Er hægt að bulla út í eitt?

28.febrúar 2017

Ég er eiginlega alveg orðlaus yfir endalausu bulli sem vellur út á Facebook daginn út og daginn inn.

Auðvitað er margt gott sem kemur þar fram og ég vildi ekki fyrir nokkurn mun missa vini mína þaðan en bullið og endaleysan skyggir á gleði mína.

Nú rís hátt umræðan um ranga lagasetningu og allt eiginlega að verða vitlaust.

ASÍ kemur með fullyrðingar í útvarp.

Grái herinn hamast við að senda út tengil á Alþingisumræður.

Formaður velferðarnefndar kemur með skýringu í fjölmiðlum.

Ég gæti talið eitthvað fleira upp en þetta er nóg.

Ég horfði á umræðuna á þingi þar sem fjallað var um breytinguna.

Ég hlustaði líka.

Svo settist ég yfir greiðslu til mín frá TR í janúar.

Síðan lagðist ég yfir lögin og breytingarnar.

Ég var komin í rusl og skildi hvorki upp né niður því umræðan gekk ekki upp.

Til þess að fara nú ekki að ybba mig án þess að hafa rétt fyrir mér hafði ég samband við vin sem veit hvað hann er að segja og spurði hann hvort ég væri að miskilja þetta allt saman.

Hann staðfesti að ég væri ekki búin að missa skilninginn, ég væri að tækla þetta rétt og enginn þyrfti að endurgreiða neitt því ekkert hefði verið ofgreitt.

Reyndi ég nú að hugga þá sem ég þekkti og voru að missa svefn af áhyggjum yfir fjárhagi sínum.

Ég hefði alveg getað látið vera að segja eitt eða neitt.

Nú er umræðan eiginlega enn hlaðnari en áður og menn farnir að tala um lögleysu þess að breyta lögum afturvirkt og stjórnarskrá og guð má vita hvað.

Nú er hrópað á lögsókn en sem betur fer kemur formaður félags eldri borgara fram og segir að félagið ætli ekki mál. Hann er lögfræðingur og veit hvað hann er að tala um. Hlustar einhver á hann? Vonandi þeir sem hafa eitthvað undir sér!

Halda þessir ágætu menn og konur sem hæst hrópa núna að þetta sé í fyrsta sinn sem svona vitleysur verða á lagasetningu hins háa alþingis?

Virkilega!

Hvers vegna haldið þið að breytingar á lögum séu svona algengar?

Þingmenn skilja ekki og fá ekki tíma til þess að fara ofan í saumana á nýjum lögum og það var frábært að sjá Formann velferðarnefndar segja að vinnubrögðin þurfi að breytast og hún hafi ekki skilið málið fyrr en það var útskýrt fyrir henni! Loksins einhver sem þorir að viðurkenna óþolandi vinnubrögð.

Þeir sem ruku upp og stigu fram fyrir skjöldu í útvarpi og á fleiri stöðum og gerðu lífeyrisþega svefnlausa af áhyggjum eiga nú að biðja þjóðina afsökunar. ASÍ fer þar fremst í flokki.

Ég ætla ekkert að segja um herinn gráa að þessu sinni, nenni ekki að móðga þá eina ferðina enn.

Nenni heldur ekki að segja meira um forseta ASÍ sem sýndi af sér ótrúlega óþolandi fáfræði.

Ég sit bara hérna og ríf hár mitt og bið þess að ég verði ekki alveg sköllótt af bröltinu.

Við sem minna megum okkar látum í okkur heyra og skiptir ekki nokkru máli þó einhverjir reyni að þagga skynsemisraddir okkar.

Við erum hér, við verðum hér og við höfum alltaf verið hér. Það hefur bara ekki heyrst mikið í okkur og þeir sem halda að þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu séu einhverjir aumingjar ættu að skoða hug sinn.

Við erum hópur sem á ekki málsvara sem stendur upp og berst fyrir bættum kjörum ALLRA.

Við sem minna megum okkar erum sterkasta fólkið í samfélaginu. Við höfum lifað af og nú erum við að rísa upp.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband