Ýmsar myndir ofdrykkjunnar ! Viljum við brennivín í búðir ?

1. Móðir hringir í dóttur sína og biður hana að koma strax. Móðirin þarf hjálp. Sonurinn hefur komið heim dauðadrukkin, illur og ragnandi, en er nú dauður á stofugólfinu. Dóttirin biður vin sinn að koma með sér. Hún er hrædd. Vinurinn kemur og þau fara saman inn í stofuna eftir að hafa rætt við móðurina sem situr skjálfandi á eldhússtól. Bróðirinn liggur í ælunni og bærir ekki á sér. Þetta er litli bróðir dótturinnar. Hún hefur aldrei séð hann svona. Henni verður mikið um og sest á gólfið hjá honum og grætur. Hvernig gat þetta gerst? Móðirin fer með vininum fram í eldhús og segir á leiðinni út: Hún hefur aldrei séð hann svona. Nei, systirin vissi að drengurinn drakk en það er öðruvísi að sjá afleiðingarnar fyrir framan sig í mynd algjörrar niðurlægingar. Dóttirin og vinurinn drösla þeim dauða upp í rúmið og eftir situr ælan á stofugólfi móður sem kallaði á hjálp.

 

2. Síminn hringir. Dóttir þín hefur reynt að fyrirfara sér en var bjargað á síðustu stundu, segir rödd í símanum. Ha? Dóttir þín er á spítala eftir að hafa skorið sig á púls. Það var fólk í íbúðinni sem fann hana inni á baði, segir röddin. Móðirin verður ísköld. Það er eins og frost hönd hafi gripið um hjartað. Hvað á ég að gera? spyr hún. Farðu á heilsugæsluna og fáðu aðstoð, svarar röddin. Þessi rödd kemur einhvers staðar langt úr fjarska. Það hlýtur að vera eitthvað að símanum. Skilaboðin komast ekki inn í skilningarvit móðurinnar en hún fer á heilsugæsluna og fær upplýsingar. Jú, þetta er rétt. Sektarkennd heltekur dofinn heila móður sem hefur horft upp á barnið sitt í langan tíma drekkja lífinu í brennivíni.

 

3. Enn hringir síminn og dóttir grætur og biður móður sína að koma og sækja sig. Unnustinn hefur barið dótturina í spað. Hann er drukkinn. Hún hefur flúið í aðra íbúð og þar felur hún sig. Móðirin sækir hana og fer með á slysavarðstofuna. Miklir áverkar eru á líkama dótturinnar. Þær fara heim til móðurinnar og þar dvelur dóttirin í 2 daga en fer svo aftur heim til unnustans og sagan endalausa hefst á ný. Þetta gæti allt lagast. Hann er svo dásamlegur þegar hann er ekki drukkinn.

 

4. Þegar nýja húsið er hannað sér móðirin til þess að öruggur útgangur sé frá efri hæðinni. Hún verður að vera þess fullviss að komi sonurinn og brjótist inn geti hún bjargað sér og börnunum. Sonurinn er eiturlyfjaneitandi og hatar móður sína. Hún býr ekki með honum en er í fjötrum fíknarinnar vegna neyslu hans. Hún á enga undankomuleið. Hann missir vitið þegar eitrið vellur um líkamann. Móðirin er djöfull í hans augum og hún verður að deyja. Móðirin hefur lifað við þennan ótta árum saman og það er að gera út af við hana. Hún getur ekkert gert.

 

5. Sonurinn kemur heim með vini sína. Þeir eru allir vel við skál. Móðirin flýr þegar þeir gerast háværir og sonurinn skipar henni að fara út. Hún fer út í frostið, á kjólnum einum og inniskónum. Kápan er inni í skáp í stofunni og þar eru vinirnir svo hún gat ekki sótt hana. Hún ráfar um götur borgarinnar og það tekur að dimma. Vinir rekast á hana helkalda og skjálfandi og taka hana með sér. Þeir taka hana með sér heim til sín og hlúa að henni. Hún getur ekki farið á sitt heimili. Þar er brennivíns gleði og mæður ekki velkomnar. Hún snýr heim eftir nokkra daga. Það er runnið af syninum og hann skilur ekkert í því hvar hún hafi haldið sig og ekki eldað fyrir hann !

 

6. Fjölskyldan býr í einu herbergi á hæð þar sem 4 íbúðir eru. Allar eitt herbergi. Sameiginlegt salerni og sturta fyrir alla. Þessi fjölskylda er reglusöm en hún er fátæk. Í næstu íbúð býr drykkjumaður. Þegar vínið tekur völdin er barnið óttaslegið og þorir ekki út úr íbúðinni. Það er ekki hægt að komast á salernið og ekki hægt að fara í skólann. Maðurinn við hliðina gæti heyrt umganginn. Allir hafa hljótt því ekki má raska ró íbúans í næstu íbúð. Fátækt og nábýli móta barnið. Það er ekki drykkja á heimilinu en afleiðingarnar eru þær sömu, einfaldlega að búa í næstu íbúð stjórnar öllu.

 

7. Það er nótt. Allir í fasta svefni. Síminn hringir. Leigubílstjóri kynnir sig. Hann segist vera með unga konu í aftursætinu sem sé dauðadrukkin og hún hafi beðið um að hringt yrði í þetta númer. Konan sem svarar í símann segir manninum að keyra ungu konuna á lögreglustöðina. En ert þú ekki móðir hennar? spyr bílstjórinn. Jú, svara konan, ég get hins vegar ekkert gert fyrir stúlkuna og SÁÁ hefur sagt mér að loka dyrunum því það sé eina leiðin til þess að bjarga sjúklingnum. Bílstjórinn er nærgætin og kveður. Móðirin grætur. Barnið hennar er að drepa sig á brennivíns drykkju.

Margar fleiri sögur gæti ég sagt en læt þessar duga. Fyrir þá sem eru í hinu skelfilega hlutverki aðstandandans, hvort sem það er ættingi eða vinur, vinnufélagi eða maki, eru sporin erfið. Brennivín drepur fjölskyldur. Það drepur góða einstaklinga bæði andlega og líkamlega. Brennivínsbölið er eitt af stærstu vandamálum margra.

Ég man þá tíma þegar rónarnir biðu eftir því að matvörubúðirnar og apótekin opnuðu á morgnana. Kökudroparnir og sprittið gæti linað þynnkuna og komið þeim af stað inn í daginn. Þeir áttu líklega ekki peninga til þess að kaupa pela í ríkinu og létu sér nægja kökudropa og spritt. Sprittið var skammtað.

Nú vilja margir á alþingi selja brennivín við hliðina á kökudropunum og mjólkinni.

Áður en þeir samþykkja svona lög væri upplagt fyrir þá að sitja einn fund í Alanon með aðstandendum fíkniefnaneytanda og alkóhólista. Það væri líka gott að fara í heimsókn á meðferðastofnun og fá að sitja kynningarfund Alanon. Í lok fundar væri ekki úr vegi að ræða við þá sem eru að berjast við fíknina og heyra hvað þeim finnst um hið mikilvæga mál "brennivín í almennar búðir". Síðan er hægt að enda á höfuðstöðvum SÁÁ.

Hvort þetta gæti breytt viðhorfinu veit ég ekki en þarna eru staðreyndirnar og sögurnar sem vert er að hlusta á.

Hlustar þingheimur á þjóðfélagið? Ég veit það ekki.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef búið erlendis frá 1990 og á þeim tíma hef ég aldrei séð vín á nokkrum manni nema túristum, sem eru ný komnir og gleyma sér í gleðinni.
Í Svíþjóð koma að vísu fyrir nokkur drykkjuskapur á skemmtistöðum, eins og á Íslandi.
Hér á Spáni er allt annar mórall. Þú sér aldrei vín á heimamanni, en túristar
skvetta í sig og þá aðallega þeir sem koma frá löndum í norðri, norðmenn, svíar og fínnar.
 ÁTVR hefur ágætis úrval af vínum og sú verslun á að halda áfram.
Að selja áfengi í matvöruverslunum finnst mér sjálfsagt enda verður úrvalið væntanlega mjög takmarkað , þokkaleg borðvín og einhæft úrval af sterkum vínum. Þetta eru sjálfsögð mannréttindi og forræðishyggja er sjaldan réttlát nema í huga vinstri manna.
Ég fer frekar í ríkið.

Valdimar Jóhannsson (IP-tala skráð) 27.5.2017 kl. 11:58

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Sæll Valdimar Jóhannsson

Alltaf gott að fá fleiri sjónarmið.

kv.

Hulda

Hulda Björnsdóttir, 28.5.2017 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband