Matarvenjur

20.maí 2017

Matarvenjur okkar geta verið margvíslegar og er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Ég er ekki sérfræðingur í mat og hef í raun harla lítið vit á því hvað er gott og hvað ekki.

Nú á dögum er í tísku að borða Chia fræ og Goji ber, allavega hér í Portúgal.

Turmerik er líka komið á vinsældalista í landinu.

Allt er þetta vegna þess hve þjóðin er mikil um sig og sykursýki og hár blóðþrýstingur algengir sjúkdómar hérna.

Læknar ráðleggja fólki að leggja af en svo er eiginlega eftirlitið búið.

Fólk fréttir af fræjum og kryddum og berjum sem eiga að lækna allt.

Þegar komið er á heilsugæslu er blóðþrýstingur mældur og fólk er vigtað.

Nú borða margir heil ósköp af hinum hollu berjum og fræjum og skilja ekkert í því að allt í einu fer að bera á einkennilegri hegðun hægða, blóðþrýstingur hækkar þrátt fyrir lyf og eitt og annað dularfullt skýtur upp kollinum jafnvel þó mikið sé notað af öllu mögulegu heilnæmu. Hnetur og fræ á hvers manns diski og allt í einu er ofnæmi komið til sögunnar.

Alls konar smoothies eru blandaðir og þeir ásamt fleiru eiga að vera lausnin.

Fyrst eru rætur, grænmeti og ávextir settir í safavélar og svo dettur blandan ofan í mixerinn. Allur hinn dásamlegi safi, hinn heilnæmi almáttugi safi er svo drukkinn og öllum líður dásamlega.

Þetta er svo fyrirhafnarlítið, bara að drekka eða þamba drykkinn og ekkert að hafa fyrir því að tyggja eða vesenast með hnífapör og svoleiðis.

Mér verður alltaf pínúlítið illt þegar ég hugsa til þess hvernig safakúrar, fitukúrar, bananakúrar, agúrkukúrar og hvað þeir allir heita, taka yfir matarvenjur fólks.

Er ekki til eitthvað sem kallað er súkkulaðikúr? Ég væri til í að prófa hann og dræpist líklega mjög fljótlega svo best að láta hann vera.

Mamma var mikill sjúklingur allt mitt líf og eitt sinn fór hún á heilsuhælið í Hveragerði sér til heilsubótar. Hún kom heim með fullt af uppskriftum af heilsusamlegum réttum sem ég elskaði frá fyrstu stundu. Svo var ég í skóla þar sem maturinn var ekta grænmetisfæði og við urðum ástfangin um leið.

Grænmetisfæði er ekki bara kál. Grænmetisfæði er unaðsleg blanda af ýmsu því sem ræktað er á jörðinni en etur ekki plöntur og gras. Grænmetisfæði er ekki safasull, það er tuggið og borðað með hníf og gaffli á vesturlöndum en með prjónum í Kína. Það er grænt unaðslegt brokkoli sem maður bítur í og nýtur litarins þegar maður horfir á það. Það eru baunir, alls konar baunir, soðnar og búnar til kássur og buff. Það eru gulrætur sem brosa falleg og breiða úr appelsínugula litnum þegar bitið er í þær og allar yndislegu trefjarnar binda vatnið og hjálpa æðunum að blómstra og taugaendum að brosa.

Svo er hinn yndislegi fiskur hjá þjóðum sem eru svo heppnar að fá ferskan fisk oft á tíðum beint upp úr sjónum. Fiskurinn er uppspretta lífsins hjá sumum og öll dásamlegu efnin sem hann ber með sér fá að njóta sín og hjálpa líkamanum að tikka.

Sumir grilla fiskinn og hann heldur öllu sínu, aðrir gufusjóða hann og njóta gæðanna og enn aðrir drekkja honum í olíu eða sjóða í mauk. Fer allt eftir smekk hvers og eins.

Ég er þeirrar skoðunar, og það er bara mín skoðun og allir aðrir mega hafa aðra skoðun, að matur sem er mauksoðin eða steiktur í spað sé í raun og veru myrtur með köldu blóði.

Svo er það vatnið. Vatnið sem er stærsti partur líkama okkar og við drekkum svo sparlega, rétt eins og um gull sé að ræða sem ekki má eyða í vitleysu. Það er alveg sama hvað ég borða hollan mat, drekki ég ekki nægilega mikið vatn, og gæti þess að fá nægilegar trefjar er allt unnið fyrir gíg.

Sumir borða hráfæði, sem er grænmetisfæði sem ekki er soðið, held ég. Ég þekki það ekki, hef bara heyrt um það. Ég á bók um það og las mér aðeins til í henni en fannst þetta svo flókið og seinlegt að ég gafst upp.

Allar öfgar eru af hinu illa, held ég.

Ég borða aldrei rautt kjöt. Mér finnst og hefur alltaf fundist það vont. Ég borða hins vegar túnfisk sem er rauður, svo þetta tengist ekki litnum. Túnfiskurinn minn fer á grillpönnuna mína og er sæll og glaður þegar hann fær salat og avokado eða eitthvað sérstakt með. Svo þykir honum líka stundum gott að fá sætar kartöflur sér við hlið á meðan hann grillast. Sætar kartöflur eru mitt uppáhald og líka mjög hollar. Ég borða aldrei venjulegar kartöflur og saltfiskur finnst mér ógeðslegur.

Ég elska lax og silung. Við fáum auðvitað aldrei silung hér í landinu mínu en lax er á boðstólnum. Grillaður lax er gómsætur.

Líklega er ég matvönd, svona þegar ég hugsa um það. Ég borða ekki hvað sem er.

Ég vil vita hvað er í sojamjólkinni minni og þess vegna bý ég hana til sjálf.

Ég vil líka vita hvað er í brauðunum mínum og þau koma úr bakarofninum mínum. Ég lærði hjá Sollu á Grænum kosti fyrir mörgum mörgum árum að búa til himneskt brauð og hef haldið því. Það er frábært að vita upp á hár hvað er í brauðinu mínu.

Ég borða ekki kúaost. Mér finnst hann vondur og held að kúamjólk sé ekki sérlega góð fyrir mannfólkið. Bara mín skoðun. Ég elska geitaost og geitamjólk. Þær eru svo krúttlegar og litlu krílin bræða úr mér hjartað þegar verið er að mjólka þær. Veit ekkert hvað það er sem mér finnst svona unaðslegt í fari þeirra en svona er þetta bara. Þorgerður snillingur sagði mér frá geitavörunum fyrir mörgum árum og ég trúi henni.

Mamma, heilsuhælið í Hveragerði, skólinn minn á unglingsárunum, Solla á Grænum kosti og Þorgerður ásamt kínverskum vinum eru þau sem hafa mótað matarvenjur mínar. Læknarnir mínir eru ánægðir með matseldina mína og ég nýt þess að borða með hníf og gaffli og stundum með prjónum.  Ég fæ mér stundum smoothie úr berjum og nota frosna banana til þess að gera þá undurmjúka. Þetta eru aukabitar en ekki aðalmáltíð. Stundum bý ég til ís úr avokado og er hann himneskur.

Það er svo margt hægt að gera úr góðu hráefni en kannski er mikilvægast að detta ekki niður í öfgakúra og athuga hliðarverkanir berja og krydd jurta. Bara mitt álit.

Hulda Björnsdóttir 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband