Hvítir leggir - brúnkukrem

24.maí 2017

Í dag er ótrúlega heitt, aftur! 32 stig nú þegar klukkan er ekki nema rúmlega 10. Það er von á rigningu á morgun og veitir eiginlega ekki af. Við erum að verða vatnslaus í landinu vegna þurrviðris. Ótrúlegt en satt.

Ég fékk hálfgert samviskubit í morgun þegar ég var að vökva blómin en hugga mig við að græna lífið hjálpi náttúrunni.

Ég er þeirra gæfu aðnjótandi að hafa hvíta leggi, hvíta eins og liðið lík.  Þegar ég var í Kína þótti þetta dásamlegt því þau vita ekkert verra en ef litur kemur á húðina og eru til dæmis öll krem þar með hvíttingu.

Jæja, söngkennarinn minn ráðlagði mér í fyrra að fá mér brúnkukrem til þess að  bera á leggina og gerði ég það. Mig minnir að ég hafi notað það nokkrum sinnum en nú er komið nýtt sumar og ég enn með lík leggi, snjóhvíta og þykir mér það ekki auka á fegurð mína.

Þar sem gærdagurinn var kjóla eða pils dagur sáust leggir mínir vel og nú skyldi setja brúnkukrem á líkin. Gerð ég það og skildi ekkert í því hvað lítill munur sást eftir um það bil 2 klukkutíma. Líklega var þetta krem mitt eitthvað einkennilegt, eða þannig.

Klukkan 3 varð mér aftur litið á leggina.

Hm, eitthvað mikið hafði gerst. Þeir voru fallega brúnir, ekki dökkir, bara svona smá hraustlegir. Verður mér svo litið niður á fótinn sjálfan til þess að dást að listaverkinu og bregður heldur betur. Fóturinn er snjóhvítur, alveg eins og lík. Þetta getur ekki verið, leggirnir fallegir og löppin hvít.

Ég hafði gleymt að bera á fótinn, hugsaði bara um leggina. Ekki gott mál en nú verð ég líklega að vera í sokkum, svona pínu litlum, til þess að fela hvíttið !

Það er ekki á mig logið. Vitleysan rennur ekki bara upp úr mér, hún hefur tekið sér bólfestu í höndunum líka.

Í næstu viku fer ég í einhverja viðbjóðslega rannsókn og þarf að hætta að borða almennilegan mat nokkrum dögum áður. Ég var spurð í gær hvort ég vildi heldur að kona gerði þessa rannsókn? Svo heimskuleg spurning. Hvað ætli mér sé ekki sama. Ég verð svæfð og hef ekki hugmynd um hver er að gera hvað.

Ég má ekki koma eftirlitslaus. Það verður að vera einhver sem getur tekið ábyrgð á mér. Þegar ég spurði hvort ég gæti ekki komið ein ef ég sæi um að verða sótt gerðist eitthvað.

Ætlar þú að koma með bussinum? spurðu þau

Nei, ég var nú að velta fyrir að taka leigubíl, svaraði ég

Já, það ætti að vera í lagi, sagði sú stutta en hún var ekkert sérlega hamingjusöm með þetta svo ég bað vinkonu mína að taka ábyrgð á mér. Sent og sótt er skilyrðið. Aðgerðin er ekki fyrr en klukkan 6 um kvöldið svo líklega verð ég ekki komin heim fyrr en um miðnætti. Svo sem allt í lagi þar sem ég verð í fylgd fullorðinna.

Sú stutta veit að ég er ekki yfir mig áhugasöm um að láta þetta yfir mig ganga, þ.e. svona krukk, og hún marg bað mig að missa nú ekki kjarkinn. Auðvitað geri ég það ekki en ég vil ekki fara í þessa fjandans aðgerð en verð að gera. Ég lofaði mínum dásamlega DR. Daníel og Dr. Jorge að gera þetta. Ekki get ég svikið þá !

Svona getur lífið nú leikið við mann,bara að koma auga á jákvæðu hliðina og sú sem er þessu hjá mér heitir:

Aðgerðinni lokið !!!!

Leggirnir verða líklega orðnir hvítir aftur þegar ég leggst á borðið hjá herramanninum en það kemur dagur eftir þann dag og meira brúnkukrem á leiðinni. Næst gleymist ekki að stússa við lappirnar líka. Þær mega ekki verða útundan aftur. Það er alveg ljóst, rétt eins og að eftir dag kemur nótt.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

GANGI ÞER VEL !

Erla Magna Alexandersdóttir, 24.5.2017 kl. 20:03

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Sæl Erla

Takk fyrir góðar óskir.

kv.Hulda

Hulda Björnsdóttir, 26.5.2017 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband