Venjulegur dagur í lífi mínu!

20.febrúar 2017

Lífið er svo einfalt þegar ég kemst á efri ár!

Ekkert vesen og bara tóm sæla.

Ekkert stress og enginn hamagangur.

Engin kvöð að vakna á morgnana til þess að fara í vinnuna!

Er þetta ekki dásamlegt? Er hægt að óska sér nokkurs meira?

Ég held ekki og þess vegna ætla ég að segja ykkur frá því hvað dagurinn minn í dag hefur verið rólegur og ég bara notið lífsins í botn.

Vaknaði klukkan hálf sjö.

Móðir náttúra gerði vart við sig og heimtaði að losna við eitthvað af öllu vatninu sem ég dældi í mig í gær til þess að losna við óþverra úr líkamanum eða bara til þess að vera ekki þyrst.

Það var dásamlega hlýtt undir sænginni en utan hennar var ískalt nefið á mér og ég var ekki til í að yfirgefa hlýjuna. Það er sko þannig hér núna að nætur eru ís kaldar, ég meina og segi ís kaldar, en svo kemur sólin upp einhvern tíma um morguninn og blessunin streðar við að hita upp og tekst venjulega svona um hádegisbil.

Ég lét undan náttúrunni og skreið á fætur klukkan sjö. Ekki datt mér í hug að fara úr náttfötunum strax. Náttfötin mín eru nefnilega úr PRIMAX og slíkan lúxus fyrir ekki neitt hef ég aldrei átt. Þau kostuðu 10 evrur og ég splæsti nokkrum á mig og bestu vinkonu mína sem á ekki sérlega mikla peninga en hefur rússað með mig fram og til baka á spítala og úr spítala og allt sem því fylgir þegar maður fer í uppskurð og liggur svo heima á endanum. Vinkona mín er Portúgölsk. Ég var að tala um náttfötin okkar sem hafa bjargað okkur frá kuldanum í vetur. Mikið var lán mitt að ég skyldi brjóta á mér öxlina í október áður en varð mjög kalt, að ég tali nú ekki um gæfuna að eiga engin náttföt sem ég gat klætt mig í og þurfa að endurnýja. Þetta er svo dásamlegt að ég get ekki búið til nógu mikið hrós. Vel á minnst þá býr vinkona mín norðar en ég, um það bil klukkutíma og 20 mínútur tekur að keyra til hennar heima.

Náttfatadæmið er auðvitað að snúast við eftir sjúkraþjálfunina og nú sé ég fram á að komast í flottu náttfötin mín þegar tekur að hlýna. Ég meina þessi gömlu!

Eftir að ég var komin fram úr og í ullarsokka setti ég vatn í ketilinn því nú var kominn morgunverðartími. Bjó ég til kínverskt te og ristaði spelt brauð, heimabakað auðvitað, og ofan á fór hunang með kanil og geitaostur. Þetta er oftast svona á morgnana og ég borða aldrei, segi og meina aldrei, portúgalskt brauð. Það er ekkert nema loft og maginn á mér verður alveg vitlaus ef ég voga mér að setja ger i hann.

Ég gleymdi að segja frá því að áður en ég set ketilinn í gang heilsa ég auðvitað íbúum svalanna, og býð góðan dag pökkuð inn í ullarsokka og íslenskt ullar sjal. Þessir íbúar eru mislitir og margar tegundir sem brosa framan í mig fallega og veifa undurfögrum litum framan í mig. Ekki amaleg morgunkveðja þar.

Á morgunmatartímabilinu sendi ég oftast Góðan daginn á Facebook til vina minna og einhverja fallega mynd. Það er svo góð tilfinning að stilla sig inn á morgnana á fallega hugsun og sjá ljósið streyma út um alla veröldina. Ekki veitir af í Trumpæðinu.

Í dag fór ég svo í sturtu og notaði þá sem lekur. Ég er ekki búin að bíða nema 6 vikur eftir stráknum til þess að koma og bæta úr en hann er að vinna í Coimbra og kemur ekkert til Penela, bara til Miranda do Corvo. Hann kemur á endanum en á morgun er svo ægilega teygjanlegt hugtak hér í landi, rétt eins og í Kína.

Ég vona bara að vatnið renni ekki niður á næstu hæð því kallinn þar yrði brjálaður held ég. Hann er nú þegar gaga og ekki á bætandi.

Í morgun gat ég þvegið á mér bakið með þeirri vinstri og blásið hárið og notað báðar hendur nokkuð jafnt. Þetta er allt að koma hjá mér enda sjúkraþjálfarinn himneskur og teygir og togar þar til ég öskra en þá verður hann hræddur og heldur að eitthvað hafi brotnað svo ég var stillt í morgun og stundi bara. Þegar ég kom í salinn til þess að æfa var haft orð á því að ég hefði ekkert gargað í dag. Þetta er eins og lítil fjölskylda, við sem erum að komast á lappir eftir óhöpp.

Klukkan hálf ellefu hélt ég af stað til Covoes og legg núna bílnum mínum í 15 mínútna fjarlægð frá spítalanum. Hálfur göngutúr afgreiddur þar og kláraður í bakaleiðinni. Dásamlegt og svo hagsýnt.

Um eitt leitið var ég búin að fá það sem til þurfti þennan daginn í þjálfun og var svöng. Fyrst ég var komin hérum bil til Coimbra tók ég það ráð að fara í gegnum Santa Clara og fá mér hádegisverð í Forum. Sússi, nammi namm. Keypti í leiðinni kínverskt te og burnirót. Ég er svo ægilega þreytt alltaf og Guðrún Bergmann var að tala um rótina í einhverju sem ég las svo ég ákvað að taka kúr og gá hvað gerist. Kannski virkar þetta ekkert af því hitt vandamálið er alvarlegra og blóðið rennur út úr mér eins og ég veit ekki hvað, en það er aldrei að vita hvað svona rætur gera. Ég er allavega ekki með krabba, þeir eru búnir að finna það út. Eftir sússíið kom ég við í Body Shop og þar var önnur stúlkan að undirbúa sig fyrir Carnival og andlitið var orðið frábært fjólublátt og svart listaverk með rósum og dúlleríi. Hin afgreiðslustúlkan seldi mér litað dagkrem, maður verður jú að líta sæmilega út þó eitthvað bjáti á. Við skemmtum okkur við lita tilraunir og ég kenndi henni að búa til kínverskt te. Ég elska það að hitta fólk og á ótal vini alls staðar. Það er svo gott að geta hlegið og gert að gamni sínu með skemmtilegu fólki og þetta fólk er á hverju strái maður þarf bara að nálgast það. Hér í landi kemur fólk ekki til þín, þú verður að hafa frumkvæðið en svo fellur allt eins og flís við rass.

Eftir hádegismatinn fór ég til Quinta da Lagrimas, þar er sko eitthvað til þess að sækjast eftir. Ég hef verið að leita að góðum nuddara og Nuno, sjúkraþjálfarinn minn benti mér á að fara til Lagrimas. Ég fór og talaði við þá í dag. Jedúdda mía hvað hótelið er flott. Svo er spa í kjallaranum og stór sundlaug og alles. Nudd tíminn kostar 70 evrur og ég sló til. Fer 22 mars í fyrsta skipti og hlakka ekkert smá til. Það er reyndar kona sem nuddar en mér finnst karlarnir betri því hendurnar á þeim eru stærri en þetta verður fínt.  Verðið er ekkert til þess að hafa orð á. Eftirlaunaþegi frá Íslandi og alles hefur auðvitað efni á svona lúxus! Eins gott að láta ekki BB vita af þessu.

Þegar ég var að leita að Quinta, ég hef einfaldlega aldrei komið þar inn, lagði ég bílnum langt langt í burtu því inngangurinn var girtur af með hliði og mér datt auðvitað ekki í hug að maður hringdi bara bjöllunni og segði erindið til þess að komast nær dýrðinni. Þetta fattaði ég nú á endanum og svo var guðdómlega almennilegur ungur maður sem sagði mér hvernig ég ætti að komast niður á hæðina þar sem spaið er. Ég held ég láti vera að lýsa því hvernig til tókst en ég fann þrifakonur , þær heita líklega hreingerninga konur á íslensku, sem hjálpuðu mér og eftir að ég var búin að panta tímann leiddi afgreiðslustúlkan mig að útidyrunum. Næst þegar ég kem veit ég hvað þetta er einfalt og þarf ekki að labba langa ganga og niður margar hæðir. Maður leggur bara bílnum rétt fyrir utan spaið eftir að flotti gæinn hleypir manni í gegnum hliðið.

Þið hefðuð átt að sjá svipinn á honum þegar ég spurði hvort ég gæti ekið drossíunni upp að hótelinu. Óborganlegt og hann hefur ábyggilega ekki skemmt sér betur í langan tíma. Hann þyrfti eiginlega að gljáfægja skóna sína til að falla alveg að dýrðinni sem er þarna.

Að öllu þessu loknu snéri ég heim og nú var kominn miður dagur, sólin á lofti, 20 stig í Coimbra en datt niður í 17,5 í Penela. Það er sko þannig að bærinn minn er kaldur á veturna og óstjórnlega heitur á sumrin. Fer oft upp í 45 og meira yfir sumarið og þá heldur maður sig inni þar til kvöldið kemur eða flýr að heiman.

Ég settist aðeins við tölvuna og skrifaði svolítið á nýju flottu síðuna á Facebook sem er fyrir þá sem hafa flutt erlendis og eru annað hvort eftirlauna þegar eða öryrkjar. Ég held að þessi hópur þurfi vettvang til þess að ræða málin og þarna er hann. Það eru komin nokkuð mörg læk, eitthvað rúmlega 30 þegar ég gáði og er það bara fínt því ég á ekki marga íslenska facebook vini en þetta mjatlast og vona ég að þeir sem lesa deili með sínum vinum og bjóði þeim upp í dansinn og biðji þá að LIKE síðuna "Milli lífs og dauða"

Klukkan var orðin fimm og ég alveg búinn á því. Lagði mig svolitla stund og er nú komin aftur í náttfötin og fer bráðum í háttinn. Það er sko mikilvægt þegar maður er hálf lasinn að hafa reglu á hlutunum, snemma á fætur og snemma að sofa.

Í stórum dráttum var þetta bara venjulegur dagur í lífi mínu. Auðvitað væri ég einhvers staðar að dandalast út um allar trissur annað hvort fyrir norðan eða sunnan ef ég væri ekki í fullri vinnu við að ná heilsu en það kemur dagur eftir þennan dag.

Hulda Björnsdóttir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband