Forsetinn átti að skrifa undir !

9.júní 2017

Nú er hávær umræða og krafa um að forsetinn eigi ekki að skrifa undir ákveðin lög.

Fólk bregst ókvæða við og finnst hann hafa brugðist með því að skrifa undir ósómann.

Í öllum látunum gleymist að pappírinn fór í gengum alþingi Íslendinga og þingheimur samþykkti gjörninginn.

Það er ódýrt að hamast á forseta. Hann tók sér tíma til þess að skoða málið og byggði ákvörðun sína á þeim upplýsingum sem hann fékk.

Þeir sem nú djöflast og skammast í forsetanum mættu kannski aðeins staldra við og hugsa málið til enda.

Við höfum alþingi og þar sitja 63 hálaunaðir þingmenn sem hafa valdið. Þessir 63 tóku ákvörðun og þeir verða að kyngja henni. Þingmenn geta ekki velt ábyrgð á eigin dugleysi yfir á forsetann. Neitunarvald forseta er neyðarúrræði sem á ekki að nota eins og brjóstsykurmola upp í óþægan krakka.

Þjóðin kaus þá þingmenn sem nú sitja á hinu háa alþingi.

Forsetinn brást ekki.

Þjóðin brást.

Þjóðin kaus sukkið þrátt fyrir hávær mótmæli. Þjóðin ber ábyrgð á því að koma þeim sem sitja á alþingi til valda. Þjóðin kýs aftur  og aftur spillingu og nýir flokkar rísa upp til þess að breyta öllu. Þessi nýju flokksbrot eru ekkert betri en sukkararnir sem fyrir eru. Þetta snýst allt um valdabrölt. Almenningur skiptir ekki máli. Fagurgali og orðahnippingar eru bara til að sýnast. Völd eru málið. Völd til þess að viðhalda spillingunni eru það eina sem skiptir máli. Undirgefinn almúginn grætur svo úti í horni og skammar forsetann fyrir að taka ekki fram fyrir hendurnar á handónýtu alþingi.

Ábyrgðin er alþingismanna og þeir sem ekki sjá það eru staurblindir og halda áfram að mata krók þeirra sem eru að sökkva íslensku þjóðfélagi endanlega í spillingu og viðbjóð.

Hulda Björnsdóttir 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband