22 ára alþingismaður tekur sæti á þingi núna?

24.apríl 2017

Nýr þingmaður hefur líklega skrifað undir drengskaparheit sitt í dag.

Þessi ágæti þingmaður er fæddur 1995 svo hann er 22 ára gamall.

Ég er búin að renna í gegnum Facebook síðu hans til þess að sjá hver er að bætast í hópinn.

Þessi ágæti þingmaður er fyrir Viðreisn.

Ég leitaði grannt eftir ummælum sem tækju á málefnum öryrkja og eldri borgara.

Fann eitt innlegg um hvernig fækka mætti öryrkjum. Bæta sálfræðiþjónustu var lausnin.

Ég fann ekkert um eldri borgara annað en að hann hafði misst afa sinn.

Nú velti ég því fyrir mér í fullri alvöru hvort 22 ára maður hafi þá lífsýn og reynslu sem nauðsynleg er til þess að taka ákvarðanir fyrir heila þjóð, ákvarðanir sem geta verið upp á líf og dauða einstaklinga.

Ungi maðurinn getur skrifað fallega og gerir það. Hann er ábyggilega hinn besti drengur og leggur stund á stjórnmálafræði við Háskólann.

Ég veit ekki hvaðan hann kemur en hann er greinilega alveg að fíla Viðreisn í botn.

Eins og flestir vita þá er ég nú ekki í einu og öllu sammála þeim sem dásama þennan nýja flokk og vona að hann eigi ekki langt líf fyrir höndum, það er sem flokkur. Ég óska ekki flokksmönnum neins ills.

Húsaleigubætur vinar míns sem voru fyrir breytingu 50.000 á mánuði lækkuðu niður í 12.000 og hinn ágæti ráðherra velferðarmála kom eins og frelsandi engill og leiðrétti óréttlætið. Ráðherrann er Viðreisnar maður.

Eftir leiðréttinguna fær vinur minn 15.000 krónur í húsaleigubætur.

Leiðréttingin dásamlega hjá englinum sem situr í ráðherrastóli velferðarráðuneytisins er lækkun um hvorki meira né minna en 35.000 krónur á mánuði frá því fyrir breytingu á lögunum.

Ég verð að segja það að mér þykir lítið fyrir svona framkvæmdir gefandi.

Auðvitað er dásamlegt að geta talað flott og skrifað fínar greinar en þegar kemur að því að halda utan um heilt þjóðfélag eru flottar tilvitnanir ekki það sem fólkið borðar.

Einhver sagði að alþingi væri fullt af krökkum sem hefðu takmarkaða reynslu af lífinu. Ég held bara, svei mér þá, að ég fari að hallast að því að eitthvað sé til í þessu.

Væri ekki ágætt að setja aldurs takmörk á þá sem geta sest á hið háa alþingi og tekið ákvarðanir sem skilja oft á milli lífs og dauða þjóðarinnar?

35.000 krónurnar sem vinur minn missti við breytinguna, (jafnvel þó hann hafi fengið hækkun úr 12.000 í 15.000, heilar þrjú þúsund krónur,) hefðu komið sér vel fyrir hann þegar hann verslar í matinn.

Getur það verið að þingmenn og ráðherrar skilji ekki svona lágar tölur?

Ég er bara að reyna af fremsta megni að skilja hvernig í veröldinni stjórnmálamenn bæði til hægri og vinstri geta verið svona yfirgengilega út úr takti við raunverulegt líf í landinu.

Er það skýringin? Stjórnmálamenn skilja bara háar tölur. Þeir skilja hvað það er erfitt að draga fram lífið af tólf hundruð þúsund krónum á mánuði, en geta ekki skilið af hverju fólk, með tvöhundruð tuttugu og átta þúsund sjö hundruð þrjátíu og fjórar krónur, er að kvarta.

Ef þetta er skýringin þá ætti að vera auðvelt að bjóða þingheimi að heimsækja þá sem lifa lúxuslífinu óskiljanlega af lágu laununum.

Eru ekki einhverjir sem væru til í að bjóða liðinu til dæmis í helgar mat? Bara einu sinni. Það þarf ekki nema 61 heimili til.

Bara hafa venjulegan mat og kaffi. Ef venjan er að hafa kattamat úr dós í sunnudags hádegis mat þá fær þingmaðurinn það.

Svo geta gesturinn og heimilisfólkið spjallað saman í rólegheitum eftir matinn og borið saman bækur sínar. Borið saman hvað það er hrikalegt að þurfa að draga fram lífið af tólfhundruð þúsundum á mánuði og borga skatta og alles, og dásamað hvað það er miklu auðveldara að lifa í lúxusnum með rúmar tvö hundruð þúsund og þurfa að borga skatta, sem láglaunafólk gerir auðvitað með bros á vör.

Ég ætla ekkert að tala um þá sem eru komnir á eftirlaun þingmanna og ráðherra. Það líf er auðvitað alveg fyrir neðan allar hellur og engum bjóðandi.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

HVERNIG VÆRI AÐ ÞEIR SEM SITJA Á ALÞINGI HAFI VITSMUNI Í LAGI- MEIRI MENTUN EM Á BÚÐARKASSA OG SAKAVOTTORÐ Í LAGI  ? eru ÍSLENDINGAR FÁVITAR  ???

Erla Magna Alexandersdóttir, 24.4.2017 kl. 18:53

2 Smámynd: Hulda Björnsdóttir

Sæl Erla. Það er að minnsta kosti æskilegt að þeir sem vinna við að setja lög í landinu hafi einhverja lífsreynslu. Eða það finnst mér. Auðvitað er ágætt að einhver dragi yngri kjósendur að kjörborði en að fylla alþingi af ungum krökkum getur verið varasamt.

Í dag er aðal mál heilbrigðisráðherra að lögleiða gufu sígarettur.

Ein ummæli sá ég frá ungum þingmanni sem sagði frá því hvað það væri frábært að sitja á alþingi og hún mælti með því fyrir alla.

Það fylgir því mikil ábyrgð að setja heilli þjóð lög, lög sem skipta máli fyrir alla, og til þess að geta gert það vel þarf að vera fyrir hendi þekking á þjóðfélaginu og uppbyggingu þess. Ég tel að 22 ára unglingur hafi ekki þessa þekkingu.

Svo má líka velta því fyrir sér hvort þeir sem eru frá fátækum foreldrum komist inn á alþingi.

Kv.Hulda

Hulda Björnsdóttir, 25.4.2017 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband