Eldar loga í Portúgal

15.júní 2017

Í dag er frídagur hér í landi. Corpus Christi er einn af fjölmörgum trúarlegum hátíðum hér og annar er eftir nokkra daga í Porto. Feast of St John the Baptist heitir hann. Svo eru dýrlingadagur hér og dýrlingadagur þar allan ársins hring. Ég ruglast auðvitað í þessu, trúlaus manneskjan á kalþóska vísu.

Í dag er unaðslegt veður og 30 stiga hiti. Svona veðri og sumrinu öllu fylgir kvöl. Í hverjum bæ eru starfandi slökkvilið sem heita Voluntarios Bombeiros. Það eru nokkrir sem vinna allan ársins hring og eru í sjúkraflutningum með. Yfir sumartímann eru svo ráðnir menn og konur til viðbótar vegna aukins álags.

Það þykir sjálfsagt að eldar geysi öll sumur.

Fyrr í dag, fyrir 2 klukkutímum hljómaði söngur brunabílanna og þá vita allir að nú er búið að kveikja í. Það fer hrollur um mig í hvert skipti og þegar maður hefur ekið í gegnum skógarelda þá hverfur sú minning aldrei. Í dag var eldurinn ekki langt héðan en tókst að ráða niðurlögum hans fljótlega.

Hið sorglega við þetta allt saman er að hitinn er ekki sá sem kveikir í. Stundum eru það bændur og stundum brennuvargar sem njóta þess að sjá eldana í sjónvarpi og þeir upplifa frægðina, jafnvel þó þeir sjáist ekki.

Stundum nást glæpamennirnir og eru settir inn en sleppt fljótlega.

Oft látast ungu mennirnir við störf sín, landið er fjöllótt og skógi vaxið, svo tugir metra geta verið niður hlíðina sem logar.

Þetta er eitt af því sem útlendingum, ferðamönnum, finnst svo fallegt við landið. Þessir djúpu skógi vöxnu dalir. Auðvitað skilja útlendingar sem ferðast í nokkrar vikur ekki landið. Þeir hafa ekki hugmynd um eitt eða neitt. Koma bara og skoða gamlar byggingar og dásama rústir sem liggja út um allar trissur og klífa kastala sem eru allir eins. Þetta er ágætt fyrir ferðamennina sem fara sem betur fer heim aftur fljótlega og halda ekki vatni yfir fegurð Lisboa og Porto ásamt stöðunum sem þeim eru sýndir. Það er ekkert verið að fara með svona fólk á brunarústa staði þar sem trén gráta og jörðin er sviðin og allt líf tekið burtu í einni svipan.

Það versta við þetta allt saman er að liðið, ferðaliðið, ekur um á risa húsbílum og eyða ekki krónu í landinu, nema kannski bensíni. Ef þetta lið gæti nú verið á hótelum og skilað inn gjaldeyri væri málið svolítið annað.

Ég hef þurft að nýta mér þjónustu Bombeiros hérna í Penela nokkrum sinnum þegar þeir hafa flutt mig á spítala. Ég er aldrei rukkuð fyrir og ákvað að styrkja stofnunina því hún er rekin að mestum hluta fyrir gjafafé.

Gerði ég mér nú ferð og hitti vini mína hjá Bombeiros og spurði hvað væri venja að leggja fram.

10 evrur sögðu þau.

Ha, 10 evrur á mánuði? spurði ég

Nei, á ári, var svarið.

Ég missti andlitið niður á bringu

Þetta er Portúgal, sögðu þau mér.

Ég var með 80 evrur í veskinu og rétti þeim þær. Ég skil ekki hvernig fólk getur stært sig af því að styrkja fyrirtækið með 10 evrum á ári. Það er ekkert. Fólkið leggur líf og limi í hættu og er alltaf til taks ef við þurfum á sjúkrabíl að halda. Þau keyra þá sem eru í dagvistun og svona gæti ég haldið áfram.

Ég spurði hvernig þetta væri með útlendingana, hvort þeir legðu ekki meira af mörkum. Nei.

Andskotans nískupúkar þessir útlendingar í stóru húsunum. Þeir væla þegar kviknar í nálægt þeim. Þeir eyða fúlgum í vín og mat og svo tíma þeir ekki að láta af hendi rakna almennilegt framlag einu sinni á ári til okkar ástsælu Bombeiros sem eru alltaf á vaktinni. Nei þeir halda basara og alls konar samkomur til þess að styrkja hundasamfélag. Hundasamfélag, hah.

Ég ætla í næsta mánuði að fara aftur til Bombeiros og hafa með mér nokkrar evrur. Það fara í hönd hrikalegir mánuðir og eldarnir byrjuðu að loga hér í nágrenni í dag. Fólk heldur áfram að þurfa sjúkrabíla, bæði ég og aðrir. Ég get lagt þeim lið og þeir eiga það skilið.

Það er óttalega andstyggilegt ýmislegt sem ég verð vitni að og mikið er ég fegin að vera ekki í útlendinga samfélaginu hérna. Líklega er ég portúgalskari en margur Portúgalinn þegar á heildina er litið, eða þannig. Verst hvað ég er eitthvað litið kaþólsk.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband