herrar að senda krakkana sína þegar allir kennarar verða farnir í önnur betur launuð störf? Eru til einkaskólar fyrir aðalinn á Íslandi?

Ég er svo óendanlega sorgmædd yfir því hvert fallega landið er að sigla og ekkert lát virðist vera á óstjórn og einkasukki.

Sukkararnir verða gamlir! Engin vandræði þar. Þeir hafa komið ár sinni vel fyrir borð og þeir sem hafa getað potað sér inn á þing með sviknum loforðum þurfa ekki að hafa áhyggjur af eftirlaunum. Nei, þeir sjá um sína!

Auðvitað eru að koma jól og þá á ég að vera voðalega auðmjúk og þakklát og ekki tala illa til eins eða neins.

Þá er líklega ekkert annað en biðja fólk að fyrirgefa mér hrokann og frekjuna, ef mögulegt er.

Góða fólk! ég vona að allir eigi góð jól og fái góðan mat að borða. Kannski kemur nýtt ár með betri tíð og blóm í haga, hver veit nema undrið gerist og hinir kjörnu fulltrúar sjái að sér og fari smátt og smátt, voða smátt, að hugsa um þá sem krossuðu við nafnið á flokknum þeirra í kosningum.

Hulda Björnsdóttir

 


Mér liggur svo margt á hjarta

 

Þegar ég kaupi föt er ég oft hugsi yfir því hvaðan þau koma. Þegar verðið fer niður úr öllu valdi og flíkin er búin til í Kína eða Indlandi verður mér hugsað til fólksins sem sneið og saumaði.

Hvaða laun fær þetta fólk fyrir vinnu sína?

Hvernig er aðbúnaður á vinnustað þeirra?

Ég reyni eftir bestu getu að versla ekki það allra ódýrasta því verðið segir meira en mörg orð.

Hér í landi er verslun sem heitir PRIMARK og þar er allt verðlag ótrúlega lágt. Ég hef farið inn í búðina nokkrum sinnum en alltaf snúið við. Fólkið sem saumaði er ofarlega í huga mínum og ég get ekki stutt kaupmanninn.

Núna er vetur hér og alveg ótrúlega kalt jafnvel þó sólin komi upp á morgnana og vermi vanga. Húsin eru óeinangruð og byggð úr götóttum leir kubbum svo kuldinn á greiða leið inn og alveg inn í bein á íbúunum. Jafnvel þó reynt sé að kynda, bæði með central kyndingu og arninum eru næturnar kaldar.

Venjulega lætur fólk sig hafa það og klæðir af sér kuldann þó nefið sé rautt og ískalt viðkomu. Stundum rýkur gufan út um munninn þegar farið er í rúmið og þá er bara að breiða upp fyrir höfuðið.

Fötin fyrir næsta dag eru bólfélagar. Þá eru þau heit að morgni og hægt að smeygja sér í þau undir sænginni áður en farið er á fætur.

Í húsunum er eldhúsið oftar en ekki eina herbergið sem talist getur hlýtt. Arininn er þar og svo auðvitað eldavélin.

Það er reyndar ekki alltaf fátækt sem stjórnar hitanum. Til er fólk hér sem hreinlega tímir ekki að hita upp. Það safnar peningum undir koddann og er ekki mikil hlýja frá þeim þar en hjartað slær ótt og títt í vissu um að aurarnir séu á öruggum stað. Ekki veit ég hvernig farið er að þegar skipt er á rúmum en þætti stundum forvitnilegt að vera fluga á vegg því nóg er af þeim jafnvel í kulda og trekki.

Auðvitað eru margir hér sem ekki hafa efni á að kynda og það er líka til fólk sem á ekki nema einn gang sem er sæmilega skjólgóður. Það er hið raunverulega fátæka fólk í landinu.

Fyrir nokkrum vikum fór ég með vinkonu minni í verslunina sem ég minntist á í upphafi, Primark. Erindið var að kaupa náttföt. Mér hafði verið sagt að þar fengjust bestu náttföt í landinu, hlý og dásamleg og þar sem öxlin á mér og handleggurinn þurftu stöðugan hita var þetta freistandi vitneskja.

Við fórum inn í búðina og fundum náttföt á 10 evrur, sem er nákvæmlega ekkert verð hér í landi. Ég lokaði á allar samviskufortölur um þrælahald og illa launaðar saumakonur. Mér og vinkonu minni var hryllilega kalt á nóttunni og náttföt skyldu heim með okkur, jafnvel þó ódýr væru.

Keypti ég 3 sett handa hvorri okkar, borgaði og flýtti mér út úr búðinni. Samviskan nagaði inn að beini. Ég reyndi að hugsa um ískaldar nætur og hola kubba sem voru fyrir framan nefið á mér þegar ég lagðist upp í rúm á kvöldin. Mér tókst ágætlega að sjá og finna kuldann en var enn með samviskubit yfir kaupum á vöru sem kostaði eiginlega ekki neitt bara til þess að halda hita á mér.

Réttlætti ég framferðið með því að ég verslaði aldrei neitt annað á þessu verði.

Mér líður dásamlega í náttfötunum. Þau halda á mér hita alla nóttina og ég fer á fætur í kulda en er samt heitt.  Ég hugsa til fólksins sem bjó dýrðina til með þakklæti og von um að þau eigi betri tíð á komandi ári. Ég lofa því að kaupa ekki fleiri náttföt næstu fimm árin. Kannski verður þá kominn annar verðmiði á hinu dásamlegu náttföt og mín orðin gatslitin. Hver veit.

Samviska mín tók kipp upp á við þegar við ultum inn í sokkabúðina og fundum hlýja ullar sokka sem voru óheyrilega dýrir og ekki búnir til í löndum sem borga þegnum sínum skammarleg laun. Stelpurnar í þessari sokkabúð þekkja mig. Þær selja nefnilega dýrðlegar síðbuxur sem ég horfi löngunar fullum augum á í hvert skipti sem ég fer framhjá. Allir mögulegir litir og gerðir, sumar með blúndum og aðrar úr leðri. Himnaríki í buxnalíki sem mér er lífsins ómögulegt að nota því blóðið mundi stoppa á leið til hjartans og mikið er hægt að leggja á sig fyrir fegurðina en dauðinn er aðeins of dýrt verð.

Læt ég mér því nægja að horfa! Hjúkkan sem skipti á saumunum á handleggnum á mér átti og var í einum af þessum dásamlegu svörtu leðurbuxum.

Þær eru meira að segja hlýjar, sagði hún mér.

Oh, hví gátu foreldrar mínir ekki séð til þess að æðarnar sem þau gáfu mér væru víðar og fallegar? Af hverju þurfti ég að fá einhverja aumingja sem hrukku saman og börðust af alefli á móti því að leyfa blóðinu að renna?  Það er ekkert réttlæti í sumu!

Dýrðar buxurnar eru búnar til í Evrópu. Ég gæti fjárfest í þeim með góðri samvisku en foreldrar mínir sáu til þess að ég á ekki séns.

Það er svo gott að geta kennt einhverjum um. Hjartanu verður svo hlýtt og mér líður svo vel á eftir!

Ég segi bara svona, eða þannig.

Kær kveðja til mín frá mér!

Hulda Björnsdóttir

 


Hvert er heimurinn að sigla?

 

Hvert er heimurinn að sigla þessa dagana? Við stöndum á gati og getum ekki svarað. Hryllingurinn er svo ólýsanlegur þegar menn geta ekið inn í jólamarkað og drepið fólk með köldu blóði.

Eru trukkar drápstæki framtíðarinnar fyrir öfgamenn?

Ég veit það ekki en hryllingurinn er sá sami hvaða tæki sem notað er.

Það geysa stríð og borgir lagðar í rúst án þess að blikna.

Menn skotnir á listasöfnum og ódæðismaðurinn myndaður í gríð og erg.

Eitthvað er ekki í lagi þegar hryðjuverkamenn geta siglt inn í þjóðfélögin í kjölfar eða á meðal þeirra sem eru að flýja örbirgð og endalausar skotárásir.

Hér í landi (Portúgal) eru allar dyr opnaðar fyrir þeim sem eru flóttamenn og þeir sem þykjast vera flóttamenn fylgja með. Enginn greinarmunur gerður þar á.

Rétt handan við hornið þar sem ég bý eru 20 slíkir. Ég veit ekki hvort þetta fólk er gott fólk eða ekki. Ég veit að á göngu minni um þorpið mæti ég þeim stundum og enginn heilsar. Þau eru í sínum eigin heimi og fjölga börnum. Á bókasafninu í morgun sá ég eina að þessum hópi. Hún stökk á salernið og virti hvorki kóng eða prest viðlits.

Bæjarstjórinn hér er uppljómaður af gleði yfir hve góðhjartaðir pólitíkusarnir hér eru. Enn eru nokkra íbúðir lausar í sambýlinu sem nýja fólkið býr, líklega 30 íbúðir. Enginn portugali býr þar. Of dýr leiga og heimamenn ráða ekki við hana. Nýja fólkið þarf ekki að greiða leigu! Það þarf heldur ekki endilega að fá sér vinnu. Reyndar ekki vinnu að fá í plássinu. Kerfið sér um föt og mat og hita og rafmagn fyrir nýja fólkið.

Þeir sem eru upprunalegir í landinu geta étið það sem úti frýs og séð um sig sjálfir. Þeir hafa ekki sama sess í hjörtum stjórnarherranna og ekkert sjónvarp eltir þá á röndum. Nei, ef þú ert upprunalegur íbúi skaltu bara halda þig á mottunni og taka vel á móti þeim sem koma að utan. Skiptir engu máli þó sannað sé að 1 prósent gæti tekið upp á því að aka í gegnum heilt jólaþorp og drepa eins marga og hægt væri. Nei, svoleiðis gerist ekki hér!

Ég er ekki í hópi góða fólksins. Ég er líklega rasisti af verstu gerð í augum þeirra sem þetta lesa.

Gott og vel. Hver og einn er frjáls að sinni skoðun.

Mín skoðun er hins vegar sú að best sé að taka til heima hjá sér áður en farið er að ryksuga önnur hús.

Heilbrigðiskerfi, menntakerfi, sjúkrahús og sjávarútvegur. Er allt í himna lagi með þessi mál á Íslandi?

Fátækt.

Er hún til á Íslandi, landinu sem veður í peningum upp að hnjám?

Svangt fólk.

Er það enn til á Íslandi?

Hafa ekki allir það svo gott og dásamlegt árið 2016 á hinu gjöfula landi sem stjórnað er af svo miklu réttlæti og víðsýni?

Það hlýtur að vera, ekki er útlit fyrir að mikið hafi breyst þó búið sé að kjósa. Nú eru þingmenn, vanir og óvanir, uppteknir við að samþykkja fjárlög fyrrverandi ríkisstjórnar og eru bara sælir með sitt.

Auðvitað!

Þeir fengu 2ja mánaða laun greidd áður en þing var sett og þurfa ekki einu sinni að mæta í vinnuna, nema rétt annað slagið.

Væri ekki ágætt að reka þá sem ekki mæta? Ekki kemst almenningur upp með að skrópa dag eftir dag og fá laun fyrir, eða hvað?

Það er ágætt að skrifa um og tala um og röfla um að eitthvað þurfi að gera og gera svo ekki neitt.

Húsnæði uppsprengt!

Útlendingar orðlausir!

Heilsugæsla fyrir fáa!

Matur fyrir suma!

Jólin koma hjá öllum og allir voða glaðir, það er jú hátíð ljóss og friðar og ætti ekki að nota trukka til þess að slátra fólki hvað þá að svelta fólk í hel.

Trukkar drepa,

hungur drepur,

vosbúð drepur,

stríð drepur

sprengjum rignir yfir heimsbyggðina

Hvert er heimurinn að fara?

Hvert er Ísland að fara'

Hvar verður manngæskan eftir 2 ár?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Aðgát skal höfð í nærveru sálar!

 

Þetta er fallegt íslenskt orðtak sem mér finnst stundum notað í annarlegum tilgangi.

Getur verið að þeir sem nota þetta orðatiltæki séu með snert af sektarkennd og þyki sumar spurningar óþægilegar og reyni að skýla sér á bak við falleg orð?

Auðvitað veit ég ekkert um það en ráðlegg þeim sem eru viðkvæmir fyrir fyrirsögninni að lesa ekki meira. Framhaldið gæti vakið upp óþægilegar minningar!

Ég nota þetta orðtak aldrei! Ég hef ekki efni á því!

Í gær var yndislegur dagur, sól skein í heiði og vindurinn blés hressilega um vanga.

Til þess að þurfa ekki enn eina ferðina að labba um hina tilbreytingalitlu stíga í þorpinu mínu ákvað ég að bregða mér bæjarleið þar sem ég er laus úr prísundinni og get keyrt. Allt annað líf það.

Hér í landi er reglan sú að leggja bílnum eins nálægt áfangastað og mögulegt er, helst alveg upp við dyr.

Þar sem ég er útlendingur hef ég annan hátt á. Ég legg eins langt frá og hægt er til þess að fá örugglega góða hreyfingu út úr ferðinni. Reyndar eru feitu Bretarnir, fyrrverandi dansnemar mínir sem ekki nenntu að dansa af sér spikið, á sömu skoðun og portugalar með lagningu bifreiðanna. Ekki labba! Það gæti orðið til þess að nokkur kíló yrðu eftir á leiðinni, að minnsta kosti ef margar leiðir eru farnar, og þá verður líklega kroppurinn kaldari.

Ég held nefnilega að fitan sé til þess að halda hita á fólki, en svo er hitt ráðið sem gerir sama gagn og það er að klæða sig í hlý föt.

Þar sem ég hef ekki fitu utan á mér til þess að hlýja mér er ull og svoleiðis alveg bráðnauðsynlegt þegar fer að kólna. Í þessari gönguför minni fann ég dásamlega sokka, ég segi og meina dásamlega!. Þeir eru úr ull og cashmear og ná upp að hnjám, þykkir og stingi ekki en halda fótlunum mínum heitum allan daginn.  Auðvitað kostar dýrðin heilan helling en hér er ekkert verið að fást um smámuni þegar vellíðan er annars vegar. Fimm yndisleg pör fengu far með mér og greiddi ég bara fyrir fjögur, semsagt jólaafsláttur.

Mér var boðið upp á eitthvað sem hefur líklega verið happadrætti en afþakkaði kurteislega. Ég þoli ekki svona happdrætti. Þau eru venjulega þannig að maður eyðir hellings tíma í að sækja vinninginn sem er eitthvað eins ómerkilegt og nokkrar kexkökur. Nei, þá er betra að gefa afgreiðslustúlkunni miðann og halda göngutúrnum áfram í góða veðrinu.

Ég er svo gamaldags að mér finnst nauðsynlegt að hafa dagbók sem ég skrifa í. Skrifa með penna skilurðu! Er ég búin að gera nokkrar tilraunir til að finna eina góða og tókst loksins í gær í góða veðrinu. Reyndar hefur verið rannsakað að þeir sem skrifa, þ.e. með skriffæri, halda betur í heilastarfsemina en þeir sem skrifa bara á tölvur. Ekki veit ég hvort eitthvað er til í þessu en ef svo er þá hlýt ég halda mér nokkuð vel og kýs að trúa þessari rannsókn!

Ég hef vanið mig á að lesa alltaf áður en ég fer að sofa. Er líka talið gott fyrir gamla heila! Nú brá svo við að síðan í október get ég ekki lesið uppi í rúmi, get ekki haldið á bókinni og voru góð ráð nú á uppsprengdu verði.

Árið 2011 keypti ég mér ipod, þennan pínulitla sem er eins og frímerki, og átti ég á honum nokkrar ágætar bækur sem ég gat hlustað á. Brá ég á það ráð að nota hann þegar ég var á spítalanum og hlustaði þá reyndar á klassíska útvarpsstöð en uppgötvaði að eyrna tapparnir, þessir sem hljóðið kemur úr, eru hið besta tæki til þess að heyra ekki önnur hljóð sem geta truflað svefn þeirra sem eru viðkvæmir.

Þegar heim kom hélt ég áfram að nota poddinn og nú geta nágrannar uppi farið í hundrað sturtur um miðjar nætur án þess að frúin, útlendingurinn, á hæðinni fyrir neðan vakni. Er hægt að hugsa sér nokkuð dásamlegra? Ég bara spyr.

Einn galli var þó á gjöf Njarðar, ég kunni ekki að bæta bókum við poddinn, var búin að reyna fyrir einhverjum árum og nennti ekki að finna út úr tækninni. Nú var ég búin að hlusta á allar bækurnar sem fyrir voru og vildi ólm sækja fleiri sem ég átti á tölvunni. Sá líka að gott væri að setja portúgölsku lexíurnar inn og hlusta á þær þegar ég væri að hressa mig á löngum göngutúrum. Settist frúin við tölvuna í fyrradag og tengdi poddinn en ekkert gekk. Í gærkvöldi ákvað ég að það væri ekki hægt að láta það spyrjast út að ég kynni ekki að setja inn myndir og annað góðgæti á blogg og að ég gæti ekki heldur bætt við á poddinn minn. Nei, svona getur maður ekki farið með vel gefna konuna, og nú skyldi þetta takast.

Viti menn, eitthvað gerðist, ekki veit ég hvað, en mér tókst að tína inn á poddinn eins og krækiber fleiri bækur og portúgölsku lexíurnar mínar og tónlist til að róa hugann og tónlist til þess að hamast í fitnesinu. Ég hef ekki græna glóru um hvernig ég gerði þetta og er alveg sama, í bili er það sem ég þarf á litla krílinu og næst kemur seinna.

Mjólkaði ég líka beljuna í gær því mig vantaði mjólk í brauðbaksturinn í dag. Beljan er reyndar stál kanna sem gengur fyrir rafmagni og notar sojabaunir og vatn til þess að búa til mjólk. Þessi mjólkari minn er nýr, sá gamli var úr plasti og entist í 5 ár, sem er bara flott. Sko hér á bæ er ekkert spenatott til þess að ná í mjólk. Baunir og vatn sjá um góssið og frúin situr og gerir eitthvað allt annað á meðan mjólkarinn síður og malar. Svo pípir gripurinn þegar allt er til og hægt að hella á flöskur. Ég get ekki hugsað mér neitt einfaldara og hollara.

Það var til spelt á bænum í 5 brauð og nú bíða þau undir fallegum stykkjum viskunnar og þegar þau eru köld leggja þau land undir fót niður í kjallara og þar er dásamlegur frystir sem þau dvelja í þar til lagt er í ferðalag upp aftur og frúin nýtur dásemdanna í morgunmat.

Hér í landi er ekki tekið út með sældinni að finna spelt. Landar mínir kunna ekki að nota það og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar hefur mér ekki tekist að sannfæra þá um hollustuna. Ef þú lesandi minn notar spelt þá er hér gott ráð sem ég fékk hjá Sollu á grænum kosti fyrir mörgum árum. Brauð úr spelti er best að rista áður en borðað er!

Jæja, ef einhver er að lesa þetta sem notar "aðgátina í nærværu sálar" þá ætti hann að hætta núna, endilega ekki lesa meira.

Á göngu minni í gær elti þetta orðatiltæki mig á röndum. Ég skildi ekkert í því hvað það var særandi að hugsa um það. Af hverju var ég svona uppveðruð af nokkrum orðum?

Ég sá ljósið í morgun og skildi hvað var um að vera í höfðinu á mér.

Þar sem tala ekki illa um aðra, ekki nema kannski stjórnmálamenn sem gleyma öllu, þá segi ég auðvitað ekki frá af hverju ég var svo sár og leið í gær.

Nei, nú er tími til að halda áfram enn eitt árið og desember að verða búin, rétt eina ferðina enn og hægt að safna kröftum til næsta desember.

Bráðum kemur harður vetur í landi sólarinnar en fallegur glerveggurinn minn dregur inn hita og heldur gnauðandi vindi frá veggjum og inni verður hlýtt og notalegt.

Rigningarnar koma á færibandi í Janúar og þá væri gott að eiga gúmmístígvél til þess að sækja brauðin. Sá reyndar stígvél í gær sem ég gæti alveg hugsað mér að eignast. Kosta ekki nema 22 þúsund íslenskar krónur en væru kannski þess virði. Ég er að hugsa málið, alvarlega því fallegri gúmmidrossur hef ég aldrei séð og sá mig í anda arka um vatns elginn sem kemst ekki inn í minn skúr því ég er búin að girða fyrir með fallegri álpípu og nú rennur allt góssið inn í hina skúrana. Hah, ótrúleg kvikenska í bölvuðum útlendingnum og svo er hún að hugsa um að kaupa stígvél sem allir vildu eiga!

Þessi útlendings frú er ekki að passa upp á að sálirnar í kringum hana njóti þess að hennar skúr taki við vatnsflóðinu. Nei nú er hún bara með uppsteyt. Hrikalegt! Ekki vildi ég búa með svona fyrirbæri.

Hulda Björnsdóttir

 


Ég skrifa fyrir mig en þú mátt alveg njóta þess með mér!

Er það ekki skemmtilegt að geta skrifað fyrir sjálfan sig og notið eigin gáfna og skemmtilegheita?

Mér finnst það.

Þegar ég tengdist Facebook fyrir ekki svo löngu gerði ég það til þess að vita hvort mér væri sama um skrítnar athugasemdir fólks sem læsi skrif mín.

Góð vinkona mín á Íslandi sagði við mig fyrir óralöngu að um leið og skrif færu frá mér breyttist meining þeirra og lesandinn tæki að túlka á sinn hátt.

Þetta er svo hárrétt og ég tek það ekki nærri mér. Hins vegar skemmti ég mér stundum við skondnar fullyrðingar þeirra sem sjá ástæðu til þess að ráðleggja höfundinum, þó það sé reyndar orðið allt of seint, og ráðleggingarnar dálítið út úr kú.

Ég tala eiginlega aldrei íslensku og eina ráð mitt til þess að halda kunnáttunni við og blanda ekki of miklu af öðrum málum sem ég kann samanvið var að prufa mig áfram með íslenskt blogg.

Allar athugasemdir eru andskotalausar af minni hálfu svo framarlega sem þær eru undir nafni. Ég þoli ekki aumingjahátt sem birtist í nafnlausum árásum og finnst þær segja allt sem segja þarf um þann sem setur þær fram.

Ég kann ekkert sérstaklega mikið á  stjórn birtingar hins og þessa sem bloggið hér býður upp á og nenni eiginlega ekki að setja mig inn í það. Ég fann uppáhalds ávextina mína, tómata, til þess að hafa í mynd og það er eiginlega alveg nóg fyrir mig.

Auðvitað væri kúl að setja nokkrar myndir með einhverjum frásögnum og getur meira en verið að ég finni út hvernig það er gert. Í bili nægir mér að skrifa til þess að skemmta mér og er nokk sama hvort einhver les eða ekki. Andinn minn nærist og það er frábært.

Ég er ekki neinn spekingur sem þarf að koma skoðun minni á framfæri!

Ha, bíddu nú aðeins við.

Þegar komið er að kjörum eldriborgara á Íslandi verð ég spekingsleg og þykist hafa eitthvað að segja, eitthvað sem allir ættu að lesa og hugsa um!

Þó ég sé með nokkur ár í pokahorninu er ég í allt annarri aðstöðu en þeir sem berjast í bökkum á landi gulls og gersema þar sem ríkir blómstra og fátækir svelta.

Ég flutti frá landinu löngu áður en ég fór á eftirlaun og kom mér vel fyrir þar sem nægur matur er alltaf á borðum. Ég ákvað einfaldlega að verða ekki gömul á Íslandi og ég framkvæmdi!

Einhverjir áfellast mig fyrir gjörninginn og það er þeirra mál. Að lifa lífinu í gegnum aðra, hjakkandi í sama hjólfarinu ár eftir ár án þess að eiga möguleika á að sjá upp fyrir brúnir farsins hentar sumum. Mér leiðast hjólför.

Ég á ekki ráð fyrir þá sem hafa það hræðilegt á Íslandi þegar þeir eru komnir yfir ákveðinn aldur. Ef ég ætti það væri ég löngu búin að setja það fram en mér svíður að vita til þess að fólk fari svangt í rúmið og sjái ekki fram á að geta búið í sómasamlegu húsnæði eða haft hlýtt inni hjá sér.

Á sama tíma og peningar vella eins og hraunstraumur til þeirra sem eru ríkir á landinu skammta þessir sömu herrar og frúr sumum svo naumlega að það er hvorki hægt að lifa eða deyja af lúsinni. Á sama tíma eru fluttir inn útlendingar og þeim útvegað húsnæði, fæði og guð má vita hvað. Er eitthvað réttlæti í þessu?

Hvers vegna gætir ekki alþingi bróður síns? Þar er valdið.

Hvers vegna sjá alþingismenn ekki um að allir, já ég segi ALLIR á landinu njóti lágmarks mannréttinda og geti að minnsta kosti borðað mat í öll mál?

Stundum finnst mér að verið sé að murka lífið úr fátæka fólkinu á Íslandi, hægt og rólega en markvisst. Það er jú ein leið til þess að losna við gamlingjana en líklega ekki sú mannúðlegasta.

Vonandi breytist allt til batnaðar á nýju ári. Nýir þingmenn sjá að sér og rífa sig upp úr loforða gleymskunni og framkvæma fallegu fyrirheitin sem þeir suðu saman til þess að fá rétta krossa á kjörseðilinn.

Vonandi verða ekki settir upp fleiri leiðiskrossar á nýju ári þar sem hinn látni dó úr hungri.

Og svo rétt í lokin: Hvað var biskupinn að gera fyrst hún gat ekki skrifað nema 2 blaðsíður? Voru þessar 2 eitthvað sérstaklega merkilegar? Ég færi létt með að hripa niður 5 síður eða svo á no time og alveg til í að gera það fyrir milljón. Ég þarf að komast í svona verkefni, ekki spurning.

Hulda Björnsdóttir


Donald Trump braut á mér öxlina og handlegginn, eða var það?

 

20. október vaknaði ég klukkan 6 um morguninn. Ég ætlaði að horfa á síðustu viðureign herra Trumps og Hillary. Hafði horft á hinar fyrri og var áhyggjufull og vonaði að Trumparinn ynni ekki kosninguna.

Eftir að hafa burstað tennur og gert mig klára til þess að horfa gerði ég mér lítið fyrir og skall á plastkassa sem geymdu sumarfötin mín og áttu að fara niður í geymslu en höfðu stoppað á leiðinni og stóðu nú fyrir framan baðherbergis dyrnar. Ég semsagt skall á kassana og þaðan niður á grjótharðar steinflísarnar og rak upp ægilegt öskur og svo grét ég liggjandi á gólfinu og ekki möguleiki að standa upp.

Vandamál númer eitt var að ég mundi missa af kappræðunum.

Vandamál númer tvö var að finna leið til þess að standa upp.

Skreið ég nú inn eftir baðgólfinu og náði taki á salerninu og einhvern vegin tosaðist ég upp. Hafi ég einhvern tíman fundið til var það ekkert í samanburði við skelfinguna sem reið yfir mig þarna. Hreyfði ég fótinn fann ég til í öxlinni og ekki tók betra við ef ég vogaði mér að reyna að komast upp úr krjúpandi stellingunni. Kannski ætti ég bara að vera við klósettbarminn og sjá hvort sársaukinn hyrfi ekki! hugsaði ég.

Mér tókst að væla mig upp og tárin runnu niður í stríðum straumum. Trumpinn var byrjaður að hamast í Hillary og mér var eiginlega alveg sama.

Ég tók 2 verkjatöflur og bar verkjakrem á handlegginn í þeirri von að allt mundi verða gott rétt bráðum.

Ég átti von á lífræna grænmetinu mínu þennan dag og hugsaði með mér að ég þyrfti að láta manninn vita að líklega þyrfti ég ekki sendinguna í dag.

Hann svaraði símanum eins og skot og ég sagðist líklega hafa brotið á mér handlegginn.

Er það? Viltu að ég hringi á sjúkrabíl fyrir þig? sagði hann.

Já takk, svaraði ég.

Hringdi hann og brátt komu bombeiro menn, reyndar einn maður og svo kona, á hvíta neyðarbílnum með blikkandi ljós og alles.

Það háttar svo til hér að slökkviliðsmenn og konur sjá um að slökkva elda, sem eru að mestu skógareldar yfir sumarið og þá eru ráðnir aukamenn því landið logar venjulega frá norðri til suðurs, og svo sjá þeir sem eru fastráðnir um sjúkraflutninga.

Þau sem komu að sækja mig voru auðvitað vinir mínir, þegar maður býr í litlu þorpi verða flestir vinir manns og þessi tvö eru það svo sannarlega. Ekið var eftir hraðbrautinni til Coimbra því á þeirri leið eru færri holur. Konan sat hjá mér aftur í og maðurinn ók voða varlega og sneyddi hjá öllum holum. Ég kannaðist ekki við þessa leið og var eiginlega hálf áhyggjufull yfir hve löng hún var. Við enduðum þó á bráðamóttökunni á uppáhalds spítalanum mínum. Munar öllu að vera flutt með sjúkrabíl. Ekkert þarf að bíða og ökumennirnir sjá um alla pappírsvinnuna og koma manni fyrir í hjólastól. Dásamlegt!

Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að ég var illa brotin og þurfti að skera mig upp til þess að tjasla mér saman og þá kom nú babb í bátinn.

Ég hafði nefnilega verið flutt á vitlausan spítala!

Ef gifs hefði nægt var þetta allt í fínu en uppskurður var allt annað mál. Teknar voru nokkrar myndir til þess að ganga alveg úr skugga um að ég ætti ekki heima þar sem ég var komin. Allt kom fyrir ekki, örlög mín voru ráðin, rúntur í sjúkrabílum var dagsskipunin og margar holur á leið til Covonce.

Kom ég á réttan stað um fjögurleitið. Ekki amalegt að rúnta í sjúkrabílum jafnvel þó maður sé brotinn. Fljótlega var mér gefin vökvi í æð sem var fullur af einhverju sem átti að stilla verkjunum í hóf en fram að því hafði ég verið í helvíti og batt nú vonir við að komast ef til vill upp á jörðina aftur. Ég hef brotið mörg bein um ævina en ekkert hefur verið eins ægilega sárt og Trumps brotið. Bölvaður kallinn, og nú er hann að verða forseti!

Á meðan eitrið lak inn í æð og reyndi það sem hægt var til að létta mér hinn ægilega sársauka bar að herra Daníel. Hann er læknir minn, sá sem ætlar að finna út hvað er raunverulega að mér. Þarna sat ég með tárin í augunum og hann spurði blíðlega eins og hans var von og vísa: Hvað kom fyrir?

Ég sagði honum það og bað hann að fresta stefnumóti okkar sem var eftir 5 daga. Ekki málið. Hann tók það að sér og talaði við doktorinn sem gaf mér verkjalyfið til þess að vita hvort ég gæti ekki fengið eitthvað sterkara.

Nei, ekkert sterkara, þetta var svaka sterkt og nú var bara að bíða eftir því að það virkaði!

Hah, ég var búin að bíða síðan í morgun! Auðvitað gat ég ekkert annað en hlýtt og dr. Daníel ætlaði að taka hitt málið að sér svo nú gat ég bara haldið áfram að finna til og vorkenna mér.

Seint um kvöldið var ég svo flutt í hjólastólnum á svaka spítti af bráðamóttökunni á rétta spítalanum upp á deild og í rúm. Ég þakkaði mínum sæla þegar við komum upp, hafði ekki gert mér í hugarlund að hægt væri að finna holur á gangi spítala.  Stúlkan sem keyrði mig var að flýta sér, líklega matur handan við hornið og ekki hægt að dúlla sér með konu frá vitlausum spítala.

Við vorum sjö í herberginu, allt konur, auðvitað eða þannig. Stundum eru bæði kynin saman á herbergi, fer allt eftir plássi.

Næsta morgun hringdi ég svo í vinkonu mína og sagðist vera á spítala og hefði brotið mig í gær.

Getur þú kannski farið heim til mín og sótt náttföt fyrir mig, spurði ég.

Vinkona mín þagði svolitla stund og svo stundi hún upp:

Ertu á spítala?

Af hverju hringdirðu ekki í gær? og nú var farið að fjúka aðeins í hana.

Ég var á slysavarðstofunni allan daginn, sagði ég aumingjalega og var voða hrædd um að hún gæti ekki sótt náttfötin mín!

Venjulega fer fólk ekki eitt á neyðarmóttöku hér eða til læknis. Annað hvort fylgir öll fjölskyldan eða að minnsta kosti eitthvað af henni.

Ég sá enga ástæðu til þess að vera að láta fólkið mitt hafa óþarfa áhyggjur á meðan verið var að finna út hvað ætti að gera við mig! Það hefði ekki breytt neinu, eða svoleiðis.

Vinkona mín fyrirgaf mér og sótti náttföt og tannbursta og greiðu. Semsagt þetta sem maður þarf nauðsynlega þegar verið er á spítala hér í landi.

Ég dvaldi 10 daga á nýja heimilinu mínu og þar gerðist eitt og annað skemmtilegt sem ég segi frá síðar. Ég kynntist alveg nýrri hlið á heimalandi mínu og í þessum litla heimi varð til ný vinátta og ég fyllist þakklæti þegar ég hugsa um lán mitt. Ég var bara brotin, á besta aldri og sárið mundi gróa með tíð og tíma. Þolinmæði var það sem ég þurfti. Hinir nýju vinir mínir voru margar hverjar ekki eins heppnar og ég. Starfsfólkið sem ég kynntist þessa 10 daga er líka einstakt og vel þess virði að skrifa svolitla sögu þess.

Þrátt fyrir áföll verður alltaf gaman aftur og lífið heldur áfram að streyma fram með öllum mögulegum og ómögulegum tilbrigðum.

Hvað er handan við hornið í alheiminum með Trump sem æðsta mann veraldar er ráðgáta. Vonandi tekst honum ekki að eyða veröldinni en kannski eru síðustu tímar að renna upp. Hvað veit ég svo sem um það, bara eitt lítið peð í heiminum sem held stundum að ég sé eitthvað merkileg? 

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband