Hvernig þróunin hefur verið í Portúgal undanfarin 15 ár.

15.júní 2017

Fyrir nokkrum dögum sátum við, ég og portúgalskur vinur minn og pældum í breytingum sem hafa orðið í landinu undanfarin ár.

Ég hef ekki búið hérna nema rúm 6 ár en hef þó séð miklar breytingar á þessum stutta tíma.

Atvinnuleysi hefur aukist og þeir ríku orðið ríkari og þeir fátæku fátækari. Meðaltöl sýna há meðal laun og gefa kolranga mynd af hinu raunverulega ástandi.

Laun lækna hér eru 1.100 evrur á mánuði

Laun hjúkrunarfræðinga eru með alls konar aukavöktum í kringum 1.000 evrur.

Laun þeirra sem vinna í búðum, á hótelum, í veitingarekstri og fleiru slíku eru um það bil 600 evrur á mánuði.

Unga fólkið flytur í burtu og leitar eftir vinnu í öðrum löndum.

Gamlir feitir Bretar kaupa land og byggja risa hús með sundlaugum úti í skógi og hafa sem allra minnst samband við innfædda. Þeir halda hópinn og umræðan er matur, vín og skemmtanir. Hér í bænum mínum er ein fjölskylda sem hefur búið hérna yfir 20 ár. Hjónin tala ekki málið. Synirnir tala portúgölsku. Ég hitti þetta fólk um daginn og þau voru að kvarta yfir Brexit og því sem væri væntanlegt varðandi þeirra hag. Þau spurðu mig út í heilsugæslu mál mín og héldu að það væri flókið eins og hjá þeim. Ég hef reyndar aldrei skilið fyrirkomulagið og ekki sett mig inn í það en þó séð nokkrum sinnum á heilsugæslustöðinni pappírs tuðið sem Bretarnir eiga við að etja.

Ég kom ekki til Portúgal frá Íslandi og hafði fyrir löngu misst öll mín réttindi á Íslandi. Lögfræðingurinn minn sá um að koma mér inn í kerfið hérna og við fórum á heilsugæsluna og brostum. Allt gekk eins og í sögu og ég komin inn eins og hver annar Portúgali. Ég borga mína skatta hér og nýt allra þeirra réttinda sem í boði eru. Ég er semsagt bara portúgölsk en Breta greyin halda áfram að vera Bretar! Ekki vorkenni ég þeim og mér er nokk sama hvað Brexit gerir fyrir þau.

Vinur minn sagði mér frá því hvernig þetta var fyrir 15 árum í landinu. Þá fór fólk í vinnu til annarra landa, rétt eins og nú. Hins vegar kom fólkið aftur. Það byggði sér hús hérna og kom heim í sumarfríum og jólafríum og dvaldi í húsunum sínum. Margir eiga stórar eignir frá þessum tíma. Um sumarið hlúði fólkið að garðinum og naut þess að horfa á ræktunina og hlakkaði til þess að komast á eftirlaun og njóta þess sem þau voru að byggja upp.

Núna flytur unga fólkið úr landi í atvinnuleit og kemur ekki aftur. Þau setja upp heimili í nýja landinu og byggja hús þar. Þau koma sér ekki upp húsi í Portúgala. Þau koma í heimsókn í nokkra daga og fara svo aftur til nýja landsins.

Allt hefur þetta áhrif á viðskipti í Portúgal. Smá fyrirtæki sem blómstruðu yfir sumartímann og jól og áramót berjast nú í bökkum. Uppgripa tíminn er liðinn. Það eru ekki stór hús sem þarf að halda við eða stórir garðar sem líta þarf eftir. Húsin og garðarnir eru í nýja landinu. Tekjurnar skila sér ekki til gamla landsins. Eftir sitja svo þeir eldri og berjast áfram af veikum mætti.

Hvort Bretarnir halda áfram að byggja stóru húsin úti í skógi og kaupa lönd er hulið enn sem komið er. Veitingahúsin sem þeir sækja færu mörg á höfuðið ef át þeirra og drykkja hyrfi.

Hvað verður um Portúgal í framtíðinni veit enginn. Eitt er þó víst. Unga fólkið sem fer til náms eða í atvinnuleit til annarra Evrópu landa skilar sér ekki til baka. Eftir sitja hinir eldri og ríka fólkið sem kaupir nú upp lönd og jarðir fyrir lítinn pening og frægir popparar kaupa sumarhallir hingað og þangað.

Það kom blik í augu vinar míns þegar hann rifjaði upp hvernig þetta var. Þeir tímar voru uppgangstímar fyrir hann og fjölskylduna. Núna er niðursveifla og þau þakka guði fyrir hvern einasta útlending sem rekur inn nefið.  Þessi vinur minn er ekki gamall en hann er ekki á förum. Hann verður hér með fjölskyldunni og þau reyna að halda sér á floti jafnvel þó á móti blási.

Ég kom til þeirra í gær og þar voru nokkrir feitir Bretar að versla í hitanum og sólinni. Eldrauðir í framan og axlir brunnar. Ég sat á mér en mikið langaði mig til þess að segja þeim að það væri rauð aðvörun á hverjum degi vegna hættu á UV geislum. Mér kemur þetta auðvitað ekkert við og þau geta sleikt á sig rauðan lit endalaust og etið á sig skvap. Þau eru Bretar og reyndu að sökkva íslensku varðskipunum þegar ég var ung. Maður fyrirgefur nú ekki allt.

Hulda Björnsdóttir 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Komdu sæl Hulda!

Ég er ekki alveg viss en ég held að við séum komin af sama fólkinu; þeim Guðbjörgu Friðriksdóttur og Sigtryggi Helgasyni frá Kumblavík á Langanesi.  Sé þetta ekki rétt hjá mér biðst ég afsökunar en annars vil ég biðja þig að skrifa mér á: vesturholt@simnet.is

Bestu kveðjur,

              Jóhann Magnús Elíasson

Jóhann Elíasson, 15.6.2017 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband