Þvílíkur dagur!

3.mars 2017

Þvílíkur dagur!

Stundum heldur fólk að í  suður Evrópu sé alltaf heitt og notalegt og engin stökk í veðrinu.

Hér kemur dagurinn minn í dag með logni og tilbreytingarleysi veðurfarsins.

Á fætur klukkan hálf sjö til þess að fara í blóðrannsókn á spítalanum. Helli rigning, gatan eins og stórfljót en hallar sem betur fer og ekki hefur safnast í beygjuna enn svo ég slepp.

Kom til Coimbra og lagði bílnum 20 mínútna gang frá spítalanum. Góður göngutúr.

Náði mér í númer og fór upp á hæðina, hrikalega margar tröppu, 29 stykki. 69 manns á undan mér!

Opnaði bakpokann, gleymdi pappírunum heima! Hálfviti gat ég verið.

Labbaði aftur að bílnum orðin glorhungruð fastandi síðan í gærkvöld og rennandi blaut í rigningunni að auki.  Ók til baka, stökk upp 39 tröppur heima og sótti pappírstuskurnar. Aftur út í bíl og á spítalann.

Tók númer og var nú númer 192. 52 á undan mér!

Þegar ég tékkaði mig inn sagði ég konunni hvað hefði gerst og hún tjáði mér með yndislegu brosi að ég hefði ekki þurft að fara heim og sækja pappírana. Ég þurfti bara að framvísa græna sjúkrahúsa kortinu mínu því allt er skráð í tölvuna. Ég er stundum ekki hægt.

Biðin var ekki nema hálfur annar klukkutími og hungrið og þorstinn verulega farinn að sverfa að en þetta reddaðist.

Stelpurnar tóku nokkur glös af dýrmætu blóði mínu og fengu miðbunu í glasi líka, frá því ég vaknaði fyrir löngu síðan.

Fékk mér hádegisverð og strákarnir á tölvuverkstæðinu hringdu. Tölvan mín, sú sem ég keypti í gær og hef ekki hugmynd um hvernig á að nota, var tilbúin. Þeir búnir að setja allt upp og biðu bara eftir mér.

Eftir að tölvan var komin í bílinn ásamt rauðum hrikalega flottum topp til þess að ver í utan yfir fallegu bláu peysunni minni lagði ég af stað heim. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig þessi toppur náði að plata mig til þess að fjárfesta í sér, kannski varð glimmerið á honum, því ég hafði ákveðið að ekkert nýtt fatakyns kæmi inn á mitt heimili þennan mánuðinn.

Á leiðinni heim var rigning, sól, haglél, sól aftur og enn meiri rigning og þrumur. Bara svona íslensk veðrátta!

Stoppaði þegar ég var komin í bæinn minn og borgaði gasið fyrir síðasta mánuð, nokkur hundruð evrur en hlýtt hjá mér svo ég kvarta ekki.

Fyrir nokkrum vikum bað ég um að leki frá sturtuklefanum mínum yrði athugaður og maðurinn átti að koma strax og í seinasta lagi á morgun. Morgun kom áðan. Það er sko annað tímaskyn í svona heitum löndum og á morgun er bara framtíðin.

Ljótt í efni með sturtuna. Þarf að tala allt gumsið upp því pípan er brotin. Eigandinn hringir og lætur mig vita hvenær hægt verður að laga fíneríið. Ætli ég fari ekki bara í sturtu í sundlauginni, hún er í 2ja mínútna gang frá mér.

Hitti kallinn á neðri hæðinni þegar ég kom heim og reifst yfir því að hann hefði bakkað á bílinn minn.

H, nei, hann kannaðist ekki við neitt. Hálfviti!

Nú er komið kvöld og orðið dimmt, ég ætla að fara snemma að sofa og á morgun læri ég á nýju litlu tölvuna mína og ef ekki þá tek ég hana bara með mér í söngtíma á sunnudaginn. Kennarinn minn kann á svona lítil grey.

Já vel á minnst, hitastigið á ferðalagi mínu í dag komst hæst í 6 stig. 

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband