Karlaríkið Portúgal !

1.mars 2017

Þá er mars mættur með kulda og rigningu hér í mínum heimabæ og útlitið ekki til þess að hrópa húrra fyrir.

Margir rigningardagar í vændum, sem við þurfum vegna vatnsbúskaparins, en lítt spennandi til gönguferða.

Í morgun fann ég nýja gönguleið fyrir mig áður en ég fer í sjúkraþjálfunina. Sú gamla var gengin sér til húðar vegna risa stórra svartra grimmra hunda sem geltu og urruðu þegar ég gekk framhjá og reyndu hvað þeir gátu til þess að komast út fyrir hliðið. Hefðu þeir sloppið væri ég áreiðanlega ekki að skrifa þetta núna.

Nýja gönguleiðin er öðruvísi. Engir hundar. Jú, ég sá einn en hann var voða meinlaus að sjá og greinilega á leið að hitta kærustuna í morgunsárið.

Hundaskítur um allar gangstéttir. Maður er nú ekki að hafa fyrir því að bera með sér poka og hirða upp eftir dýrið. Nei, ekki aldeilis. Þessi óhirða gerir það að verkum að nauðsynlegt er að horfa niður fyrir sig svo maður renni ekki í skítnum.

Ógeðslegt.

Nokkrir skólar urðu á vegi mínum! Þeir voru ekki gangandi en stóðu sína vakt við götuna innan í húsum sem litu bara þokkalega út, hrein og ekki æpandi hvít aðeins litur á veggjunum, líklega bace, ef það er íslenska!

Þar sem skólarnir voru var fullt af unglingum á vappi, líklega á leið í tíma eða úr og sumir biðu eftir strætó.

Gangstéttir eru ekki breiðar í þessu ágæta landi og þegar þrjár ungar dömur vel í holdum standa hlið við hlið þversum á stéttinni er eiginlega ekki hægt að komast framhjá þeim, eða þannig. Þetta minnti mig á hvers vegna ég sá mjög fljótt eftir að ég flutti hingað að ég vildi ekki vera kennari hérna.

Portúgalskir unglingar eru ókurteisir með eindæmum!

Þeir eru dálítið eins og karlarnir hérna í þessu karlaveldi.

Tungumálið ber þessari karllægu tilhneigingu skýran vott.

Ef það er hópur 800 manna og kvenna þar sem 799 konur eru og einn karl þá verður hópurinn karlkyns!

Þegar karlar koma t.d. inn í sjúkraþjálfunina taka þeir í hendi allra karlanna og virða ekki kvenfólkið frekar en það væri ekki til.

Ég varð vitni að þessu í síðustu viku þar sem karlþjálfari stóð við hlið kvenþjálfara og inn kom viðskiptavinur. Hann tók þétt í hendi karlsins og leit ekki á stúlkuna. Ég læt þetta fara í mínar fínu taugar og finnst svona hroki viðbjóðslegur en hann er partur af menningunni svo ég held mér oftast saman en þarna gat ég ekki annað en haft orð á því sem gerðist.

Eftir þetta neyðist sjúklingurinn til þess að taka í útrétta hönd mína þegar ég mæti og heilsa mér eins og jafningja!

Þegar unglingar taka alla gangstéttina stend ég einfaldlega og býð þar til bil opnast svo ég komist leiðar minnar. Hér í heimabæ mínum þorir enginn lengur að loka leið minni og er ég beðin margsinnis afsökunar ef svo illa vill til að krakkarnir koma ekki auga á mig fyrr en ég hef numið staðar.

Ég hef ekki æpt á neinn hérna, ég bara stend og bíð og ungviðið veit hvað það þýðir. Kellan þarf að komast heim til sín!!

Konur eru á kaffistofum á morgnana en karla eftir hádegi og á kvöldin.

Konur drekka kaffi og borða sætar kökur en karlar drekka bjór og aka svo í burtu á drossíunum sínum. Akstur undir áhrifum áfengis er algengur hér og stundum fer löggan í lögguleik og stoppar alla og græðir fullt af peningum. Mjög flott ef það vantar fé í kassann til þess að gera eitthvað skemmtilegt.

Sætu kökurnar hér eru í morgunmat hádegismat eftirmiðdags kaffi og kvöldkaffi. Engin furða að menn safni framan á sig spiki og aldrei á ævinni hef ég séð eins marga ólétta karla, komna líklega 8 mánuði á leið, og hér í landi. Þetta er með eindæmum einkennilegt en venst og nú er ég eiginlega hætt að taka eftir bumbunum, þ.e. á köllunum en hún er afleiðing mikillar bjór- og víndrykkju.

Í morgun sá ég líka eitt sem var óvenjulegt. Krakkarnir sem voru á leið úr skólanum eða í, og voru nokkur saman, höfðu ekki símana uppi. Þau voru niðursokkin í að TALA SAMAN. Dásamlegt og ég fyrirgaf strákagreyjunum fyrir að láta mig stíga út fyrir gangstéttina svo þeir kæmust áfram.

Þeir voru jú æðri stéttin og ég bara kona sem bar að virða hið háa kyn í hvítum níðþröngum buxum í rigningunni. Ætli Lillanum þeirra líði ekki illa svona rígnegldum niður?

Annað sem ég tók eftir í morgun er hið gríðar stóra nef sem einkennir karlpeninginn hér í landi. Þeir gætu allir sem einn leikið sællega jólasveina með nefinu.

Á morgun fer ég aftur á sömu gönguslóðir og tek kannski einhverjar myndir, en í dag var ég svo upptekin við að virða fyrir mér mannlífið og hundaskítinn að engar myndir komu með til baka.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband