Af hverju verða menn öryrkjar ?

26.maí 2017

Ég velti því dálítið fyrir mér hvers vegna öryrkjum hefur fjölgað svo mjög á Íslandi. Hvað veldur því og hvernig er örorkan?

Ég ólst upp hjá öryrkja sem hafði fengið berkla í lungun mjög ung og var blásin. Fólk sem var blásið beið þess oft aldrei bætur og var hún ein af þeim. Hún fékk oft blóðspýting og voru það hræðilegir tímar og ég hræddari en orð fá lýst. Svo braut hún handlegg og brotið greri skakkt þannig að höndin nýttist ekki nema að hluta.

Það var mjög takmarkað sem hún gat unnið en hún reyndi eins og hún gat.

Þessi reynsla mín segir mér að öryrkjar séu ekki aumingjar eins og stundum virðist látið í veðri vaka.

Nú á dögum eru líklega margar ástæður fyrir því að fólk verður öryrkjar. Sumir slasast, aðrir fæðast á einhvern hátt fatlaðir og enn aðrir veikjast af sjúkdómum sem erfitt eða ómögulegt er að lækna.

Sumir verða öryrkjar af áfengisdrykkju og aðrir veikjast á geðinu.

Frú "fátækimála" vill að öryrkjar fari út á vinnumarkaðinn til þess að þeir hætti að "betla" bætur frá ríkinu.

Ég hef velt þessu fyrir mér fram og til baka og er að reyna að skilja hvernig hún kemst að þessari niðurstöðu og um hverja hún er að tala. Er konan í sambandi við raunverulegt líf eða lifir hún í Trump heimi þar sem allt er svo "very very very good".?

Ég veit það ekki.

Hún getur ekki átt við þá sem fæðast fatlaðir.

Hún getur ekki átt við þá sem eru í hjólastól lamaðir og geta sig vart hrært hjálparlaust.

Hún getur ekki átt við þá sem hafa til dæmis misst sjónina af einhverjum ástæðum eða jafnvel fæðst blindir.

Hún gæti átt við þá sem eiga við áfengis vandamál að stríða. Það sést oft ekki utan á þeim hvað þeir eru veikir.

Hún gæti líka átt við þá sem eiga við geðræn vandamál af öðrum toga að stríða en eru í raun líkamlega nokkuð hressir.

Líklega hefur hún aldrei verið innan um geðsjúkt fólk eða þá sem falla niður í dýpstu hyldýpi depurðar og vonleysis.

Mér finnst ekki ólíklegt að hún haldi að þeir sem líta út fyrir að vera líkamlega heilbrigðir geti ekki verið öryrkjar og séu bara letingjar og aumingjar sem svíkja út úr kerfinu af því þeir nenna ekki að vinna.

Þá kem ég að því að velta fyrir mér hvers vegna geðræn vandamál virðast vera svo algeng á landinu græna? Getur það verið að lág laun, slæmt viðurværi og aðbúnaður venjulegs fólks leiði til svo mikillar örvæntingar að fólk verði hugsjúkt?

Getur það verið að í velferðarríki "fátæki" fulltrúans sé til fólk sem rís ekki undir því að eiga ekki fyrir mat handa börnunum sínum eða fyrir læknisþjónustu sem fjölskyldan þarf á að halda?

Er hugsanlegt að fólkið sem á hvergi heima, vegna þess að húsaleiga er þeim ofviða, haldi ekki andlegri heilsu sinni?

Getur það verið að unga konan eða ungi maðurinn sem hefur misst allt sitt vegna græðgi hinna ríku sjái ekki fram á að komast upp úr hjólfarinu og séu svo pikkföst í fátækra gildrunni að þau veikist andlega og verði óvinnufær?

Eru þetta öryrkjarnir sem sú útlenska vill senda út á vinnumarkaðinn til þess að spara ríkinu?

Sé svo er hún líklega að byrja á vitlausum enda. Það er skorið niður í heilbrigðiskerfinu og fólk fær ekki þá hjálp sem er nauðsynleg til þess að ná sér andlega. Væri ekki nær fyrir hina ágætu konu, sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð á kostnað íslenskra skattgreiðanda, að sjá til þess að fyrst væri fólkinu hjálpað við að ná heilsu og svo kæmi að því að vinnuveitendur tækju við.

Hvaða vinnuveitandi vill fá til sín mann eða konu sem fellur saman og er frá vinnu dögum og vikum saman vegna andlegrar vanlíðunar? Hefur þingmanninum dottið í hug að beita sér fyrir vernduðum vinnustöðum fyrir fólk sem er að ná sér eftir erfið veikindi?

Ég efast um að þingmaðurinn hafi vit til þess að hugleiða einfaldar leiðir til úrbóta og það sem hún hafi til málanna að leggja sé á þá leið að festa fólk í "fátæki" gildrunni og  að hún gefi lítið fyrir og láti sig engu skipta hvernig almenningi reiðir af.

Er hugsanlegt að við séum að búa til þjóðfélag sem vill helst losna við sem flesta, annað hvort til útlanda eða í dauðann, svo fólk eins og "fátæki" nefndarformaðurinn virðist vera að amast við sé ekki að þvælast fyrir?

Mjög fáir eru öryrkjar af því að það sé svo fínt.

Flestir eru öryrkjar af því að heilsan hefur brugðist.

Getur einhver troðið þessu inn í hausanóturnar á "fátæki" nefndarformanninum, please ! Mér er nákvæmlega sama á hvaða máli það er gert, bara að það beri árangur.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband