Landsfundur Landssambands eldri borgara

26.maí 2017

Þessi fundur var haldinn núna á dögunum og frá honum kom löng ályktun um hvað heimta skyldi af löggjafanum.

Mér finnst þetta orðalag "krefst..." eitthvað svo leiðinlegt.

Ályktunin er að mörgu leyti góð en sumt er nokkuð langsótt finnst mér.

Þess er krafist að persónuafsláttur hækki þannig að hann fylgi hækkunum launavísitölu frá árinu 1988. Þetta er semsagt leiðrétting aftur í tímann fyrir ALLA, sama hvort tekjur eru 200 þúsund á mánuði eða 2 milljónir á mánuði. Er þetta ekki eitthvað einkennilegt? Gengur þetta upp? Það er verið að tala um 29 ára leiðréttingu aftur í tímann.

Hvað ætti persónuafsláttur þá að vera hár núna? Veit það einhver af því ágæta fólki sem samdi þessa ályktun?

Síðan er talað um að tryggt sé að persónuafsláttur hækki árlega í samræmi við launavísitölu.

Ég er sammála því að besta kjarabót fyrir láglaunafólk og þá sem eru á örorkubótum eða komnir á eftirlaun, væri hækkun skattleysismarka. Ég hef ekkert legið á þessari skoðun minni og held því fram að ríkissjóður tapaði ekki á þessu því neysla fólks mundi aukast og óbeinir skattar kæmu til baka.

En að ætla sér að leiðrétta persónuafsláttinn 29 ár aftur í tímann getur ekki gengið.

Hér finnst mér enn og aftur verið að setja fram kröfur sem líta flott út á pappírnum en geta aldrei gengið upp.

Ég held að það sé vænlegrar til árangurs að hafa kröfur þannig að hugsanlega sé hægt að rökstyðja þær og sína fram á að þær séu raunhæfar. Kröfur út í hött drepa málum á dreif og gera ekkert annað en skemma fyrir því sem væri hægt að gera ef litið væri á raunveruleikann en ekki lifað í draumaheimi sem aldrei rætist.

Annað í þessari ályktun eða kröfugerð fundarins er að taka ætti upp samstarf við samtök launamanna til þess að berjast fyrir bættum kjörum aldraðra í landinu. Ég rek auðvitað augun í þessa setningu. Kjör aldraðra í landinu. Einmitt, enn og aftur sýnir félagsskapur eldri borgara hug sinn til þeirra sem velja að búa erlendis síðustu ár ævi sinnar. Það er aldrei minnst á það óréttlæti sem viðgengst gagnvart þeim sem búa ekki á Íslandi en hafa greitt skatta og skyldur þangað alla sína starfsævi. Nei, þetta fólk getur bara etið það sem úti frýs og haldið sér saman.

Auðvitað er það eðlilegt að samtök launamanna taki þátt í því að berjast fyrir kjörum þeirra sem eru láglaunafólk og þeirra sem komnir eru á eftirlaun. Láglaunafólk og eftirlauna þegar eru spyrt saman í augum hins opinbera og því vettvangurinn eðlilegur.

Ég læt það fara í taugarnar á mér þegar sagt er að Tryggingastofnun lækki greiðslur til eftirlaunafólks afli það sér viðbótartekna.

Tryggingastofnun ræður engu um þetta. Hún gerir það sem löggjafinn segir henni að gera. Tryggingastofnun gefur ekki út lög og reglugerðir. Hún reynir að fara eftir bullinu sem rennur frá Alþingi og gerir sitt besta til þess að leiðrétta ambögur sem fljóta áfram vegna þess að þingheimur nennir ekki að sinna vinnunni sinni og fylgjast með því hvað verið er að samþykkja á hinu háa Alþingi. 

Tryggingastofnun er valdalaus.

Þetta ætti fólk sem er í forystu fyrir Landssamband eldri borgara að vita.

Það þýðir ekkert að rífast í Tryggingastofnun og benda á hana varðandi lögin og reglugerðirnar.

Það er hægt að rífast og æsa sig yfir starfsháttum stofnunarinnar og hvernig mál eru unnin þar en ekki yfir lögum og reglugerðum.

Tryggingastofnun er ekki einu sinni ráðuneyti, ef einhver heldur það.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband