Bráðum fer ég í ferðalag

23.júní 2017

Góðan og blessaðan daginn

Þar sem ég nokkra vini sem fylgja mér á blogginu mínu en eru ekki á Facebook ætla ég að setja inn nokkur orð um frúna, það er mig. Sumir eru með áhyggjur og er það voða notalegt en eiginlega óþarfi. Eins og allir vita er ég orðin stór stelpa og vel fær um að bjarga mér og taka því sem að höndum ber.

Hér koma semsagt fréttirnar af þeirri heilsulausu.

Í gær fór ég í viðtal hjá Dr. Sofíu sem er læknir yfir sjúkraþjálfaradeildinni á spítalanum mínum. Hún útskrifaði mig úr sjúkraþjálfun og útskýrði fyrir mér að líklega væri ég komin á endapunkt bata. Ég vona að það sé ekki alveg rétt og lofaði að senda henni kort þegar ég gæti synt skriðsund. Það er markmiðið. Knúsaði ég svo doktorinn og dansaði út úr herberginu og faðmaði vinkonu mína úr vatnsþjálfuninni sem var næst inn í viðtal. Auðvitað skilja Portúgalarnir ekki svona hegðun en þetta er jú greinilega útlendingur svo þau fyrirgefa og taka bara undir Boa tarde frá konunni og brosa. Í afgreiðslunni knúsaði ég fleiri og Até em Octobro, því þá er næsta mót með skurðlækninum. Það var ekki leiðinlegt að ganga út í sólskinið eftir svona dag.

Beinin mín eru eins og gler og í uppskurðinum þorðu læknarnir ekki að taka neitt á, voru hræddir um að skemma meira og hættan var að handleggurinn festist í stöðu þar ég héldi utan um mig, alltaf,  svo það sem þau gerðu var að setja víra til hjálpar sem hafa nú verið fjarlægðri fyrir þó nokkru. Ómögulegt að vera með eitthvað vírarusl hringlandi fram og til baka. Ég er með nettan skurð á upphandleggnum og pjattrófan ánægð með það.

Semsagt, ástandið eins gott og það getur orðið og ég held áfram að þjálfa og fer í ræktina í júlí. Eitthvað þarf ég að gera til þess að halda grindinni saman og ekki get ég hrunið niður eins og hrúga.

Ég er með stöðuga verki en á skala frá 1 upp í 10 er það svona um það bil einn og ekkert til þess að kvarta yfir. 

Á föstudaginn í næstu viku fer ég aftur upp á spítala og fæ þá úrskurð um yfir hverju ristillinn er að væla.

Eftir að æxlin voru fjarlægð líður mér miklu betur og er nú aftur farin að geta sungið stakkado án þess að emja af verkjum!

Núna er ég að æfa Laudate dominum (Mozart), Rossignol de mes amours (Francis Lopez), La Pastorella delle alpi (Rossini) og Batti Batti (Mozart)

Batti Batti er að verða tilbúið en hin verkin eru ný. Söngkennarinn minn hefur verið upptekin og við tókum frí þar til í ágúst en ég held áfram að æfa heima. Þetta er svo ótrúlega gaman og tæknin eykst smátt og smátt, alltaf eitthvað nýtt sem auðveldar sönginn. Ég er heppin að hafa frábæran kennara sem nennir að kenna mér þó ég verði auðvitað ekki fræg í þessu lífi en eins og allir vita er ég að undirbúa mig fyrir það næsta.

Elsku vinir, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég verð auðvitað ekki eins og ný en heilsan er á uppleið og á meðan ekki líður yfir mig þarf ég ekki að fara í aðra hjartaaðgerð.

Mikið ofboðslega verður gott þegar ég hætti að þurfa að segja frá einhverjum bévaðans veikindum og get farið að trissast út um allt og segja frá ferðaævintýrum. Þetta er hinum megin við hornið. Bluebudda garðurinn er á dagskrá eftir mánaðamótin og verður gaman að segja frá þeirri ferð.

Knús til ykkar allra og þúsund kossar

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband