Mikið varð ég hissa !

27.febrúar 2017

Ég hef eins lengi og ég man eftir mér haft brennandi áhuga á málum eldri borgara og öryrkja og yfirleitt þeim sem hafa á einhvern hátt orðið undir í þjóðfélaginu.

Nú er ég ekki að segja að allir eldri borgarar hafi það slæmt.

Sem betur fer er líklega meirihluti þessa hóps vel settur því lögfræðingar, prestar, læknar, alþingismenn og ráðherrar ásamt mörgum öðrum stéttum hafa góð eftirlaun.

Það eru mál hópsins sem býr við lakari kjör sem brenna á mér.

Stundum er ég svo ótrúlega einföld og held að allir hafi þennan áhuga!

Ég var að tala við vinkonu mína á Íslandi og bað hana að setja LIKE við nýju síðuna "Milli lífs og dauða". Hún skoðaði málið og sagði að þessi síða væri fyrir öryrkja og eftirlaunaþega og hún væri hvorugt og þar af leiðandi ekki líklegt að ég fengi hennar LIKE.

Mér þykir óskaplega vænt um þessa vinkonu mína og er alls ekki að halla á hana á neinn hátt með því að tala um þetta.

Hún vakti mig hins vegar upp af værum draumi og ég fattaði að sumir, og líklega margir hafa engan áhuga á þessum málum.

Stundum horfum við ekki út fyrir kassann okkar og það að veikjast og verða kannski öryrki er ekki inni í myndinni. Það kemur ekki fyrir okkur!

Á meðan við erum innan við 60 ára, að minnsta kosti, erum við ekkert að velta fyrir okkur eftirlaunum. Við erum á fullu að njóta þess að vera í vinnu og þar er öll okkar hugsun.

Við spáum ekkert sérstaklega í ættingja eða vini sem hafa það ef til vill ekkert sérlega gott eftir að þeir hætta að vinna og þurfa að lifa af því sem Lífeyris sparnaður og Almannatryggingakerfi býður þeim.

Þetta er allt fyrir utan kassann okkar.

Málið er ekki flóknara en það að þeir sem skrimta af því sem þeim er skammtað hafa oft á tíðum, og líklega í flestum tilfellum, ekki kjark til þess að opna munninn og láta í sér heyra. Þeir hafa hvorki þrek eða kjark til þess að standa í baráttu fyrir bættum kjörum og þess vegna er svo mikilvægt að allir í þjóðfélaginu láti sig þessi mál varða. 

Ég vona að það sé að verða hugarfars breyting í þjóðfélaginu og að fólk fari að rísa upp til varnar ættingjum og vinum eða bara meðbræðrum sínum og halda á lofti þörfinni fyrir að í velferðarþjóðfélagi eins Ísland er eigi enginn að þurfa að líða skort.

Langflestir eftirlaunaþegar hafa safnað til efri áranna með því að borga í lífeyrissjóði og þeir eiga að fá að njóta þess sparnaðar án íhlutunar ríkisins.

Það er svo ótrúlegt og varla hægt að trúa því að ríkið noti sparnað launamanna til þess að niðurgreiða almannatryggingakerfið en þannig er það.

Vonandi rís upp öflugur hópur til varnar þessum meðbræðrum okkar og lætur ekki undan fyrr en allir eiga fyrir mat og húsnæði og venjulegum nauðsynjum til þess að lifa en ekki bara til þess að rétt skrimta.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband