Heimtufrekja eða sanngirni?

22.febrúar 2017

Ég heyri ekki útvarpsumræður á Íslandi eða sé sjónvarp nema einstaka sinnum. Vegna þessa þá er ég kannski ekki mjög vel upplýst um umræðuna á landinu hvað varðar nýjan formann Félags eldri borgara í Reykjavík.

Ég vona svo sannarlega að ný stjórn í félaginu fari ekki fram úr sér og geri kröfur fyrir lítinn hóp innan þessara samtaka.

Það hefur mikið verið skrifað um að eldriborgarar eigi að hafa þetta og hitt í ráðstöfunartekjur eftir skatt. Tölur allt frá þrjúhundruð þúsund upp í fimm hundruð þúsund hef ég séð á reiki.

Síðan hefur eitthvað verið rætt um að hækka þurfi skattleysismörk.

Eitthvað fleira hefur verið í umræðunni en ég ætla aðeins að skoða þessi tvö atriði.

Þegar verið er að gera kröfur fyrir eftirlaunaþega og bætur frá Almannatryggingakerfinu þarf að hafa í huga að það eru þó nokkrar stéttir sem hafa góða lífeyrissjóði, eiga stórar eignir og alls konar fjármagnstekjur. Ég spyr mig að því hvort sanngjarnt sé að þessir hópar innan eldri borgara eigi að hafa sömu eftirlaun frá Tryggingakerfinu og þeir sem eru t.d. með innan við þrjúhundruð þúsund frá Lífeyrissjóði?Mér finnst það jafn óréttlátt og að þeir sem aldrei hafa borgað í lífeyrissjóð eigi jafnvel að fá hærri eftirlaun frá Almanna Tryggingakerfinu en þeir sem hafa alla sína æfi sparað í sjóðina.

Auðvitað þarf að sjá til þess að fólk svelti ekki þó það sé komið á eftirlauna aldur en það á ekki að hegna þeim sem hafa sparað allt sitt líf í Lífeyrissjóða kerfið. Það er alveg á hreinu í mínum huga.

Hvað er þá til ráða?

Er það líklegt til árangurs að heimta bætur upp á 500.000 á mánuði?

Ég held ekki.

Ég er þeirrar skoðunar að til þess að ná árangri þurfi kröfurnar að vera sanngjarnar en þær mega heldur ekki vera of litlar.

Núna er frítekjumark 25.000 krónur á mánuði. Heyrst hefur í umræðunni að þetta mark ætti að vera 100.000 krónur á mánuði.

Ég spyr, á hverju er þessi 100.000 króna krafa byggð? Hún er lægri en áður en nýju lögin voru sett, er það ekki?

Það er varasamt að henda svona tölum í loftið án þess að hafa hugleitt málið í botn.

Ég hef bent á að hækkuð skattleysismörk kæmu sér ef til vill betur bæði fyrir bótaþega og láglaunahópa.

Ef skattleysismörk væru hækkuð minnka tekjur ríkisins, glymur þá frá ráðamönnum.

Er það?

Ég held því fram að hefðu þessir hópar meira ráðstöfunarfé kæmi það til baka til ríkisins í meiri greiðslu á neyslusköttum. Þeir sem lepja dauðann úr skel og geta ekki keypt mat alla daga mánaðarins leggja ekki mikið til samfélagsins í neyslusköttum. Það liggur í augum uppi að ef þetta fólk hefði fleiri krónur á milli handanna yrði neyslan meiri.

Ég hef svo sem ekki haldbærar tölur til þess að rökstyðja mál mitt og veit ekki hvort ríkið kæmi út á sléttu með því að hækka staðgreiðslumörk og leyfa fólki að nota meiri peninga til daglegra þarfa en það er alla vega ljóst að ívilnunin væri ekki tómt tap fyrir ríkis kassann.

Það er nefnilega þannig að hafi fólk það sæmilegt og geti farið til læknis og haft að borða og lifað eðlilegu lífi þá sparast miklir fjármunir til dæmis í heilsugæslu.

Á greiðsluáætlun frá Tryggingastofnun hef ég ekki séð talað um orlofsuppbót eða desemberuppbót það sem af er þessu ári.

Hvort það er vegna þess að ég gerðist svo djörf að vera ekki búsett á Íslandi þegar ég tók að fá eftirlaun frá kerfinu veit ég ekki. Kannski er þetta svona hjá öllum og ef svo er þá gæti ég alveg með glans látið mér detta í hug að verið sé að bíða eftir kjarasamningum á almenna markaðinum.

Þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru sett var ekki hafður einn ellilífeyrir. Nei það var svo ótrúlega sniðugt hjá ríkisstjórninni að búta lífeyrinn niður í tvennt og kalla part heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir. Þessa heimilisuppbót frá auðvitað ekki þeir sem hafa yfirgefið landið og skiptir engu máli hvort þeir búa einir eða ekki.

Ég get ekki annað en dáðst að hinum sofandi þingheimi að samþykkja þetta og finnast bara flott. Þeir fóru fram úr sér með þessu og að ég tali nú ekki um frítekjumarkið. Hvernig í veröldinni varð þessi 25.000 krónu tala til? Úr hvaða höfði spratt hún? Það eru svona skemmtilegir hlutir sem gefa lífinu auðvitað gildi og hægt að velta fyrir sér endalaust en rúsínan í pylsuendanum var þegar væntanlegir og þáverandi þingmenn töluðu um þá sem hafa unnið sér rétt til eftirlauna frá Almannatryggingakerfinu sem "fólk á sveit".

Ég held að það verði langt í að sú skoðun verði toppuð, að fólk sem hefur greitt alla sína æfi skatta og skyldur til þjóðfélagsins verði sveitaómagar við ákveðinn aldur. Þetta er auðvitað ekkert nema hlægilegt og lýsir þeirri ótrúlegu heimsku og hroka sem margir sem nú sitja á alþingi hafa í farteskinu.

Ég ætla ekkert að minnast á vinnubrögð hins háa alþingis og hvernig lögum er skellt inn og samþykkt án þess að nokkur fái tíma til þess að skoða þau og pæla í hvort hér sé um góð lög eða ekki að ræða.

Hvers vegna ætli það þurfi svo oft að setja viðbótar lög og breytingar á lögum og reglugerðir?

Mér er alveg sama þó þingmenn hafi sæmileg laun svo framarlega sem þeir sinna vinnunni sinni og mæta í vinnuna. Laun þeirra þurfa að vera nokkuð góð til þess að almennilegt fólk bjóði sig fram til þeirra starfa en þegar launin eru eins og þau eru núna er eitthvað mikið að og þó aumingja kjaradómi sé um kennt þá er heimtufrekja ríkjandi á hinu háa alþingi. Það þarf ekki annað en að hlusta á nokkrar umræður þeirra sem eru í efstu stöðunum og er óþarfi að nefna nokkur nöfn.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband