Matur - megrun - hreinsun - og Costco

26.maí 2017

Ég held að ég sé farin að skrifa endalaust um mat en get ekki haldið aftur af mér.

Það er margt alveg frábært sem kemur á netinu um mat og matarræði og svo er líka fullt af alls konar bulli sem fólk gleypir hrátt og heldur að það hafi fundið hina einu sönnu lausn.

Alls konar skyndilausnir og frábær ráð tröllríða samfélaginu og allir eiga að verða bumbulausir á nokkrum dögum, bara með réttu matarræði eða nokkrum magaæfingum og svona get ég röflað áfram endalaust.

Spik er vandamál.

Spik er í flestum tilfellum áunnið og hefði verið hægt að koma í veg fyrir það? Er það svo? Ég er ekki sérfræðingur í spikmálum eða lausnum þeirra. Ég held hins vegar að ég hafi nokkuð gott vald á spiki hjá sjálfri mér.

Það er ekki til staðar. Ekkert auka spik á mínum kroppi. Auðvitað gæti ég hæglega fallið í súkkulaðiát og etið kökur og kransa alla daga eða bakað hnallþórur og leyft matnum mínum að taka sundsprett í fossandi olíu á fínu pönnunum mínum.

Flotta nýja lækna teymið mitt á nýju heilsugæslustöðinni minni í Lousa vigtaði mig og mældi blóðþrýsting í fyrsta skipti sem ég kom þangað, fyrir nokkrum mánuðum.

Þetta er venjulega gert um það bil einu sinni á ári ef allt er eins og það á að vera. Semsagt fylgst með þyngd allra og ekki veitir af hér í bumbulandinu okkar.

Læknirinn minn sagði mér að ég væri innan marka með rétta þyngd en ekki þyrfti mikið að bætast við til þess að ég færi yfir markið. Ég er 170 sentímetrar á hæð og 70,1 kíló að þyngd.

Mér finnst súkkulaði ægilega gott og hnallþórur frábærar. Stundum fæ ég þessa yfirþyrmandi löngun í eitthvað sætt og gott en sem betur fer er aldrei til sykur á heimilinu og súkkulaði kom í heimsókn í fyrra en er enn þá inni í skáp og líklega dettur það í ruslatunnuna fyrr en varir. Það er ekki hægt að geyma það endalaust. Hnallþóru hef ég ekki bragðað í áratugi svo það er bara minningin sem er að hrekkja mig.

Ég passa upp á matarræðið mitt eins og ormur á gulli. Það er hluti af lífs stíl mínum.

Um daginn sá ég frábæra uppskrift af jógúrt morgunmat!

Jamm, eitthvað hafði lífskúnstner þeirrar uppskriftar ruglast í ríminu. Þetta var flott uppskrift af kókosmjólk úr dós sem hafði verið þykkt með CIA fræjum og ávöxtum bætt út í. Vola, komið jógúrt fyrir alla fjölskylduna. Það er líka hægt að þykkja eitt og annað með frosnum banana (bara innskot frá mér).

Ég bý stundum til jógúrt heima hjá mér úr heimatilbúinni sojamjólk af því ég drekk ekki kúamjólk, bara sérviska auðvitað. Mér hefur aldrei dottið í hug að búa til jógúrt úr kókosmjólk úr dós. Kannski er það hægt með jógúrt gerlum, ég bara veit það ekki, en hitt veit ég að uppskriftin sem ég er að tala um innihélt ekkert, nákvæmlega ekkert, sem tengdist jógúrt gerð. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ábyrgðar hluti að telja fólki trú um hitt og þetta ! Það er fullt af auðtrúa manneskjum sem leita grimmt eftir skyndilausnum til þess að losna við bumbur og spik.

Það eru engar skyndilausnir til. Ekkert flóknara en það.

Vatn, prótein og trefjar eru lífsnauðsynleg öllum. Vatn og prótein er líklega ekki að vefjast mikið fyrir fólki en trefjarnar sitja á hakanum. Þær eru eins og heimilislaus umrenningur. Flestum eða mörgum alveg sama um þær. Fljótlegt að skella káli og safa úr ávöxtum í blandara og kannski pínu lítið af duft próteini en trefjarnar fá ekki far með lestinni.

Algengt vandamál hjá fólki er að það gætir ekki hófs og leyfir öllu, líka trefjum, að detta inn um munninn.

Kúrahreinsun, ég veit ekki hvað það er, en líklega ágætt fyrir líkama og sál. Ég ætla ekkert að tala um hana núna. Það yrði ekki vitræn umræða hjá mér og ég sleppi henni í bili en gæti tekið flug þegar vel lægi á mér.

Þá er komið að Costco og skoðun minni á magninnkaupum.

Ég efast ekki um að þessi nýi verslunarmáti hafi áhrif á verðlag á Íslandi og er ekkert annað en gott um það að segja. Ég fer stundum í svipaða miðstöð hér í Coimbra og gerði líka þegar ég bjó í Kína. Sú heitir Metro í Kína og Makró í Portúgal. Mér leiðist að fara í búðir og kaupi það sem endist mér út mánuðinn í einni ferð. Þetta þýðir að ég mundi líklega versla í Costco ef ég byggi á Íslandi. Metro og Makró eru bara fyrir þá sem reka fyrirtæki og þó nokkur skriffinnska tengist umsókn en það eru krókaleiðir sem hægt er að komast með hjálp góðra vina.

Vonandi verður nýja verslunin á Íslandi til þess að aðrar búðir lækka verð.

Í allri sæluvímunni gleymdist eitt.

Það er hópur íslendinga sem geta ekki verslað í svona fyrirbæri. Þeir hafa ekki efni á því!

Til þess að spara þarf oftar en ekki að eiga peninga !

Ótrúlegt en satt.

Hvað ætli það séu margir sem draga fram lífið á lágmarkslaunum, á örorkubótum eða lágmarks ellilífeyri, sem geta farið í innkaupaferðir í Costco?

Þeir sem þurfa að lifa frá degi til dags og velta hverri krónu að minnsta kosti fimmtíu sinnum fyrir sér geta ekki gert hagstæð stórinnkaup.

Fyrir láglaunahópana er þessi viðbót, sem nú er mikið dásömuð, og margir geta nýtt sér, gagnslaus. Hins vegar gæti það gerst að venjulegar verslanir neyðist til að lækka verð svo samkeppnin drepi ekki einkaframtakið. Það yrði bót fyrir þá sem við megum helst ekki tala of mikið um, óhreinu börnin hennar Evu!

Óholl vara er ódýrari en holl!

Getur það verið?

Holl vara er ekki fyrir þá sem lepja dauðann úr skel.

Sparnaður er ekki fyrir þá sem eiga ekki peninga.

Skýtur þetta ekki skökku við?

Hreyfing, hollur fjölbreyttur matur og andlegt jafnvægi er lykillinn að góðri heilsu.

Fyrir hverja er þessi lífstíll?

Ætti það ekki að vera kappsmál hverrar þjóðar að allir, ALLIR þegnar þjóðfélagsins ættu möguleika á því að uppfylla þessar grunnþarfir?

Vaknið, þið sem stjórnið landinu ! Einn góðan veðurdag gæti allt breyst í lífi ykkar og fótum kippt undan gleðinni og þið komin í gildru fátæktar, sömu gildruna og þið búið þeim sem minnst mega sín í Íslensku þjóðfélagi í dag.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband