4.2.2017 | 12:33
Hugleiðingar á laugardegi
4.febrúar 2017
Þá er ég enn eina ferðina dottin í skrif ham og puttarnir mínir taka völdin. Ekki veit ég hvað verður úr þessu en svona hugleiðingar eru bæði uppbyggilegar og niðurdrepandi fyrir einfalda sál eins og mig.
Í gær var ég að biðla til þjóðarinnar um að taka sig saman í andlitinu og safna undirskriftum til þess að reyna að koma núverandi forsætisráðherra Íslands frá.
Ef ég kynni að setja svona fyrirbæri af stað hefði ég gert það í gær en kunnátta mín nær ekki alla leið þangað og þess vegna þarf ég hjálp þeirra sem eru mér sammála.
Það væri forvitnilegt að sjá hve margir styddu slíka söfnun atkvæða og hve margir af þeim sem hafa farið mikinn á Facebook og á netmiðlum við að kvarta yfir ástandi íslensks þjóðfélags og Tortu liðs mundu skrifa undir.
Kannski færi þetta nákvæmlega eins og í kosningum til alþingis og fólk væri bara nokkuð sátt við ástandið. Vonandi ekki en hver veit?
Það þarf enginn að væna Bjarna Ben um heimsku. Hann er svo sniðugur að það komast líklega fáir með tærnar í fótsporin hans. Núna er sjómannaverkfall og meira talað um mikilvægi þess að geta keypt brennivínið um leið og mjólkina í sömu búð.
Þessar hetjur sem hafa verið máttarstólpar íslensks þjóðfélags og sótt sjóinn í hvaða veðri sem er til þess að færa björg í þjóðarbúið falla í skugga brennivínsumræðu.
Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið?
Margir af mínum nánustu hafa verið og eru sjómenn. Margir vinir mínir eru sjómenn. Allt eru þetta hetjur í huga mínum og ekkert minna. Þeir eru langdvölum í burtu frá fjölskyldum sínum og heyja harða baráttu við úfin og ergilegan sjóinn sem ygglir sig eins og óargadýr en hetjur hafsins láta það ekki trufla sig. Þeir halda áfram vinnu sinni og eru stoltir af því að mæta í vinnuna eftir nokkurra stunda svefn í ólgu sjó og á vaggandi skipinu.
Ólíkt þeim sem þykjast vera að stjórna landinu til þess að bæta kjör alþýðunnar. Ólíkt þeim sem ekki mæta í vinnuna sína og hafa jafnvel búið til auka klukkutíma í sólarhringinn til þess að geta fullnægt græðgi sinni og eru í tveimur opinberum störfum á sama tíma.
Ég veit að konur eru kraftaverka fyrirbæri en að geta sinnt tveimur mikilvægum störfum eins og ein af alþingismönnum ætlar að gera gengur út yfir allan þjófabálk. Þvílík endemis hræsni og bull sem konan kemst upp með að bera á borð fyrir fólk.
Er nema von að lög og reglugerðir séu ruglingslegar og jafnvel óframkvæmanlegar þegar svona vinnubrögð eru viðhöfð? Ég bara spyr eins og fífl.
Er siðferði alþingismanna eitthvað á lágu stigi? Getur það verið?
Eru stjórnarherrar landsins svo uppteknir af eiginhagsmuna pólitík að þeir án minnsta hiks svíki drengskaparheit sitt um leið og þeir hafa lofað að láta samvisku sína eina stjórna gerðum sínum á hinu háa alþingi?
Eru völdin og hagsmunapotið að keyra þjóðina í kaf og reynt að snúa á óbreyttan almenning með því að fara enn eina ferðina að reyna að koma brennivíninu inn í mjólkurbúðirnar og drepa umræðunni um hinn raunverulega raunveruleika íslenskrar alþýðu á dreif.
Sjómenn eru í verkfalli.
Hefur það farið framhjá almenningi?
Er ekki mikilvægara að semja við sjómenn en að koma brennivínsflöskum í sölu við hliðina á vatni og mjólk?
Hvað er eiginlega að íslenskri alþýðu? Er allur dugur dottinn úr henni og sitjum við bara í súpunni og höldum að við getum engu ráðið?
Vakniði, búið til undirskriftasöfnun og komið forsætisráðherra, sem er hjartanlega sama um íslenskan almenning, frá.
Hann á ekki að komast upp með að tala við þjóðina eins og óþekkan krakka.
Hann á ekki að komast upp með að hrúga undir ættingja sína á meðan íslenskur almenningur sveltir hálfu hungri og deyr drottni sínum í kulda og jafnvel fyrir eigin hendi þegar örvæntingin hefur tekið öll völd.
Svona forsætisráðherra væri fyrir löngu búin að missa embætti sitt í siðmenntuðum löndum og ég trúi því ekki að Ísland sé ekki þrátt fyrir allt í hópi landa sem hafna spillingu og óprúttnum stjórnarherrum.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2017 | 18:08
Bjarni Benediktsson á að segja af sér!
3.febrúar 2017
Ég er ekki að skrifa þennan pistil í nafni eins eða neins stjórnmálaafls. Ég er einfaldlega svo yfir mig hneyksluð á framgangi núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem er sami maðurinn, Bjarni Benediktsson.
Bjarni virðist komast upp með allt sem honum dettur í hug hvort sem það er að fela peninga í skattaskjólum og bregða svo fyrir sig minnisleysi eða að stinga skýrslum undir stól og geyma þar svo þjóðin sjái ekki sukkið áður en hún kýs í alþingiskosningum.
Hvernig stendur á því að maðurinn kemst endalaust upp með lygi og svik?
Hvernig stendur á því að hann getur komist til æðstu metorða á Íslandi þrátt fyrir að margir sjái ruglið en enginn gerir neitt til þess að stoppa það!
Hvað er eiginlega í gangi á Íslandi?
Er allur dugur dottinn úr þjóðinni og er hún bara sæl með að vera horfin til miðalda þegar prestar og hreppstjórar gátu barnað vinnukonur án þess að blikna og brosað út í bæði?
Ég er ekki að segja að neinn stjórnmálamaður á landinu hagi sér svona í dag.
Svo voru hér á árum áður fólksflutningar á vorin þegar niðursetningar voru fluttir á milli hreppa. Það voru hreppsómagar.
Er Ísland í dag að verða eitthvað líkt þessu?
Geta stjórnmálamenn og yfirvöld hagað sér eins og skepnur og níðst á alþýðunni árið 2017 án þess að nokkrum vörnum sé hægt að koma við?
Heilsugæsla,
skólar,
almanna trygginga kerfið
stuðningur við þá sem minna mega sín
Allt er þetta að víkja fyrir einhverju sem ég skil ekki.
Ég skil ekki og get ekki komið því inn í höfuðið á mér og vil ekki skilja það að fólkið sé algjörlega úrræðalaust og menn eins og núverandi forsætisráðherra geti komist upp með að mæta ekki til þess að svara fyrirspurnum hjá nefndum alþingis, ef honum hentar.
Ég skil ekki hvernig menn sem stjórna landinu geta komist upp með að ljúga að þjóðinni trekk í trekk, að stinga skýrslum sem koma viðkomandi illa undir stól og gera í raun og veru bara það sem viðkomandi dettur í hug og hugnast.
Ég skil ekki hvað hinir þingmennirnir sem kosnir voru til alþingis eru að hugsa.
Hvernig geta þeir farið að sofa á kvöldin vitandi að þeir eru á hverjum degi að bregðast drengskapareiði sínum með því að láta forsætisráðherra komast upp með hátternið?
Ég trúi því ekki að þjóðin geti ekki gert neitt.
Nú til dags eru undirskriftasafnanir vinsælar og ég sé ekki betur en ein sé í gangi til þess að mótmæla forseta Bandaríkjanna og hans hátterni. Svona undirskriftasöfnun gengur á Íslandi á sama tíma og þjóðin lætur átölulaust framferði íslensks forsætisráðherra. Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Alvarlegum málum er nú drepið á dreif á alþingi með frumvarpi um að selja brennivín í matvörubúðum. Enn eina ferðina.
Margir hafa skoðun á þessu brennivínsmáli.
Mér er svo sem alveg sama hvar fyllibyttur kaupa sitt vín. Það er hægt að láta það vera með sælgætinu fremst við kassann fyrir mér.
Þetta með brennivínið er auðvitað hið besta mál og nokkuð heitt og drepur á dreif því sem alvarlega er, og er ég þar að tala um hina gengdarlausu spillingu sem þrífst á landinu og enginn gerir neitt til þess að uppræta.
Ég hef ekki minnstu trú á þingmönnum. Mér finnst það sem ég hef heyrt frá þeim þvílík steypa og oft á tíðum fleðulæti að ég treysti þeim ekki til þess að gera annað en reyna að koma sér vel fyrir í spillingunni og njóta ávaxtanna, skítt með sauðsvartan almenning sem líklega annað hvort flytur úr landi eða veslast upp og fyllir kirkjugarðana.
Áður en við veslumst upp fyndist mér ráð að búa til undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að Bjarni Benediktsson segi af sér nú þegar.
Ég kann ekki að starta svona undirskriftum. Það er örugglega fólk sem getur gert það og vona að það geri það. Ég skal skrifa undir um leið og slík söfnun fer af stað.
Í öllum bænum, geriði eitthvað í málinu annað en spjalla á Facebook og yfir kaffibolla. Það verður að koma landinu á réttan kjöl og ná okkur út úr spillingarbælinu inn í velferðarkerfi sem sæmir lítilli þjóð.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2017 | 20:04
Hvað er ríkið? Hverslags spurning er þetta eiginlega?
2. febrúar 2017
Hvað er ríkið?
Hvers vegna er ég að koma með svona heimskulega spurningu?
Sumir kalla áfengis og tóbaksverslun ríkisins ríkið! Það var allavega gert í minni tíð.
Svo er hitt ríkið, ríkið sem samanstendur af fólki!
Af hverju dettur mér þetta í hug?
Jú, það er þannig að ég sá umræðu um innflytjendur á Íslandi og hvað það kostar að taka við þeim til landsins.
Sumir voru ægilega happy með fólkið og héldu ekki vatni yfir því hvað það væri unaðslegt að taka á móti erlendu fólki og skjóta yfir það skjólshúsi og gefa því mat og kannski svolitla dagpeninga líka. Þetta var góða fólkið!
Svo var vonda fólkið, sem eins og venjulega var að ybba sig og mótmæla þessum gæðum landans og vildu eins og hálfvitar að litið væri til Íslendinga sjálfra og þeirra sem eru að deyja úr hungri og kulda og hjálpa þeim. Þvílík fyrra. Þetta vonda fólk ætti að skammast sín og loka á sér munninum. Ég er ein af þessu vonda fólki og þess vegna er ég nú að ybba mig rétt einu sinni og er stolt af því að tilheyra vonda hópnum.
Ég held því fram að þjóðin þurfi að líta sér nær og byrja að rækta garðinn heima hjá sér áður en farið er að færa út kvíarnar og hefja ræktun og gróðursetningu og guð má vita hvað í öðrum löndum eða fyrir önnur lönd.
Ég held því ótrauð fram að lífeyrisþegar, hvort sem það eru eftirlauna þegar eða öryrkjar, eigi að sitja fyrir þegar verið er að úthluta smápeningum sem eru afgangs þegar Panamaprins og hans hirð hafa fengið sitt. Þessir smápeningar eiga að vera til þess að halda lífinu í íslendingum.
Það nær ekki nokkurri átt að það skuli koma frétt um að maður hafi frosið í hel árið 2017 á Íslandi, landi sem er á meðal ríkustu þjóða heims. Þvílík skömm og hneisa á ekki að eiga sér stað, ALDREI.
Í umræðunni sem ég gat í upphafi sagði einn sem skrifaði skoðun sína:
Veriði ekki að æsa ykkur, þetta kemur ykkur ekkert við, ríkið sér um þetta!
Virkilega! Er hægt að vera svona nautheimskur? Hvað heldur svona einstaklingur að ríkið sé? Eitthvað sem flýgur fyrir ofan skýin og dritar niður peningum sem vaxa uppi í himninum? Er það ríkið í huga þessa einstaklings?
Ég hef aldrei séð aðra eins bölvaða (fyrirgefiði) heimsku á prenti!
Auðvitað les þessi einstaklingur ekki það sem ég er að skrifa hér á blogg þar sem ég er líklega mest að skemmta sjálfri mér og röfla við sjálfa mig, en ég er svo yfirmáta undrandi á svona nautheimsku að ég get ekki orða bundist.
Fyrir mig og aðra sem tilheyra vonda fólkinu þá liggur í augum uppi að ríkið er ekki eitthvað fljúgandi úti í geimnum. Ríkið erum við.
Þú og ég erum ríkið.
Það eru okkar peningar sem verið er að dæla í góða fólks útlendinga sem vilja ólmir komast í góðærið á Íslandi.
Það eru peningarnir sem ég og þú, og einstaklingurinn sem heldur að ríkið sé eitthvað annað en það er, höfum greitt með sköttum, beinum og óbeinum.
Þegar ég sé svona dæmalausa heimsku get ég ekki orða bundist, ég bara get ekki skilið hvaðan þessar hugmyndir koma, að við skulum ekkert vera að mótmæla því að verið sé að svelta íslendinga á meðan útlendingar geta vaðið inn í landið og fengið húsaskjól og mat og peninga, bara vegna þess að peningarnir séu greiddir af ríkinu!
Vaknið af þyrnirósarsvefninum.
Ríkið erum við.
Ríkið er ekki áfengissala ríkisins, það er ég og þú og peningarnir sem ríkið hefur til ráðstöfunar eru skattpeningar okkar, þínir og mínir.
Ég á ekki til orð yfir heimsku sumra.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2017 | 16:40
Gagnlegar upplýsingar fyrir landflótta íslendinga!
1.febrúar 2017
Þegar ég ek rúman hálfan klukkutíma á hverjum degi til þess að láta stumra yfir bilaðri öxl og handlegg þá fer ég stundum, eiginlega oftast, í skrif ham. Mér leiðist óstjórnlega að keyra og hef aldrei komist upp á lagið með að finnast akstur dásemd lífsins og þess vegna verð ég að hugsa eitthvað skemmtilegt. Stundum syng ég og geri skalaæfingar í byrjun og svo dett ég inn í þennan skrif ham og fer að skálda eitt og annað. Flest er auðvitað enginn skáldskapur heldur blákaldur raunveruleikinn eða þannig.
Í morgun datt mér í hug hvers vegna upplýsingar fyrir venjulegt fólk og líka fyrir óvenjulegt fólk eru ekki aðgengilegar á einum stað. Þetta mundi spara fólki peninga og væri svo sætt að geta bara farið inn á upplýsingasíðu og fundið þar allt mögulegt og ómögulegt.
Ég er ekki að tala um að fá að vita hverjir eru að skilja eða ekki skilja þó þeir hinir sömu séu í stjórnmálum. Nei nei, ég er að tala um praktískar upplýsingar (hvernig segir maður þetta aftur á góðri íslensku? Er búin að steingleyma því og nenni ekki að fletta því upp. Þið megið til með að umbera eina svona villu! Ég reyni að vanda mig eins og ég get á íslenskunni en það getur stundum verið snúið.)
Jæja, þetta með mig og aksturinn er svona.
Ég var að hugsa um allar þær einföldu upplýsingar, sem fólk sem flytur erlendis hefur ekki hugmynd um.
Til dæmis varðandi millifærslu peninga frá einu landi til annars.
Þegar ég millifæri eftirlaunin mín, eða bankinn minn gerir það fyrir mig núna af því það er löglegt, þá tekur það sólarhring eða um það bil. Ég bið um millifærslu og bankinn sér um það og daginn eftir klukkan um það bil 9:15 eru peningarnir komnir inn á reikninginn minn í Portúgal.
Ef ég bið um millifærslu á föstudegi eða fyrir hátíðisdaga tekur þetta að eins lengri tíma. Ef föstudagur er 1, dagur mánaðarins er ég búin að fá allt inn í Portúgal á mánudags morgun.
Ef hátíðisdagar eru þá koma peningarnir strax eftir hátíðina.
Svona millifærsla kostar fyrir mig kr. 1.600 íslenskar krónur í mínum banka. Ég reikna með að upphæðin sé svipuð í öðrum bönkum, annað hvort aðeins lægri eða hærri. Ég nenni ekki að athuga það en það er birt gjaldskrá á síðum allra bankanna og þeir sem vilja geta farið þar inn og séð! Voða einfalt, sko.
Lífeyrissjóðir greiða síðasta dag mánaðar og er það eftirágreiðsla en Tryggingastofnun greiðir 1. hvers mánaðar og er það fyrirframgreiðsla.
Ég bið alltaf um millifærslu þann fyrsta því þá er hægt að færa báðar upphæðirnar í einu og kostar bara 1.600.
Ef ég tek út af íslenska debetkortinu mínu þegar ég er erlendis borga ég eitthvað fyrir það. Ef ég tek út 200 evrur sem er hámark einnar úttektar borga ég 690 krónur.
Svo er annað sem þarf að athuga þegar verið er að taka út eftirlaunin erlendis með því að nota íslenska debet kortið eða kredit kort og það er gengið. Gengið er lakara með kortaúttektum. Þú færð minna fyrir peningana ef þú tekur þá út í hraðbanka erlendis en ef þú lætur millifæra fyrir þig í einu lagi frá Íslandi.
Nú skilst mér, eftir lestur á Facebook, að einhver banki hafi þegar byrjað að gefa heimild fyrir eigin gjörningi á netinu. Það er semsagt hægt að millifæra sjálfur og þarf ekki að tala við bankann sinn fyrst, nema rétt í byrjun á meðan verið er að opna fyrir leyfið.
Ég veit að Íslandsbanki og líklega Landsbankinn eru hvorugur búinn að opna fyrir þennan möguleika og þar er verið að skoða regluverkið í kringum málið.
Þetta tekur allt tíma og fólk verður bara að vera þolinmótt en ég hvet þá sem eru að taka út smátt og smátt af debetkorti að skoða hug sinn og biðja frekar bankann að sjá um málið.
Það er ekki flókið.
Maður fyllir út umsókn með upplýsingum sem eru ekki flóknar og sendir bankanum sínum.
Eftir að upplýsingarnar eru einu sinni komnar inn, það er frumgagnið, þá nægir að senda mail um hver mánaðamót og biðja um flutninginn.
Best er að koma sér upp einum þjónustufulltrúa sem sér um málið ef hægt er. Samskiptin verða persónulegri og einfaldari.
Þá er það Tryggingastofnun og boð hennar um að flytja peningana til norðurlandanna.
Ég er ekki trúuð á að þetta verði gert ókeypis. Ég bara hef ekki svo auðugt ímyndunarafl, þó það skoppi um allar trissur alla jafnan.
Segjum að það búi 1 þúsund eftirlaunaþegar á norðurlöndunum. Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru margir, bý bara til þessa tölu.
Tryggingastofnun millifærir fyrir þessa 1.000 í hverjum mánuði og það sparar hverjum bótaþega 1.600 krónu kostnað (ef bótaþeginn bæði bankann sinn að millifæra kostaði það 1.600 kr í hvert skipti)
Þetta gerir krónur 1.000 sinnum 1.600 sem eru 1.600.000 á mánuði, bara í kostnað við að millifæra á milli landa.
Trúir einhver því að stofnunin ætli að gefa milljónir á ári hverju til þess að þjónusta þá sem hafa flutt og hafa verið sviptir rétti til heimilisuppbótar ef þeir búa einir bara vegna þess að þeir búa ekki á Íslandi?
Ég trúi þessu ekki, ég bara get ekki trúað því. Þetta er svo ótrúlega ótrúlegt að það nær ekki inn fyrir í heilabúið á mér.
Ef einhver veit þetta fyrir víst, að stofnunin ætli að gefa þessar milljónir og veita þessa þjónustu þá væri frábært að fá það staðfest.
Ég nenni ekki að hringja í Trygg og spyrja. Ég mundi aldrei nýta mér þjónustu þeirra svona svo mér kemur þetta auðvitað ekkert við, eða þannig.
Ég er bara að skipta mér af þessu vegna þess að mér þykir líklegt að eftirlaunaþegar frá Tryggingastofnun séu líka að fá greitt út úr Lífeyrissjóði og þurfi að millifæra þá peninga og borga fyrir þann flutning, svo það er alveg eins gott að fá allt í einni tölu.
Eins og allir vita þá á afskiptasemi mín sér engin takmörk og þetta verður bara að hafa eins og hvert annað hundsbit. (þessi setning hljómar ekki hundrað prósent rétt á hinu ylhýra!!!!)
Ég bið lífeyrisþega um að athuga vel allar hliðar á peningnum áður en þeir fara að taka til sín peninga til útlanda. Það marg borgar sig og getur sparað heilmikla peninga og ekki veitir af í því ástandi sem nú ríkir í málum lífeyris upphæða.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2017 | 18:48
Höftin eru að losna hjá smáaura hópnum!
30.janúar 2017
Jæja góðir hálsar, hér eru dásemdar fréttir fyrir okkur litla íslenska fólkið.
Við sem eigum nokkrar krónur eða fáum greiddan lífeyri og búum erlendis getum bráðum hætt að biðja um að fá peningana okkar til búsetulandsins. Við förum réttbráðum að geta millifært sjálf!
Er þetta ekki dásamlegt?
Mér finnst það og get ekki orða bundist.
Auðvitað á ég eftir að sakna bankafulltrúans míns, sem er dásamleg og þau öll, og alltaf til í að hjálpa mér í öllu sem ég bið um.
Núna sendi ég e-mail um hver mánaðamót og bið um millifærslu og eru peningarnir komnir inn á reikninginn minn í útlandinu næsta dag fyrir hádegi.
Flott og ekkert til þess að kvarta yfir.
Ég hef hins vegar ekki getað skilið hvernig Panamaprinsar og fleiri hafa getað komið aurunum sínum, sem eru auðvitað bara smáaurar, en samt soldið meiri en eftirlaunin mín, í gegnum gjaldeyrishöftin og meira að segja falið peningana á einhverjum úthafs eyjum langt í burtu frá öllu eftirliti.
Panamaprinsinn sagði í fyrrasumar, minnir mig, að nú væri verið að létta af höftunum og ættingjar mínir voru svooooo glaðir fyrir mína hönd. Nú er kominn, hér um bil, febrúar á nýju ári og enn er verið að vinna í regluverki í kringum frelsið fyrir mig og er ég bara glöð með það.
Það getur vel verið að Tryggingastofnun millifæri peninga skjólstæðinga sinna til útlanda en ég er voða vantrúuð á að þeir geri það fyrir ekki neitt.
Sko, ég get farið inn á netbankann minn hér í landi og millifært á fyrirtæki eða einstaklinga en sé móttakandi ekki í sama banka og ég hér í landi þarf ég að greiða fyrir verkið!
Ég hef ekki nokkra trú á því að Tryggingastofnun eða aðrar stofnanir millifæri til útlanda fé án þess að fá greitt fyrir. Ég bara trúi því ekki! Get ekki að því gert!
Fari ég hins vegar inn í hraðbanka og greiði reikninga hér í landi þarf ég ekki að borga fyrir en takmark upphæðar eru 2.000 evrur á sólarhring. Ég veit þetta því ég borgaði svona fyrir glæsilegu nýju svalirnar mínar og þurfti að greiða í tvennu lagi.
Það kostar mig 1.600 íslenskar krónur að millifæra með aðstoð bankafulltrúans míns núna. Ég veit ekki hvað það kemur til með að kosta þegar ég geri þetta sjálf í gegnum netbankann en það kemur í ljós og er ég ekkert að æsa mig yfir því.
Sumir bankar hafa nú þegar opnað fyrir netbanka millifærslur og ég hef heyrt að Tryggingastofnun bjóði upp á að millifæra á erlenda reikninga til þeirra sem búa ekki á hinu ylhýra.
Allt er þetta hið besta mál og ég voða glöð, aldrei þessu vant.
Til þess að þetta verði nú aðeins smá kvart eins og stundum áður þá er ég aðeins að skrúfa upp í ergelsinu yfir smámunum, smámunum sem eru gengi krónunnar.
Allt síðasta ár hefur krónan verið að breytast, Var um áramót 2015 að verðmæti 141,55 í evrum. 31.des. 2016 var gengið 118.50.
Af hverju er ég nú að djöflast yfir þessu?
Jú, ég greiði skatta eftir á hér í nýja landinu mínu og tekjur mínar, eftirlaun frá TR og Líf VR fyrir árið 2016 eru reiknaðar yfir í evrur á gengi 31.des 2016 og af því að þá fékk ég svo margar evrur fyrir launin borga ég himinháa skatta fyrir allt árið. Skiljiði?
Það er soldill munur á 141,55 og 118,50 og hefði ég fengið allt árið greiddar bætur á gengi 118,50 væri ég alsæl en svo var nú alls ekki.
Þetta er eitt af því sem þeir sem eru að hugsa um að flytja úr landi, það er frá Íslandi, þurfa að leggja niður fyrir sér. Þeir sem flytja t.d. til Spánar greiða skatta á Spáni samkvæmt tvísköttunar samningi á milli landanna og þykir mér frekar ótrúlegt að þar sé staðgreiðsla skatta! Veit það þó ekki fyrir víst og nenni alveg ómögulega að athuga það.
Í svona fyrirkomulagi er ekkert annað en sýna mikla fyrirhyggju og leggja fyrir í hverjum mánuði, undir koddann, nokkur hundruð evrur til þess að borga svo keisaranum það sem keisarans er í byrjun september á ári hverju. Ekki mikið mál en verður að gerast.
Svona í lokin þá ætla ég að segja ykkur eitthvað dásamlega skemmtilegt af því það er jú mánudagur.
Á föstudaginn fór ég í póstkassann minn og sótti póstinn. Geri þetta stundum, sérstaklega reglulega þegar rignir því vatnið bleytir allan póstinn minn og þarf hann að fara í þurrkun áður en hægt er að lesa úr honum.
Í kassanum var bréf frá Financinu hér í bæ og ég fékk vægt slag.
Ég borga alla mína reikninga alltaf á réttum tíma og vissi ekki til þess að ég hefði ekki borgað skattinn allan í september svo þetta var ótrúlegt.
Ég skreiddist upp stigann með hjartað á hundraði og opnaði bréfið.
Ég átti að greiða 73 evrur fyrir eitthvað sem ég skildi alls ekki og nú var ekki um annað að ræða en bruna upp í Cameru á bílnum. Það tekur reyndar ekki nema 10 mínútur að labba en mér lá á. Var dauðhrædd um að ég dræpist á leiðinni úr háþrýstingi svo bíllinn varð fyrir valinu. Dásamlegur blessaður bíllinn minn. Við brunuðum og vorum hjá Carlosi eftir 3 mínútur og ég settist og stundi:
Hvað er þetta?
Ég borga alltaf allt á réttum tíma?
Carlos brosti blítt og sagði: Ég veit það, og hann fletti upp í tölvunni.
Jú, þetta var gjald fyrir að fara í gegnum tollhlið eða mælingu á þjóðveginum árið 2012 í janúar. Ég hafði ekki greitt!
Mynd af bílnum og ábyrgðarbréfs kvittun sem ómögulegt var að sjá hver hefði kvittað fyrir og bréf þar sem útskýrt var að ég skuldaði 23 evrur fyrir að aka á tollskyldum veginum. Allt þetta prentaði Carlos út fyrir mig.
Jú þetta var bíllinn minn, ég var viss um það.
Hvort ég hefði verið á þessum vegi í janúar 2012 mundi ég ekki.
Hvernig átti ég að muna það? 5 ár aftur í tímann!!! Á þessum tíma var ég endalaust að villast fram og aftur og kunni ekki að nota Garmínu mína.
Ég skulda svo rúmar 30 evrur í sekt fyrir að borga ekki á réttum tíma og þetta verða 70 og eitthvað evrur með einhverjum stimpilgjöldum eða einhverju svoleiðis.
Carlos vildi að ég færi heim og leitaði að kvittunum!
Virkilega!
Ég sagðist koma og borga þetta 2.febrúar árið 2017, sem er á fimmtudaginn í þessari viku.
Það er ekki á kerfið logið hér í landi að snigillinn læðist þar um. Það tók hann 5 ár að rukka mig um þessi ósköp. Segi og skrifa fimm ár.
Mér finnst vel þess virði að borga þeim þessar krónur því þetta er svo yfirmáta hlægilegt finnst mér.
Ég ætla hins vegar að ganga úr skugga um að ekki liggi fleiri svona rukkanir sofandi í kerfinu og vakni upp við sæludraum þegar ég borga.
Komi fleiri svona upp úr kafinu fer ég í skjalasafnið á heimilinu og finn kvittanir! Ekki spurning.
Svona til þess að klykkja út með fleiri góðum fréttum þá eru yfirvöld að ná inn milljónum í ógreiddum alls konar gjöldum þessa dagana og ekki veitir af til þess að borga fyrir garðyrkju við höll forsetans og bílstjóra ásamt launum og sporslum þingheims hér í landi spillingar sem kemst líklega ekki með tærnar þar sem Prinsarnir í norðri hafa hælana, svona miðað við höfðatölu.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2017 | 13:30
Panamaprinsinn er dásamlegur!
28.janúar 2017
Ég var bara að hugsa um það hvað Panamaprinsinn er yndislegur.
Hann getur bakað kökur og svo getur hann slegið lóðina sína og er ábyggilega voða góður eiginmaður.
Svo er hann svo ægilega stór og sexí að maður kiknar í hnjánum við að reyna að horfa upp til hans.
Svo á hann fullt af peningum, held ég!
Það er bara eitt sem skyggir á hamingju hans, eða kannski tvennt.
Fólk er alltaf að staglast á einhverjum 80 milljarða skuldum sem hafi verið afskrifaðar.
Hvað er eiginlega að þessu fólki? Ég bara spyr.
Veit ekki hver einasti maður að það kostar peninga að geta gert marga hluti, t.d. að baka kökur og slá garðinn og vera kúl í köflóttri skyrtu, hvað þá að halda sexí titlinum í þessu öllu?
Svo er þessi ótrúlega skilningslausi almenningur að tuða um einhverjar skýrslur sem voru tilbúnar fyrir kosningar.
Hvað er að fólki? Það er ekki hægt að gera allt í einu, baka, slá garð, vera sexí og stjórna fjármálaráðuneytinu og sjá um að ættin haldi sínu og að ekki sé verið að rukka fyrir einhverja nokkra milljarða.
Svo þarf að mynda ríkisstjórn og hlusta á alls konar fólk úr pínulitlum flokkum sem heldur að það geti eitthvað í stjórnmálum.
Þetta er nú ekkert smá og væri alveg nægilegt til þess að æra minni mann en Panamaprinsinn.
Svo er þessi almenningur að ærast yfir því að formenn nefnda séu úr stjórnaflokkunum. Hvað er eiginlega að ykkur, almenningur? Sjáiði ekki hvað þetta er flott? Það er svo kósý að bjóða í heimabakaða köku til þess að ræða hvernig skuli stjórna þessum óþægu þingmönnum sem eru alltaf endalaust að rífa kjaft.
Svo er fólk að tuða um litla gul, sjáiði ekki hvað hann er flottur? Hann heldur uppi loforðasúpunni og hrærir í þar til allt er komið í graut og þarf að finna upp nýtt orð til að bjóða ykkur þessum síröflandi almenningi sem heldur að það geti bara farið á sjúkrahús og notið þar einhverra hótel fríðinda. Svona starf er ekki heiglum hent og litli gulur er svoo þreyttur á ykkur þessum almenningi sem heldur að kosningaloforð fyrir kosningar séu eitthvað til þess að tala um eftir kosningar.
Hætiði nú þessu röfli og fariði heldur að vera hamingjusöm yfir Panamaprinsippunum og litla guls nýyrðunum.
'islendingar eru nú ekkert að kippa sér upp við hlátur annarra þjóða. Þessar hlæjandi þjóðir skilja ekki hvað það er flott að afskrifa rúma 80 milljarða og geyma flottar skýrslur niðri í skúffum. Mönnum sem tekst að spila svona æðislega úr kortum sínum á auðvitað að veita hina æðstu stöðu, stöðu forsætisráðherra og ég legg til hér með að Panamaprinsinum verði veitt hin æðsta Fálkaorða sem til er á landinu. Það er enginn sem kemst í hálfkvisti við hann og orðuna á hann skilið, jafnvel þó hann slaki kannski á kökubakstri og fari bara að vera kúl og sexí.
Litli Gulur gæti ef til vill lært meira af prinsinum og átt fallegt embætti í vændum eftir næstu kosningaloforða súpu sem er svo óæt eftir krossana á kjörseðlunum.
Ef það er ekki unaðslegt að tilheyra þessari þjóð sem kvartar og kveinar og kýs svo sama sukkið aftur og aftur þá veit ég ekki hvað unaður er.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2017 | 18:14
Ég elska Almannatryggingakerfið á Íslandi!
27.janúar 2017 partur 2.
Auðvitað á ég ekkert að vera að þenja mig meira í dag en ég skrapp inn á mínar síður hjá Tryggingastofnun ríkisins rétt í þessu og get ekki hamið mig fyrir hamingju.
Nú er tilbúin tekjuáætlun fyrir árið 2017 og þar er gert ráð fyrir að Lífeyrissjóðs greiðslur mínar fari úr 146.000 í 151.914.
Þetta þýðir að gert er ráð fyrir þó nokkurri verðbólgu á árinu 2017, annars hefði áætlun um tekjur ekki hækkað svona mikið.
Svo er líka komin greiðsluáætlun fyrir árið 2017 inn á síðurnar mínar.
Mér finnst svo vænt um að sjá þetta allt saman á einum stað og það sparar mér alls konar leit. Alveg unaðslegt kerfi.
Jæja, ég á semsagt að fá frá Tryggingastofnun krónur 171.616 á mánuði fyrir skatt.
Ekki krónu í heimilisuppbót!
Auðvitað ekki, ég er hálfviti. Bý ein og ekki nóg með það, líka í útlöndum. Hvernig dettur mér í hug að ég eigi að fá heimilisuppbót þar sem ég vogaði mér að flytja til útlanda?
Engin orlofsuppbót og engin desember uppbót. Svakalega er þetta nú flott og svo einfalt að skilja þetta allt saman. Bara ein tala og búið!
Ég elska svona einfalt kerfi.
Auðvitað get ég breytt tekjuáætluninni í hverjum einasta mánuði ef mér dettur í hug.
Geri ég það þá leiðréttist allt aftur fyrir sig. Það er kerfið sem mér þykir svo flott.
Líklega væri réttast að breyta tekjuáætluninni núna, en ég nenni því ekki. Það verður ágætt að eiga inni hjá elsku dúllunni eftir eitt eða tvö ár eða hvenær svo sem þeir endurreikna allt saman.
Þetta er svoooo kúl!
Svo er ég líka svo ægilega glöð með að vita að þingmenn þurfa ekki að greiða skatta af sporslum sem eru pínulítið hærri á mánuði en það sem ég fæ í eftirlaun!
Er þetta ekki unaðslegt?
Ég bara spyr eins og hálfvitinn sem ég er og allir vita að ég stíg ekki í vitið.
Vitiði, ég er eitthvað að ergja mig yfir því að vera kölluð ellilífeyrisþegi!
Finnst það eitthvað svo gamalmannalegt eða svoleiðis.
Er ekki bara hægt að segja eftirlaunaþegi? Það er jú það sem ég er.
Ég er ung og falleg kona í toppformi og móðgast óggulítið þegar ég er kölluð gamalmenni! Skiljiði?
Það er flott að skíra mig gamalmenni þegar ég er orðin rúmliggjandi níutíu ára eða svo, en ekki núna, alls ekki núna.
Er ekki hægt að breyta þessu?
Til dæmis gæti Panamaprinsinn borið upp breytingartillögu við lög um almannatryggingar eða litli gulur gæti kannski gert það svo hans hátign slyppi.
Ég er bara að reyna að vera voða væn og hjálpleg þar sem ég er svo yfir mig hamingjusöm að sjá núna loksins hvað ég varð lítils virði þegar ég yfirgaf hið ylhýra ástkæra land.
Auðvitað væri lang hagstæðast fyrir þjóðarbúið að svona fólk eins og ég dræpist bara. Þá þyrfti ekkert að vera neitt kerfi fyrir ellismelli!
Þá væri þjóðfélagið bara með yngri en 40 ára.
Bíddu hvað er Panamaprinsinn ungur?
Það þurfa kannski að vera 50 ára eða yngri svo hann sleppi inn.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2017 | 17:33
Er Panamaprinsinn ekki yndislegur?
27 janúar 2017
Nú hæla þingmenn sér af dugnaði og láta hinn lága almenning vita að nú skuli herða sultarólina.
Almenningur, þið skulið ekki vera með neina frekju og yfirgang, gætu þeir verið að segja á hverjum degi.
Sumir þingmenn dásama starf sitt og halda ekki vatni yfir því hvað það sé yndislegt og skemmtilegt. Svo hafa þeir sumir hverjir 2 aðstoðarmenn.
Til hvers þurfa þingmenn 2 aðstoðarmenn? Geta þeir ekki unnið neitt sjálfir?
Ég bara spyr af því mér finnst þingmenn hafa ágætis laun og ættu að vinna fyrir þeim, og svo er ég nú svo kröfuhörð að finnast einn aðstoðar maður vera nægilegt vinnuafl fyrir þá sem voru kosnir.
Auðvitað skil ég ekkert í flækjum sem eru við að sinna þingstörfum, að ég tali nú ekki um að halda utan um öll sviknu loforðin og láta sem allt sé í kalda koli á landinu. Það er að segja allt nema það sem snýr að Panamaprinsum og svoleiðis fínu fólki.
Mér dettur stundum í hug hvort Panamaprinsinn ætti ekki að flytja úr landi. Hann yrði ábyggilega svo ægilega glaður með gengið sem skráð er á Íslandi og svo á hann svo mikla peninga að það skiptir ekki máli hvort evran er nokkrum prósentum hærri eða lægri.
Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að eftirlaunin hans í enda janúar 2017 séu lægri en þau sem hann fékk í desember 2016.
Ha, getur það verið að eftirlaun hafi rýrnað á milli mánaða hjá þeim sem búa erlendis og fara eftir lögum og reglum?
Nei þetta getur ekki verið!
Eða hvað?
Jú, þannig er þetta nú. Eftirlaunin hækkuðu um áramót í íslenskum krónum og svo hafa þau jafnt og þétt lækkað í Janúar á nýja árinu.
Er erfitt að skilja þetta?
Ekki svo mjög fyrir svona gáfnaljós eins og okkur sem búa ekki á landi gulls og gimsteina en gæti kannski vafist fyrir Panamaprinsum og skósveinum þeirra.
Æi, ég nenni ekki að vera að velta mér upp úr einhverjum aurum.
Ég ætla bara að vera yfirmáta óstjórnlega hamingjusöm fyrir hönd nýju ríkisstjórnarinnar sem virðist nú öll vera komin með alsheimer þegar hún er innt eftir efndum loforða fyrir kosningar.
Þetta er allt svo hlægilegt að Trump greyið bliknar við hliðina á okkar glæsi Panamaliði.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2017 | 14:19
Nýr forseti
22.janúar 2017
Ég gerði mér ferð inn á Facebook síðu forsetaembættisins á Íslandi. Þar sem ég bý erlendis er ég alla jafnan ekki að hlusta á fréttir eða lesa íslensk blöð.
Ég varð ótrúlega glöð þegar ég renndi í gegnum það sem hinn nýi forseti íslendinga skrifar. Mér finnst að þar skíni í gegn manngæska og lítillæti.
Það er ábyggilega auðvelt að gerast hrokagikkur þegar komið er í æðstu embætti þjóðar og sumir falla reyndar í þá gildru að tala niður til fólksins í landinu.
Nýi forsetinn á Íslandi tjáði sig um viðkvæmt mál sem ég nefni ekki hér því ég hef ekkert til málanna að leggja sem gæti hjálpað til þess að leysa það og held mig til hliðar.
Mér þóttu orð forsetans lýsa fallegum manni sem skilur bæði gleði og sorg og hagar orðum sínum af stakri gætni.
Úti í hinum stóra heimi er nýr forseti tekinn við völdum og ýmsir standa á öndinni.
Það er ekki í mínum verkahring að leggja dóm á nýjan forseta í landi þar sem ég er ekki einu sinni búsett í hvað þá að ég hafi þar ríkisfang.
Ég vona bara að allar góðar vættir varðveiti þjóðir heims og mannkynið allt og sjái til þess að við lifum af næstu framtíð.
Þegar ég var lítil stúlka var mér sagt að heimsendir mundi verða. Ég trúði þessu og hefur þetta fylgt mér alla hina löngu ævi mína sem hugsanlegur möguleiki.
Tæknin er orðin svo mikil og svo auðvelt að útrýma jörðinni að heimsendir gæti hugsanlega skollið yfir fyrirvaralaust.
Ég vona sannarlega að svo verði ekki og ég vona að allir nýir ráðamenn í heiminum kunni sér hóf og hafi manngæsku að leiðarljósi fyrir alla.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2017 | 13:54
Fyrir hverja er Grái herinn að vinna?
22.janúar 2017
Ég velti því enn og aftur fyrir mér hvers vegna Grái herinn var settur á laggirnar.
Markmið hans er, samkvæmt því sem stendur á Facebook síðu þeirra að vinna að mannsæmandi kjörum og virðingu fyrir alla. Hann er angi út úr Félagi Eldri borgara í Reykjavík, baráttuhópur innan félagsins.
Semsagt. ég spyr mig enn og aftur: Af hverju hefur Félag eldri borgara í Reykjavík ekki sjálft tekið þessi mál upp á sína arma? Af hverju þurfti að stofna sérstakan baráttuhóp? Er markmið hersins ekki í lögum eða reglum Félags eldri borgara í Reykjavík?
Annar angi sem virðist vera út úr félaginu er Facebook síðan Lifðu núna. Þar er fjallað um ýmislegt sem talið er koma eldri borgurum vel, t.d. snyrtingu og hvernig hægt sé að vera voða hamingjusamur á efri árum og tekin dæmi um slíkt. Svo er deilt upplýsingum frá Gráa hernum og það varð til þess að ég sendi Lifðu núna skilaboð og spurði hvort síðan tengdist hernum.
Svarið sem ég fékk eftir nokkurn tíma var um hvers vegna ég væri að spyrja.
Það svar sagði mér að tenging væri. Kom svo síðar í ljós að stjórnandi síðunnar er í ýmsum trúnaðarstörfum fyrir eldri borgara.
Allt er þetta ágætt en ég spyr sjálfa mig: Hvers vegna er sama fólkið að pota sér út um allt? Er ekki nóg af fólki sem gæti t.d. verið í stjórn félags fyrir eldri borgara og í stjórn (eða ábyrgð) fyrir herinn og svo framvegis?
Gerir ekki svona samþjöppun valds, eða skoðana, málstaðnum bara illt þar sem hugmyndaauðgi er takmarkað? Ég bara spyr sjálfa mig að þessu.
Ég hef á tilfinningunni að herinn sé að vinna fyrir þá sem endilega vilja halda áfram starfi sínu eftir að þeir eru orðnir 67 ára og vilja líka fá óskertar bætur frá Almannatryggingakerfinu.
Málið snýst ekki um þetta. Þeir sem endilega vilja vinna geta gert það en þeir sem vilja njóta ævikvöldsins á annan máta og rýma fyrir þeim sem yngri eru á vinnumarkaði, eins og gert er í mörgum siðmenntuðum löndum, ættu að eiga jafn ötula baráttumenn innan hersins sem segist berjast fyrir eldri borgara.
Ég hef ótt og títt farið í taugarnar á þeim sem svarar fyrir herinn þegar ég voga mér að benda á að ekki sé talað um skerðingu á greiðslum frá Lífeyrissjóðum.
Ég verð að segja að svari herinn athugasemdum á Facebook síðu sinni, sem hann reyndar gerir ekki ótt og títt, ekki bara frá mér, heldur öðrum líka, þá lýsa svörin annað hvort hroka eða þekkingarleysi. Hvort sem um er að ræða þá eru bæði jafn alvarleg.
Það er alvarlegt þegar fólk gefur sig út til þess að ræða við þá sem stjórna þjóðfélaginu í nafni félagsmanna sinna og viðkomandi hafa ekki sett sig inn í málið af heilindum.
Ég hef hlustað á frú Þórunni formann tala í útvarpi og séð hana á fundi í Háskólabíói og verð að segja að þar fer ekki manneskja sem ég mundi treysta til þess að vera minn málssvari í alvarlegu máli.
Ég er ekki að segja að frúin sé vond manneskja. Alls ekki, þvert á móti. Ég held að hún sé hin vænsta kona en hún ætti kannski að fara að taka sér hvíld frá baráttusæti fyrir bættum kjörum fólks og fara að njóta sundlaugarinnar í sveitinni. Kannski eru hugmyndir hennar og fleiri sem hafa talað fyrir hönd hersins ekki alveg í takt við raunveruleikann, en þetta má ég auðvitað ekki láta út úr mér.
Þeir sem hafa gluggað ofan í kjöl á málum þessum vita að þetta snýst ekki um frítekjumark fyrir launatekjur. Málið snýst um miklu meira og alvarlegra brot. Brot á mannréttindum og ef það væri einhver dugur í þessum ágæta her þá væri farin dómstólaleiðin til þess að fá regluverkinu hnekkt svo hægt væri að njóta sparnaðarins án íhlutunar stjórnvalda og eignaupptöku yrði hætt.
Það er þó ekki mikil von til þess að svo verði.
Vanþekking þeirra sem eru að spjalla við stjórnmálamenn bjóða ekki upp á alvarlegar aðferðir.
Það er voða sætt að setja fram að vonast sé til þess að spjallið beri árangur!
Vonin er löngu brostin hjá svo ótal mörgum og eins hægt að bjóða þeim að éta það sem úti frýs.
Kannski er herinn að berjast fyrir því að stjórnendur hans geti unnið fram í rauðann dauðann. Kannski eru stjórnendur hans svo vel launaðir og svo hamingjusamir í starfi sínu að þeir geti ekki hugsað sér að breyta til og eyða ævikvöldinu í eitthvað annað. Kannski eru launin þeirra svo góð að þau skerða almannatryggingabætur þeirra um of og þess vegna er þetta ofurkapp lagt á launatekjur.
Mikið vill meira eins og máltækið segir.
Ég legg til að herinn haldi nú heim og fái til liðs fólk sem veit um hvað málið snýst í heild svo hægt verði að fá dómsúrskurð um lögleysu og brot hins ömurlega regluverks.
Fólk sem er tilbúið til þess að hafa hag allra að leiðarljósi, ekki bara örfárra, er það sem þeir sem komnir eru yfir 67 ára aldur ásamt öllum þeim sem verða þeirra gæfu aðnjótandi að komast á þann aldur þurfa á að halda.
Uppskrúfað nafn gerir ekki neitt.
Þreyttir baráttumenn gera ekki neitt.
Fólk sem hefur verið í forsvari félagasamtaka sem enn er á láglaunatöxtum árið 2017 gerir ekkert gagn.
Það þarf kannski að stofna ný samtök sem eru ekki tengd þessari gömlu elítu, samtök hugsjónafólks sem er tilbúið að horfa á hag allra og lætur sér ekki nægja að vona að kannski, ef til vill, einhvern tíma gerist eitthvað.
Ég segi bara si svona!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)