Bótasvik. Er það eitthvað sem þarf eða má tala um?

23.apríl 2017

Ég ætla að skrifa nokkrar greinar þar sem ég velti fyrir mér eftirfarandi:

Bótasvikum

Staðgreiðslu skatta

Frískattkorti

Skattkorti

Tvísköttun

Persónuaflsætti

Heildartekjum

Ellilífeyri

Það virðist vera að margir geri sér ekki almennilega grein fyrir hvernig lögin virka fyrir þá sem búa erlendis, enda ekki sérlega aðgengilegar upplýsingar á einum stað.

Það eru nokkrar leiðir til þess að finna út hvað gera þarf þegar eftirlaunaþegi tekur þá ákvörðun að flytja úr landi til þess að geta lifað sæmilegu lífi síðasta fjórðung ævinnar.

Eins og við vitum er ellilífeyrir ekki neitt óskaplega hár en hann getur þó nýst sæmilega til dæmis á Spáni þar sem margir íslendingar búa nú.

Ástæða þess að ég tala um eftirlaunaþega en ekki örorkulífeyrisþega er einföld. Ég þekki ekki nægilega vel til þeirra reglna sem gilda um örorkulífeyri í hinum ýmsu löndum og vona að þeir sem búa yfir þeirri þekkingu deili henni með okkur.

Ég geri ráð fyrir að flestir sem hafa flutt eða eru að íhuga flutning fylgi lögum og reglum, séu löghlýðnir borgarar landsins.

Tryggingastofnun ríkisins gerir ekki ráð fyrir því að fólk sé löghlýðið. Stofnunin hundeltir þá sem hafa flutt og gengur úr skugga um að ekki sé verið að heimta bætur þegar einstaklingurinn er fluttur til himnaríkis. Þetta er auðvitað alveg sjálfsagt en mér finnst þetta dæmalaust heimskulegt og skil ekki af hverju ég þarf að senda lífsvottorð á hverju ári. Væri til dæmis ekki nægilegt að ég gerði það annað hvert ár? Ég bara spyr.

Eins og hefur komið í ljós voru skýrslur um bótasvik ýktar, svo ekki sé meira sagt en hitt er þó staðreynd að eitthvað er um svona svik. Eina aðferðin sem ég þekki hjá Tryggingastofnun til þess að finna út hverjir eru að svindla, er að hundelta þá sem eru EKKI að svindla, en hafa flutt úr landi. Skýtur skökku við, finnst ykkur ekki?

Við flutning eru bætur skertar svo um munar. Ellilífeyrisþegi fær strípaðan lífeyri og ekki heimilisuppbót, sama hvort hann býr einn eða ekki. Stjórnvöld voru svo sniðug að skipta lífeyrinum í tvennt. Annars vegar er ellilífeyrir og hins vegar til viðbótar er heimilisuppbót. Þetta samanlagt gerir fallegu töluna sem velferðaráðuneytis- og forsætisráðherra stæra sig af.

Ellilífeyrir er skv.síðu Tryggingastofnunar kr. 228.734

Heimilisuppbót skv. síðu Tryggingastofnunar kr.  52.316

Samtals gerir þetta fyrir þá sem búa á Íslandi kr.281.050

Þeir sem hafa flutt og búa erlendis fá greitt kr. 228.734

Mismunurinn er kr. 52.316. Ef þú býrð erlendis færðu 52.316 krónum minna en ef þú býrð einn á Íslandi.

Þessar tölur eru auðvitað áður en reiknaður er skattur og skerðingar sem verða vegna annarra tekna t.d. greiðslna frá Lífeyrissjóði, það er sparnaði sem er lögbundinn og leggst inn í lífeyrissjóði alla starfsævi hvers og eins. Það er að segja hjá þeim sem fylgja lögum og reglum.

Auðvitað eru sumir sem vinna svart og greiða hvorki í Lífeyrissjóði eða skatta til samfélagsins. Þetta fólk fær, ef það býr á Íslandi, 281.050 krónur á mánuði í ellilífeyri áður en staðgreiðsla er reiknuð.

Svona er réttlætinu fylgt eftir á Íslandi, þeir sem hafa sparað og farið eftir lögum hafa það verra en þeir sem aldrei hafa lagt neitt til samfélagsins eða sparað. Þeir sem hafa flutt úr landi hafa það enn verra og hegningin er enn meiri.

Til þess að teljast búa á Íslandi og fá fullan ellilífeyri sem því sem tilheyrir, þarf viðkomandi að vera þar 180 daga á ári og eru margir sem gera þetta. Fólk flytur yfir veturinn til Spánar, eða annarra landa, og kemur svo til baka yfir sumarið. Þetta er algjörlega samkvæmt bókinni og allt gott og gilt. Ekkert nema frábært um þessa tilhögun að segja.

Það eru hins vegar nokkrir, ég veit ekki hve margir, en ég þekki persónulega til örfárra sem svindla á kerfinu. Þetta fólk býr erlendis og hefur ekki komið til Íslands í áratugi en er alltaf skráð til heimilis á Íslandi. Þetta ágæta fólk fær fullan ellilífeyri og heimilisuppbót, ef því er að skipta, og er sælt með sitt. Fyrst ég þekki svona dæmi af hverju tilkynni ég þau ekki? væri réttlát spurning.

Svarið er einfalt. Ég er svoddan aumingi að ég hef mig ekki í það. Ég hef hugsað málið fram og til baka en kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að ég geti ekki tilkynnt um svindlið og kyngi bara.

Það er alltaf til fólk sem svíkur út úr öllum kerfum. Það er ekkert einkennilegt þar sem kerfið er eins og það er.

Á meðan ekki verður grundvallarbreyting á skipan velferðamála á Íslandi heldur svindl áfram.

Ég held áfram að vera hundfúl vegna þess hvernig við sem búum ekki á Íslandi, en höfum greitt alla okkar starfsævi skatta til samfélagsins og sparað í Lífeyrissjóði, erum hlunnfarin í hverjum einasta mánuði.

Þegar talað er um hag lífeyrisþega og hvað þeir hafa það slæmt, sem er alveg satt, er ALDREI minnst á hópinn sem valdi að skrimta í útlöndum frekar en að deyja úr hungri á Íslandi.

Þegar ég hugsa um þetta verð ég bæði sár og reið. Hvernig er annað hægt á meðan 1% þjóðarinnar makar krókinn eins og enginn sé morgundagurinn.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband