Er nauðsynlegt að greiða skatta? Er staðgreiðsla skatta gott mál?

24.apríl 2017

Ég fæ stundum ábendingar um að ekki þurfi að greiða skatta til samfélagsins. Fyrir nokkrum árum var fullyrt við mig að hér í Portúgal ættu eftirlaunaþegar ekki að greiða skatta. Viðkomandi var með þetta algjörlega á hreinu og leiðin til þess að komast hjá því að borga til samfélagsins var að búa í Portúgal.

Staðreyndin er hins vegar sú að Frakkland og Portúgal hafa gert með sér samkomulag um að eftirlaunaþegar sem búsettir eru hér í landi séu skattfrjálsir.

Í Noregi er mér sagt að eftirlaunaþegar borgi ekki skatt af eftirlaunum sínum. í Noregi. Þeir borga skattana á Íslandi af íslenskum eftirlaunum. 

Kínverjar sem fjárfesta hér í Portúgal þurfa ekki að greiða skatta. Fjárfestingin þarf að vera nokkuð álitleg en svona er þetta gert til þess að laða hingað erlent fjármagn.  Heimamenn eru margir ævir út í fyrirkomulagið og nokkra kannast ég við sem borða til dæmis ekki á veitingastöðum Kínverja til þess að mótmæla þessu fyrirkomulagi.

Stjórnarherrarnir komu hver á fætur öðrum í sjónvarpinu fyrir ekki mörgum árum og lýstu því yfir að allir útlendingar sem fjárfestu hér ættu að vera skattfrjálsir og gekk þetta svo langt að lögfræðingur sem ég hitti á förnum vegi vildi ganga í málið fyrir mig. Auðvitað voru þetta innantóm loforð og rugl sem skýtur stundum upp kollinum rétt fyrir kosningar.

Ef enginn greiðir skatta til samfélagsins hvernig á að fjármagn heilsugæslu, skóla, löggæslu og aðrar stofnanir sem þurfa að vera til staðar svo hægt sé að láta allt ganga upp?

Þeir sem eru á móti skattgreiðslum halda líklega að peningar vaxi á trjánum, eða jafnvel að þeir séu duglegir eins og illgresið sem skýtur upp kollinum vítt og breitt um allt.

Svo eru þeir sem skilja ekki að ríkið er fólkið. Ríkið er ekki eitthvað sem flýgur yfir og sest annað slagið til þess að fá sér að borða.

Heyrist ekki stundum? Þetta kemur okkur ekkert við, ríkið borgar!

Fólk sem hugsar svona þarf líklega að koma sér niður á jörðina og hætta að búa uppi í skýjunum.

Þá er ég líklega búin að ausa nóg úr skálum örvæntingar minnar og mál til komið að tala um það sem ætlaði að tala um.

Ef þú ert íslenskur eftirlaunaþegi sem þiggur eftirlaun frá Íslandi, og heldur að þú þurfir ekki að greiða skatta, þá legg ég til að þú talir við ríkisskattstjóra.

Tryggingastofnun sér til þess að þú skilir inn skattskýrslu frá búsetu landi þínu. Stofnunin fylgist með því að þú sért ekki dauð eða dauður. Sért þú svo heppinn að búa í landi sem tekur ekki skatt af eftirlaunum kemur Tryggingastofnun með klóna sína og tekur af þér skatt.

Búir þú hins vegar í landi þar sem þú ert skattskyldur, sama hvaðan tekjurnar þínar koma, þá þarftu að sanna fyrir ríkisskattstjóra að þú greiðir skatt í búsetulandinu. Þetta er nú ekkert flóknara en svona. Ef einhver heldur öðru fram þá ráðlegg ég öllum að hafa samband við ríkisskattstjóra á Íslandi.

Heima hjá mér borgum við skatta einu sinni á ári. Það er ekki staðgreiðsla hér í landi. Til þess að eiga fyrir álagningunni í ágúst þarf að leggja fyrir í hverjum mánuði og þykjast búa við staðgreiðslu skatta. Ekki sérlega flókið, en þarf aðeins aga og ekki gott að fara á kaupfyllerí eða að fá svoleiðis æði. Ég passa upp á þetta því annars þarf ég að borga sektir og þá peninga gæti ég notað í eitthvað skemmtilegt.

Á Íslandi er eins og allir vita í gildi staðgreiðsla skatta þar sem tekið er í hverjum mánuði 22,5% af innkomu í skattþrepi 1 og persónuafsláttur sem er núna kr. 52.907 á mánuði dregin frá. Mismunurinn er það sem greiða skal og leggur launagreiðandinn upphæðina inn hjá skattyfirvöldum í hverjum mánuði. Launagreiðandinn er í tilfelli þeirra sem eru komnir á eftirlaun venjulega Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóðir.

Skattpeningarnir eru svo nýttir til þess að reka þjóðfélagið. Þetta vita auðvitað margir en þeir sem halda að ríkið reki sig sjálft hafa aðrar hugmyndir.

Ef þið eruð að hugleiða að flytja úr landi og taka ykkur búsetu þar sem auðveldara er að lifa af naumt skömmtuðum eftirlaunum íslenska velferðakerfisins ráðlegg ég ykkur að hafa í huga að hvar sem þið eruð komist þið aldrei hjá því að greiða skatta af innkomunni.

Íslenska velferðakerfið sér um sína og passar upp á að ALLIR greiði keisaranum það sem keisarans er. Fullyrði einhver við ykkur að hann eða hún borgi ekki skatta neins staðar er viðkomandi að svíkja undan skatti og svindla á kerfinu og það er ekki gott mál.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband