4.3.2017 | 14:26
Kjarkur til að láta drauma sína rætast!
4.mars 2017
Við eigum okkur líklega öll einhverja drauma og væri dásamlegt ef þeir rættust.
Sumir vilja bara vera eins og alltaf áður og aðrir eru haldnir útþrá og langar til að víkka sjóndeildarhringinn.
Sumir vilja búa á sama stað og í sama landi til þess að þurfa ekki að rugga bátnum en undir niðri eru draumar sem kannski væri hægt að láta rætast ef kjarkurinn væri meiri.
Það þarf hugrekki til þess að rífa sig upp með rótum og fara út í eitthvað allt annað og læra um lífið upp á nýtt.
Þeir sem þora að gera þetta eru líklega hetjur í augum þeirra sem ekki vilja fara upp úr hjólfarinu.
Þeir sem kjósa að halda sínu striki óbreyttu eru líka hetjur.
Ég hef nokkuð velt því fyrir mér undanfarið hvers vegna svo fáir eftirlaunaþegar og öryrkjar láta í sér heyra og segja frá bágum kjörum sínum.
Ef til vill er það vegna hinna ótrúlegu fordóma sem ríkja í þjóðfélaginu eða þá að þetta fólk vilji ekki þurfa að taka á móti alls konar ummælum sem oft á tíðum geta verið særandi.
Ég ákvað mjög ung að skoða heiminn þegar ég yrði fullorðin og væri orðin sjálfs míns herra.
Ég ákvað líka að ég vildi ekki verða gömul á Íslandi. Sú ákvörðun hafði ekkert með aðbúnað á elliheimilum að gera. Hún var byggð á því bótakerfi sem gildir á landinu og gerir venjulegu fólki sem ekki á mikið undir sér erfitt að lifa þokkalegu lífi.
Þegar mér verður hugsað til vina minna í Kína og nemenda og fjölskyldna þeirra þá verð ég svolítið angurvær. Ég þurfti að fara frá landi sem mér þótti og þykir mjög vænt um vegna stjórnvalda og tregðu þeirra til þess að veita útlendingum varanlegt landvistarleyfi.
Ég kenndi í nokkur ár talaða ensku og skapandi skrif ásamt dansi. Þetta var ofboðslega lærdómsríkt og skemmtilegt. Mest af tímanum var ég kennari við háskóla en dvaldi 6 mánuði fjarri heimili mínu í annarri borg og kenndi nemendum frá 10 ára upp í 18 ár. Á þessum sex mánuðum lærði ég margt nýtt. Ég bjó með kínversku kennurunum og kynntist þeirra aðstæðum vel. Það væri hægt að skrifa heila bók um aðstæður kennaranna og ekki síður um krakkana og unglingana og geri ég það kannski einhvern tíman.
Þegar ég flutti frá Kína til Portúgal hafði ég með mér rúmlega 1000 bréf frá nemendum mínum. Hefðin er einfaldlega sú að líki nemanda við kennarann þá eru ævarandi tengsl.
Nemendur mínir eru ekki með Facebook, að örfáum undantekningum skildum, þeir eru heldur ekki mikið með Skype en nokkrir þó.
Í hvert sinn sem ég opna Skypið mitt ef það er ekki að nóttu til í Kína er einhver sem hefur samband, stundum nemendur sem hafa aðgang að því og stundum samkennarar mínir.
Þegar ég hef náð heilsu, vonandi seinna á þessu ári, fer ég til baka og verð í 3 mánuði við kennslu. Mér hefur verið boðið að koma og er það ekki smá heiður.
Þjálfun nemenda minna, og oft á tíðum annarra, í ræðukeppnum var ákaflega gefandi og skemmtilegt, ekki síst fyrir það að mínir keppendur fengu alltaf fyrsta sæti og umsögn sem var ekki til þess að hafa á móti.
Ég lét drauma mína rætast og fór út í heim.
Ég fer aldrei aftur til Íslands. Ég á núna heima í Portúgal og þar verður heimili mitt þar til ég ákveð annað og tek mig aftur upp. Kannski verður næsta heimili mitt á himnum, ég hef engar áætlanir í bili aðrar en að ná heilsu og snúa til baka til vina minna í Kína og njóta þeirra í nokkra mánuði.
Þeir sem sitja hlakkandi yfir því að ég hafi komið til baka til klakans geta etið það sem úti frýs og hlakkað yfir ómerkileg heitum sínum og andstyggilegum skilaboðum.
Eftir að ég fór að skrifa og láta bera meira á mér en áður hafa mér borist viðbjóðsleg skilaboð sem ég tek lítið mark á og vorkenni því vesalings fólki sem leggst niður í svaðið við að sverta þá sem hafa þor og kjark til þess að gera eitthvað annað en þeir.
Lágkúran er auðvitað sú að þurfa að senda svona athugasemdir í einkaskilaboðum til þess að aðrir sjái ekki og viti hve viðkomandi er þurfandi fyrir vorkunnsemi og meðaumkun, sem er líklega það sama.
Þegar ég velti fyrir hvers vegna þeir sem við þyrftum svo sannarlega að heyra frá, þeir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar, og ég hugsa um allan skítinn sem ég hef fengið á mig, þá skil ég hvers vegna þeir sitja hljóðir.
Það þarf breið bök til þess að þola oft og tíðum nútíma samskiptahætti.
Hins vegar og til að vega upp óþverrann þá hef ég fengið ótal falleg skilaboð og þau hafa borið mig uppi og hvatt mig til þess að halda áfram að gera það sem ég er að gera.
Fallegu skilaboðin lýsa upp dagana og get ég líklega aldrei fullþakkað þau. Ég vona þó að þeir sem ég er að tala um viti hvað vinátta þeirra og stuðningur er mér mikils virði.
Ég vildi óska að allir gætu látið drauma sína rætast og kannski verður það þannig einn góðan veðurdag í framtíðinni.
Þangað til held ég áfram að styrkja mína drauma og leyfa þeim að rætast svo til fyrirhafnarlaust.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2017 | 12:02
Þvílíkur dagur!
3.mars 2017
Þvílíkur dagur!
Stundum heldur fólk að í suður Evrópu sé alltaf heitt og notalegt og engin stökk í veðrinu.
Hér kemur dagurinn minn í dag með logni og tilbreytingarleysi veðurfarsins.
Á fætur klukkan hálf sjö til þess að fara í blóðrannsókn á spítalanum. Helli rigning, gatan eins og stórfljót en hallar sem betur fer og ekki hefur safnast í beygjuna enn svo ég slepp.
Kom til Coimbra og lagði bílnum 20 mínútna gang frá spítalanum. Góður göngutúr.
Náði mér í númer og fór upp á hæðina, hrikalega margar tröppu, 29 stykki. 69 manns á undan mér!
Opnaði bakpokann, gleymdi pappírunum heima! Hálfviti gat ég verið.
Labbaði aftur að bílnum orðin glorhungruð fastandi síðan í gærkvöld og rennandi blaut í rigningunni að auki. Ók til baka, stökk upp 39 tröppur heima og sótti pappírstuskurnar. Aftur út í bíl og á spítalann.
Tók númer og var nú númer 192. 52 á undan mér!
Þegar ég tékkaði mig inn sagði ég konunni hvað hefði gerst og hún tjáði mér með yndislegu brosi að ég hefði ekki þurft að fara heim og sækja pappírana. Ég þurfti bara að framvísa græna sjúkrahúsa kortinu mínu því allt er skráð í tölvuna. Ég er stundum ekki hægt.
Biðin var ekki nema hálfur annar klukkutími og hungrið og þorstinn verulega farinn að sverfa að en þetta reddaðist.
Stelpurnar tóku nokkur glös af dýrmætu blóði mínu og fengu miðbunu í glasi líka, frá því ég vaknaði fyrir löngu síðan.
Fékk mér hádegisverð og strákarnir á tölvuverkstæðinu hringdu. Tölvan mín, sú sem ég keypti í gær og hef ekki hugmynd um hvernig á að nota, var tilbúin. Þeir búnir að setja allt upp og biðu bara eftir mér.
Eftir að tölvan var komin í bílinn ásamt rauðum hrikalega flottum topp til þess að ver í utan yfir fallegu bláu peysunni minni lagði ég af stað heim. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig þessi toppur náði að plata mig til þess að fjárfesta í sér, kannski varð glimmerið á honum, því ég hafði ákveðið að ekkert nýtt fatakyns kæmi inn á mitt heimili þennan mánuðinn.
Á leiðinni heim var rigning, sól, haglél, sól aftur og enn meiri rigning og þrumur. Bara svona íslensk veðrátta!
Stoppaði þegar ég var komin í bæinn minn og borgaði gasið fyrir síðasta mánuð, nokkur hundruð evrur en hlýtt hjá mér svo ég kvarta ekki.
Fyrir nokkrum vikum bað ég um að leki frá sturtuklefanum mínum yrði athugaður og maðurinn átti að koma strax og í seinasta lagi á morgun. Morgun kom áðan. Það er sko annað tímaskyn í svona heitum löndum og á morgun er bara framtíðin.
Ljótt í efni með sturtuna. Þarf að tala allt gumsið upp því pípan er brotin. Eigandinn hringir og lætur mig vita hvenær hægt verður að laga fíneríið. Ætli ég fari ekki bara í sturtu í sundlauginni, hún er í 2ja mínútna gang frá mér.
Hitti kallinn á neðri hæðinni þegar ég kom heim og reifst yfir því að hann hefði bakkað á bílinn minn.
H, nei, hann kannaðist ekki við neitt. Hálfviti!
Nú er komið kvöld og orðið dimmt, ég ætla að fara snemma að sofa og á morgun læri ég á nýju litlu tölvuna mína og ef ekki þá tek ég hana bara með mér í söngtíma á sunnudaginn. Kennarinn minn kann á svona lítil grey.
Já vel á minnst, hitastigið á ferðalagi mínu í dag komst hæst í 6 stig.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2017 | 15:34
Karlaríkið Portúgal !
1.mars 2017
Þá er mars mættur með kulda og rigningu hér í mínum heimabæ og útlitið ekki til þess að hrópa húrra fyrir.
Margir rigningardagar í vændum, sem við þurfum vegna vatnsbúskaparins, en lítt spennandi til gönguferða.
Í morgun fann ég nýja gönguleið fyrir mig áður en ég fer í sjúkraþjálfunina. Sú gamla var gengin sér til húðar vegna risa stórra svartra grimmra hunda sem geltu og urruðu þegar ég gekk framhjá og reyndu hvað þeir gátu til þess að komast út fyrir hliðið. Hefðu þeir sloppið væri ég áreiðanlega ekki að skrifa þetta núna.
Nýja gönguleiðin er öðruvísi. Engir hundar. Jú, ég sá einn en hann var voða meinlaus að sjá og greinilega á leið að hitta kærustuna í morgunsárið.
Hundaskítur um allar gangstéttir. Maður er nú ekki að hafa fyrir því að bera með sér poka og hirða upp eftir dýrið. Nei, ekki aldeilis. Þessi óhirða gerir það að verkum að nauðsynlegt er að horfa niður fyrir sig svo maður renni ekki í skítnum.
Ógeðslegt.
Nokkrir skólar urðu á vegi mínum! Þeir voru ekki gangandi en stóðu sína vakt við götuna innan í húsum sem litu bara þokkalega út, hrein og ekki æpandi hvít aðeins litur á veggjunum, líklega bace, ef það er íslenska!
Þar sem skólarnir voru var fullt af unglingum á vappi, líklega á leið í tíma eða úr og sumir biðu eftir strætó.
Gangstéttir eru ekki breiðar í þessu ágæta landi og þegar þrjár ungar dömur vel í holdum standa hlið við hlið þversum á stéttinni er eiginlega ekki hægt að komast framhjá þeim, eða þannig. Þetta minnti mig á hvers vegna ég sá mjög fljótt eftir að ég flutti hingað að ég vildi ekki vera kennari hérna.
Portúgalskir unglingar eru ókurteisir með eindæmum!
Þeir eru dálítið eins og karlarnir hérna í þessu karlaveldi.
Tungumálið ber þessari karllægu tilhneigingu skýran vott.
Ef það er hópur 800 manna og kvenna þar sem 799 konur eru og einn karl þá verður hópurinn karlkyns!
Þegar karlar koma t.d. inn í sjúkraþjálfunina taka þeir í hendi allra karlanna og virða ekki kvenfólkið frekar en það væri ekki til.
Ég varð vitni að þessu í síðustu viku þar sem karlþjálfari stóð við hlið kvenþjálfara og inn kom viðskiptavinur. Hann tók þétt í hendi karlsins og leit ekki á stúlkuna. Ég læt þetta fara í mínar fínu taugar og finnst svona hroki viðbjóðslegur en hann er partur af menningunni svo ég held mér oftast saman en þarna gat ég ekki annað en haft orð á því sem gerðist.
Eftir þetta neyðist sjúklingurinn til þess að taka í útrétta hönd mína þegar ég mæti og heilsa mér eins og jafningja!
Þegar unglingar taka alla gangstéttina stend ég einfaldlega og býð þar til bil opnast svo ég komist leiðar minnar. Hér í heimabæ mínum þorir enginn lengur að loka leið minni og er ég beðin margsinnis afsökunar ef svo illa vill til að krakkarnir koma ekki auga á mig fyrr en ég hef numið staðar.
Ég hef ekki æpt á neinn hérna, ég bara stend og bíð og ungviðið veit hvað það þýðir. Kellan þarf að komast heim til sín!!
Konur eru á kaffistofum á morgnana en karla eftir hádegi og á kvöldin.
Konur drekka kaffi og borða sætar kökur en karlar drekka bjór og aka svo í burtu á drossíunum sínum. Akstur undir áhrifum áfengis er algengur hér og stundum fer löggan í lögguleik og stoppar alla og græðir fullt af peningum. Mjög flott ef það vantar fé í kassann til þess að gera eitthvað skemmtilegt.
Sætu kökurnar hér eru í morgunmat hádegismat eftirmiðdags kaffi og kvöldkaffi. Engin furða að menn safni framan á sig spiki og aldrei á ævinni hef ég séð eins marga ólétta karla, komna líklega 8 mánuði á leið, og hér í landi. Þetta er með eindæmum einkennilegt en venst og nú er ég eiginlega hætt að taka eftir bumbunum, þ.e. á köllunum en hún er afleiðing mikillar bjór- og víndrykkju.
Í morgun sá ég líka eitt sem var óvenjulegt. Krakkarnir sem voru á leið úr skólanum eða í, og voru nokkur saman, höfðu ekki símana uppi. Þau voru niðursokkin í að TALA SAMAN. Dásamlegt og ég fyrirgaf strákagreyjunum fyrir að láta mig stíga út fyrir gangstéttina svo þeir kæmust áfram.
Þeir voru jú æðri stéttin og ég bara kona sem bar að virða hið háa kyn í hvítum níðþröngum buxum í rigningunni. Ætli Lillanum þeirra líði ekki illa svona rígnegldum niður?
Annað sem ég tók eftir í morgun er hið gríðar stóra nef sem einkennir karlpeninginn hér í landi. Þeir gætu allir sem einn leikið sællega jólasveina með nefinu.
Á morgun fer ég aftur á sömu gönguslóðir og tek kannski einhverjar myndir, en í dag var ég svo upptekin við að virða fyrir mér mannlífið og hundaskítinn að engar myndir komu með til baka.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2017 | 13:03
Er hægt að bulla út í eitt?
28.febrúar 2017
Ég er eiginlega alveg orðlaus yfir endalausu bulli sem vellur út á Facebook daginn út og daginn inn.
Auðvitað er margt gott sem kemur þar fram og ég vildi ekki fyrir nokkurn mun missa vini mína þaðan en bullið og endaleysan skyggir á gleði mína.
Nú rís hátt umræðan um ranga lagasetningu og allt eiginlega að verða vitlaust.
ASÍ kemur með fullyrðingar í útvarp.
Grái herinn hamast við að senda út tengil á Alþingisumræður.
Formaður velferðarnefndar kemur með skýringu í fjölmiðlum.
Ég gæti talið eitthvað fleira upp en þetta er nóg.
Ég horfði á umræðuna á þingi þar sem fjallað var um breytinguna.
Ég hlustaði líka.
Svo settist ég yfir greiðslu til mín frá TR í janúar.
Síðan lagðist ég yfir lögin og breytingarnar.
Ég var komin í rusl og skildi hvorki upp né niður því umræðan gekk ekki upp.
Til þess að fara nú ekki að ybba mig án þess að hafa rétt fyrir mér hafði ég samband við vin sem veit hvað hann er að segja og spurði hann hvort ég væri að miskilja þetta allt saman.
Hann staðfesti að ég væri ekki búin að missa skilninginn, ég væri að tækla þetta rétt og enginn þyrfti að endurgreiða neitt því ekkert hefði verið ofgreitt.
Reyndi ég nú að hugga þá sem ég þekkti og voru að missa svefn af áhyggjum yfir fjárhagi sínum.
Ég hefði alveg getað látið vera að segja eitt eða neitt.
Nú er umræðan eiginlega enn hlaðnari en áður og menn farnir að tala um lögleysu þess að breyta lögum afturvirkt og stjórnarskrá og guð má vita hvað.
Nú er hrópað á lögsókn en sem betur fer kemur formaður félags eldri borgara fram og segir að félagið ætli ekki mál. Hann er lögfræðingur og veit hvað hann er að tala um. Hlustar einhver á hann? Vonandi þeir sem hafa eitthvað undir sér!
Halda þessir ágætu menn og konur sem hæst hrópa núna að þetta sé í fyrsta sinn sem svona vitleysur verða á lagasetningu hins háa alþingis?
Virkilega!
Hvers vegna haldið þið að breytingar á lögum séu svona algengar?
Þingmenn skilja ekki og fá ekki tíma til þess að fara ofan í saumana á nýjum lögum og það var frábært að sjá Formann velferðarnefndar segja að vinnubrögðin þurfi að breytast og hún hafi ekki skilið málið fyrr en það var útskýrt fyrir henni! Loksins einhver sem þorir að viðurkenna óþolandi vinnubrögð.
Þeir sem ruku upp og stigu fram fyrir skjöldu í útvarpi og á fleiri stöðum og gerðu lífeyrisþega svefnlausa af áhyggjum eiga nú að biðja þjóðina afsökunar. ASÍ fer þar fremst í flokki.
Ég ætla ekkert að segja um herinn gráa að þessu sinni, nenni ekki að móðga þá eina ferðina enn.
Nenni heldur ekki að segja meira um forseta ASÍ sem sýndi af sér ótrúlega óþolandi fáfræði.
Ég sit bara hérna og ríf hár mitt og bið þess að ég verði ekki alveg sköllótt af bröltinu.
Við sem minna megum okkar látum í okkur heyra og skiptir ekki nokkru máli þó einhverjir reyni að þagga skynsemisraddir okkar.
Við erum hér, við verðum hér og við höfum alltaf verið hér. Það hefur bara ekki heyrst mikið í okkur og þeir sem halda að þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu séu einhverjir aumingjar ættu að skoða hug sinn.
Við erum hópur sem á ekki málsvara sem stendur upp og berst fyrir bættum kjörum ALLRA.
Við sem minna megum okkar erum sterkasta fólkið í samfélaginu. Við höfum lifað af og nú erum við að rísa upp.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2017 | 19:11
Mikið varð ég hissa !
27.febrúar 2017
Ég hef eins lengi og ég man eftir mér haft brennandi áhuga á málum eldri borgara og öryrkja og yfirleitt þeim sem hafa á einhvern hátt orðið undir í þjóðfélaginu.
Nú er ég ekki að segja að allir eldri borgarar hafi það slæmt.
Sem betur fer er líklega meirihluti þessa hóps vel settur því lögfræðingar, prestar, læknar, alþingismenn og ráðherrar ásamt mörgum öðrum stéttum hafa góð eftirlaun.
Það eru mál hópsins sem býr við lakari kjör sem brenna á mér.
Stundum er ég svo ótrúlega einföld og held að allir hafi þennan áhuga!
Ég var að tala við vinkonu mína á Íslandi og bað hana að setja LIKE við nýju síðuna "Milli lífs og dauða". Hún skoðaði málið og sagði að þessi síða væri fyrir öryrkja og eftirlaunaþega og hún væri hvorugt og þar af leiðandi ekki líklegt að ég fengi hennar LIKE.
Mér þykir óskaplega vænt um þessa vinkonu mína og er alls ekki að halla á hana á neinn hátt með því að tala um þetta.
Hún vakti mig hins vegar upp af værum draumi og ég fattaði að sumir, og líklega margir hafa engan áhuga á þessum málum.
Stundum horfum við ekki út fyrir kassann okkar og það að veikjast og verða kannski öryrki er ekki inni í myndinni. Það kemur ekki fyrir okkur!
Á meðan við erum innan við 60 ára, að minnsta kosti, erum við ekkert að velta fyrir okkur eftirlaunum. Við erum á fullu að njóta þess að vera í vinnu og þar er öll okkar hugsun.
Við spáum ekkert sérstaklega í ættingja eða vini sem hafa það ef til vill ekkert sérlega gott eftir að þeir hætta að vinna og þurfa að lifa af því sem Lífeyris sparnaður og Almannatryggingakerfi býður þeim.
Þetta er allt fyrir utan kassann okkar.
Málið er ekki flóknara en það að þeir sem skrimta af því sem þeim er skammtað hafa oft á tíðum, og líklega í flestum tilfellum, ekki kjark til þess að opna munninn og láta í sér heyra. Þeir hafa hvorki þrek eða kjark til þess að standa í baráttu fyrir bættum kjörum og þess vegna er svo mikilvægt að allir í þjóðfélaginu láti sig þessi mál varða.
Ég vona að það sé að verða hugarfars breyting í þjóðfélaginu og að fólk fari að rísa upp til varnar ættingjum og vinum eða bara meðbræðrum sínum og halda á lofti þörfinni fyrir að í velferðarþjóðfélagi eins Ísland er eigi enginn að þurfa að líða skort.
Langflestir eftirlaunaþegar hafa safnað til efri áranna með því að borga í lífeyrissjóði og þeir eiga að fá að njóta þess sparnaðar án íhlutunar ríkisins.
Það er svo ótrúlegt og varla hægt að trúa því að ríkið noti sparnað launamanna til þess að niðurgreiða almannatryggingakerfið en þannig er það.
Vonandi rís upp öflugur hópur til varnar þessum meðbræðrum okkar og lætur ekki undan fyrr en allir eiga fyrir mat og húsnæði og venjulegum nauðsynjum til þess að lifa en ekki bara til þess að rétt skrimta.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2017 | 11:55
Þeir sem minna mega sín!
25.febrúar 2017
Orðasambandið "þeir sem minna mega sín" fer fyrir brjóstið á sumum og þykir niðrandi.
Ef ég tala til dæmis um hluta öryrkja og eftirlaunaþega sem fólk sem minna má sín í þjóðfélaginu rísa upp mótmælaöldur og fólk segir að eftirlaunaþegar séu ekki þeir sem minna mega sín.
Formaður FEB talaði um að gæta þyrfti hagsmuna þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og á hann þá líklega við bótaþega.
Mér finnst þetta vel mælt hjá formanni sem er að taka við félagi sem hefur oft á tíðum virst helst vera að berjast fyrir því að fólk geti unnið á hinum frjálsa vinnumarkaði fram í rauðann dauðann.
Formaðurinn er ekki einn af þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Hann er vel menntaður þekktur íþróttakappi ásamt fyrrverandi stjórnmálamanni og lögfræðingur held ég.
Þrátt fyrir að vera á meðal þeirra betur settu í þjóðfélaginu er hann að reyna að skilja vanda þeirra sem eru ekki í hans sporum og vill bæta kjör þeirra sem mega sín minna en hann.
Mér finnst þetta virðingarvert og vonandi tekst ekki að snúa honum af sporinu.
Þegar fólk kemst á eftirlaunaaldur á það að eiga val. Annað hvort heldur það áfram að vinna eða það breytir um lífsstíl og fer að gera eitthvað allt annað. Margir hafa beðið eftir þessum árum til þess að geta sinnt öðrum áhugamálum en launaðri vinnu.
Þetta hefur ekkert með það að gera að ríkið hefur sölsað undir sig part af sparnaði þeirra sem fylgt hafa lögum og safnað til efri áranna í Lífeyrissjóði ásamt því að greiða skatta til þjóðfélagsins og þar af leiðandi eiga rétt á bótum frá Almannatryggingakerfinu án þess að þær bætur séu niðurgreiddar með sparnaði í lögbundið lífeyriskerfi. Þessi aðferð ríkisins er til háborinnar skammar og hefur viðgengist í áratugi og á auðvitað ekki að fá að halda áfram.
Þegar hins vegar er verið að tala um leiðréttingu áratugi aftur í tímann vandast málið. Þá er verið að tala um ofboðslegar fjárhæðir sem settu líklega ríkustu ættir landsins á höfuðið og það má ekki gerast!
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2017 | 12:47
Þingmenn bulla og bulla og bulla!
25.febrúar 2017
Ég lagði það á mig í gær að hlusta á umræður um breytingar á lögum um almannatryggingar.
Ég segi, lagði það á mig, því það er algjör kvöl og pína að hlusta á blessaða drengina og stúlkurnar blaðra og blaðra og blaðra um eiginlega ekki neitt.
Hvar eru góðu ræðumennirnir sem við áttum hér á árum áður?
Það skipti oft á tíðum engum máli hvort maður var sammála þeim eða ekki, þeir töluðu fallegt kjarngott tungumál og voru með þingmálið sem fjallað var um á tæru. Hvar eru nútíma ræðusnillingar? Eru þeir ekki á alþingi? Það er nú borið í bakkafullan lækinn þegar ég fer að hugsa að BB sé kannski með þeim skárri að hlusta á þó ég sé ósammála svo til öllu sem kemur út úr munni hans.
Hvar er þekking þeirra þingmanna sem eru að tjá sig um mál?
Þetta umrædda frumvarp sem var samþykkt í flýti fyrir síðustu áramót svo þingmenn gætu komist í jólafrí var svo á endanum slegið vitlaust inn og nú þarf að breyta lögunum! Dæmigert.
Þvílíkt bull og vitleysa.
Þegar ég hlustaði á umræðurnar í gær var af miklum ákafa spurt um kostnaðarauka og stjórnsýslulög og líklega eitthvað fleira en ég bara gat ekki lagt það á mig að hlusta til enda.
Guð minn góður, þetta breytti engu um kostnað. Tryggingastofnun greiddi út frá áramótum samkvæmt því sem frumvarpið hafði gert ráð fyrir en ekki eftir vitlausum innslætti.
Það á enginn neitt inni hjá stofnuninni og það verður enginn krafinn um endurgreiðslu.
Húrra, þetta er semsagt allt eins og á að vera og þingheimur getur sofið rólega og þarf ekki að velta sér upp úr milljarða kostnaðarauka vegna öryrkja og ellilífeyrisþega.
Það vekur hins vegar upp alvarlega spurningu þegar hlustað er á svona umræðu hvernig vinnubrögðin eru á alþingi Íslendinga.
Hvað mundi gerast ef útboðsgögn væru vitlaust slegin inn og til dæmis skrúfu stærð á hitalögnum væri röng?
Tek þetta dæmi vegna þess að ég þekki til þess hvernig útboðsgögn eru slegin inn og marglesin yfir til þess að allt sé rétt.
Alþingi er að flýta sér svo mikið og þingmenn svo æstir í að þurfa að vinna sem allra minnst fyrir kaupinu sínu, sem er auðvitað skammarlega lágt, miðað við vinnuálag, að mál sem þetta frumvarp fljóta að feigðarósi án þess að einn eða neinn depli auga og svo er eytt heilu eftirmiðdegi í bla bla bla umræðu um ekki neitt.
Líklega þarf að senda þingheim á námskeið í góðum vinnubrögðum og láta þá tala almennilega íslensku í leiðinni.
Ef þeir standast ekki próf í lok svona námskeiðs þurfa þeir að fara í endurhæfingu og sanna sig.
Sunnudagur á morgun og kannski verð ég þá aðeins búin að jafna mig á erfiðinu við að hlusta á ekki neitt í gær.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2017 | 20:45
Fallegur dagur í gulu Portúgal
24.febrúar 2017
Dagurinn í dag hefur verið einstaklega fagur hér í miðju landinu. Sólin skein í morgun og þó nóttin hafi verið köld hlýnar um hádegi.
Eins og venjulega fór ég í gönguferð áður en sjúkraþjálfarinn á spítalanum hófst handa við að koma brotnum handlegg og öxl í samt horf.
Það var reyndar útskýrt fyrir mér á góðri portúgölsku í morgun að þegar glas brotnar og það er límt saman verður það aldrei alveg eins og fyrir brot.
Auðvitað eru þetta gild rök en ég vil verða jafn góð og áður. Það er markmiðið sem stefnt er að og ekkert minna og svo er hægt að hlæja að mér þegar ég öskra af sársauka. Ég er reyndar hætt að öskra og nú anda ég bara ótt og títt og allt gengur eins og í bestu lygasögu, eða þannig.
Á morgungöngunni, sem hefst 45 mínútum áður en píningin byrjar fer ég ótroðnar slóðir þessa dagana. Spítalinn er í Covoes og í stað þess að leggja bifreiðinni við hann hef ég fundið tré í 10 mínútna fjarlægð og legg þar.
Tréð er stórt og fallegt og passar upp á drossíuna mína þar til ég kem aftur og við höldum heim. Venjan hér í landi er að leggja eins nálægt ákvörðunarstað og hægt er. Holdarfar landans ber þess líka merki.
Unaður morgunsins er eiginlega ólýsanlegur. Fuglarnir sungu symfóníu dagsins og hænurnar tóku undir. Engir hundar geltu í dag en í gær tók einn þátt í óperunni.
Þegar ég ók að heiman voru verkamenn að slá gras og hreinsa veg kanta því vorið kemur bráðum og allt ilmaði eins og í himnaríki. Ég elska lyktina af nýslegnu grasi. Hún virkar á mig svo full af lífi.
Á undan mér ók risatrukkur. Þeir eru á ferðinni á morgnana og ég lenti í morgun á milli þriggja. Best er að loka fyrir óttann og halda sig eins langt frá og hægt er þegar þessir jötnar eru á ferð en í morgun var ég innilokuð. Sá sem var fremstur gæti hæglega hafa verið að leika sér með tölvuleik. Þeir gera það stundum bílstjórarnir og þá rása þeir eins og drukkinn maður eftir veginn og ég læt mér ekki detta í hug að fara á hlið við þá eða taka fram úr. Best að vera fyrir aftan.
Það er kominn vorfiðringur í bílstjórana, ekki bara trukkana, allir eru á harða spani og í gær hélt ég að læknabíll mundi drepa mig en með lægni tókst mér að smeygja mér út af veginum. Hrikalegt og mér dettur í hug, þegar þeir bruna af stað, litlir strákar í bílaleik.
Ég hef uppgötvað nýtt hverfi á morgungöngu minni því venjulega er maður ekki að gera sér hálf tíma ferð bara til þess að labba einhvers staðar rétt hjá spítala. Hverfið sem ég geng um er ótrúlega fallegt. Stór hús og litlir garðar þar sem hænur eru í einu og gagga á morgnana eins og ég veit ekki hvað.
Gatan er löng og liggur að mestu upp í móti svo þetta er ágætis líkamsrækt. Kaffistofa er við enda götunnar og væri hægt að skella sér þar inn og fá sér sæta köku og kaffi, morgunmatur portúgala er svona, en ég er búin að borða svo kaffistofan verður að bíða betri tíma en ég er forvitin að vita hvernig hún lítur út að innan. Að utan er hún fín.
Þó ég sé að labba sama mínútufjölda kemst ég lengra með hverjum deginum sem líður og uppgötva eitthvað nýtt á hverjum degi. Það er risastórt nýtískulegt hús við síðustu brekkuna sem ég fór í dag og hinum megin við götuna er gult hús sem byggt er í hefðbundnum stíl en rosalega stórt. Hvað búa eiginlega margar fjölskyldur í svona húsum? hugsaði ég í morgun.
Ég veit ekkert um íbúafjöldann en á mánudaginn kemst ég að því hvað er á bak við hæðina sem ég fór hér um bil upp á í dag. Ég skildi eftir smábút bara til að sjá ekki hvað tæki við. Eftirvæntingin ber mig áfram.
Risa stór tré, með heiðgulum blómum skreyta þessa leið mína og þau ilma nú ekki dónalega. Unaður úr hverju strái. Þar sem ég er að lýsa er aðeins norðar en Penela og við höfum ekki þennan gula lit í bænum eða þorpunum í kring en þegar komið er til Podentes, eða á leiðinni þangað eru nokkur á stangli. Kannski vaxa þessi gulu frekar á norðurslóðum!
Þar sem ég er bæði lappalöng og með langa handleggi tekur vinkona mín sem er portúgölsk 2 skref á meðan ég stika eitt. Erfitt getur verið að finna stað í sjúkraherberginu þar sem ég sveifla ekki handlegg á gesti og gangandi og eins gott að vera á verði. Þetta er svo sem ekkert en að vera með svona langa útlimi er ekki gott þegar ég þarf að kaupa mér föt. Annað hvort eru þau of ermastutt eða og stór. Ekkert þar á milli.
Það er hefð hér í landi að fara til læknis og vera voða veikur. Á heilsugæslustöðvunum er keppni um hver er veikastur og geta oft spunnist líflegar umræður í vælutón um það.
Ég er að komast á þá skoðun að svona sé þetta hjá einni sem er í þjálfun á sama tíma og ég. Hún hefur komið 40 sinnum í þjálfunina og gerir mikið úr því hvað erfitt sé að klæða sig og fylgist með áhorfendum. Handleggurinn á henni er enn stífur og þegar ég spurði hana hvort ekki hefði verið athugað hvort eitthvað væri ekki eins og ætti að vera fékk ég langa lýsingu og í kaupbæti að hún hefði komið til Íslandi og maturinn á landinu væri úldinn og ógeðslegur!
Ég sveifla mínum handlegg um allar trissur, auðvitað ekki alveg eins og ég vil en kemst þó eitt skref áfram eða kannski tvö í hvert sinni og kvarta ekki. Ég þarf ekki að sækja mér athygli með því að fara í veikinda keppni! Það er alveg nægilegt að heyra mig öskra og þegar vel liggur á mér og æfingarnar eru hundleiðinlegar syng ég eins og enginn sé morgundagurinn.
Ég er reyndar voða glöð þegar mér tekst að klæða mig í peysuna eða kjólinn án þess að virðast öll skökk og skæld en það er bara fyrir mig. Þetta er allt að koma og ég neita að taka þátt í keppni sem ég vinn auðveldlega. Það er ekkert fútt í því en mikið vildi ég að aumingja konan hætti þessu væli og færi að hreyfa sig því ég þori að éta hatt minn upp á að hún getur það.
Gult Portúgal, frábær félagsskapur með læknum, því það eru 2 læknar í hópnum, annar er gamall kall og hann talar auðvitað ekki við hvern sem er en hinn er ung kona og hún er til í spjall. Skondið að báðir læknarnir eru með vandræði í fótunum! Snéru sig.
Góð helgi framundan og ég hef afrekað að skrifa blogg þar sem ekki er minnst á stjórnmál á Íslandi eða eldri borgara. Ég flýti mér að hætta núna svo ég detti ekki í vitleysuna því af nægu er að taka.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2017 | 19:39
Stoppað upp í göt á nýju frumvarpi um almannatryggingar.
23.febrúar 2017
Ég hef stundum fjargviðrast yfir því að ekki sé gefinn nægur tími á alþingi til þess að fjalla um ný lög og bað þess flestra orða að hið nýja frumvarp um Almannatryggingar yrði ekki samþykkt fyrir síðustu áramót.
Auðvitað var ekki hlustað á mig frekar en svo marga aðra sem voru á þessari skoðun.
Nú er komið í ljós, og ég get ekki að því gert að það hlakkar í mér, að stoppa þarf upp í göt sem eru á blessuðu frumvarpinu sem nú er orðið að lögum.
Ég gæti til dæmis sagt að "sá hlær best sem síðast hlær" en geri það auðvitað ekki því eins og allir vita er ég kurteis kona og geri ekki grín að forystumönnum, hvort sem þeir bera gráa kollu eða ekki!
Til þess að reyna að skilja stoppið er ég nú búin að liggja yfir lögunum og breytingunum og skil hvorki upp né niður í neinu. Auðvitað er ég ekki löglærð en það er hinn nýi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, herra Ellert. Eða er ekki svo?
Tilkynning var sett á Gráa hers Facebook síðuna um hvað var að gerast og mæli ég með því að fólk skoði hvað fór í loftið.
Sætt og einfalt eins og venjulega.
Skilaboðin: Þið getið bara lesið ykkur til vitleysingarnir ykkar og við eyðum ekki dýrmætum tíma okkar í að svara einhverjum hálfvitum eins og þessari rugluðu neikvæðu Huldu Björnsdóttur!
Eins og mig grunaði eru engar útskýringar á mannamáli frá hernum.
Hvers vegna?
Held einfaldlega að þau skilji ekki málið en vilji ekki opinbera fáfræðina. Þetta er nú ekki neikvætt, bara soldið sætt hjá mér, finnst mér.
Til þess að æsa mig ekki um of í kvöld ætla ég að láta þetta duga. Það eru bundnar vonir við nýjan formann Félags eldri borgara í Reykjavík og vonast til þess að hann kippi svona smámunum í liðinn.
Vonandi getur hann stigið út úr velmeguninni og sett sig í spor þeirra eftirlaunaþega sem óttast að smá breytingar eins þær sem nú hafa orðið á lögum geti haft afdrifaríkar afleiðingar varðandi afkomu þeirra.
Bjartsýni mín er verulega að ganga sér til húðar en ég á smá skammt eftir og ætla að nota hann til þess að safna kröftum fyrir morgundaginn. Kannski kemur eitthvað af viti frá þeim sem gefa sig út fyrir að vera með hag eldri borgara efst á kökudiskinum.
Ofboðslega getur þetta þó verið þreytandi og stundum virst alveg vonlaus barátta og ekkert annað en orð og aftur orð en engar aðgerðir.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2017 | 20:20
Heimtufrekja eða sanngirni?
22.febrúar 2017
Ég heyri ekki útvarpsumræður á Íslandi eða sé sjónvarp nema einstaka sinnum. Vegna þessa þá er ég kannski ekki mjög vel upplýst um umræðuna á landinu hvað varðar nýjan formann Félags eldri borgara í Reykjavík.
Ég vona svo sannarlega að ný stjórn í félaginu fari ekki fram úr sér og geri kröfur fyrir lítinn hóp innan þessara samtaka.
Það hefur mikið verið skrifað um að eldriborgarar eigi að hafa þetta og hitt í ráðstöfunartekjur eftir skatt. Tölur allt frá þrjúhundruð þúsund upp í fimm hundruð þúsund hef ég séð á reiki.
Síðan hefur eitthvað verið rætt um að hækka þurfi skattleysismörk.
Eitthvað fleira hefur verið í umræðunni en ég ætla aðeins að skoða þessi tvö atriði.
Þegar verið er að gera kröfur fyrir eftirlaunaþega og bætur frá Almannatryggingakerfinu þarf að hafa í huga að það eru þó nokkrar stéttir sem hafa góða lífeyrissjóði, eiga stórar eignir og alls konar fjármagnstekjur. Ég spyr mig að því hvort sanngjarnt sé að þessir hópar innan eldri borgara eigi að hafa sömu eftirlaun frá Tryggingakerfinu og þeir sem eru t.d. með innan við þrjúhundruð þúsund frá Lífeyrissjóði?Mér finnst það jafn óréttlátt og að þeir sem aldrei hafa borgað í lífeyrissjóð eigi jafnvel að fá hærri eftirlaun frá Almanna Tryggingakerfinu en þeir sem hafa alla sína æfi sparað í sjóðina.
Auðvitað þarf að sjá til þess að fólk svelti ekki þó það sé komið á eftirlauna aldur en það á ekki að hegna þeim sem hafa sparað allt sitt líf í Lífeyrissjóða kerfið. Það er alveg á hreinu í mínum huga.
Hvað er þá til ráða?
Er það líklegt til árangurs að heimta bætur upp á 500.000 á mánuði?
Ég held ekki.
Ég er þeirrar skoðunar að til þess að ná árangri þurfi kröfurnar að vera sanngjarnar en þær mega heldur ekki vera of litlar.
Núna er frítekjumark 25.000 krónur á mánuði. Heyrst hefur í umræðunni að þetta mark ætti að vera 100.000 krónur á mánuði.
Ég spyr, á hverju er þessi 100.000 króna krafa byggð? Hún er lægri en áður en nýju lögin voru sett, er það ekki?
Það er varasamt að henda svona tölum í loftið án þess að hafa hugleitt málið í botn.
Ég hef bent á að hækkuð skattleysismörk kæmu sér ef til vill betur bæði fyrir bótaþega og láglaunahópa.
Ef skattleysismörk væru hækkuð minnka tekjur ríkisins, glymur þá frá ráðamönnum.
Er það?
Ég held því fram að hefðu þessir hópar meira ráðstöfunarfé kæmi það til baka til ríkisins í meiri greiðslu á neyslusköttum. Þeir sem lepja dauðann úr skel og geta ekki keypt mat alla daga mánaðarins leggja ekki mikið til samfélagsins í neyslusköttum. Það liggur í augum uppi að ef þetta fólk hefði fleiri krónur á milli handanna yrði neyslan meiri.
Ég hef svo sem ekki haldbærar tölur til þess að rökstyðja mál mitt og veit ekki hvort ríkið kæmi út á sléttu með því að hækka staðgreiðslumörk og leyfa fólki að nota meiri peninga til daglegra þarfa en það er alla vega ljóst að ívilnunin væri ekki tómt tap fyrir ríkis kassann.
Það er nefnilega þannig að hafi fólk það sæmilegt og geti farið til læknis og haft að borða og lifað eðlilegu lífi þá sparast miklir fjármunir til dæmis í heilsugæslu.
Á greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun hef ég ekki séð talað um orlofsuppbót eða desemberuppbót það sem af er þessu ári.
Hvort það er vegna þess að ég gerðist svo djörf að vera ekki búsett á Íslandi þegar ég tók að fá eftirlaun frá kerfinu veit ég ekki. Kannski er þetta svona hjá öllum og ef svo er þá gæti ég alveg með glans látið mér detta í hug að verið sé að bíða eftir kjarasamningum á almenna markaðinum.
Þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru sett var ekki hafður einn ellilífeyrir. Nei það var svo ótrúlega sniðugt hjá ríkisstjórninni að búta lífeyrinn niður í tvennt og kalla part heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir. Þessa heimilisuppbót frá auðvitað ekki þeir sem hafa yfirgefið landið og skiptir engu máli hvort þeir búa einir eða ekki.
Ég get ekki annað en dáðst að hinum sofandi þingheimi að samþykkja þetta og finnast bara flott. Þeir fóru fram úr sér með þessu og að ég tali nú ekki um frítekjumarkið. Hvernig í veröldinni varð þessi 25.000 krónu tala til? Úr hvaða höfði spratt hún? Það eru svona skemmtilegir hlutir sem gefa lífinu auðvitað gildi og hægt að velta fyrir sér endalaust en rúsínan í pylsuendanum var þegar væntanlegir og þáverandi þingmenn töluðu um þá sem hafa unnið sér rétt til eftirlauna frá Almannatryggingakerfinu sem "fólk á sveit".
Ég held að það verði langt í að sú skoðun verði toppuð, að fólk sem hefur greitt alla sína æfi skatta og skyldur til þjóðfélagsins verði sveitaómagar við ákveðinn aldur. Þetta er auðvitað ekkert nema hlægilegt og lýsir þeirri ótrúlegu heimsku og hroka sem margir sem nú sitja á alþingi hafa í farteskinu.
Ég ætla ekkert að minnast á vinnubrögð hins háa alþingis og hvernig lögum er skellt inn og samþykkt án þess að nokkur fái tíma til þess að skoða þau og pæla í hvort hér sé um góð lög eða ekki að ræða.
Hvers vegna ætli það þurfi svo oft að setja viðbótar lög og breytingar á lögum og reglugerðir?
Mér er alveg sama þó þingmenn hafi sæmileg laun svo framarlega sem þeir sinna vinnunni sinni og mæta í vinnuna. Laun þeirra þurfa að vera nokkuð góð til þess að almennilegt fólk bjóði sig fram til þeirra starfa en þegar launin eru eins og þau eru núna er eitthvað mikið að og þó aumingja kjaradómi sé um kennt þá er heimtufrekja ríkjandi á hinu háa alþingi. Það þarf ekki annað en að hlusta á nokkrar umræður þeirra sem eru í efstu stöðunum og er óþarfi að nefna nokkur nöfn.
Hulda Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)