Venjulegur dagur í lífi mínu!

20.febrúar 2017

Lífið er svo einfalt þegar ég kemst á efri ár!

Ekkert vesen og bara tóm sæla.

Ekkert stress og enginn hamagangur.

Engin kvöð að vakna á morgnana til þess að fara í vinnuna!

Er þetta ekki dásamlegt? Er hægt að óska sér nokkurs meira?

Ég held ekki og þess vegna ætla ég að segja ykkur frá því hvað dagurinn minn í dag hefur verið rólegur og ég bara notið lífsins í botn.

Vaknaði klukkan hálf sjö.

Móðir náttúra gerði vart við sig og heimtaði að losna við eitthvað af öllu vatninu sem ég dældi í mig í gær til þess að losna við óþverra úr líkamanum eða bara til þess að vera ekki þyrst.

Það var dásamlega hlýtt undir sænginni en utan hennar var ískalt nefið á mér og ég var ekki til í að yfirgefa hlýjuna. Það er sko þannig hér núna að nætur eru ís kaldar, ég meina og segi ís kaldar, en svo kemur sólin upp einhvern tíma um morguninn og blessunin streðar við að hita upp og tekst venjulega svona um hádegisbil.

Ég lét undan náttúrunni og skreið á fætur klukkan sjö. Ekki datt mér í hug að fara úr náttfötunum strax. Náttfötin mín eru nefnilega úr PRIMAX og slíkan lúxus fyrir ekki neitt hef ég aldrei átt. Þau kostuðu 10 evrur og ég splæsti nokkrum á mig og bestu vinkonu mína sem á ekki sérlega mikla peninga en hefur rússað með mig fram og til baka á spítala og úr spítala og allt sem því fylgir þegar maður fer í uppskurð og liggur svo heima á endanum. Vinkona mín er Portúgölsk. Ég var að tala um náttfötin okkar sem hafa bjargað okkur frá kuldanum í vetur. Mikið var lán mitt að ég skyldi brjóta á mér öxlina í október áður en varð mjög kalt, að ég tali nú ekki um gæfuna að eiga engin náttföt sem ég gat klætt mig í og þurfa að endurnýja. Þetta er svo dásamlegt að ég get ekki búið til nógu mikið hrós. Vel á minnst þá býr vinkona mín norðar en ég, um það bil klukkutíma og 20 mínútur tekur að keyra til hennar heima.

Náttfatadæmið er auðvitað að snúast við eftir sjúkraþjálfunina og nú sé ég fram á að komast í flottu náttfötin mín þegar tekur að hlýna. Ég meina þessi gömlu!

Eftir að ég var komin fram úr og í ullarsokka setti ég vatn í ketilinn því nú var kominn morgunverðartími. Bjó ég til kínverskt te og ristaði spelt brauð, heimabakað auðvitað, og ofan á fór hunang með kanil og geitaostur. Þetta er oftast svona á morgnana og ég borða aldrei, segi og meina aldrei, portúgalskt brauð. Það er ekkert nema loft og maginn á mér verður alveg vitlaus ef ég voga mér að setja ger i hann.

Ég gleymdi að segja frá því að áður en ég set ketilinn í gang heilsa ég auðvitað íbúum svalanna, og býð góðan dag pökkuð inn í ullarsokka og íslenskt ullar sjal. Þessir íbúar eru mislitir og margar tegundir sem brosa framan í mig fallega og veifa undurfögrum litum framan í mig. Ekki amaleg morgunkveðja þar.

Á morgunmatartímabilinu sendi ég oftast Góðan daginn á Facebook til vina minna og einhverja fallega mynd. Það er svo góð tilfinning að stilla sig inn á morgnana á fallega hugsun og sjá ljósið streyma út um alla veröldina. Ekki veitir af í Trumpæðinu.

Í dag fór ég svo í sturtu og notaði þá sem lekur. Ég er ekki búin að bíða nema 6 vikur eftir stráknum til þess að koma og bæta úr en hann er að vinna í Coimbra og kemur ekkert til Penela, bara til Miranda do Corvo. Hann kemur á endanum en á morgun er svo ægilega teygjanlegt hugtak hér í landi, rétt eins og í Kína.

Ég vona bara að vatnið renni ekki niður á næstu hæð því kallinn þar yrði brjálaður held ég. Hann er nú þegar gaga og ekki á bætandi.

Í morgun gat ég þvegið á mér bakið með þeirri vinstri og blásið hárið og notað báðar hendur nokkuð jafnt. Þetta er allt að koma hjá mér enda sjúkraþjálfarinn himneskur og teygir og togar þar til ég öskra en þá verður hann hræddur og heldur að eitthvað hafi brotnað svo ég var stillt í morgun og stundi bara. Þegar ég kom í salinn til þess að æfa var haft orð á því að ég hefði ekkert gargað í dag. Þetta er eins og lítil fjölskylda, við sem erum að komast á lappir eftir óhöpp.

Klukkan hálf ellefu hélt ég af stað til Covoes og legg núna bílnum mínum í 15 mínútna fjarlægð frá spítalanum. Hálfur göngutúr afgreiddur þar og kláraður í bakaleiðinni. Dásamlegt og svo hagsýnt.

Um eitt leitið var ég búin að fá það sem til þurfti þennan daginn í þjálfun og var svöng. Fyrst ég var komin hérum bil til Coimbra tók ég það ráð að fara í gegnum Santa Clara og fá mér hádegisverð í Forum. Sússi, nammi namm. Keypti í leiðinni kínverskt te og burnirót. Ég er svo ægilega þreytt alltaf og Guðrún Bergmann var að tala um rótina í einhverju sem ég las svo ég ákvað að taka kúr og gá hvað gerist. Kannski virkar þetta ekkert af því hitt vandamálið er alvarlegra og blóðið rennur út úr mér eins og ég veit ekki hvað, en það er aldrei að vita hvað svona rætur gera. Ég er allavega ekki með krabba, þeir eru búnir að finna það út. Eftir sússíið kom ég við í Body Shop og þar var önnur stúlkan að undirbúa sig fyrir Carnival og andlitið var orðið frábært fjólublátt og svart listaverk með rósum og dúlleríi. Hin afgreiðslustúlkan seldi mér litað dagkrem, maður verður jú að líta sæmilega út þó eitthvað bjáti á. Við skemmtum okkur við lita tilraunir og ég kenndi henni að búa til kínverskt te. Ég elska það að hitta fólk og á ótal vini alls staðar. Það er svo gott að geta hlegið og gert að gamni sínu með skemmtilegu fólki og þetta fólk er á hverju strái maður þarf bara að nálgast það. Hér í landi kemur fólk ekki til þín, þú verður að hafa frumkvæðið en svo fellur allt eins og flís við rass.

Eftir hádegismatinn fór ég til Quinta da Lagrimas, þar er sko eitthvað til þess að sækjast eftir. Ég hef verið að leita að góðum nuddara og Nuno, sjúkraþjálfarinn minn benti mér á að fara til Lagrimas. Ég fór og talaði við þá í dag. Jedúdda mía hvað hótelið er flott. Svo er spa í kjallaranum og stór sundlaug og alles. Nudd tíminn kostar 70 evrur og ég sló til. Fer 22 mars í fyrsta skipti og hlakka ekkert smá til. Það er reyndar kona sem nuddar en mér finnst karlarnir betri því hendurnar á þeim eru stærri en þetta verður fínt.  Verðið er ekkert til þess að hafa orð á. Eftirlaunaþegi frá Íslandi og alles hefur auðvitað efni á svona lúxus! Eins gott að láta ekki BB vita af þessu.

Þegar ég var að leita að Quinta, ég hef einfaldlega aldrei komið þar inn, lagði ég bílnum langt langt í burtu því inngangurinn var girtur af með hliði og mér datt auðvitað ekki í hug að maður hringdi bara bjöllunni og segði erindið til þess að komast nær dýrðinni. Þetta fattaði ég nú á endanum og svo var guðdómlega almennilegur ungur maður sem sagði mér hvernig ég ætti að komast niður á hæðina þar sem spaið er. Ég held ég láti vera að lýsa því hvernig til tókst en ég fann þrifakonur , þær heita líklega hreingerninga konur á íslensku, sem hjálpuðu mér og eftir að ég var búin að panta tímann leiddi afgreiðslustúlkan mig að útidyrunum. Næst þegar ég kem veit ég hvað þetta er einfalt og þarf ekki að labba langa ganga og niður margar hæðir. Maður leggur bara bílnum rétt fyrir utan spaið eftir að flotti gæinn hleypir manni í gegnum hliðið.

Þið hefðuð átt að sjá svipinn á honum þegar ég spurði hvort ég gæti ekið drossíunni upp að hótelinu. Óborganlegt og hann hefur ábyggilega ekki skemmt sér betur í langan tíma. Hann þyrfti eiginlega að gljáfægja skóna sína til að falla alveg að dýrðinni sem er þarna.

Að öllu þessu loknu snéri ég heim og nú var kominn miður dagur, sólin á lofti, 20 stig í Coimbra en datt niður í 17,5 í Penela. Það er sko þannig að bærinn minn er kaldur á veturna og óstjórnlega heitur á sumrin. Fer oft upp í 45 og meira yfir sumarið og þá heldur maður sig inni þar til kvöldið kemur eða flýr að heiman.

Ég settist aðeins við tölvuna og skrifaði svolítið á nýju flottu síðuna á Facebook sem er fyrir þá sem hafa flutt erlendis og eru annað hvort eftirlauna þegar eða öryrkjar. Ég held að þessi hópur þurfi vettvang til þess að ræða málin og þarna er hann. Það eru komin nokkuð mörg læk, eitthvað rúmlega 30 þegar ég gáði og er það bara fínt því ég á ekki marga íslenska facebook vini en þetta mjatlast og vona ég að þeir sem lesa deili með sínum vinum og bjóði þeim upp í dansinn og biðji þá að LIKE síðuna "Milli lífs og dauða"

Klukkan var orðin fimm og ég alveg búinn á því. Lagði mig svolitla stund og er nú komin aftur í náttfötin og fer bráðum í háttinn. Það er sko mikilvægt þegar maður er hálf lasinn að hafa reglu á hlutunum, snemma á fætur og snemma að sofa.

Í stórum dráttum var þetta bara venjulegur dagur í lífi mínu. Auðvitað væri ég einhvers staðar að dandalast út um allar trissur annað hvort fyrir norðan eða sunnan ef ég væri ekki í fullri vinnu við að ná heilsu en það kemur dagur eftir þennan dag.

Hulda Björnsdóttir

 


Donald Trump vekur mig til umhugsunar.

19.febrúar 2017

Í gærkvöld horfði ég á ræðu herra Trumps og varð eiginlega svolítið skelkuð.

Er það ekki undarlegt að forseti valdamesta ríkis heimsins skuli eftir 4 vikur í embætti fara út á meðal kjósenda sinna og halda framboðsræðu og verða rauður og þrútinn í framan eins og hann sé að springa úr reiði.

Á svona maður ekki að vera að sameina þjóðina á fyrstu dögum í embætti?

Ég spurði sjálfa mig þessara spurninga á meðan ég fylgdist með kalli tútna út og fyrir aftan hann sátu 3 menn sem nutu þess greinilega að vera í sjónvarpinu og láta myndavélarnar beinast stanslaust að sér.

Kannski voru þessir 3 ágætt dæmi um þá sem kusu forsetann. Þeir höfðu meiri áhuga á því að baða sig í sól forsetans en því sem hann var að segja, eða hvað?

Hvert stefnum við eiginlega?

Þorgerður Katrín setur sjómönnum stólinn fyrir dyrnar og enn er ekki komið í ljós hvort hún skellir dyrunum á stéttina og setur lög eða hvort sjómenn samþykkja samninginn.

Bjarni blessaður ásamt frænda sínum og Bjarti rugla þjóðina í rýminu með áfengisfrumvarpi til þess að geta í rólegheitum etið þjóðfélagið innan frá og sett eignirnar í salt og frystikistu til þess að matreiða pínulítið seinna og enginn segir orð.

Jú það eru reyndar einhverjir að rífa sig á Facebook og netmiðlum en hinir háu herrar gefa ekki mikið fyrir svoleiðis fjas. Þeir vita jú að þegar að kosningum kemur fara krossarnir á rétta staði, alla vega þeir sem forsætisráðherra og hans flokkur þarf á að halda.

Ég verð að geta einnar frábærrar konu hérna sem ég þekki nákvæmlega ekki neitt nema af því sem hún skrifar á Facebook. Þetta er Lára Hanna. Hún stendur vaktina og lætur ekki deigann síga. Ég dáist að henni og þakka henni á hverjum degi fyrir að láta spillinguna ekki í friði. Íslenska þjóðin þyrfti fleiri svona baráttu konur og menn. Það eru reyndar fleiri sem eru að skrifa um valdníðsluna og spillinguna og ég fylgist með þeim en Lára Hanna er í huga mínum svo ótrúlega óþreytandi.

Ég er þakklát öllum hinum sem halda merkjum hinna sem minna mega sín á lofti og tilheyra ekki spillingar maskínunni og vona að þeir haldi áfram að reyna að vekja steinsofandi þjóð sem rennur eins og á hálum ís að feigðar ósi.

Þegar ég horfði á forseta Bandaríkjanna í gærkvöld tútna út þegar hann var að gagnrýna fjölmiðla og segja frá því hvað allt hafi verið í kalda koli þegar hann tók við og hvað maskínan rynni nú eins og vel smurð vél, varð mér hugsað til íslenska forsetans.

Hann gefur launahækkun sína, hækkun sem allir þingmenn hafa tekið við án þess að blikna. Ég get ekki þrátt fyrir sérlega auðugt ímyndunarafl séð íslenska forsetann halda ræðu og tútna út af reiði og gera allt sem hann getur til þess að sundra þjóð sem þarf á sameiningu að halda. Ég sé íslenska forsetann sem boðbera sátta og hann minnir mig óneitanlega á herra Kristján Eldjárn. Íslenskir alþingismenn og ráðherrar ættu kannski að taka forsetann til fyrirmyndar og fara að stjórna af auðmýkt og sanngirni í stað hroka og græðgi.

Hulda Björnsdóttir


Nýr formaður félags eldri borgara í Reykjavík!

17.febrúar 2017

Kosinn hefur verið nýr formaður í Félagi eldri borgara og er það enginn annar en Ellert Schram.

Ekki amalegt og stórt og mikið viðtal birt við hann í Morgunblaðinu.

Auðvitað óska ég honum til hamingju með nýja titilinn. Ætli það fylgi laun svona titli? Ég meina svona peningalaun!

Þetta viðtal er athyglivert og vekur upp nokkrar spurningar.

Ég ætla þó að leifa formanninum að taka við áður en ég fer að gagnrýna hann!

Ellert hefur verið í stjórnmálum og er það athyglivert að sjá hann segja "Ég hafði ekkert verið inni í málefnum eldri borgara" þegar hann var beðinn um að vera í stjórn. Nú hefur hann verið í stjórn og er meira að segja orðinn formaður félagsins.

Hann tekur Gráa Hernum opnum örmum, nei hann býður Grá hernum opinn faðminn! Er þetta ekki ótrúlega sætt? Mér finnst það.

Það getur vel verið að hinn nýi formaður viti meira núna um málefni aldraðra en hann gerði fyrir 4 árum og er það athyglivert og segir líklega nokkuð um fáfræði þeirra sem eru í stjórnmálum. Þeir hafa ekki áhuga á öllum málum og sum verða útundan. Málefni aldraðra og öryrkja hafa áreiðanlega ekki verið á blaði hjá mörgum þeirra sem semja lög og reglugerðir.

Björgvin Guðmundsson skrifar stundum um að ellilífeyrir eigi að vera skattfrjáls.

Ég hef velt þessu mikið fyrir mér og kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki gott mál.

Hins vegar gæti verið gott að hækka skattleysismörkin svo þeir sem eru komnir á eftirlaun eða eru að fá örorkubætur ásamt láglaunafólki landsins gætu lifað af því sem þeim er skammtað.

Ég sé til dæmis ekkert réttlæti í því að menn sem eru með yfir hálfa milljón á mánuði í einhvers konar tekjur ættu að vera með skattlausan lífeyri!

Einhver ágætis könnun kom út á dögunum og þar er því haldið fram að ellilífeyrisþegar hafi það flott, allavega meirihluti þeirra. Kannski örfáir sem lepja dauðann úr skel og ekkert vit í því að vera með skrif eða baráttu fyrir einhvern smá hóp!

Jamm, svona er þetta nú í hinu frábæra samfélagi í dag sem rakar að haugum hinna ríku og gefur hinum fátæku langt nef og etur upp eignir samfélagsins innan frá!

Æi, það er laugardagur og auðvitað á ég ekkert að vera að rífast í dag.

Ég er búin að prenta út viðtalið við hinn nýja formann félags eldri borgara í Reykjavík og get lesið það á meðan ég vinn á göngutækinu til þess að halda nú vel utan um heilsuna og sjá til þess að ég geti rifið kjaft svoldið áfram.

Gamli formaðurinn verður auðvitað áfram í sviðsljósinu á vegum hins gráhærða hers og heldur áfram að bulla í útvarpi og sjónvarpi um hitt og þetta en dettur stundum í afstæðan sannleika einfaldlega þar sem hún veit ekki betur.

Besta dæmið sem ég hef heyrt núna er að hún hefur ekki hugmynd um að sumir lækkuðu í bótum frá almanna trygginga kerfinu með hinum nýju lögum.

Já, það er ekki á suma logið. Einfeldni er kannski besta ráðið til þess að komast vel frá viðtölum og þess háttar.

Donald Trump er sérfræðingur í þessu og þegar íslendingar í baráttu fyrir hóp sem stendur mér nærri eru farnir að minna mig á hann er líklega best fyrir mig að leggjast í rúmið.

Skyldi ég verða sett inn einn daginn fyrir ósvífni?

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Milli lífs og dauða!

15.febrúar 2017

Margir þeir sem komnir eru yfir 65 ára aldur standa frammi fyrir vali.

Þeir standa frammi fyrir því að vera rétt bráðum komnir á eftirlaun og farnir að taka út sparnað sinn hjá Lífeyrissjóði.

Sparnaður þeirra hefur verið alla starfsæfi þeirra og öllum gert að greiða í Lífeyrissjóð og safna þannig til áranna þegar hætt er að vinna og farið að njóta ávaxta erfiðis. Það er gott að spara og vita að maður verður ekki slippur og snauður þegar vinnumarkaðurinn er ekki lengur það sem lífið snýst um.

Þessi hópur á líka að fá ellilífeyri frá ríkinu og greiðir Tryggingastofnun hann. Ellilífeyririnn verður til af skattpeningum fólks sem hefur verið að afla tekna og greitt skatta. Þeir sem ekki hafa getað unnið vegna veikinda eða annarra orsaka eiga líka rétt á þessum lífeyri frá Tryggingastofnun.

Svo undarlega bregður nú við að þeir sem aldrei eða sjaldan hafa greitt skatta þrátt fyrir vinnu sem þeir hafa fengið greitt fyrir, þetta eru skattsvikararnir, eiga líka rétt á bótum frá ríkinu.

Samkvæmt nýju lögunum um Almannatryggingar er rekinn áróður fyrir því að bæta þurfi kjör allra og er það auðvitað rétt.

Hins vegar svíður mér sárt þegar ég hugsa til þess að sumir hafi komist upp með svarta vinnu, kannski mest allt líf sitt, aldrei borgað skatta og aldrei safnað í lögbundna lífeyrissjóði en eiga samt rétt á bótum frá hinu opinbera.

Er ekki eitthvað einkennilegt við kerfi sem virkar svona?

Auðvitað má ekki tala um þetta.

Á sama tíma og svörtu sauðirnir glotta út í bæði er fólk sem hefur farið eftir öllum reglum samfélagsins og borgaða alla sína skatta og skyldur látið hálf svelta af naumt skömmtuðum bótum. Lífeyris sparnaðurinn ést upp vegna skerðingareglna í nýju lögunum og við sem höfum sparað til efri áranna erum sár og reið yfir því að mest allt sé hirt af okkur.

Til hvers vorum við eiginlega að borga í öll þessi ár til sjóða sem borga formönnum sínum margfaldan árslífeyri okkar á mánuði?

Til hvers?

Nu á að fara að kjósa nýjan formann í VR og verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað breytist. Ég veit ekkert um þennan mann en vona bara að hann verði mannlegri en fyrirrennari hans og að hann stilli launum sínum og annarra sem starfa fyrir félagið í hóf.

Fólk sem komið er á eftirlaunaaldur eða er á leiðinni þangað á val.

Það getur valið milli lífs og dauða.

Velji þetta fólk að flytja úr landi velur það líklega lífs leiðina en sé valið hins vegar að þrauka á Íslandi og reyna að skrimta af því sem þessum hópi er skammtað er líklegt að verið sé að velja dauðann frekar en lífið.

Auðvitað deyjum við öll fyrr eða síðar. Það er jú gangur lífsins en ef við erum svo heppin að eiga mörg ár í farteskinu og fleiri framundan þá eru það mannréttindi að geta gengið um lífið sem eftir er með upprétt bak.

Ég hef lengi haldið því fram að ég hafi verið verðfelld þegar ég fór að taka eftirlaun frá Íslandi.

Ég bý ein og fæ ekki og hef aldrei fengið heimilisuppbót bara vegna þess að ég bý ekki við sult og seyru á Íslandi.

Í nýju lögunum var svo sniðuglega gengið frá því að ekki þyrfti að greiða of mikið til eldri borgara landsins og búin var til heimilisuppbót sem partur af lífeyri, en ekki bara höfð ein tala sem héti eftirlaun eða ellilífeyrir eða hvað svo sem þingmönnum þóknast að kalla þetta.

Hefði talan verið ein væri ég jafn mikils virði og þeir sem búa á Íslandi og ég líkleg ekki endalaust vælandi um misrétti og mannréttindabrot.

Þegar eftirlaunaþegi ákveður að flytja úr landi skerðast lögbundnar bætur hans. Hann fellur að verðgildi.

Ég er ekki að biðja um að við sem kjósum að velja lífið og lifa því erlendis, eigum að fá styrki fyrir strætó og heimilishjálp og bílastyrk og frítt í sund eða það sem sveitarfélögin láta af hendi rakna.

Ég er bara að tala um ellilaun, þau eiga að vera óskert hjá okkur sem kusum að flytja úr landi þar sem þeir ríku moka að eigin garði eins og þeir eigi lífið að leysa og sjá til þess að ekki séu til fjármunir fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu eða fyrir þá sem komnir eru á eftirlauna aldur.

Við sem erum komin á eftirlaunaaldur eigum val. Valið stendur á milli lífs og dauða.

Þeir sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir hagsmunum eldri borgara minnast aldrei á þetta val og hvernig farið er með þá sem velja lífið.

Þessi hópur á engan málssvara, það er enginn baráttuhópur sem heldur fundi með alþingismönnum og segir þeim frá réttindabrotum á þessum hópi. Það er enginn sem kemur í útvarp eða í dagblöð og heldur kjörum þessa hóps til haga.

Við sem höfum varið lífið fram yfir dauðann og flutt erum dreifð um heiminn. Þess vegna er góð byrjun að búa til Facebook síðu fyrir þennan hóp sem er ekki tengdur Gráa hernum eða þeirra undirtyllum.

Við getum orðið afl, afl lífsins, og sameinað krafta okkar og látið frá okkur heyrast. Það tekur tíma og vinnu og tel ég að þeirri vinnu og tíma væri vel varið.

Það getur verið skemmtilegt að kalla svona síðu Ellismelli eða Silfurskottur en ég er á þeirri skoðun að við þurfum ekkert að vera feimin við að halda höfði hátt og bera okkur vel. Ég get ekki séð að ég sé gömul og líklega verð ég aldrei gráhærð. Það klæðir mig ekkert sérlega vel og vil vera flott.

Svona síða er ekkert gamanmál. Hún tekur á grafalvarlegu máli, sem er barátta upp á líf og dauða. Við þurfum ekki að vera feimin við að segja sannleikann og hann er ekki mjög fagur eða mjúkur og alls ekki jákvæður.

Mér hugnast vel nafnið sem vinur minn stakk upp á í byrjun og stakk mig aðeins fyrst.

Milli lífs og dauða.

Þetta nafn mundi vekja athygli eins og einn lesandi minn benti á og er það ekki einmitt það sem við þurfum? 

Við þurfum að ná til fólks sem ræður einhverju og þar virka engin vettlingatök eða grín.

Við erum ekki grín hópur, við erum ekki gráhærður her, við erum fólk sem berst upp á líf og dauða til þess að geta lifað sæmilegu lífi síðasta hluta ævinnar.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 


Þegar allt verður vitlaust!

14.febrúar 2017

Ég hlustaði á frú Þórunni H. formann félags eldri borgara í Reykjavík í gær í einhverju viðtali. Man ekki á hvaða stöð.

Ég ætla ekkert að segja frá því hvað viðtalið fór óskaplega mikið í taugarnar á mér og hvað ég verð alltaf undrandi á óendanlegri fáfræði sem tröllríður sumum fjölmiðlum.

Auðvitað var ekkert minnst á þá aumu eldri borgara sem hafa haft kjark og þor til þess að yfirgefa landið þar sem þeim er skammtað úr hnefa smánarlaun til þess að skrimta og helst að fara yfir móðuna miklu. Ég er að tala um eftirlaunaþega, íslenska, sem búa ekki á Íslandi ef einhver velkist í vafa um það.

Ég má ekki við því að hlusta á svona viðtöl. Blóðþrýstingurinn fer af stað og reynir að elta uppi útvarpsstöðina og þar sem ég er í útlöndum er þetta ekki gott fyrir greyið. Hann þyrfti að fara upp í flugvél og alles og líklega yrði ekkert eftir af eigandanum þegar í stöðina kæmi.

Hvers vegna í fjáranum, (fyrirgefið orðbragðið en mamma sagði mér að blótsyrði væru til áherslu svo þetta hlýtur að vera í lagi hennar vegna, alla vega)já, ég segi hvers vegna er aldrei, aldrei nokkurn tíman minnst á eldriborgara í útlöndum þegar verið er að mala og mala og mala um hvað kjör eldri borgara hafi breyst til hins verra með nýju lögunum?

Frúin, formaðurinn, talaði um tekjur og heimilisuppbót.

Ha, veit hún ekki að þeir sem búa erlendis og hafa greitt alveg jafn lengi og hún sjálf í lífeyrissjóð fá ekki heimilisuppbót þó þeir búi einir?

Veit manneskjan þetta ekki?

eða,

Veit hún þetta en lætur sem henni komi það ekkert við?

Getur það verið að enginn af hennar ágætu vinum hafi þurft að flytja úr landi til þess að lifa af?

Veit hennar hátign ekki að kjör eldri borgara rýrna um tugi þúsunda þegar þeir flytja af landinu?

Ég held að hún viti þetta ekki því það er of mikill ótuktarskapur, meira að segja hjá mér, að ætla að hún viti þetta en henni sé alveg sama.

Grái herinn ætti að taka upp hanskann fyrir alla, ekki bara suma.

Herinn er ekki að vinna fyrir alla, hann er að vinna fyrir einhverja fáa en það má auðvitað ekki minnast á svoleiðis.

Nú ætla ég að búa til Facebook síðu sem er fyrir gleymda hópinn, hópinn sem býr erlendis og er komin yfir 65 ára markið.

Ég ætla að hafa þessa síðu með upplýsingum sem þessi hópur þarf á að halda og ég ætla að sjá til þess að fyrirspurnum og athugasemdum sé svarað af kurteisi og reynt að afla upplýsinga um það sem verið er að spyrja um.

Ég ætla að vona að fólk sem er í þessari aðstöðu og aðstandendur þeirra og vinir setji læk á síðuna og fylgist með hvernig umræðan þar þróast.

Mig vantar gott nafn á síðuna og einhverja frábæra mynd líka.

Það er ekki hægt að setja síðuna í loftið fyrr en nafn er komið því vesen fylgir því að breyta nafni og ég nenni ekki að standa í einhverri vitleysu. Hef of mikið skemmtilegt við tímann að gera.

Tillögur að nafni eru vel þegnar og vona ég að allt sem ykkur dettur í hug verði sent til mín.

Gleymdi hópurinn skal ekki verða gleymdur mikið lengur. Það er kominn tími til þess að hann láti í sér heyra og það svo um munar. Það þarf enga gráhærða kalla eða gamalmenni til þess að berjast fyrir hagsmunamálum þessa hóps. Það þarf bara venjulegt klárt fólk sem hefur áhuga á málinu, bæði ungt og gamalt.

Hulda Björnsdóttir


Á að stofna Facebook síðu fyrir ísl. eftirlaunaþega sem búa erlendis?

13.febrúar 2017

 

Ég held því stundum fram að í heilanum á mér séu perur sem ná mis góðu sambandi og er þar af leiðandi oftar en ekki slökkt á þeim.

Einstaka sinnum kemur þó fyrir að samband tekst og perurnar fara að blikka og jafnvel helst á þeim ljós í dálítinn tíma.

Þegar perunum tekst að ná sambandi er oft bara nokkuð heiðskýrt og stundum verða til hugmyndir sem vert er að skoða.

Ein svona pera vaknaði til lífsins í gær alveg óvænt og ég fékk hugmynd!

Þessi hugmynda tilbúningur gerist líka einstaka sinnum þannig að ég ligg á henni í nokkra daga og velti fyrir mér áður en ég skelli henni út í loftið og ætlast til að allir skilji hvað ég er að tala um enda búin að skipuleggja málið í botn í huganum!.

Í gær skellti ég afkvæminu bara hráu út og vinir mínir tóku að velta henni fyrir sér líka og kannski verður barn úr þessu öllu saman að lokum.

Ég hef oft kvartað yfir því hvernig farið er með mig sem eftirlaunaþega bara af því að ég kaus að verða ekki gömul á Íslandi, og ég hef spurt af hverju mannréttindi eru brotin á mér fyrir þessar einu sakir.

Þeir sem búa á Íslandi  í 180 daga eða meira á árinu þurfa ekki að sitja við borðið mitt og sanna endalaust tilveru sína fyrir yfirvöldum á Íslandi til þess að fá hungurlús þá sem greiðslur úr almannatryggingakerfinu og frá lífeyrissjóðum eru.

Ég hef reyndar ekki kynnt mér það hvort eftirlaunaþegi á Íslandi þurfi á hverju ári að skila inn vottorði um að hann sé EKKI DAUÐUR.

Ég hef gagnrýnt Gráhærða herinn fyrir einkennilega baráttu og aldrei hef ég séð eða heyrt neitt frá þeim sem varðar  eftirlaunaþega búsetta erlendis eða lýtur að réttindum þeirra. EKKERT!

Jæja, hugmyndin sem vaknaði í gær var hvort skynsamlegt væri að stofna Facebook síðu þar sem eftirlaunaþegar búsettir erlendis gætu sótt upplýsingar og deilt skoðunum og eitt og annað sem kemur upp þegar stórt skref er stigið út í óvissuna.

Það er líka spurning hvort svona síða ætti að vera sameiginleg fyrir eftirlaunaþega og öryrkja. Ég veit það ekki. Ég hef þó grun um að einhverjir öryrkjar hafi ef til vill flúið land til þess að eiga í sig og á og geta komist sæmilega af með þær bætur sem þeim eru skammtaðar.

Þegar öryrki kemst á eftirlauna aldur hættir hann að vera öryrki og verður ellilífeyrisþegi samkvæmt núgildandi lögum.

Skattamál geta verið snúin þegar flutt er. Í Noregi borga íslenskir eftirlaunaþegar skatt á Íslandi en hér í Portúgal borga ég skatt í Portúgal og held að það sama gildi t.d. á Spáni vegna tvísköttunar samnings ríkjanna. Ég þarf að gera skattskýrslur í báðum löndum og skila afriti af þeim í báðum löndum, sú íslenska reiknuð yfir í evrur, sem gerir það að verkum að gengið 31.12 hefur áhrif á hve háa skatta ég greiði fyrir árið á undan. Til þess að dæmið gangi upp verð ég að treysta á sjálfa mig að spara fyrir skattinum í hverjum mánuði en á Íslandi er hugsað fyrir okkur og skattur tekinn strax fyrir hvern mánuð.

Upphæð eftirlaunanna í nýja landinu fer eftir gengisþróun og getur verið bæði góð og slæm. Ég veit aldrei nákvæmlega hvað ég fæ í eftirlaun í evrum um hver mánaðamót. Það fer eftir gengi krónunnar.

Umsókn um eftirlaun getur líka vafist fyrir fólki ef það sækir um frá nýja búsetulandinu. Einkum ef viðkomandi hefur ekki gott vald á máli hins nýja lands getur þetta verið flóknara en allt sem flókið er, en það er alltaf hægt að finna leið.

Heilsugæslumál er enn einn þáttur sem gæti vafist fyrir fólki og ég tala nú ekki um ef kaupa á húsnæði eða fjárfesta í bifreið.

Tryggingamál, greiðslur reikninga, stofnun bankaviðskipta og svona get ég talið lengi.

Allt eru þetta praktísk mál sem væri gott að geta fengið upplýsingar um á einum stað.

Ég geri mér þó ljóst að ekki eru allir eftirlaunaþegar sem hafa kunnáttu til þess að nota Facebook en þeir eiga þá væntanlega yngir ættingja sem gætu aðstoðað.

Það eru síður með íslendingum í hinum ýmsu löndum og fór ég að gamni inn á þá Portúgölsku og get ekki séð að neinn þeirra 19 félaga sem þar eru búi í Portúgal!

Nafn á svona grúppu þyrfti að vera skemmtilegt og vekja forvitni og ekki tala um gráhærð strý eða feita kroppa.

Svangi herinn hefur verið vinsælt nafn hjá mér en væri ekki gott á svona síðu.

Bleiki hópurinn gengur heldur ekki

Fjólublái herinn gæti komið til greina

Ég segi bara svona. Það þyrfti að finna gott nafn og auglýsa svona síðu vel og vandlega í blöðum og útvarpi og sjónvarpi, á Facebook og alls staðar þar sem fólk kemur saman.

Allir ættu að eiga frjálsan aðgang að síðunni.

Þeir sem væru í forsvari þyrftu að vera með þjónustulund og svara fyrirspurnum en ekki hunsa umræðu eins og hinn dásamlegi gráhærði gerir.

Auðvitað er enginn alvitur en það er oftast hægt að afla upplýsinga með góðum vilja.

Fyrst og fremst þarf afl til þess að vaka yfir því að réttindi brottfluttra eftirlaunaþega séu ekki fótum troðin. Ég held að þetta sé bara nokkuð frábær hugmynd sem laust niður í kollinum á mér og kveikti á einni af perunum. Hvað peran logar lengi veit ég ekki en hún er allavega heit enn þá.

Allar hugmyndir eru vel þegnar og þeir sem vildu vera með í svona uppátæki eru velkomnir og þeim tekið með opnum örmum.

Munið að þetta eru fyrstu hugrenningar um málið og þurfa fleiri að leggja í púkkið.

Það vantar forsvarsmenn, ábyrgðarmenn eða hvað það væri kallað og alls konar fólk ætti auðvitað að vera tengt svona síðu bæði ungt og gamalt því málið varðar alla, ekki síst alþingismenn og kannski væri hægt að koma þeim til að lesa það sem birtist á svona síðu. Hver veit, ótrúlegustu kraftaverk gerast.

Hulda Björnsdóttir

 

 


Er rétt að fara í mál við ríkið vegna eldri borgara?

12.febrúar 2017

Björgvin Guðmundsson skrifar í dag að borin hafi verið upp tillaga í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík um að fara í mál við ríkið vegna skerðingar bóta eftirlaunaþega.

Hann segir einnig að mikill áhugi sé hjá félögum að hefja þessa málsókn en bendir jafnframt á að málið muni taka mikinn tíma og mikla undirbúningsvinnu.

Björgvin hefur verið ötull við að skrifa um málefni þessa hóps og er það auðvitað þakkarvert og veit ég ekki hver tekur við til þess að halda uppi kyndlinum þegar hann hættir skrifum sínum.

Það sem vakti athygli mína og ánægju var að tillagan var borin upp í stjórn félagsins og að stjórn félagsins muni þess vegna, líklega, sjá um málið.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2015 er óráðstafað eigið fé þess kr. 15.107.093.

Ég veit auðvitað ekkert um hver fjárhagsstaðan er núna árið 2017 en ég velti fyrir mér hvaðan félagið hyggst fá peninga til málssóknarinnar.

Mér finnst ekki óeðlilegt að spurt sé hver borgi slíka vinnu og geri mér ekki ljóst hvort félagsgjöld eigi að dekka kostnaðinn eða hvort aflað verði aukatekna fyrir gjörningnum og þá hvaðan.

Einhver gæti rokið upp og sagt að ég væri með neikvæðni en svo er ekki. Ég er einungis að velta fyrir mér praktískri hlið málsins.

Ég geri mér grein fyrir að málssókn og undirbúningur mundi kosta gífurlega fjármuni og er aðeins að slá varnagla fyrir óraunhæfum væntingum okkar sem erum orðin eldri borgara þessa ágæta lands.

Ég hef aðeins skoðað hvað öryrkjar hafa verið að gera og hvernig þeirra mál hafa farið. Félagið þeirra virðist hafa verið duglegt við að sinna málum félaga sinna og er það vel.

Eldri borgarar virðast dreifðir í mörgum félögum og síðan eiga þeir eitt sameiginlegt landssamband.

Mér hefur virst ríkja svolítil andúð í garð landssambandsins í skrifum Félags eldri borgara í Reykjavík. Ég ætla ekki að leggja mat á hvort gagnrýnin á við rök að styðjast eða ekki, ég þekki ekki málið nægilega vel til þess hafa almennilega skoðun á því.

Hins vegar þætti mér eðlilegt að ef fara á í málarekstur sem tekur bæði tíma og mikið fjármagn væri hann rekinn af landssambandinu en ekki litlu félagi innan sambandsins.

Enn og aftur þá tek ég fram að ég hef ekki kynnt mér störf landssambandsins nægilega vel, enn þá, og getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér.

Þegar verið er að tala um réttindamál eldri borgara þá sýnist mér gleymast að nokkuð margir eldri borgarar hafa tekið þann kost að flytja frá Íslandi og búa erlendis allt árið. Flytji eða búi eldri borgari erlendis skerðast réttindi hans þó nokkuð.

Búandi erlendis fær eldri borgari ekki heimilisuppbót, jafnvel þó hann búi einn.

Ég hef ekki skilið rökin fyrir þessu og verð alltaf hálf fúl þegar ég sé þessa verðfellingu sem sett er á mig við það eitt að ég bý ekki á Íslandi.

Ég spara ríkinu stórfé með því að þiggja læknisþjónustu í hinu nýja landi mínu ásamt mörgu öðru sem sparast við þessa ákvörðun mína og þeirra sem tóku þennan kostinn.

Ég er ekkert að fjasa yfir því að fá ekki frítt í strætó eða sundlaugar eða heimilishjálp og guð veit hvaða önnur félagsleg hlunnindi er boðið upp á hjá þeim sem búa á Íslandi.

Ég er bara að ybba mig yfir því að fá ekki heimilisuppbót, sem er ekkert annað en dulinn ellilífeyrir og ætti auðvitað ekki að vera inni í dæminu. Það ætti bara að vera ein tala fyrir ellilífeyri en stjórnvöld hafa komið þessu svona fyrir og ég sé ekki neinn mótmæla þessu fyrir okkar hönd. Ekki landssamband eldri borgara og ekki aðildarfélög þeirra.

Hvernig stendur á því að enginn talar um þessa skerðingu? Er það vegna þess að fólk veit ekki um hana?

Veit landssamband eldri borgara að þeir sem búa erlendis þurfa á hverju ári að sanna að þeir séu ekki dauðir og að þeir séu ekki að svíkja út úr hinu heilaga kerfi á Íslandi?

Veit landssambandið að nú hefur Lífeyrissjóður VR tekið upp á því að heimta lífsvottorð að öðrum kosti verður hætt að greiða lífeyri til viðkomandi sem býr erlendis?

Ég fékk svona bréf í póstinum í vikunni en hef ekki þurft að sanna þetta áður.

Væri ekki eðlilegt að eitt og sama vottorðið um jarðvist mína gilti fyrir Tryggingastofnun og Lífeyrissjóðinn?

Hvers vegna þarf ég að afla tveggja vottorða um sama málið? Ég þarf að borga fyrir þessi vottorð.

Eru kannski þeir sem hafa vogað sér að flytja til landa þar sem hægt er að lifa af naumt skömmtuðum eftirlaunum minna virði í krónum en þeir sem lepja dauðann úr skel á Íslandi.

Ég held ég stoppi hérna því hætti ég mér frekar út í þessa umræðu gæti ég fengið slag og blóðþrýstings truflanir eða eitthvað og þá væri erfitt fyrir mig að uppfylla öll þau ótrúlegu skilyrði sem ég þarf að gera núna til þess að tosa bætur, sem ég á fullan rétt á, til mín.

Staðreyndin er nefnilega sú að til þess að uppfylla skilyrðin þarf maður að vera við hestaheilsu og helst nokkuð klár á tölvur og nútíma samskipti.

Eins gott að gæta að heilsunni ef maður ætlar að búa þar sem hægt er að borða mat alla daga, góðan mat meira að segja, og hafa húsaskjól yfir sig.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


Hvert stefnum við með líferni okkar?

11.febrúar 2017

Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig hægt sé að láta sér líða vel þegar illa gengur eða eitthvað bjátar á í lífi fólks.

Öll verðum við fyrir einhverjum áföllum í lífinu og er misjafnt hve vel tekst að vinna úr þeim.

Sumir velja þann kost að grafa áföllin niður og reyna eftir bestu getu að gleyma þeim. Aðrir finna leið til þess að vinna úr því sem viðkomandi telur vera áfall og báðar þessar leiðir eru val.

Það eru til áföll sem eru svo sár að undirmeðvitundin tekur af okkur ráðin og lætur okkur gleyma atvikinu þar til við erum tilbúin að vinna úr því og láta okkur líða betur.

Undirmeðvitundin er skynsöm og ráðagóð og væri ekki slæmt ef margur maðurinn hefði hennar skynsemi og leysti mál þjóðar sinnar á skynsamlegan og farsælan máta fyrir alla.

Ef hef oft staðið eftir undrandi og líklega með gapandi munn eftir að hafa hlustað á sögur ýmissa sem virðast svo eðlileg í daglegu lífi og virkilega hamingjusamt fólk en þegar farið er að kafa dýpra kemur annað í ljós.

Þeir sem hafa verið í sambandi við áfengis sýkina eru líklega sá hópur sem ég dáist mest að. Þá er ég að tala um aðstandendur en ekki sjúklingana sjálfa.

Aðstandendur sem þjást daginn út og daginn inn en láta ekki á neinu bera og halda höfði úti í þjóðfélaginu á hverju sem gengur eru fleiri en við gerum okkur grein fyrir.

Áfengið drepur ekki bara þann sem neytir þess í óhófi heldur líka vini og kunningja ásamt fjölskyldu og öllum þeim sem umgangast neytendurna. Áfengið er í augum sumra sjúkdómur og að áliti annarra aumingjaskapur.

Ég ætla ekki að gerast dómari í þessu máli. Ég hef mína skoðun á áfengisneyslu og hef haldið mig frá henni allt mitt líf.

Þó ég hafi ekki neytt guðaveiganna sjálf á langri ævi hafa þær mótað líf mitt frá unga aldri jafnvel þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en seint og síðar meir.

Það tók mig langan tíma og mörg áföll að opna augun fyrir því að áhrifavaldurinn var drykkja fólks sem mér þótti vænt um og ég umgekkst.

Móðir mín tók af mér loforð um að segja aldrei frá því hvernig líf hennar hafði verið og hvernig drykkjusýki annarra hafði farið með líf hennar. Hún sagði að viðkomandi mundi ekki afbera að heyra hvernig ástandið var og ég lofaði hátíðlega að lýsa því ekki.

Móðir mín var mikil hetja. Hún veiktist af lungnaberklum ung og var blásin eins og tíðkaðist í þá daga. Hún náði sér aldrei og var öryrki allt sitt líf þar til hún fór á eftirlaun og hætti að vera öryrki samkvæmt íslensku almannatrygginga kerfi. Almannatryggingakerfið hefur ekki batnað en móðir mín er komin á betri stað og líklega hefur listamanns eðli hennar og gáfur nú tekið völdin og hún farin að njóta sín í hinu nýja lífi.

Mamma þvældist með mig um sveitir sem ráðskona á sveitabæjum því það var eina vinnan sem hún gat sinnt. Oft var vistin erfið bæði fyrir hana og barnið en báðar létu sig hafa það og þraukuðu.

Brennivínið dansaði sinn hrunadans með vinnumenn í fararbroddi og hinar gullnu veigar voru bruggaðar í jarðhúsum innan bæjarmarkanna. Um helgar var svo sopið hraustlega á og þurfti oftar en ekki að forða barninu annað hvort inn í læst herbergi eða í burtu frá bænum.

Áhrif drykkjunnar byrjuðu þar að móta líf lítillar stúlku og það var ekki móðirin sem neytti veiganna. Það var fólk sem hún var samtíða á sveitabæ þar sem móðirin vann við að búa til mat og halda utan um heimili fyrir ráðamenn staðarins.

Það er eins víst og að ég er að þrýsta á takka lyklaborðsins míns að þessi staða var ekki kjörstaða fyrir þessar mæðgur en annað var ekki í boði fyrir öryrkja á þeim tíma.

Móðirin gerði það sem í hennar valdi stóð til þess að halda lífi í mæðgunum. Ráðskonustarfið var sumarstarf og yfir veturinn tók annað við. Þá þurfti að leita til þeirra sem sáu um að fólk dæi ekki alveg, þeirra sem héldu líftórunni rétt aðeins gangandi. Það voru erfið spor að sitja innan um drykkjusjúklinga þeirra tíma og bíða eftir viðtali svo hægt væri ef til vill að kaupa í matinn í nokkra daga.

Á þessum tíma var starfandi mæðrastyrksnefnd sem sá um fataúthlutanir og niðri í miðborginni var sjúkraskýli þar sem við fengum þá aðhlynningu og eftirlit sem berklasjúklingar á þessum tíma fengu og aðstandendur þeirra. Ég var sprautuð með bakteríunni og veiktist harkalega en það bráði af mér og enn tóri ég.

Mér finnst það með ólíkindum að árið 2017 sé það eitt af mestu áhugamálum ríkisstjórnar Íslands að koma brennivíni inn í matvörubúðir svo hægt að kaupa það með mjólkinni.

Ég held að það sé mikilvægara að vinna að því í ríkisstjórn að lífsskilyrði allra séu þannig að fólk þurfi ekki að vera í sporum móður minnar. Ég get ekki skilið að hjólfarið sem við mæðgur festumst í þegar ég var lítið barn skuli ekki hafa verið fyllt upp og lokað árið 2017.

Það er sárara en tárum taki að vita til þess að enn í dag þurfi fólk að svelta hálfu hungri, rétt eins og við mæðgur gerðum fyrir mörgum áratugum.

Ég vildi að ég vissi hvernig á að fara að því að jafna kjör fólks á Íslandi. Ég vildi að ég hefði lausnina og gæti sveiflað töfrasprotanum og allt yrði gott hjá öllum.

Ég vildi óska að ég gæti komið í veg fyrir að aðstandendur áfengissýkinnar þyrftu að þjást og stundum jafnvel að óttast um líf sitt.

Því miður er ég alveg grútmáttlaus og hef ekkert vald til þess að gera eitt eða neitt.

Ég get þó huggað mig við það að móðir mín þjáist ekki lengur. Hún hefur fengið hvíldina og flutt til æðri staðar, staðar þar sem ég trúi því að öllum líði vel og enginn sé svangur eða kaldur og brennivín þekkist ekki og enginn líði fyrir drykkju náins ættingja eða annarra.

Bakkus er einfaldlega böl sem aðeins þeir sem til þekkja vita hve ótrúlega öflugur hann er og vín í matvörubúðum er ekki leið til þess að gera hann valdaminni.

Áföll fólks og leiðir til að vinna úr þeim halda áfram að vera til. Við getum unnið okkur í gegnum vandann með ýmsu móti og kannski er góð hreyfing og góðir vinir sem hlusta besta lækningin.

Að ganga úti í náttúrunni og hlusta á söng fuglanna eða hvíslið í vindinum ásamt fallegum niði vatnsins ef rignir er góð leið.

Að anda að sér tárum tímans og leyfa þeim að streyma niður kinnarnar í faðmi góðs vinar er önnur leið.

Að nema staðar og virða fyrir sér fallegan gulan eða fjólubláan lit illgresisins við vegarkantinn er leið sem hægir á ölduróti erfiðra minninga. Illgresið getur verið svo undurfagurt.

Að nema staðar og anda, anda inn og út, og finna hvernig straumur gleði og bjartsýni tekur yfir og vermir hjartað er    enn ein leið.

 

Hulda Björnsdóttir

 

 


Föstudagur eina ferðina enn !

10.febrúar 2017

Enn einu sinni er kominn föstudagur og febrúar líður eins og ljómandi geisli í gegnum skýin með ofsaroki á Íslandi og kulda og rigningu í Portúgal.

Ég var að reyna að útskýra fyrir vinum mínum í sjúkraþjálfuninni hvernig veðrið væri á Íslandi þessa dagana og þau horfðu á mig eins og ég væri ekki með öllum mjalla.

Svona veður væri kallað hvirfilvindur hér á bæ og líklega fyki allt sem fokið gæti til fjandans eða eitthvað enn lengra. Ég veit svo sem ekkert hvað langt er í fjandann en ég veit að það er eitthvað verulega bogið við stjórnkerfið á Íslandi jafnvel í blíðu og logni.

Hvernig getur það gengið áfram ár eftir ár að gróða pungar haldi áfram að mata feitan krókinn á kostnað almennings og komist upp með að stinga mikilvægum skýrslum í lokaðar skúffur?

Fólk talar og talar og talar um spillingu og lýsir endalaust vanþóknun sinni en það gerist ekkert í málinu.

Einhvern tíman var sagt að "orð væru til alls fyrst" eða eitthvað svoleiðis.

Er ekki kominn tími til að orðin fái að hvíla sig og athafnir fari að taka við?

Einhvern vegin get ég ekki trúað því að við þurfum að bíða í tæp 4 ár til þess að fá að kjósa aftur og losa okkur við spillingar öflin.

Ég get ekki trúað því, og vil ekki trúa því, að fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra geti setið á stóli og sent þjóðinni langt nef.

Er enginn varnagli í stjórnarskránni sem tekur á glæpamálum stjórnmálamanna?

Getur maður (eða kona) sem situr í stóli ráðherra bara gert nákvæmlega það sem honum eða henni sýnist á Íslandi?

Væri framkoma Panamaklíkunnar látin viðgangast í öðrum siðmenntuðum löndum?

Ég veit að það grasserar eitt og annað í núverandi heimalandi mínu en efast stórlega um að eins augljós hagsmunagæsla og ríkir á eyjunni litlu í norðrinu ætti auðvelt uppdráttar hér í landi.

Nú hefur máli öryrkja verið vísað frá Hæstarétti og rökstutt að alþingi eigi að taka á málum eins og því sem sækjandi rak.

Vísað er í að ríkjandi séu lög um Almannatryggingar og eftir þeim skuli fara.

Margir eru svekktir og mörgum heitt í hamsi yfir því að rétturinn tók málið ekki til meðferðar og spyrja hvar mannréttindi sækjanda séu?

Ég er ekki lögfróð, hef sáralítið vit á lögum og reglum og þeim flækjum sem þar leynast en ég verð að játa að mér finnst rökstuðningur réttarins meika sens! (fyrirgefið slettuna, gat ekki setið á mér)

Það eru lög í landinu og nýbúið að samþykkja ný lög um Almannatryggingar. Þessi lög eru það sem fara verður eftir og til þess að fá fram breytingar verður að breyta þeim eða setja reglugerðir til þess að túlka þau frekar. Svona er einfaldlega gangurinn í réttarkerfi á Íslandi og ekkert hægt að mótmæla því.

Ég skil mæta vel gremju þeirra sem rökstyðja sitt mál með því að bætur kerfisins séu ekki í samræmi við tölur Hagstofunnar um framfærslukostnað.

Má ég þó gerast svo djörf að benda fólki á að svona hefur þetta alltaf verið. Tölur um framfærslukostnað hafa aldrei verið í samræmi við það sem bótaþegum og láglaunafólki er ætlað að lifa af.

Framfærslukostnaður er eitt og laun og bætur annað. Þetta tvennt ekur ekki eftir sömu vegunum.

Við getum skrifað og hrópað hátt og lengi á nútíma fjölmiðlum en ég hef ekki trú á því að bil sem er á milli þessara tveggja verði brúað með hrópum og köllum.

Gróðapungarnir eru þeir sem ráða í litla samfélaginu og þeir sleppa ekki sultar krumlunni af þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Þegar kemur að næstu kosningum opnast skúffur loforða og svangi herinn rís upp og trúir öllum fögru fyrirheitunum og gleypir þau eins og heitar lummur og smellir brosandi xinu við réttan staf!

Grái herinn gerir ekkert, eða hvað? Er hann bara máttlaust eiginhagsmuna fyrirbæri sem þykist og þykist vera að vinna fyrir alla en er kannski bara pínulítið eins og þeir sem þurfa að hafa svanga fólkið til þess að hefja sig upp á stall?

Ég veit að ég fer hrikalega í taugarnar á Hernum og mér er svo nákvæmlega sama.

Þegar þeir fara að sýna fram á að hugsjón ráði ferð og að þeir séu að vinna af öllum lífs og sálar kröftum fyrir ALLA þá skal ég með glöðu geði éta ofan í mig alla gagnrýni og taka upp endalaust hrós. Ég er nefnilega ágæt inn við beinið og kann vel að meta það sem vel er gert en ég verð æf þegar logið er að mér eða reynt að hafa mig að fífli bara af því að ég á nokkur ár í pokahorninu.

Föstudagur enn og aftur og ég sem ætlaði að segja ykkur frá því hvað það er dásamlegt að vera í sjúkraþjálfun á spítalanum í nýja heimalandinu mínu, en puttarnir létu ekki að stjórn og fóru að skammast.

Nú er ég búin að fara 15 sinnum í þjálfunina og hef kynnst mörgum nýjum á þessum dögum. Við erum eins og lítil fjölskylda, hver og einn að fást við sín líkamlegu vandamál og hamast við að ná aftur heilsunni.

Þegar ég kom út úr tjaldinu í fyrradag var hérumbil klappað fyrir mér því ég hafði ekki emjað neitt að ráði þegar NUNO hamaðist við að koma lífi í öxlina og handlegginn. Venjulega rek ég upp stríðsöskur þegar sársaukinn verður óþolandi en nú er NUNO búin að læra á mig. Þegar ég byrja að þoka mér út af bekknum og lappirnar, eða önnur þeirra, hangir hérumbil niður á gólf, hættir hann að kvelja mig og veit að nú er nóg komið.

Þegar ég er að gera æfingarnar mínar er betra að forða sér. Handleggirnir á mér eru óvenju langir og herbergið sem er fyrir sjúkraþjálfunina ekkert ógurlega stórt. Auðvitað reyni ég að berja engann þegar armurinn sveiflast léttilega fram og aftur en stundum liggur við slysi. Allt gengur þetta þó með aðlögun og nú búum við öll í friði og sátt og langi útlendingurinn hefur verið tekinn fullkomlega inn í hópinn. Það er þó vert að geta þess að hreyfingin sem líkist því að ég sé að hræra í súpu vekur minnstan ótta hjá hinum nýju vinum mínum!

Batinn gengur hægt og rólega en á hverjum degi lítið spor fram á við er það sem stefnt er að. Stundum eru stökk og stundum lítil skref en alltaf fram á við.

Væri það ekki dásamlegt ef íslensk stjórnmál dyttu í svona farveg þar sem allir skiptu jafn miklu máli og öll orkan færi í að bæta líðan hvers og eins?

 

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


Hvar var fundur um lögsókn vegna eftirlauna?

8.febrúar 2017

Grái herinn hefur verið mér hugleikinn hér á blogginu mínu og kemur ekki til af góðu því miður.

Ég hef orðið fyrir hverjum vonbrigðunum á fætur öðrum með þennan blessaða her og styrkist enn betur í trú minni á að hér sé um samkomu að ræða sem hefur eitt stefnumál á sinni könnu af því að það kemur þeim vel og ætlar að beita fyrir sig hópi fólks sem er komið á eftirlauna aldur.

Mér finnst svona framkoma jafn viðurstyggileg og framkoma alþingismanna sem lofa öllu fögru fyrir kosningar og veikjast svo af Alzheimer um leið og þeir setjast á þing og halda því fram að loforð hafi nú eiginlega ekki verið loforð heldur bara svona umræða eða þannig!

Svei mér þá!

Í dag er miðvikudagur 8 febrúar árið 2017.

Á mánudaginn var, þann 6. febrúar átti að vera fundur hjá Gráa hernum þar sem rætt skyldi um hugmyndir að málsókn vegna meðferðar eftirlauna. Þessar upplýsingar eru samkvæmt blaðaviðtali við talsmann Gráa hersins í Morgunblaðinu nokkrum dögum áður.

Nú spyr ég:

Hvar var þessi fundur?

Hverjum var boðið á þennan fund?

Hvernig var boðað til fundarins?

Hvar var fundurinn auglýstur?

Ég fór fyrir stundu inn á facebook síðu Grá hersins og get ekki séð neitt af þessum upplýsingum þar.

Spurt var í kommentum á síðu hersins um fundinn en ekkert svar barst.

Mér sýnist það vera stefna þeirra sem eru í forsvari fyrir þennan ágæta her að svara ekki kommentum og gefa sem allra minnstar upplýsingar til þeirra rétt rúmlega 7 þúsund einstaklinga sem hafa sett like á síðuna.

Efni sem birt hefur verið þessa viku snýr að brennivíni og því sem virðist vera hjartans mál hersins: að halda áfram að vinna fram í rauðan dauðann. Ekkert hefur verið birt um væntanlega málssókn eða fund þann sem halda átti á mánudaginn var.

Nú er ég ekkert sérstaklega að skipta mér af því hvort fólk vinni eftir 67 ára eða ekki og ég er heldur ekkert að rífa mig yfir því að brennivínsfrumvarp tröllríði öllu þessa dagana til þess að drepa á dreif umræðum um Panamaprinsa og skattaskjól og lítils virðingu sem forsætisráðherra sýnir bæði þingi og þjóð með því að mæta ekki fyrir nefndir og standa fyrir sínu máli.

Ég er hins vegar alvarlega þenkjandi yfir því að reyna að finna út hvað GRÁI HERINN er?

Fyrir hverja er hann? Það er allavega ljóst að hann er ekki fyrir alla, og kannski bara fyrir örfáa.

Hvað ætla þessir örfáu sé með þennan her?

Hver er tilgangurinn?

Er verið að upphefja fáa einstaklinga innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni?

Ég spyr því mér finnst þetta ekki liggja ljóst fyrir og get ekki annað en látið málið koma mér við þar sem ég er eftirlaunaþegi og íslenskur ríkisborgari sem hef skoðun á því ef fara á að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð mína með lögsókn án þess að ég fái að vita múkk um hvað þeir sem slá um sig í blöðunum eru í raun og veru að tala um.

Á herinn peninga til þess að fara í mál?

Hefur herinn mannskap til þess að vinna gögn málsins?

Hefur herinn einhver völd eða umboð til þess að fara í svona mál?

Hvað er það nákvæmlega sem herinn ætlar sér að lögsækja?

Fólk sem komið er á eftirlauna aldur og er nú að komast að því hvernig hin nýju lög um Almannatryggingar virka, á fullan rétt á því að fá skýringu frá hinum margumtalaða her.

Það er bráðnauðsynlegt að þessi hópur þjóðfélagsins hafi málssvara sem tekur á málum þess af heilindum og festu og að forðast sé allt lýðskrum og yfirlýsingar sem lítill fótur er fyrir. Upplýsingaflæði frá málsvörum þessa hóps er algjört skilyrði fyrir því að hægt sé að taka mark á þeim sem gefa sig út fyrir að vera að berjast fyrir einhverju ákveðnu máli.

Ákvarðanir sem eru jafn afdrifaríkar og málsókn á að bera á borð fyrir þennan aldurshóp en ekki að vera að pukrast einhvers staðar úti í horni í hópi nokkurra (sjálfskipaðra) útvaldra sem ætla svo að berja sér á brjóst fyrir góðmennskuna!

Hulda Björnsdóttir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband