Hvernig er það eiginlega að eiga afmæli?

24.maí 2017

Í fyrradag átti ég afmæli og eignaðist eitt ár enn eins og við segjum hér í landinu mínu.

Mér finnst þetta orðatiltæki "að eiga svo og svo mörg ár" ótrúlega fallegt. Við erum spurð um aldur okkar og segjum "ég á .....ár."

Núna á ég 72 ár.

72 ár er hellingur. Eiginlega bara nokkuð gott. Margir ná ekki svo háum aldri og sumir sem eru hér í lífinu hafa fengið nóg.

Ég veit svo sem ekkert hvernig þetta ár verður eða hve mörg ég eignast í viðbót en eitt veit ég þó. Ég ætla að njóta þessa nýja áfanga í botn, svona innan marka þess sem heilsan leifir.

Þetta er eins og með gömlu bílana. Við þurfum frekara viðhald eftir því sem við eignumst fleiri ár.

Á afmælisdaginn minn var ég hálf döpur, svona innan um og saman við. Það hrúguðust upp alls konar minningar sem mér tekst reglulega vel að láta í friði og ég var ekki par hress með þær.

Nú er ég búin að ná mér aftur á strik en ætla að koma mér í gír til þess að skrifa um hörmungar drykkju náinna ættingja, ekki endilega minna ættingja heldur almennt. Það er þetta andstyggðar brennivíns frumvarp sem er að valda mér hugarangri og vekur upp þessar hugsanir mínar.

Ég ætla ekki að skrifa um þetta í dag, ég er enn að melta með mér hvað ég ætla að taka fyrir. Nægilegt efni er til. Hörmungar ofdrykkju og hvernig þær leggja heilu samfélögin í rúst er vel þekkt en ekki mikið rætt. Þetta er jú samfélagsmein sem best er að láta liggja kyrrt og endilega ekki að tala um.

Við getum talað um allt milli himins og jarðar og helst það sem skiptir í raun engu máli.

Það sem skiptir máli er að allir  græði sem allra mest og þá þarf ekkert að vera að velta sér upp úr einhverjum smá óhöppum sem verða hér og þar, jafnvel þó það heiti ofdrykkja.

Brennivín í matvörubúðir er markmiðið.

Nú er komin ný verslun á Íslandi og einhvers staðar sá ég að þar verði brennivín til sölu með matvörunni. Veit ekki hvort það er rétt.

Þessi nýja verslun er held ég að bjóða nokkuð sæmileg verð fyrir heimilishaldið.

Hvert renna skattar þessa fyrirtækis?

Borgar það skatta til íslenska ríkisins eða renna peningarnir í sjóð erlendis?

Ég spyr auðvitað eins og fávís kona en mig langar til að vita þetta.

Ég versla aldrei, aldrei í búðum hér í Portúgal sem ekki borga skatta til samfélagsins. Það getur verið að ég þurfi að borga aðeins meira fyrir vöruna en þar sem ég legg minn skerf til samfélagsins ætlast ég til þess að aðrir geri það sama.

Er það óréttlát krafa?

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband